Borgarstjórn - Borgarstjórn 06.02.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 6. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Björn Gíslason, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson.

Fundarritari var Ebba Schram.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um Kvosina og Austurstræti sem heildstætt göngusvæði. USK23020228

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að undirbúa að gera kjarna Kvosarinnar að heildstæðu göngusvæði frá Lækjartorgi að Ingólfstorgi sem teygir anga sína í Pósthússtræti, Kirkjustræti og Veltusund. Samþykkt hefur verið að fullhanna verkefnið, undirbúa útboðsgögn og undirbúa breytt skipulag í takt við breytta notkun svæðisins. Austurstræti er sögulegur staður, ein af fyrstu götum borgarinnar austur af aðalgötunni Aðalstræti og mikilvægur gönguás í gegnum miðborgina. Arkitektastofurnar Karres en Brands og Sp(r)int Studio standa að baki metnaðarfullri hönnun byggða á vinningstillögu í hönnunarsamkeppni fyrir svæðið og verður sögunni gert hátt undir höfði, þar sem gamalt mætir nýju. Áhersla er á fjölbreyttan gróður og vandaðan yfirborðsfrágang til fjölbreyttra nota fyrir leik, samverustundir og iðandi mannlíf sem styrkir einnig veitingarekstur á svæðinu. Bæði undirbúningur og framkvæmd verða unnin í góðu samráði við íbúa og atvinnulíf.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Búið er að gera kannanir á ferðavenjum fólks í mörg ár, m.a. heimsóknum í miðbæinn. Stærstur hluti fólks í miðbænum eru ferðamenn. Íslendingar sem búa fjarri eru fæstir og er það vegna þess að þeim finnst aðgengi að bænum erfitt og finnst einnig erfitt að fá bílastæði í miðbænum. Raunveruleikinn er sá að við eigum ekki nógu tryggar og traustar almenningssamgöngur sem koma fólki hratt og vel milli borgarhluta. Þess vegna er einkabíllinn þarfasti þjónn mjög margra og nú ber svo við að hann er ekki velkominn í bæinn og ekki nálægt göngugötum sem sífellt fjölgar. Miðbærinn er að verða eitt göngugötuvirki. Flokkur fólksins vill gjarnan sjá einhverjar göngugötur en fólk sem kemur á bíl þarf að geta ekið inn í miðbæinn, lagt bílnum sínum nálægt verslun og þjónustu. Flokkur fólksins vill sjá fleiri bílastæði í bænum og að fólk sem þar býr geti ekið vörum upp að húsum sínum og að sjálfsögðu lagt í stæðin sín á eigin lóð. Gengið hefur verið of langt í að strípa miðbæinn af bílum og gera þeim sem eiga bíl erfitt fyrir. Finna þarf eðlilegt jafnvægi og gefa öllum samgöngukostum tækifæri sérstaklega þegar almenningssamgöngur eru ekki betri en raun ber vitni í Reykjavík.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að falla frá öllum fyrirætlunum um að færa Reykjavíkurflugvöll í Hvassahraun og falla samhliða frá frekari fjárframlögum borgarinnar til rannsókna á Hvassahrauni sem mögulegu flugvallarstæði.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks að vísa tillögunni frá. MSS24020017

