Borgarstjórn - 7.5.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 7. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13:05. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aron Leví Beck, Líf Magneudóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Sigríður A. Jóhannsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Kristín Soffía Jónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Ólafur Kr. Guðmundsson, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagður fram til fyrri umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 (A- og B-hluti), sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. apríl 2019, ásamt skýrslu fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar og greinargerðum fagsviða, aðalsjóðs, eignasjóðs og fyrirtækja B-hluta. Einnig er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2018, verkstöðuskýrsla vegna nýframkvæmda 2018, yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, ódags., og greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags. Einnig eru lagðar fram endurskoðunarskýrsla GrantThornton, dags. 30. apríl 2019, og skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. í apríl 2019. R17120062

Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu sem fram fer á aukafundi borgarstjórnar 14. maí nk.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Rekstur borgarinnar var tekinn föstum tökum árið 2010. Eftir að svigrúm skapaðist í rekstri borgarinnar árið 2016 hefur mikil áhersla verið á framkvæmdir og fjárfestingar á vegum borgarinnar og forgangsraðað í þágu skólamála og velferðarmála. Borgin hefur fjárfest í skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum og öllu því sem gerir borgina betri. Þá var álagningarhlutfall fasteignagjalda lækkað um 10% auk þess að gefa eldri borgurum og öryrkjum sérafslátt. Farið var í stórátak í malbikun gatna og lagningu nýrra hjólastíga í borginni. Sá ársreikningur sem nú lítur dagsins ljós er því afrakstur traustrar fjármálastjórnar, því ársuppgjörið sýnir borg sem hefur metnað fyrir framúrskarandi þjónustu, leggur áherslu á góða innviði og forgangsraðar í þágu velferðarmála og skólamála. Það er eðlilegt að skuldir aukist lítillega þegar fjárfestingarþörfin er eins mikil og raun ber vitni. Þá er bent á að undirritun ársreiknings fer fram við síðari umræðu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Tekjur Reykjavíkurborgar hafa aldrei verið meiri, enda skattar í hámarki og gjöld í hæstu hæðum. Afkoma borgarinnar er þó lakari en árið 2017 enda vaxa gjöldin hratt. Launakostnaður vex um 10% milli ára af reglulegum rekstri. „Annar rekstrarkostnaður“ vex um 8%. Þá vekur sérstaka athygli að skuldir borgarinnar halda áfram að vaxa í góðæri. Skuldir borgarsjóðs hækka um átta milljarða og eru 108 milljarðar um áramót. Heildarskuldir borgarinnar hækka enn meira eða um 25 milljarða og eru 324 milljarðar í lok síðasta árs. Það er hækkun um rúma 2 milljarða á mánuði árið 2018. Þetta gerist á sama tíma og ríkissjóður lækkar skuldir sínar. Afgangur af rekstri dugar ekki fyrir fjárfestingum og fjármagnskostnaður borgarinnar snarhækkar á milli ára.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ég hef tekið ákvörðun um að undirrita ekki ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 fyrr en túlkunarágreiningur um fjárútlát umfram heimildir borgarráðs og borgarstjórnar liggur fyrir. Því hefur verið haldið fram að við undirritun kjörinna fulltrúa á ársreikning fáist uppávantaðar fjárheimildir. Því hafna ég alfarið og spyr í leiðinni hvers vegna ættu sveitarfélög að setja sér fjárhagsáætlun og ríkið fjárlög ef þetta væri túlkunin? Þessi aðferð skapar hættulegt fordæmi og freistnivanda fyrir kjörna fulltrúa til framtíðar verði hún samþykkt í ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018. Beðið er eftir lögfræðiáliti að ósk sjálfstæðismanna í borgarstjórn þessa efnis. Síðasti séns til að birta borgarfulltrúum álitið er á borgarráðsfundi nk. fimmtudag. Seinni umræða ársreikningsins fer fram að viku liðinni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst sárt að sjá hvað þjónusta við börn, eldri borgara og öryrkja hefur verið sett aftarlega í forgangsröðunina undanfarin ár. Vandinn er uppsafnaður og víða rótgróinn. Ekki dugar að státa af góðum hagnaði í borginni þegar hópi barna líður illa. Ekki hefur verið sett nægt fé í skólakerfið til að hægt sé að mæta þörfum allra barna. Nýlegt dæmi er úr fréttum þar sem barni með djúpstæðan vanda var úthýst úr skólakerfinu. Hvar var hinn svokallaði „skóli án aðgreiningar“ í því máli? Eins má minnast á eldri borgara sem fastir eru á Landspítala vegna þess að þeir ýmist komast ekki heim vegna biðlista í heimaþjónustu eða vegna þess að ekkert hjúkrunarrými er laust. Er Landspítalinn að verða stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili í borginni? Við yfirferð skýrslu endurskoðenda nú eru sömu ábendingar nefndar og árið 2015 og 2018. Hefði þessum ábendingum verið fylgt hefði braggamálið sem dæmi aldrei orðið. Það hefur verið staðfest af innri endurskoðanda. Kallað er eftir að valdhafar taki hér ábyrgð. Við fyrstu umræðu ársreiknings hafa hlutir verið ansi mikið fegraðir af hálfu meirihlutans. Vissulega er margt gott í borginni en Flokkur fólksins gerir kröfu um að borgarbúum sé sýnd sú virðing að ræða málefni borgarinnar út frá þeim raunveruleika sem við blasir.

