Borgarstjórn - 7.6.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 7. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Eva Einarsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um skýrslu stýrihóps um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leik-, grunn-, og frístundastarfi, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. maí sl.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Heilsuefling í leik- grunnskóla og frístundastarfi er ferli sem er hafið með innleiðingu Reykjavíkurlíkansins í hverfum borgarinnar í samvinnu við embætti Landlæknis. Það er mikilvægt að stuðla að jákvæðu viðhorfi til heilsueflingar. Heilsueflingin er ekki tímabundið átak heldur hugarfars- og viðhorfsbreyting, aðgerðir og fjárfestingar sem þurfa að eiga sér stað með það að markmiði að efla andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði í Reykjavík. Slíkt þarf ekki að kosta ómælda fjármuni heldur viðhorfsbreytingu jafnt hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar og þjónustuþegum hennar, og pólitískum ákvörðunum sem munu skila sér margfallt aftur í bættri heilsu og auknum lífsgæðum borgarbúa.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að vinna að heilsueflingu skóla og frístundastarfs sem er hluti af heilsueflandi samfélagi. Skýrslan er góð að mörgu leyti en mörgum spurningum er ósvarað um það hvernig borgin ætlar að ná markmiðum hennar enda er það framkvæmdin sem skiptir höfuðmáli enda óhætt að fullyrða að sátt sé um heilsueflingu almennt í samfélaginu. Það þarf að auka aðgang og aðgengi að íþróttahúsum borgarinnar og sundstöðum, efla samgöngur innan hverfa og bæta þarf viðhald á skólalóðum og leikvöllum. Til að markmið stefnunnar nái fram að ganga þarf fjármagn og samstarf þvert á svið borgarinnar eins og skóla- og frístundasviðs, velferðarsviðs og umhverfis- og skipulagssviðs. Gert er ráð fyrir að heilsueflingin vaxi frá leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi út í aðra starfsstaði borgarinnar og þá er brýnt að hugað verði að bættri andlegri og félagslegri líðan borgarbúa ekki síður en líkamlegri vellíðan og hreysti. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Þakkað er fyrir skýrslu starfshóps um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. Engum blandast hugur um að góður hugur hafi fylgt gerð skýrslunnar. Í skýrslunni eru hins vegar sett fram almenn markmið um að efla lýðheilsu en hvorki minnst á hvaða fjármagn eigi að fylgja eða settar fram tímasettar aðgerðir til að ná fram þeim markmiðum sem koma fram í skýrslunni. Það er ljóst að ekki dugir að setja almenn markmið um að auka hreyfingu barna og að efla lýðheilsu almennings þegar sú staðreynd liggur fyrir að margar skólalóðir og opin svæði í borginni eru víða í niðurníðslu. Þá hefur loftmengun oft farið yfir viðmiðunarmörk og frjókornamagn of mikið í andrúmsloftinu vegna trassaskapar við slátt og umhirðu í borginni. Það er ljóst að ef ætlunin er að ná fram þeim markmiðum sem skýrslan tekur á, þarf að gera tímasetta aðgerðaráætlun og fjármagn fylgi þeim framkvæmdum sem nauðsynlegt er að ráðast í. Að öðrum kosti er hætt við að skýrslan lendi í skúffu borgarkerfisins með öllum þeim stefnum sem dagað hafa þar uppi.

2. Fram fer umræða um fjárhagsaðstoð. 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fagna markverðum árangri í að fækka í hópi þeirra Reykvíkinga sem þurfa á fjárhagsaðstoð til framfærslu á að halda. Notendum í janúar til mars 2016 fækkaði um 23,6% miðað við sama tímabil árið 2015. Reykjavíkurmódelið byggist á samræmdu verklagi við móttöku og meðferð umsókna um fjárhagsaðstoð þar sem áhersla er á snemmtæk inngrip og að notendur finni styrkleika sína, meti starfsgetu og setji sér valdeflandi markmið. Í framhaldi af því er unnin einstaklingsáætlun hvers og eins og er það á ábyrgð einstaklingsins að fylgja henni. Mikilvægt er að haldið verði áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið þar sem hún skilar greinilega árangri.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mjög ánægjulegt er að sjá loksins fækkun einstaklinga á fjárhagsaðstoð í Reykjavík en sveitarfélagið hefur ekki sýnt viðunandi árangur hvað þetta varðar undanfarin ár ef miðað er við önnur sveitarfélög sem hvað virkust hafa verið. Hafnarfjörður leiddi fram 40% fækkun í hópi þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð á einu ári (árið 2014) og í Reykjanesbæ varð 32% fækkun milli áranna 2014 og 2015. Á sama tíma varð fækkun um 8% í Reykjavík. Síðan hefur atvinnu- og efnahagsástand gjörbreyst til hins betra. Seint verður því hægt að segja að meirihlutinn í Reykjavík hafi tekið málið föstum tökum. Stefna hans hefur verið afar slök og jafnvel viðhaldið fjárhagsaðstoðarvandanum undanfarin ár en tekist hefur verið á um fjárhagsaðstoðarmálin í velferðarráði af krafti þennan tíma. Í lok árs 2015 var samþykkt aðgerðaráætlun sem nú er í gildi og tóku sjálfstæðismenn af einhug undir þá áætlun og fögnuðu því að loks mætti merkja vilja meirihlutans til breytinga. Of snemmt er þó að fullyrða um árangur af áætluninni, eða „Reykjavíkurmódelinu“ eins og PR-fulltrúar meirihlutans kalla hana. Langt er í að Reykjavík hafi náð að vinna sig út úr fjárhagsaðstoðarvandanum. 

