Borgarstjórn - Borgarstjórn 02.09.2025

Borgarstjórn

Ár 2025, þriðjudaginn 2. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að unnið verði með Minjastofnun að friðlýsingu menningarlandslags í Laugarnesi skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Umhverfis- og skipulagssviði og menningar- og íþróttasviði Reykjavíkurborgar verði falið að vinna með Minjastofnun að drögum að friðlýsingu sem stofnunin hefur lagt fram.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að unnið verði með Minjastofnun að friðlýsingu menningarlandslags í Laugarnesi skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Unnið verði einnig í samvinnu við Veitur og Faxaflóahafnir. Umhverfis- og skipulagssviði og menningar- og íþróttasviði Reykjavíkurborgar verði falið að vinna með Minjastofnun, Veitum og Faxaflóahöfnum að drögum að friðlýsingu.

    Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.

    Tillaga að friðlýsingu menningarlandslags í Laugarnesi er samþykkt.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Aðalsteinn Haukur Sverrisson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090008

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Minjasvæðið á Laugarnestanga er eitt fárra svæða innan marka þéttbýlis borgarinnar með nokkuð heildstætt menningarlandslag og sögu frá því stuttu eftir landnám og til dagsins í dag. Náttúrufarið er líka einstakt. Það er því afar mikilvægt að halda í þetta stórmerkilega menningarlandslag, samspil náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík. Það er því sérlega ánægjulegt og mikilvægt að borgarstjórn lýsi yfir vilja sínum til að friðlýsa menningarlandslagið og vinna með Minjastofnun að drögum að friðlýsingu sem stofnunin hefur lagt fram. Það hefur aldrei verið brýnna en nú á tímum loftslagsbreytinga og örrar uppbyggingar að stjórnvöld verndi verðmæt og viðkvæm vistkerfi, standi vörð um lífsnauðsynleg búsvæði fjölbreyttra lífvera og varðveiti menningarsögulegar minjar.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Framsóknar styðja að friðlýstar verði menningarminjar í Laugarnesi. Mikilvægt er að hafa í huga við friðlýsingarvinnuna hvaða áhrif friðlýsingin hefur á fyrirhugaða uppbyggingu á Köllunarkletti og áform Faxaflóahafna um viðlegukant vegna þróunar Sundahafnar. Furðulegt er að meirihlutinn skuli hafa fellt breytingartillögu um samráð við Faxaflóahafnir og Veitur.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að ráðast í eftir farandi aðgerðir í þágu menntamála í Reykjavík: 1. Samræmd próf tekin aftur upp. Frá og með vorinu 2026 verði samræmd próf lögð árlega fyrir þrjá árganga í sérhverjum grunnskóla Reykjavíkur, einn árgang á yngsta stigi, einn árgang á miðstigi og einn árgang á efsta stigi. Samræmt lokapróf verði jafnframt lagt fyrir alla nemendur í 10. bekkjum grunnskólanna. Niðurstöður prófanna varpi ljósi á hvernig nemendum hefur tekist að tileinka sér sem flesta þætti aðalnámskrár og tryggi aukið jafnræði og gagnsærri endurgjöf fyrir nemendur, foreldra, skóla og menntayfirvöld. 2. Námsmat byggt á talnakvarðanum 1-10. Reykjavíkurborg leiti samstarfs við mennta- og barnamálaráðuneytið um heimildir til að byggja námsmat aftur á talnakvarðanum 1-10 enda áreiðanlegra fyrirkomulag sem reynst hefur skiljanlegra fyrir kennara, foreldra og nemendur. Námsmat í núverandi námskrá, byggt á litakóðun, táknum eða bókstöfum, er illskiljanlegt og mikil eftirspurn eftir breytingum. 3. Símalausir skólar. Grunnskólar Reykjavíkur verði símalausir. Skólinn á að vera griðastaður nemenda hvað utanaðkomandi áreiti varðar. Félagsfærni hefur farið mikið aftur en hún byggist á þjálfun. Nemendur tala miklu minna saman og hefur staðan ýtt undir einmanaleika, depurð og kvíða. Snjallsíminn er líklegasta breytan í þessu samhengi. Aðstaða til að geyma síma frá upphafi til loka skóladags þyrfti að vera til staðar í skólum. 4. Móttökudeildir fyrir börn sem eru nýflutt til landsins. Börn sem koma til landsins og ekki tala íslensku taki sín fyrstu skref í grunnskólagöngunni í móttökudeild þar sem öll áhersla er á íslensku og íslenska menningu. Lestrarfærni þeirra verði metin áður en þau hefja nám með sínum jafnöldrum hérlendis. Um væri að ræða brú í takmarkaðan tíma til að skólastarf þeirra og annarra gangi sem best. Markmiðið væri að mæta betur þörfum hvers barns. 5. Skýr markmið um betri árangur í PISA og læsi. Reykjavíkurborg taki forystu í skólamálum á landsvísu og setji sér það markmið að verða meðal fremstu þjóða í PISA könnunum. Allir nemendur sem ekki eru með námslegar hamlanir geti lesið sér til gagns. Unnið verði með gögn og mælanleg markmið í auknum mæli.