2.    Lagðar fram tillögur stýrihóps um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð, ásamt greinargerð, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019. R18030194

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram breytingatillögu við lið númer 3, í tillögum stýrihóps um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð sem snýr að því að fækka fulltrúum sem kosnir eru af borgarstjórn í íbúaráðin úr þremur í einn, fjölga slembivöldum fulltrúum úr einum í þrjá og að ráðið kjósi sjálft formann.

-    Kl. 16:50 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Ellen Jacqueline Calmon tekur sæti. 

Breytingatillagan er felld með 21 atkvæði Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðsluna.

 

Tillögur stýrihóps um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð eru samþykktar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tilgangur með því tilraunaverkefni sem hér hefur verið samþykkt er að valdefla íbúa og auka aðkomu þeirra að ákvarðanatöku. Þeim fulltrúum sem kosnir eru af borgarstjórn er fækkað en í þeirra stað koma tveir fulltrúar foreldrafélaga og íbúasamtaka, og einn fulltrúi slembivalinn úr hverju hverfi. Vonast er til að sú aðferð skili víðari sýn inn í ráðin og spennandi verður að fylgjast með árangri þeirrar tilraunar. Vinnan við endurskipulagningu og framtíðarskipan hverfisráða hefur gengið mjög vel. Mikið samráð var haft við íbúa í þeirri vinnu, en einnig við starfsfólk borgarinnar og embættismenn, til að finna með hvaða hætti mætti tryggja aðkomu íbúa með sem farsælustum hætti. Það varð úr að láta víðtækt samráð og ítarlega vinnu við útfærslu ganga fyrir því að klára verkið sem fyrst. Eitt sem komið hefur skýrt í ljós á þessum mánuðum sem liðið hafa meðan hlutverk og skipulag voru endurskoðuð er hve mikilvægur vettvangur þau voru orðin í umræðu og upplýsingagjöf í hverfunum og við vonumst til þess að endurreist íbúaráð muni verða enn sterkari vettvangur samráðs og upplýsingaflæðis.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja aukna lýðræðisþátttöku íbúa fjölbreyttra hverfa borgarinnar í lykilákvörðunum sem snúa að málefnum hverfanna. Í því ljósi fögnum við að loks skuli vera lögð fyrir borgarstjórn tillaga um framtíðarskipan hverfisráða. Heilt ár er liðið frá því ráðin voru lögð niður og vinna við endurskoðun þeirra hefur dregist allt of lengi, þrátt fyrir fyrirheit meirihlutans um að þau yrðu endurvakin um síðustu áramót. Þessi óþarfa seinagangur og óskilvirkni í ákvarðanatöku er gagnrýndur harðlega. Bent er á að framlögð tillaga um endurreisn hverfaráða er ekki nægilega vel útfærð og mun því valda frekari töfum á því að íbúalýðræði verði virkjað að nýju í hverfum borgarinnar. Ljóst er að val á fulltrúum er vandasamt og flókið verk að mörgu leyti, m.a. hvernig skipan slembivaldra fulltrúa stenst ný persónuverndarlög. Hægt yrði að hafa skipan eða val fulltrúa einfaldari, s.s. með beinni kosningu, þannig að ekki myndi tefjast að gera íbúaráðin starfhæf að nýju. Einnig er bent á að tillagan gerir ráð fyrir að um einhverskonar tilraunastarf sé að ræða til ársloka 2020, en við teljum að hverfisráð og meðferð íbúalýðræðis séu ekki hentugur vettvangur fyrir tilraunastarfsemi sem þessa. Þá sé ljóst að verja eigi miklum fjármunum í verkefnið og að mati Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið reynt til hlítar að finna einfaldari og hagkvæmari leiðir til þess að styðja við lýðræðisþátttöku íbúa.