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt samkomulagi ríkis og borgar hefur verið unnið að athugun á fýsileika þess að byggja flugvöll í Hvassahrauni. Athugunin hefur staðið yfir síðan 2020 og er nú á lokametrunum. Búist er við því að niðurstöður veðurfars- og náttúruvárrannsókna verði kynntar í mars. Það er því afar óskynsamlegt að samþykkja þessa tillögu og ber að vísa henni frá.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja rétt að falla frá öllum fyrirætlunum um að færa Reykjavíkurflugvöll í Hvassahraun. Í ljósi eldsumbrota á Reykjanesskaga að undanförnu, hafa líkur á að mögulegur flugvöllur í Hvassahrauni yrði fyrir tjóni eða truflunum vegna eldsumbrota í nánustu framtíð aukist að mati eldfjallafræðinga. Hafa jarðvísindamenn bent á að Reykjanesskaginn sé kominn inn í gostímabil sem varað geti í nokkur hundruð ár. Fulltrúarnir telja jafnframt rétt að falla frá frekari fjárframlögum borgarinnar til rannsókna á Hvassahrauni sem mögulegu flugvallarstæði, en fjárhagsáætlun borgarinnar gerir ráð fyrir 20 milljóna framlagi borgarinnar árið 2024. Það er óábyrg meðför skattfjár að kasta frekari fjármunum í rannsóknir á svæði sem augljóslega mun ekki nýtast undir flugvallarekstur, hvorki í náinni né heldur fjarlægri framtíð.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkomulag Reykjavíkurborgar og ríkisins um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni var undirritaður í nóvember 2019. Þar var samþykkt að hvor aðili um sig myndi verja 100 milljónum í verkefnið. Ekki hefur öllum þeim fjármunum verið varið í umrætt verkefni. Rannsóknir hafa farið fram en skýrslugerð um niðurstöður er eftir. Sósíalistar telja eðlilegt að skýrslugerð verði kláruð og birt og fjárveitingar til verkefnisins verði endurskoðaðar í ljósi niðurstaðna. Samkvæmt umræðum í borgarstjórn hafa rannsóknir þegar farið fram og ekki þörf á frekari rannsóknum á umræddu svæði á þessu stigi.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Líkur hafa aukist á að flugvöllur í Hvassahrauni verði fyrir tjóni eða truflunum vegna eldsumbrota í nánustu framtíð. Samkvæmt þessu lítur út fyrir að flugvöllur í Hvassahrauni sé úr myndinni sem framtíðar innanlandsflugvöllur. Meðan nýr flugvöllur í stað núverandi flugvallar í Reykjavík hefur ekki verið tekinn í notkun eru allir aðilar sammála um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé miðstöð innanlandsflugs, varaflugvöllur fyrir millilandaflug og kjarninn í sjúkraflugi frá landsbyggðinni.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna bendir á að samkvæmt upplýsingum frá innviðaráðherra muni skýrslan um mögulegt flugvallarstæði í Hvassahrauni liggja fyrir í næsta mánuði. Um leið og hún er fram komin ættu allar forsendur að vera fyrir hendi til að ræða framhald málsins, þótt ljóst megi vera að líkurnar á að ráðist verði í gerð nýs innanlandsflugvallar þar í bráð séu hverfandi. Best er að ljúka þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram og vandséð hvaða tilgangi það ætti að þjóna að slá af verkið til að spara sér kostnað við prófarkarlestur, fjölföldun, heftingu og plöstun.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Í ljósi þess hve bókasöfn eru samfélagslega mikilvæg er lagt til að hætt verði við fyrirhugaða sumarlokun borgarbókasafna Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir því að bókasöfnin verði lokuð til skiptis í þrjár vikur í sumar og er það sett fram í kjölfar hagræðingarkröfu. Áætlað er að sparnaður í krónum talið vegna sumarlokana bókasafnanna verði 21 milljón. Ljóst er að niðurskurður í samfélagslegri þjónustu getur leitt til kostnaðarauka annarsstaðar. Borgarstjórn samþykkir að standa vörð um þá mikilvægu starfsemi sem fer fram á bókasöfnum og draga til baka fyrirhugaða sumarlokun þeirra. Kostnaðurinn verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokka Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. MSS24020018