    -    Kl. 17:00 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir tekur sæti.

    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að vísa tillögunni frá. 
    Atkvæðagreiðslan fór fram með nafnakalli. MSS25090009

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við fögnum nýju námsmati grunnskóla sem kallast matsferill. Það er safn matstækja sem ætlað er gefa heildstæða mynd af stöðu og framvindu nemenda í námi. Skólum er skylt að leggja stöðu- og framvinduprófin í íslensku og stærðfræði fyrir nemendur í 4., 6. og 9. bekk. Samræmt námsmat á að koma til framkvæmda um land allt á þessu skólaári. Með því verður hægt að bera niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla saman á landsvísu. Þessi nýju matstæki munu gefa aukna möguleika á fjölbreytni og að börnum sé mætt í samræmi við þarfir þeirra. Almennt er símanotkun ekki heimil í grunnskólum borgarinnar. Nú þegar eru rúm 72% grunnskóla í Reykjavík alfarið símalaus. Það er mikilvægt að reglur um það séu unnar í góðu samráði við foreldra, nemendur og skólasamfélagið. Nú þegar starfa fjögur íslenskuver í borginni sem styðja við íslenskukennslu barna af erlendum uppruna. Áherslan er á félagslega inngildingu barna í þeirra hverfum. Sú áhersla er mjög mikilvæg og þess vegna skiptir máli að móttökudeildir séu sem víðast og að nemendur dvelji ekki lengi þar, heldur fái tækifæri til að kynnast jafnöldrum sínum í hverfinu.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn styður ekki upptöku gömlu samræmdu prófanna enda er nú í innleiðingu mun betra matstæki sem er samræmdi námsferillinn. Framsókn styður hinsvegar símafrí í skólum, að móttökudeildir fyrir erlenda nemendur verði efldar enda hefur móttökudeildin Birta gefið góða raun. Framsókn er einnig hlynnt því að eiga samtal við menntamálayfirvöld um námskvarða 1-10 en leggur áherslu á að fagleg sjónarmið ráði för. Frávísun meirihlutans á öllum þessum tillögum varpar ljósi á að meirihlutinn nær ekki saman um afgreiðslu málsins og hagsmunir barna og ungmenna í Reykjavík líða fyrir það. Meirihlutinn segir einfaldlega pass í þessum málum.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að skóla- og frístundasviði verði falið að flýta innleiðingu samræmds námsmats í 4.-10. bekk í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Markmiðið er að tryggja að hægt sé með samræmdum hætti að meta stöðu og framfarir nemenda og auðvelda kennurum og foreldrum að styðja við nám barna í Reykjavík frá og með vori 2026. Stöðu- og framvindupróf í stærðfræði og íslensku verði þannig ekki valkvæð heldur skylda frá 4.-10. bekk frá og með vori 2026.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:

    Borgarstjórn fagnar því að samþykktar voru á Alþingi breytingar á lögum um grunnskóla. Þessar breytingar fela í sér að nýtt námsmatskerfi, matsferill, verður innleitt í alla grunnskóla landsins skólaárið 2025-2026. Í lögunum er kveðið skýrt á um að samræmt námsmat verði skylda í íslensku og stærðfræði í 4., 6. og 9. bekk. Ákvörðun um notkun námsmatsins í öðrum árgöngum er hins vegar í höndum kennara, skólastjóra eða fræðsluyfirvalda hvers sveitarfélags. Borgarstjórn felur skóla- og frístundasviði að hefja samtal við skólastjórnendur og skólasamfélagið um innleiðingu matsferilsins í grunnskólum borgarinnar, með það að markmiði að leggja hið nýja samræmda námsmat fyrir í fleiri árgöngum grunnskóla.

    Breytingartillagan er samþykkt.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðsluna.

    Tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins er samþykkt svo breytt.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðsluna. MSS25090010

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eftir víðtækt samráð við kennara, skólastjórnendur, fræðasamfélagið, foreldra, börn, stjórnvöld og sveitarstjórnarfólk er komið að því að innleiða samræmda námsferilinn sem er öflugt tæki til þess að fylgjast með námsframvindu barna og bregðast við ef barn nær ekki árangri í námi. Tillaga Framsóknar um að flýta innleiðingu stöðu- og framvinduprófa er felld af meirihlutanum en útþynnt með óljósri breytingartillögu. Borgarfulltrúar Framsóknar gagnrýna það metnaðarleysi sem einkennir meirihlutann í skólamálum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Viðreisnar:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að undirbúa nýtt fyrirkomulag hvað varðar sölu á reitum og lóðum þar sem uppbyggingaraðilum verður boðið að ganga til samninga um reiti í nýju hverfi sem nú byggist upp á Ártúnshöfða. Fyrirkomulagið yrði með þeim hætti að reitirnir verði fyrirfram grófhannaðir hvað varðar útlit og íbúðastærð. Með þessu getur Reykjavíkurborg tekið í taumana hvað varðar eftirspurn á húsnæðismarkaði. Með því að grófhanna og skilgreina fyrirfram hvernig reitirnir eigi að vera og hvernig íbúðir skuli byggja verður eftirspurn eftir húsnæði í Reykjavík betur mætt. Þannig myndi borgin setja fram skipulagða og hannaða reiti sem mæta markmiðum í samþykktri húsnæðisáætlun borgarinnar, einnig að fylgt yrði markmiðum hvað varðar félagslegt húsnæði og fjölbreytileika. Fylgt yrði stefnu í borgarhönnun hvað varðar gæði og umgjörð, þegar hún hefur verið samþykkt í borgarstjórn. Þetta yrði tilraunaverkefni sem skoða mætti svo enn frekar við hönnun og skipulag Keldnalands. Frekari útfærsla og samtal við hagaðila yrði höndum umhverfis- og skipulagsráðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 17:20 víkur Kjartan Magnússon af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. MSS25090011

    Fylgigögn

  5. Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta umræðu um deiliskipulag Birkimels 1.
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25060118

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg hefji vinnu við að verða þátttakandi í verkefninu barnvænt sveitarfélag. Borgarstjórn felur borgarráði að kynna verkefnið innan Reykjavíkurborgar og fyrir Reykjavíkurráði ungmenna eins og reglur um barnvænt sveitarfélag kveða á um. Að því loknu verði tillaga um formlega innleiðingu á barnvænu sveitarfélagi lögð fyrir borgarstjórn.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, Aðalsteins Hauks Sverrissonar og Magneu Gnár Jóhannsdóttur að fresta málinu.
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Einar Þorsteinsson og borgarfulltrúi Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090012

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn felur borgarstjóra að gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að Reykjavíkurborg standi við fyrirheit sín um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings í Stjörnugróf í samræmi við samþykkt borgarráðs 10. júlí 2008. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á nýrri staðsetningu gróðrarstöðvar að Stjörnugróf 18 en lóðarleigusamningur vegna hennar rann út í árslok 2016. Knattspyrnufélagið Víkingur er hverfisíþróttafélag sem gegnir mikilvægu hlutverki í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Bústaðahverfi, Fossvogi, Háaleiti og Smáíbúðahverfi.