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Sósíalistaflokkurinn fagnar öllu sem færir valdið nær borgarbúum. Á þeim forsendum teljum við sósíalistar ekki eðlilegt að helmingur ráðsins, þ.e.a.s. þrír fulltrúar, séu skipaðir af borgarstjórn, við teljum nóg að einn kjörinn fulltrúi sé í ráðinu til að tryggja tengingu við borgarstjórn. Það er þó jákvætt að pólitískt kjörnir fulltrúar íbúaráðanna skuli hafa sterka tengingu við svæðið, helst með eigin búsetu. Þá er lagt til að tveir fulltrúar verði skipaðir úr hópi íbúa af virkum grasrótarsamtökum úr hverfunum, þar af einn skipaður af íbúasamtökum og einn skipaður af foreldrafélögum. Þá er lagt til að einn verði slembivalinn úr hópi íbúa á hverju svæði. Til að íbúaráðin endurspegli þverskurð hverfisins sem best lagði Sósíalistaflokkurinn áherslu á fleiri slembivalda einstaklinga í íbúaráðunum, þar sem það er valdeflandi að gefa þeim sem hafa kannski ekki haft færi á pólitískri þátttöku og ákvörðunartöku að fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Til að auka íbúalýðræði er nauðsynlegt að gefa íbúum fleiri sæti í ráðinu í stað þess að pólitískt kjörnir fulltrúar taki yfir helming af sætunum. Með lýðræðissjónarmið íbúaráðanna í huga, þá teljum við einnig mikilvægt að íbúaráðin velji sjálf formann ráðsins í stað þess að það sé í höndum borgarstjórnar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst sú vinna sem þarna hefur átt sér stað góð en telur það ekki standast að upp sé komin þreyta hjá fólki um hverfakosningar. Bein kosning íbúa er lýðræðisleg aðferð og fólk sem gæfi kost á sér hefur brennandi áhuga á málinu og er tilbúið að taka verkefnið að sér. Beint lýðræði á að vera meginreglan alls staðar og í hvívetna. Flokkur fólksins telur slembival gott og gilt en myndi einnig vilja sjá beinar kosningar um meira en einn fulltrúa, í það minnsta mætti kannski hafa hvorutveggja. Fækka mætti pólitískt völdum fulltrúum í hverfisráðin á móti. Að öðru leyti styður Flokkur fólksins tillögu stýrihópsins.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Sjálfstæðisflokkurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur leggur til að ráðist verði í tilraunaverkefni fyrir komandi haust til að auka öryggi gangandi vegfarenda í umferðinni með nýrri tækni við gangbrautir borgarinnar. Þetta er þáttur í snjallvæðingu Reykjavíkurborgar með umferðaröryggi að leiðarljósi fyrir alla vegfarendur. Valdir verði fimm staðir þar sem sett verði upp ný gerð gangbrautarlýsingar og merkinga. Um er að ræða tæknibúnað sem skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Einnig kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Þessi tækni er þekkt erlendis og gagnast vel í skammdeginu í nyrstu höfuðborginni; Reykjavík. Áætlaður kostnaður við búnaðinn er innan við tíu milljónir króna fyrir alls fimm staði í borginni, en lagt er til að skipulagssviði verði falið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum. Ef vel tekst til gæti þetta verið upphafið að stórátaki til að auka öryggi óvarinna vegfarenda í Reykjavík verulega og um leið að stuðla að nútímavæðingu borgarinnar í þessum efnum. R19050070

Samþykkt. 

Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs.

