Borgarstjórn - 9.10.2001

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2001, fimmtudaginn 4. október, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Helgi Pétursson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Anna Geirsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Kjartan Magnússon, Kristján Guðmundsson, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðrún Pétursdóttir. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 25. september.

- Kl. 14.42 vék Helgi Pétursson af fundi og Óskar Bergsson tók þar sæti.

2. Lagður fram 20. liður fundargerðar borgarráðs frá 2. október, kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlutum í Stiklu ehf. og Tetralínu ehf., sem forseti ákvað að ræddur yrði sem sérstakur dagskrárliður.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn samþykkir að Orkuveita Reykjavíkur hætti við fyrirhuguð kaup á fyrirtækinu Tetralínu ehf. og hlut Landssímans í fyrirtækinu Stiklu ehf. Leitað verði samninga um sameiningu þessara tveggja fyrirtækja og fjárfestum boðin aðild að fyrirtækinu á frjálsum markaði.

Samþykkt með samhljóða atkvæðum að taka tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á dagskrá.

- Kl. 16.26 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Eyþór Arnalds tók þar sæti.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Sjálfstæðismenn í borgarráði hafa þegar samþykkt viljayfirlýsingu þess efnis að fyrirtækin Tetralína ehf. og Stikla ehf. verði sameinuð undir forræði Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar og að mannvirki og aðstaða þeirra verði nýtt við uppbyggingu og rekstur hins nýja fjarskiptafyrirtækis. Samningar um það með hvaða hætti það verði gert liggja þegar fyrir og eru hér til afgreiðslu. Þegar nýtt fyrirtæki hefur verið stofnað er sjálfsagt að skoða aðkomu annarra fjárfesta að því. Tillaga sjálfstæðismanna er því sýndartillaga og er henni vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 8 atkv. gegn 7.

20. liður fundargerðar borgarráðs frá 2. október, kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlutum í Stiklu ehf. og Tetralínu ehf., samþykktur með 8 atkv. gegn 7.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Með kaupum Orkuveitu Reykjavíkur á Tetralínu ehf, dótturfyrirtækis Línu.Nets hf, er enn verið að færa skattpeninga almennings yfir í áhættusaman samkeppnisrekstur, sem fulltrúar R-listans standa fyrir. Orkuveita Reykjavíkur, sem á Línu.Net að tveimur þriðju hlutum, kaupir nú sitt eigið dótturfyrirtæki. Þetta fyrirtæki var nánast búið að afskrifa að fullu, en engu að síður ætlar Orkuveita Reykjavíkur að kaupa það á 630 milljónir króna, – greiða 225 milljónir í reiðufé auk yfirtöku skulda upp á u.þ.b. 405 milljónir. Á móti meta forsvarsmenn fyrirtækisins eignir á 490 milljónir, en engin gögn liggja fyrir um það hvernig það mat er fengið. Þessar 630 milljónir bætast nú við þær sexhundruð milljónir króna, sem þegar hafa runnið úr sjóðum Orkuveitu Reykjavíkur til Línu.Nets. Það er ljóst að þessi gerningur er hluti af björgunaraðgerðum R-listans til að fresta gjaldþroti Línu.Nets hf. Samkvæmt ársreikningi voru skuldir Línu.Nets 1.615 milljónir um áramót, og áætlað er að skuldir fyrirtækisins nemi nú um 2.3 milljörðum króna og er rekstrargrundvöllur fyrirtækisins á brauðfótum. sjálfstæðismenn lögðust frá upphafi gegn stofnun Línu.Nets hf. og hafa ítrekað varað við því hvert stefnir í rekstri þess. Það er skoðun sjálfstæðismanna að það sé ekki hlutverk borgarinnar að standa í samkeppnisrekstri fjarskiptafyrirtækis. Öll saga og ferill Línu.Nets hf. sem ítrekað hefur sótt í vasa borgarbúa til að fjármagna taprekstur sinn, hefur sannað að varnaðarorð sjálfstæðismanna hafa átt við rök að styðjast og verstu hrakspár hafa gengið eftir. Sjálfstæðismenn leggjast eindregið gegn fyrirhuguðum kaupum Orkuveitu Reykjavíkur á Tetralínu ehf., sem er í raun ekki annað en dulbúin björgunaraðgerð vegna taprekstrar Línu.Nets hf.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Frá því á fyrri hluta þessa árs hefur verið unnið að því að sameina fyrirtækin Tetralínu (áður Irju) og Stiklu (áður Tnet) í eitt fjarskiptafyrirtæki sem sæi um uppbyggingu og rekstur tetrakerfis fyrir alla landsmenn. Sameining fyrirtækjanna er ekki síst mikilvæg út frá öryggissjónarmiði. Rekstur tveggja mismunandi tetrakerfa gerir það að verkum að þeir sem þau nota geta ekki haft samskipti sín á milli ef upp kemur almannavá.