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarbókasafn Reykjavíkur er lykilstofnun í menningarlífi borgarinnar og þjónar borgarbúum um alla borg með átta útibúum í öllum borgarhlutum. Starfsemin hefur verið að eflast að undanförnu með opnun nýs útibús á Kjalarnesi þar sem útlán hafa þrefaldast fyrsta starfsárið miðað við útlán Bókabílsins sem áður þjónaði hverfinu. Í sumar mun hvert útibú loka í alls þrjár vikur en á hverjum tíma verða að lágmarki fjögur söfn opin og gjarnan meirihluti þeirra. Borgarbókasafnið mun áfram bjóða betri þjónustu en tíðkast annars staðar á höfuðborgarsvæðinu en þess má geta að aðeins í Reykjavíkurborg eru almenningsbókasöfnin opin á sunnudögum.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgaryfirvöld eru á hættulegri vegferð þar sem þrengt er að starfsemi mikilvægra samfélagslegra stofnana. Almenningsbókasöfn borgarinnar verða lokuð til skiptis í þrjár vikur í sumar á grundvelli niðurskurðar. Niðurskurðarstefna hefur komið illa út í Bretlandi til dæmis, og ekkert bendir til þess að niðurskurðarstefna borgarinnar verði endurskoðuð enda jafnan bætt við nýjum niðurskurði í hvert sinn sem illa árar, sem verður æ oftar eftir því sem skorið er í tekjustofna til þess t.a.m. að veita fyrirtækjum skattaafslætti þegar þau staðhæfa um erfiða stöðu, og sjaldan er skorið niður í þeim ívilnunum þegar þær hafa komist á.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi þess hve bókasöfn er samfélagslega mikilvæg er lagt til að hætt verði við fyrirhugaða sumarlokun borgarbókasafna Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir því að bókasöfnin verði lokuð til skiptis í þrjár vikur í sumar og er það sett fram í kjölfar hagræðingarkröfu. Áætlað er að sparnaður í krónum talið vegna sumarlokunar bókasafnanna verði 21 milljón. Að skerða opnunartíma bókasafna er eins og að hella  olíu á eld í baráttunni við að viðhalda íslenskri tungu. Lestur er gríðarlega mikilvægur til að auka og efla málskilning barna. Á sumrin eru skólabókasöfnin lokuð og þá verða börnin að sækja bækur í borgarbókasöfnin. Börn sem ekki lesa sér til yndisauka á sumrin detta oft mikið niður í lestrarfærni og þess vegna eru kennarar sífellt að minna á sumarlestur. Það að loka bókasöfnunum rýrir möguleika barna á að nálgast bækur og sérstaklega á þetta við um börn frá efnaminni heimilum þar sem foreldrar hafa ekki hafa ráð á að kaupa bækur fyrir börn sín. Þetta er alvarlegt í ljósi neikvæðrar niðurstöðu í PISA. Lestrarfærni og málskilningur barna byggist á því að börn lesi allt árið um kring. Bókasöfnin okkar eru mikilvæg fyrir menningu okkar og tungu og við eigum að standa vörð um þau. Flokkur fólksins styður þessa tillögu heilshugar.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir þau varnaðarorð fulltrúa Sósíalistaflokksins sem fram koma í tillögunni, þess efnis að sumarlokanir bókasafna séu skaðlegar sparnaðaraðgerðir sem skila tiltölulega litlu miðað við mikilvægi þessara menningarstofnana.

    -    Kl. 14:45 taka Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir sæti á fundinum og Þorvaldur Daníelsson og Skúli Helgason víkja.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn samþykkir að setja af stað vinnu við að greiða fyrir skipulagningu á fyrirvaralitlum fjöldasamkomum og mótmælum í almannarýmum í Reykjavík, sem og að setja skýrari viðmið um framkvæmd þeirra.

    -    Kl. 15:40 víkur Björn Gíslason af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur þar sæti.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. MSS24020019

