Borgarstjórn - 7.9.2004

Borgarstjórn

BORGARSTJÓRN

Ár 2004, þriðjudaginn 7. september, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Þorlákur Björnsson, Stefán Jón Hafstein, Stefán Jóhann Stefánsson, Anna Kristinsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Gísli Helgason, Kjartan Magnússon, Gísli Marteinn Baldursson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Björn Bjarnason, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.

Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram 14. liður fundargerðar borgarráðs frá 2. september, tillaga að nýju leiðakerfi Strætó bs.

- Kl. 15.10 tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sæti á fundinum og Sigrún Elsa Smáradóttir vék af fundi.

- Kl. 16.20 vék Ingibjörg Sólrún Gísladóttir af fundi og Jóhannes Bárðarson tók þar sæti.

Borgarstjórn samþykkir tillögu að nýju leiðakerfi Strætó bs. fyrir sitt leyti með 9 samhljóða atkvæðum.

2. Rætt um nýmæli í menningarmálum í Reykjavíkurborg.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hefja undirbúning að sölu á öllum hlut Reykjavíkurborgar í Malbikunarstöðinni Höfða ehf. og Vélamiðstöð ehf.

Jafnframt beinir borgarstjórn þeim tilmælum til Vélamiðstöðvar ehf. að draga til baka tilboð félagsins í nýlegu útboði vegna þjónustu við endurvinnslustöðvar Sorpu bs. og umsókn sína um þátttöku í útboði vegna flutninga og vélarvinnu í móttökustöð Sorpu í Gufunesi.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks til borgarráðs.

- Kl. 17.55 vék Björn Bjarnason af fundi og Jórunn Frímannsdóttir tók þar sæti.

4. Rætt um stefnumótun Reykjavíkurborgar í úrgangsmálum.

- Kl. 18.20 var gert hlé á fundi.

- Kl. 18.45 var fundi fram haldið og vék þá Árni Þór Sigurðsson af fundi og Óskar Dýrmundur Ólafsson tók þar sæti. Jafnframt vék borgarstjóri af fundi og borgarritari tók þar sæti.

5. Rætt um stjórnsýslu og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Áður en tekinn var fyrir 6. liður útsendrar dagskrár kvaddi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sér hljóðs utan dagskrár með leyfi forseta og ræddi umfjöllun í fjölmiðlum um málefni leigjenda Félagsbústaða hf.

6. Lagður fram 5. liður fundargerðar borgarráðs frá 2. september, breytt deiliskipulag Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 25. júní, 26. júní, 29. júní, 6. júlí, 20. júlí, 10. ágúst, 17. ágúst, 24. ágúst og 2. september, sbr. einnig 1. og 6. liður fundargerðarinnar.

8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 26. ágúst og 2. september.

9. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 25. ágúst.

10. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 30. ágúst.

11. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. ágúst.

12. Lagðar fram fundargerðir samgöngunefndar frá 10. ágúst og 24. ágúst.

13. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 25. ágúst.

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

14. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 26. ágúst.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað vegna 1. liðar:

R-listanum hefur gersamlega mistekist það yfirlýsta ætlunarverk á tíu ára valdatíma sínum að efla almenningssamgöngur í Reykjavík. Á þessum tíma hefur þjónusta almenningssamgangna í Reykjavík verið skert, fargjöld hækkað langt umfram almennt verðlag og farþegum fækkað verulega. Endurskoðun leiðakerfisins er tímabær og fagnaðarefni í sjálfu sér enda í góðu samræmi við þær tillögur Sjálfstæðisflokksins frá 1999 um sameiningu strætisvagnafyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og heildarendurskoðun á leiðakerfi.

Sjálfstæðismenn óttast hins vegar að fyrirliggjandi tillögur að nýju leiðakerfi Strætó bs. séu ekki til þess fallnar að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nýja leiðakerfið er gisnara en núverandi kerfi og ljóst að fjölmargir farþegar verða fyrir þjónustuskerðingu þar sem gönguvegalengdir á biðstöðvar lengjast. Hætta er þannig á að fyrirtækið missi fjölda viðskiptavina án þess að tryggt sé að jafnmargir eða fleiri komi í staðinn. Í stað þess að bæta aðgang borgarbúa að þjónustunni og gera hana aðgengilega fyrir sem flesta, er hann takmarkaður.

Nýja leiðakerfið mun byggjast á sömu grundvallarhugsun og hið gamla, sem er frá árinu 1968, þ.e. samakstri stofnleiða milli Lækjartorgs og Hlemms, en þessir staðir verða einnig þungamiðjan í hinu nýja kerfi. Sjálfstæðismenn telja heppilegra að þungamiðja nýs kerfis verði færð nær umferðarlegri miðju höfuðborgarsvæðisins, t.d. að gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, en þaðan er um tíu mínútna akstur í öll hverfi Reykjavíkur.

Við endurbætur á almenningssamgöngum erlendis er víðast hvar mælt með hægfara endurbótum á leiðakerfi í stað þess að kollsteypa því. Sjálfstæðismenn vara því við þeirri aðferð að skipta um leiðakerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið á einni nóttu.

Helstu markmiðin með stofnun Strætó voru þau að bæta þjónustu við farþega og hagræða í rekstri. Áformað var að nýtt leiðakerfi yrði ódýrara en það sem fyrir er en nú stefnir í að kostnaðarauki í nýju kerfi verði a.m.k. 170-180 milljónir á ári.

- Kl. 20.35 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi.

- Kl. 20.40 var gert hlé á fundi.

- Kl. 20.50 var fundi fram haldið.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Gagnger endurskoðun á leiðakerfi Strætó bs. er tímabær og fagnaðarefni. Hún er brýn og mun bæta þjónustu við borgarbúa og hafa burði til að auka hlut almenningssamgangna í borginni og gera þær að raunhæfum valkosti fyrir þá sem þurfa að fara leiðar sinnar um höfuðborgarsvæðið.

Þær fáu málefnalegu ábendingar sem fram koma í bókun D-lista hafa allar fengið ítarlega umfjöllun á undirbúningsstigi, hjá sérfræðingum, á fundum með íbúum, hverfisráðum og í nágrannasveitarfélögum. Niðurstaða þess er að tillögur D-lista manna eru ekki jafn líklegar til árangurs og þær sem hér er stungið upp á.

Málflutningur D-lista í umræðum hér í dag hefur verið ábyrgðarlaus, kallað er eftir meiri þjónustu fyrir minna fé, auknum árangri án tillagna um það efni annarar en þeirrar sem fram kom við fjárhagsáætlunargerð árið 2002, að skera niður framlög til Strætó bs. um 100 millj. kr.

Markmið er um að stytta ferðatíma, fjölga ferðum á álagstíma og fækka skiptingum á milli vagna. Þetta eru allt góð og gild markmið sem lengi hefur verið kallað eftir.

Ljóst er að endurskoðun á leiðakerfi er viðkvæmt verkefni. Breytingar á opinberri þjónustu eru alltaf vandmeðfarið verk sem þarfnast góðrar kynningar og er Strætó bs. þakkað fyrir nútímaleg vinnubrögð í þessu efni. Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista lýsa þeirri von sinni að þessi breyting styrki hlut almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og stuðli þar með að greiðari samgöngum, hollari lífsháttum og minni kostnaði fyrir samfélagið í heild.

Fundi slitið kl. 20.53.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Guðlaugur Þór Þórðarson

Björk Vilhelmsdóttir Kjartan Magnússon