    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta málinu.
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25060009

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að koma með tillögur að því hvernig megi útfæra skammtíma sleppistæði í miðborginni í nálægð við veitingastaði og verslanir, til að greiða aðgengi að heimsendingarþjónustu og styðja við rekstrarmöguleika veitingastaða og verslana í miðborginni.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. MSS25090014

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að falla frá hækkun gatnagerðargjalda í því skyni að draga úr byggingarkostnaði og verðbólgu. Umrædd hækkun var samþykkt var á fundi borgarstjórnar 4. febrúar sl. og tók gildi nú um mánaðamótin. Tillagan felur í sér að gatnagerðargjald lækki til samræmis við fyrra hlutfall og verði eftirfarandi: Einbýlishús: 15%, óbreytt álagningarhlutfall. Parhús: hlutfall lækki úr 15% í 11,3%. Raðhús, keðjuhús: hlutfall lækki úr 15% í 11,3%. Fjölbýlishús: hlutfall lækki úr 10% í 5,4% Annað húsnæði: hlutfall lækki úr 13% í 9,4%. Tekinn verði upp að nýju afsláttur af gluggalausu kjallararými, sem aðeins er gegnt í innan frá, sem og vegna yfirbyggðra göngugatna og sameiginlegra bifreiðageymsla fyrir þrjár eða fleiri bifreiðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta málinu. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090015

    Fylgigögn

  10. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi ályktunartillögu borgarstjórnar:

    Borgarstjórn stendur með trans fólki og hinsegin samfélaginu öllu í baráttu þess fyrir því að njóta jafnrar stöðu, virðingar og sjálfsagðra mannréttinda. Borgarstjórn fordæmir hverskyns fordóma og mismunun. Reykjavíkurborg mun halda áfram að vinna að því að tryggja að öll upplifi sig velkomin og örugg í okkar samfélagi.

    Samþykkt. MSS25090024

  11. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 26. júní, 3., 10. og 24. júlí og 14., 21. og 28. ágúst. MSS25010002
    6. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst, Reykjavíkurflugvöllur – breyting á skipulagsmörkum deiliskipulags, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK24120041
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    12. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst, borgarstjórnarkosningar 16. maí 2026 – umboð til borgarráðs o.fl., er samþykktur. MSS25050113
    13. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst, borgarstjórnarkosningar 16. maí 2026 – kjörstaðir í Reykjavík, er samþykktur. MSS25050113
    14. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst, borgarstjórnarkosningar 16. maí 2026 – þóknanir til kjörstjórna, er samþykktur. MSS25050113

    Fylgigögn

  12. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. ágúst, mannréttindaráðs frá 24. júlí og 14. og 21. ágúst, menningar- og íþróttaráðs frá 20. og 27. júní, skóla- og frístundaráðs frá 23. júní og 25. ágúst, stafræns ráðs frá 25. júní, umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. júní og 13. og 20. ágúst og velferðarráðs frá 25. júní og 16. júlí. MSS25010033
    12. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 29. ágúst, breytingar á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs, er samþykktur. USK25060366
    13. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 29. ágúst, breytingar á samþykkt stafræns ráðs, er samþykktur. MSS23010279
    Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.
    14. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 29. ágúst, breytingar á samþykkt endurskoðunarnefndar, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. MSS23010279
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    15. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 29. ágúst, breytingar á samþykkt mannréttindaráðs, er samþykktur. MSS23010279
    Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:44

Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 02.09.2025 - Prentvæn útgáfa