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjórn samþykkir tillögu um öruggari gangbrautir og vísar til meðferðar umhverfis- og skipulagsviðs með fyrirvara um útfærslu og tímasetningu. Lagt er til að fimm staðsetningar verði valdar í samráði við lögreglu og Vegagerðina þar sem margir gangandi vegfarendur þvera umferðarmeiri götur, að horft verði á slysasöguna 5 ár aftur í tímann og að sérstaklega verði horft á gönguleiðir skólabarna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Öryggi gangandi og annarra óvarinna vegfarenda hefur mikið verið í umræðunni undanfarið í Reykjavík og um allt land vegna fjölda slysa. Hverfisráð borgarinnar, foreldrafélög, íbúasamtök og aðrir hafa ítrekað bent á þörf á stóru átaki í þessum efnum. Reykjavík á að vera í forystu í þessum efnum sem höfuðborg landsins. Í umferðarlögum er talað um „gangbrautir“ sem eru merktar með gangbrautarmerkjum D02.11 og zebrabrautum máluðum á yfirborð sem hafa lögformlega skyldu á ökumenn að stöðva skilyrðislaust vegna gangandi vegfarenda. Margar nýjar tæknilausnir auka öryggi gangandi vegfarenda verulega. Þar má nefna hreyfiskynjara, LED-lýsingu, upplýst gangbrautarmerki o.fl. Reykjavíkurborg hefur þegar sett sér markmið um „snjallborgina Reykjavík“ þar sem nýjar tæknilausnir eru notaðar í þágu umferðaröryggis. Þessi hugmynd hefur fengið jákvæðar undirtektir hjá lögreglunni, Vegagerðinni og fleirum. Fimm staðir í borginni verða valdir fyrir haustið, til að prófa tæknilausnir sem henta við mismunandi aðstæður. Þannig fást vísbendingar á skömmum tíma, til að leggja til grundvallar frekari aðgerðum. Kostnaður við kaup á búnaði í þessu sambandi hefur verið kannaður og reynist hann vera vel innan við 10 milljónir fyrir allt að 5 prófunarstaði, auk uppsetningarkostnaðar. Þetta er ódýr tilraun sem gæti skilað miklum árangri og aukið öryggi borgarbúa til framtíðar.

4.    Umræðu um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins er frestað. R19050071

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að byggt verði við Brúarskóla til þess að hann geti stækkað og tekið við fleiri nemendum. Staðsetning Brúarskóla sem er í Vesturhlíð er afar hentug staðsetning fyrir skóla eins og Brúarskóla þar sem staðsetningin er ótengd m.a. íbúðarhverfi og verslunum. Mikil friðsæld er í hverfinu, gott næði til að vinna með börnin en samt stutt í allar áttir. Mikilvægt er að skólinn sé og verði staðsettur á þeim stað sem hann er. Í dag eru 24 börn í skólanum en lagt er til að skólinn verði stækkaður til að geta að minnsta kosti bætt við 6-8 nemendum í viðbót. Núna eru 19 börn á biðlista. Brúarskóli er einn sinnar tegundar. Í honum stunda nám börn sem eiga við djúpstæðan hegðunarvanda að stríða sem rekja má til ólíkra orsaka og raskana. Skólinn er tímabundið úrræði og ávallt er markmiðið að vinna börnin aftur út í heimaskólann. Meðallengd skólavistar er 15-18 mánuðir. Brúarskóli sinnir fleiri hlutverkum og eitt þeirra er ráðgjafahlutverk við aðra skóla. Sérhæft ráðgjafarteymi fer á vettvang í skóla sé þess óskað. Í Brúarskóla eru tveir þátttökubekkir í tengslum við skólann, annar í Húsaskóla og hinn í Ingunnarskóla, og eru samtals 10 börn í þessum bekkjum. Brúarskóli sinnir auk þess kennslu á Stuðlum og BUGL. Skólinn er rekinn af Reykjavíkurborg með stuðningi úr jöfnunarsjóði.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19050072