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Undanfarið hefur vinna verið í gangi við að skýra utanumhald um viðburði og mótmæli í borgarlandinu. Vinnan er samstarfsverkefni viðburðateymisins á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og afnotaleyfa- og eftirlitsdeildar umhverfis- og skipulagssviðs ásamt öðru lykilstarfsfólki á umhverfis- og skipulagssviði. Tillögunni er vísað inn í þessa vinnu.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja brýnt að borgin setji skýrar og samræmdar reglur um leyfisveitingar vegna fjöldasamkoma og mótmæla í almannarými í Reykjavík. Nokkuð hefur borið á geðþóttaákvörðunum borgaryfirvalda við leyfisveitingar vegna mótmæla í almannarými borgarinnar. Rétturinn til að mótmæla er stjórnarskrárvarinn og því brýnt að slíkar reglur séu skýrar og gildi jafnt fyrir alla borgara.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stóráhlaup gegn hinum lýðræðislega rétti til mótmæla ríkir í hinum vestræna heimi í dag, og skipulega hefur verið unnið gegn aðferðum sem almenningur hefur til þess að hafa vald yfir eigin tilveru og samfélagi. Ýmis borgaraleg réttindi hafa farið illa í þessu áhlaupi. Það er algjörlega borðleggjandi að í landi með svo gamla lýðræðislega stofnun sem Alþingi Íslendinga er, sem einmitt státar sig opinberlega af frjálslyndu og góðu lýðræðis samfélagi, að tryggð verði þessi sjálfsögðu réttindi þjóðarinnar til þess að safnast saman og iðka virkt lýðræði, aðhald með valdinu, og stunda eigin réttindavörslu. Við sósíalistar styðjum það að allt sé gert til þess að verja öll þessi mikilvægu réttindi.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um smáhýsin í Reykjavík. MSS24020020

    -    Kl. 16:29 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir tekur þar sæti.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg er leiðandi í þjónustu við heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Frá árinu 2019 hefur Reykjavíkurborg tvöfaldað úrræði fyrir þennan hóp, m.a. með áfangaheimili fyrir konur og húsnæði fyrst íbúðir, þar á meðal smáhýsi. Reynslan er góð af notkun smáhýsa sem dreift hefur verið um borgina því þar er einstaklingsbundnum þörfum mætt betur. Mikilvægt er að þróa áfram skaðaminnkandi þjónustu á vegum borgarinnar og leggja áherslu á valdeflingu og virðingu fyrir notendum á öllum stigum.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsynlegt er að tryggja öllum manneskjum húsnæði. Það er grunnur að allri velferð.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í Reykjavík eru 20 smáhýsi sem sett hafa verið upp á sex stöðum auk þriggja smáhýsa úti á Granda. Áætlað er að heildarkostnaður við hvert smáhýsi sé um 33 m.kr. Lóðaverð er núll. Ef allt er tekið saman er því kostnaður við eitt smáhýsi mun hærri. Á biðlista eftir smáhýsi eru um 100 manns. Stærsti hluti þeirra er fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Ljóst er að heimilislausum er ekki að fækka í Reykjavík nema síður sé. Erfitt reyndist að finna smáhýsunum stað í borgarlandinu því ekki voru allir á eitt sáttir um staðsetningu þeirra í sínu hverfi. Við val á staðsetningu var mikilvægt að horfa til aðgengis að allri nærþjónustu. Samkvæmt nýjustu upplýsingum þá gengur vel með úrræðið. Erfitt er að segja til um tíðni lögregluheimsókna þar sem VOR teymið starfar einungis hluta dagsins. VOR teymið hefur staðið sig afburða vel í að bregðast hratt og vel við  athugasemdum um umgengni eða aðrar ábendingar. Flokki fólksins er umhugað um málefni heimilislausra og er það helsta baráttumál flokksins að berjast gegn fátækt, ójöfnuði og óréttlæti í víðum skilningi. Flokkur fólksins telur þörf á að skoða aðra útfærslu á húsnæði sem myndi gagnast fleirum því margir eru á bið eftir húsnæði.