Þegar viðræður aðila um sameiningu fyrirtækjanna hófust var óháður aðili, KPMG ráðgjöf, fenginn til að leggja mat á verðmæti hvors fyrirtækis fyrir sig og hlutdeild í nýju sameinuðu fyrirtæki. Var það mat fyrirtækisins að eigið fé hins nýja fyrirtækis væri 560 mkr. og hlutdeild Tetralínu væri 51% eða um 286 mkr. Í ljósi þess getur vart talist ósanngjarnt að greiða 225 mkr. fyrir þennan eignarhlut. Þá er þess að geta að samningur Tetralínu við Ríkiskaup um rekstur tetrakerfis fyrir slökkvilið, ríkislögreglu o.fl. opinbera aðila er metinn að núvirði á 203 mkr. Öll gögn varðandi þetta mat liggja fyrir sem og drög að stofnefnahagsreikningi Tetralínu pr. 01.07.2001. Þar fylgir m.a. mat á eignum upp á 490 mkr. Því er þ.a.l. alfarið vísað á bug að engin gögn liggi fyrir um verðmatið.

Það segir hins vegar sína sögu um þá pólitík sem einkennir málflutning sjálfstæðismanna að þeir hafa varla eytt orði á kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut Landssímans í Stiklu ehf. né heldur reynt að meta þau verðmæti sem þar er verið að kaupa á 72 mkr. Eins og endranær standa þeir vörð um þá hagsmuni og þau fyrirtæki sem er stjórnað af mönnum sem eru flokknum þóknanlegir en hamast á hinum sem eru í eigu eða undir stjórn manna sem ekki eru honum handgengnir.

- Kl. 17.29 var gert hlé á fundi. - Kl. 17.49 var fundi fram haldið og vék þá Alfreð Þorsteinsson af fundi og Guðrún Erla Geirsdóttir tók þar sæti.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 2. október.

- Kl. 18.11 vék Jóna Gróa Sigurðardóttir af fundi og Helga Jóhannsdóttir tók þar sæti. - Kl. 18.29 vék Kristján Guðmundsson af fundi og Snorri Hjaltason tók þar sæti.

4. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 1. október.

5. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 24. september, Samþykkt með 15 samhlj. atkv.

6. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 21. september.

7. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 19. september.

8. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 19. september.

9. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 19. september. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhlj. atkv.

10. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 26. september. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 15 samhlj. atkv.

11. Lögð fram fundargerð stjórnar veitustofnana frá 25. september.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðiflokks um breytingu á gjaldskrá vegna stöðubrota:

Aukastöðugjald vegna brota á reglum um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku, sbr. f-lið 1. mgr. 108 gr. umferðarlaga, verði kr.750.- frá 1. nóvember n.k.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til meðferðar samgöngunefndar.

Fundi slitið kl. 18.57.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Helgi Hjörvar

Hrannar Björn Arnarsson Kjartan Magnússon