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Brúarskóli sinnir mikilvægu hlutverki við að mæta þörfum nemenda með alvarlega geðræna, hegðunar- eða félagslega erfiðleika. Mikilvægt er að geta komið fleiri nemendum undir verndarvæng Brúarskóla og er brýnast í því efni að þróa nýjar markvissar leiðir til að vinna með þá einstaklinga þar sem frávikin eru hvað alvarlegust. Unnið er að því á skóla- og frístundasviði að þróa slíkt úrræði undir merkjum Brúarskóla, þar sem unnið verður sérstaklega með styrkleika og áhuga viðkomandi einstaklinga í heildstæðu skóla- og frístundastarfi en jafnframt góðu samstarfi við Barnavernd og Félagsþjónustuna sem boðið hafa upp á úrræði utan skólatíma. Með slíku úrræði myndu skapast forsendur til að bjóða nýjum nemendum skólavist í Brúarskóla. Rétt er að vísa tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um stækkun Brúarskóla til skóla- og frístundaráðs sem skoði hvernig best megi tengja hana þeirri vinnu sem nú stendur yfir.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er að það stefnir í að Brúarskóli geti ekki tekið við þeim nemendum sem eru á biðlista eftir plássi, á þessu skólaári. Undanfarin ár hefur biðlistinn verið að lengjast og er viðvarandi. Þessi staða er óásættanleg því um er að ræða nemendur í miklum vanda sem þurfa á sérstökum stuðningi og úrræðum að halda sem ekki er í boði í almennum grunnskólum. Leita þarf allra leiða til að stytta þennan biðlista sem fyrst.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi er ánægður að heyra að tillögunni er tekið vel og að það virðist vera skilningur á þessum málaflokki í það minnsta í orði en síðan á eftir að koma í ljós hvað verður raunverulega gert með þessa tillögu. Það reynir núna á meirihlutann að sýna hvar hann vill forgangsraða þessum viðkvæma málaflokki. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að sérskólar í Reykjavík hafi orðið útundan, jafnvel einhvers konar afgangsstærðir í gegnum árin og hafa þar af leiðandi ekki fengið nærri nóga athygli borgaryfirvalda. Þess vegna er vandinn nú svona stór. Borgarfulltrúi þekkir til mála þar sem foreldrar og kennarar eru ráðþrota og fullir örvæntingar þar sem ýmislegt hefur verið reynt til að barni þeirra geti liðið vel í skólakerfinu sem ekki getur sinnt öllum börnum. Enda þótt skólastefna Reykjavíkurborgar kallist „skóli án aðgreiningar“ vantar mikið af þeirri þjónustu í almenna skólann sem þarf til að sinna börnum með ákveðnar sérþarfir. Sum börn passa heldur ekki í þær sérdeildir sem reknar eru í skólunum. Sérskóli eins og Klettaskóli er yfirfullur. Borgarfulltrúi vill ítreka að börn eiga aldrei að þurfa að bíða eftir þjónustu við hæfi. Gleymum ekki að nýlega voru fréttir af barni sem hafði ekkert skólaúrræði hér í borg.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að gera breytingar á eigendastefnu Félagsbústaða hf. þannig að krafan um fjárhagslega sjálfbærni verði fjarlægð frá hlutverki Félagsbústaða. Í núverandi eigendastefnu stendur að „Rekstur Félagsbústaða hf. skal vera sjálfbær og skal arður eða ígildi hans ekki greiddur út til eigenda heldur varið til framkvæmda í samræmi við markmið félagsins.“ Borgarstjórn samþykkir að gera þær breytingar þannig að eftirfarandi orð setningarinnar: „Rekstur Félagsbústaða hf. skal vera sjálfbær“ verði fjarlægður og síðari hluti setningarinnar, þ.e.a.s.: „[...] skal arður eða ígildi hans ekki greiddur út til eigenda heldur varið til framkvæmda í samræmi við markmið félagsins“ vera færður aftan við ofanliggjandi málsgrein kaflans sem fjallar um rekstur og útleigu á félagslegu húsnæði. Þar kemur fram að hagnaði félagsins skuli varið í markmið félagsins, sem er að starfa í þágu almannaheilla samkvæmt félagslegum markmiðum. Rökin fyrir þessum breytingum eru þau að leigjendur Félagsbústaða hf. sem eru efnalitlir eiga ekki að þurfa að standa undir rekstrarkostnaði og sjálfbærni húsnæðisfélags sem á að veita þeim efnahagslega verst settu öruggt húsaskjól. Reykjavíkurborg er eigandi Félagsbústaða hf. og samþykkir hér með að gera þessar breytingar og tryggja fjárframlög úr borgarsjóði komi til halla í rekstri Félagsbústaða hf.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19050073

Tillagan er felld með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

7.    Samþykkt að taka kosningu í mannréttinda- og lýðræðisráð á dagskrá.

Lagt er til að Ásgerður Jóna Flosadóttir taki sæti í mannréttinda- og lýðræðisráði í stað Þórs Elís Pálssonar. R18060083

Samþykkt.