    Fylgigögn

  6. Umræða um stöðu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og sex mánaða skýrslu Betri samgangna ohf., sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar, er frestað. MSS23070018

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um álit innviðaráðuneytisins varðandi rétt borgarfulltrúa að setja málefni Ljósleiðarans ehf. á dagskrá borgarstjórnar. MSS23010066

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ríkur réttur kjörins fulltrúa sveitarstjórnar að leggja fram mál á dagskrá fundar sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 27. sveitarstjórnarlaga. Takmarkanir á þeim rétti verða að styðjast við ótvíræðar heimildir, sbr. t.d. rit Trausta Fannars Valssonar, Sveitarstjórnaréttur, bls. 68. Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar, bæði á vettvangi borgarstjórnar sem og í ýmsum nefndum og ráðum, þarf að virða þennan grundvallarrétt kjörins fulltrúa. Á því hefur of oft orðið misbrestur. Eitt dæmi um slíkan misbrest er þegar borgarstjórn hafnaði því að setja málefni Ljósleiðarans ehf. á dagskrá funda borgarstjórnar 20. desember 2022 og 3. janúar 2023, sbr. álit innviðaráðuneytisins í máli nr. IRN22120090, dags. 13. nóvember 2023. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn telja að kynna eigi álit innviðaráðuneytisins sérstaklega svo að skipulag funda á vettvangi borgarstjórnar, þar með talið einstakra nefnda og ráða, og stjórn slíkra funda verði í samræmi við lög.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í áliti innviðaráðuneytisins eru gagnlegar leiðbeiningar um rétt borgarfulltrúa til að setja á dagskrá borgarstjórnar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni Reykjavíkurborgar eða verkefni þess. Taldi ráðuneytið að staðfesting borgarstjórnar á afgreiðslu forsætisnefndar væri ekki fullnægjandi þar sem það er borgarstjórnarinnar sjálfrar að taka afstöðu til beiðninnar á borgarstjórnarfundi. Er um að ræða afar góðar ábendingar ráðuneytisins sem auðvelt er að koma til móts við ef sambærileg mál koma upp. Jafnframt er ljóst að taka þarf tillit til ábendinga ráðuneytisins í undirbúningi funda fagráða Reykjavíkurborgar og því hefur forsætisnefnd nú þegar óskað eftir því að skrifstofa borgarstjórnar aðstoði við útfærslu á uppfærðu verklagi til samræmis.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar niðurstöðu ráðuneytisins og liggja nú fyrir skýrari línur um rétt borgarfulltrúa til að fá mál sett á dagskrá. Sá réttur er óumdeildur svo fremi sem óskin komi innan ákveðins tímaramma. Á því má þó vissulega gera undantekningar. Nokkur dæmi eru um að fulltrúa Flokks fólksins hafi gengið illa að fá mál sett á dagskrá og þá hefur ýmsu verið borið við. Málefni sem sveitarstjórnarfulltrúi óskar eftir að taka á dagskrá þarf heldur ekki að hafa hlotið fullnaðarafgreiðslu annarra nefnda, ráða eða starfsmanna sem hafa fengið slíkt vald framselt, til þess að sveitarstjórn geti tekið afstöðu til þess hvort málið skuli tekið fyrir á dagskrá sveitarstjórnarfundar. Í þessu tiltekna máli telur ráðuneytið ljóst að afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni málshefjanda um að setja þetta tiltekna mál á dagskrá borgarstjórnarfundar hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrir minnihlutann í Reykjavík er afar gott að fá þessa niðurstöðu og væntir Flokkur fólksins þess að betur verði tekið en áður á beiðni hans um að fá mál sett á dagskrá.

    Fylgigögn

  8. Lagt til að Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur.

    Samþykkt. MSS22060044

  9. Lagt er til að Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur.

    Samþykkt. MSS22060048

  10. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 25. janúar og 1. febrúar. MSS24010001

    2. liður; kosning í almannavarnarnefnd. Samþykkt að Dagur B. Eggertsson taki sæti í almannavarnarnefnd Höfuðborgarsvæðisins í stað Einars Þorsteinssonar. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060051

    11. liður; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024, er samþykktur 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS24010023

    13. liður; gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er samþykktur.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23120117

    Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar:

