Borgarstjórn
Fundur borgarstjórnar og fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna
Ár 2013, þriðjudaginn 8. október, var haldinn fundur borgarstjórnar og fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Björk Vilhelmsdóttir, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Hildur Sverrisdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir. Jafnframt voru komnir til fundar eftirtaldir fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna: Kristinn Jóhannsson, Jessý Jónsdóttir, Elínrós Birta Jónsdóttir, Sólrún Ásta Björnsdóttir, Elín María Árnadóttir og Sigurður Einar Jónsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar bauð Björk Vilhelmsdóttir, forseti borgarstjórnar, fulltrúa úr Reykjavíkurráði ungmenna velkomna til fundar við borgarfulltrúa.
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga Kristins Jóhannssonar frá ungmennaráði Miðborgar og Hlíða um betri lífsleiknikennslu í skólum:
Fleiri tímar og umfangsmeiri þarf í lífsleiknikennslu. Kynfræðsla á ekki bara að vera kynsjúkdómahræðsla og fyrst og fremst þarf stöðlun á milli skóla til að tryggja gæði lífsleiknikennslu.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga Jessýjar Jónsdóttur frá ungmennaráði Grafarvogs um bætt félagsmiðstöðvarstarf:
Aukið samræmi þarf að vera milli félagsmiðstöðva og félagsmiðstöðvar þurfa að vera hentugar fyrir alla. Í dag eru mjög ólíkar aðstæður í félagsmiðstöðvum.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs og til umsagnar hjá aðgengisnefndar Reykjavíkurborgar.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga Elínrósar Birtu Jónsdóttur frá ungmennaráði Árbæjar, Norðlingaholts og Grafarholts um aukið starf fyrir 16 ára og eldri.
Það þarf aukið fjármagn í þetta verkefni sem hingað til hefur bara verið tímabundið í hverfunum. Hætta á að unglingar einangrist ef þeir eru í framhaldsskóla og eru ekki þátttakendur í félagslífinu þar. Félagslíf í framhaldsskóla er heldur ekki forvarnastarf!
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sólrúnar Ástu Björnsdóttur frá ungmennaráði Árbæjar, Norðlingaholts og Grafarholts um bættan hverfisbrag í Grafarholtinu:
Þarf tiltekt á stórum svæðum í Grafarholtinu, hraðbanka og aukna þjónustu, huggulega staði og tengingu Úlfarsárdals og Grafarholt. Einnig þarf skjólsælli og huggulegri útisvæði.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs og umsagnar hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga Elínar Maríu Árnadóttur frá ungmennaráði Vesturbæjar um aukið samráð við ungt fólk:
Leita þarf oftar til Reykjavíkurráðsins og/eða annars ungs fólks um mál sem tengjast ungu fólki. Tillögurnar af borgastjórnarfundunum eru ekki að skila sér og svörin eru fá. Það vantar upplýsingar um stöðu tillaganna.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar forsætisnefndar.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sigurðar Einars Jónssonar frá ungmennaráði Breiðholts um breytingu á nemakortum í strætó:
Ein tillaga Reykjavíkurráðs ungmenna er að breyta tímabili á nemakortum sem strætó býður uppá.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar hjá stjórn Strætó bs.
7. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
Sameiginlegur fundur Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa, haldinn 8. október 2013, beinir því til borgarráðs Reykjavíkur að gerð verði sú breyting á samþykktum að Reykjavíkurráði ungmenna verði heimilað að skipa áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í skóla- og frístundaráð. Jafnframt beinir fundurinn því til íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur að Reykjavíkurráði ungmenna verði heimilað að skipa áheyrnarfulltrúa þar.
Samþykkt að vísa tillögunni til umsagnar hjá Reykjavíkurráði ungmenna og að henni fenginni, til afgreiðslu borgarráðs.
Fundi slitið kl. 18.48
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn Reykjavíkur og Reykjavíkurráð ungmenna 08.10.2013