3. Fram fer umræða um heimagistingu og leiguíbúðir í skammtímaleigu. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að Reykjavíkurborg fylgist með húsnæðismarkaðnum í borginni og þá hvort íbúðir í borginni séu notaðar í skammtímaleigu, langtímaleigu eða sem búseturéttaríbúðir. Í því sambandi er eðlilegt að skoðað verði hversu stór hluti af þeim íbúðum sem byggðar hafa verið síðustu t.d. 5 árin sem og það íbúðarhúsnæði sem verið er að byggja eða til stendur að byggja næstu árin sé eða verði notað í skammtímaleigu, langtímaleigu eða sem búseturéttaríbúðir. Þyrfti að taka slíkar upplýsingar saman, uppfæra og birta reglulega.  

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ný lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald munu taka gildi um næstu áramót. Nauðsynlegt er að taka upp skýrt verklag um hvernig skuli meta hvaða áhrif þau hafa á þróun í borginni og safna lykiltölum reglulega. Ljóst er að fjöldi hótelrýma mun ekki mæta fjölda ferðamanna næstu árin og enn verður mikil eftirspurn ferðamanna eftir íbúðarhúsnæði í skammtímaleigu. Á meðan er líklegt að húsnæðisvandinn í Reykjavík verði enn mjög alvarlegur og viðvarandi. Ný lög gera heimagistingu auðveldari en setja jafnframt þak á fjölda útleigudaga og leigutekjur. Í Reykjavík eru íbúðir sem nýttar eru í heimagistingu nú langflestar leigðar út lengur en 90 daga og fyrir hærri fjárhæðir en lögin geri ráð fyrir.  Nauðsynlegt er að borgarstjórn fylgist náið með hvort þróun verður á þann hátt að íbúðarhúsnæði verði í meira mæli notað í skammtímaleigu en áður og hvort íbúðarhúsnæði sem nú er nýtt í heimagistingu verði breytt í íbúðargistingu í meira mæli með frekari langtímaáhrifum á almennan leigumarkað, hvort þær íbúðir sem í uppbyggingu eru muni skila sér inn á almennan leigumarkað eða verða nýttar í ferðaþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Þá þarf að setja viðmið um hvenær fjöldi íbúða í skammtimaleigu hafi neikvæð áhrif á íbúaskilyrði einstakra hverfa eða svæða.

- Kl. 17.19 víkur Eva Einarsdóttir af fundi og Magnea Guðmundsdóttir tekur sæti. 

- Kl. 17.56 víkur Halldór Auðar Svansson af fundi og Þórlaug Ágústsdóttir tekur sæti. 

4. Fram fer umræða um málefni Austurbæjar og Norðurmýrar. 

5. Lagt er til að Sabine Leskopf taki sæti Kristínar Soffíu Jónsdóttur í heilbrigðisnefnd.

Samþykkt. 

Einnig er lagt til að Sabine verði formaður heilbrigðisnefndar í stað Kristínar Soffíu. Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

6. Lagt er til að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti Kristínar Soffíu Jónsdóttur í stjórn Strætó bs.

Samþykkt. 

7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 19. maí

5. liður fundargerðarinnar, drög að reglum um úthlutun fjármagns vegna stuðnings í leikskólum, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

9. liður fundargerðarinnar, breyting á samþykkt menningar- og ferðamálaráðs, samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 26. maí

17. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun 2016 vegna samkomulags við Leikfélag Reykjavíkur, samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Lagður fram 18. liður fundargerðarinnar, skýrsla starfshóps um samfelldan dag barna 6-16 ára.

33. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun 2016 vegna tónlistarskóla, samþykktur. 

Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 2. júní

23. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun 2016 vegna kjarasamninga, samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 3. júní, íþrótta-  og tómstundaráðs frá 13. og 26. maí, mannréttindaráðs frá 10. og 24. maí, menningar- og ferðamálaráðs frá 23. maí, skóla- og frístundaráðs frá 25. maí, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 30. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 25. maí og 1. júní og velferðarráðs frá 26. maí.

Fundi slitið kl. 19.36

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Skúli Helgason Hildur Sverrisdóttir

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 7.6.2016 - prentvæn útgáfa