    5. liður viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024: Huga þarf vel að útfærslunni þannig að þekking og reynsla tapist ekki við breytingarnar. Að öðru leyti er tekið undir bókun fulltrúa Sósíalista frá skóla- og frístundaráðsfundi í júní 2023: Í þessari tillögu á að sameina starfsemi Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Siglunes, skíðabrekkur innan borgarmarka og tiltekna starfsemi skóla- og frístundasviðs. Fulltrúi Sósíalista er ekki sannfærður um að sameining þessara eininga sé til þess fallin að bæta þjónustuna, og mögulega þvert á móti. Sameiningar fela gjarnan í sér dulinn niðurskurð og þjónustuskerðingu sem bitnar a íbúum borgarinnar. Líklegt er að sú sé einmitt raunin því að í tillögunni er talað um að sameiningunni fylgi „hagræði“, sem er nýyrði yfir niðurskurð.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar:

    1. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 31. janúar: Göngustígur hefði átt að vera vestan megin og hjólaleiðin austan megin. Gangandi eru settir skuggamegin og sitji þeir á bekk á áningastöðum brúarinnar að degi til þegar sól er hæst á lofti er sólin í bakið. Hér er verið að hygla hjólreiðamönnum. Upplifun gangandi vegfarenda af sjávarsýn tapast þegar horft er yfir brú, handrið og strætisvagn. Ekki stendur steinn við steini að þessi tilhögun sé til að minnka þveranir því þær eru jafn margar hvorn veginn sem er. 4. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 31. janúar: Ábending hefur borist frá borgarbúa. Um er að ræða umsókn um leyfi fyrir svalaskýli við vesturgafl á svölum á Rafstöðvarvegi 31. Leyfið var veitt en þegar fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 11. janúar er birt sést hvorki tangur né tetur af málinu í henni, eins og það hafi aldrei verið lagt fyrir fundinn. Umsækjendur höfðu meira að segja fengið tölvupóst eftir fundinn frá starfsmanni þar sem staðfest var samþykki, þ.e. að leyfið hafi verið veitt. Nú er málið afgreitt neikvætt því það samræmist ekki hverfisskipulagi. Fulltrúi Flokks fólksins telur sig knúinn til að draga þessa óeðlilegu afgreiðslu fram í bókun. Einnig hefur verið lögð fram formleg fyrirspurn.

    Fylgigögn

  11. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 2. febrúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 25. janúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 26. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 22. janúar, stafræns ráðs frá 24. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. janúar og velferðarráðs frá 26. janúar. MSS24010034

    3. liður fundargerðar forsætisnefndar, lausnarbeiðni Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur, er samþykktur. MSS24010240

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. janúar:

    4. liður: Í bókun fulltrúa leikskólastjóra koma fram alvarlegar ábendingar um stöðuna í leikskólamálum borgarinnar. Nánast allir borgarreknir leikskólar voru í halla, frá janúar-september 2023 og er hallareksturinn 1.959 m.kr. Gríðarlegt álag hefur verið á starfsfólki leikskóla vegna undirmönnunar, heilsuspillandi starfsumhverfis og óvissu um húsnæðismál. Vegna alls þessa hafa margir starfsmenn farið í langtímaveikindi og fóru langtímaveikindi 174 m.kr. fram úr fjárheimildum. Á sama fundi undir 5. lið kemur fram að samkvæmt fjárhagsáætlun 2024 eigi leikskólaplássum að fjölga um 751 en á móti er gert ráð fyrir fjölgun stöðugilda um 4 starfsmenn. Fulltrúi Flokks fólksins er gáttaður á að aðeins eigi að fjölga um fjóra starfsmenn fyrir 751 nýtt leikskólapláss. Hvernig á þetta að koma heim og saman? Minnt er á að auk þessa hefur ekki tekist að ráða í 61 stöðugildi. Einnig er talið að það þurfi að ráða í 22,5 önnur stöðugildi í stað núverandi starfsfólks sem mun fara í leyfi eða hætta störfum á komandi vikum. Öllum ætti að vera ljóst að  staðan er grafalvarleg og undirmönnun og mannekla mun verða meiri en nokkru sinni ef ekki á að fjölga starfsfólki meira en ráð er fyrir gert.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:13

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Friðjón R. Friðjónsson

Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 6.2.2024 - Prentvæn útgáfa