8.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4., 11. og 30. apríl og 2. maí. R19010002

- 15. liður fundargerðarinnar frá 4. apríl, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 vegna CrossFit Championship, lífeyris- og rekstrarskuldbindinga Sinfóníuhljómsveitar Íslands, samþykktar um eitt námsgjald þvert á skólastig, flutnings á afgangi og halla frá árinu 2017 og styrks til Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, er samþykktur. R19010200

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. apríl:

Sósíalistaflokkurinn lítur svo á að skólar eigi að vera gjaldfrjálsir á öllum skólastigum en telur þessar breytingar jákvætt skref en bendir þó á að þessar breytingar létta ekki undir með þeim sem eiga eitt barn og eru fjárhagslega illa stödd. Í því ljósi finnst fulltrúa Sósíalistaflokksins leitt að tillaga fulltrúans um að sá afsláttur sem einstæðir foreldrar, námsmenn og öryrkjar geta fengið af leikskólagjöldum barna, eigi einnig við inni á frístundaheimilum borgarinnar, hafi verið felld. Slíkt gerir mörgum foreldrum í erfiðri efnahagslegri stöðu enn erfiðara fyrir þar sem þeir finna fyrir auknum fjárútlátum þegar barn þeirra fer frá leikskólastigi og yfir á grunnskólastig. Nýlegar breytingar Reykjavíkurborgar gera það að verkum að hver fjölskylda greiðir einungis eitt námsgjald þvert á skólastig óháð fjölda barna. Slík breyting er jákvæð fyrir fjölskyldur með fleiri en eitt barn en gerir ekkert fyrir foreldra með eitt barn. Vonast er til þess að tekið verði tillit til foreldra í þessari stöðu og gjaldskrár endurskoðaðar til að auka samræmi. 

- 19. liður fundargerðarinnar frá 11. apríl; svar fjármálastjóra Reykjavíkur til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga vegna erindis nefndarinnar, dags. 7. mars sl., er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19030133

- 24. liður fundargerðarinnar frá 11. apríl; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 vegna fjárfestingaráætlunar A-hluta Reykjavíkurborgar, er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19010200

- 25. liður fundargerðarinnar frá 11. apríl; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna Tónlistarfélags Árbæjar, FabLab samstarfssamnings, ráðgjafar vegna innleiðingar þjónustustefnu, hugbúnaðarleyfa Microsoft, viðbótarkostnaðs hjá Hinu Húsinu o.fl., er samþykktur. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R19010200

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. apríl:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill mótmæla því sem fram kemur í bókun meirihlutans að kannanir hafi staðfest ánægju Reykvíkinga með göngugötur í miðborginni. Það kann að vera að ánægja sé með lokanir gatna fyrir bílaumferð yfir sumartímann en engar kannanir hafa sýnt að meirihluti Reykvíkinga sé ánægður með varanlega lokun þessara umræddu gatna fyrir allri umferð bíla. Þetta er einmitt dæmi um hvernig meirihluti þessarar borgarstjórnar reynir að slá ryki í augu fólks og sannfæra almenning um eitthvað sem er ekki rétt. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.

9.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 26. apríl og 3. maí, mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 11. apríl, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 1. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 9. og 24. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 3., 10., og 17. apríl, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 24. apríl og velferðarráðs frá 27. mars og 3. apríl. R19010073

1. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 3. maí, tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar 21. maí 2019, er samþykktur. R19010103

7. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 3. maí; breyting á viðaukum við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna fullnaðarafgreiðsluheimilda skipulagsfulltrúa, síðari umræða, er samþykktur. R18060129

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 3. maí:

Mikilvægt er að borgarkerfið sé skilvirkt og er þessi aðgerð því mikilvægt skref í að stytta boðleiðir í húsnæðis- og skipulagsmálum. Þá þarf áfram að bæta skilvirkni í byggingarverkefnum en afgreiðsla erinda hefur ítrekað tekið of langan tíma. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka mikilvægi þessarar tillögu enda mikið réttlætismál. Þessi tillaga hefur ekkert að gera með stofnun ungbarnadeilda sem ekki verða komnar í gagnið fyrr en eftir fáein ár. Þessi tillaga hefur heldur ekki bara að gera með það að „vera einstætt foreldri“ Þessi tillaga hefur að gera með það að vera einstætt foreldri þar sem hitt foreldrið hið forsjárlausa nýtir ekki þriggja mánaða fæðingarorlof sitt. Það veldur því að mun meira álag er á forsjárforeldrinu fyrstu mánuðina sem í sumum tilfellum leiðir til þess að það foreldri þarf að fara fyrr út á vinnumarkaðinn. Hér er ekki endilega um stóran hóp að ræða en mjög vel skilgreindan. Rökin fyrir að hafna þessari tillögu eru hvorki réttlát né skiljanleg

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins veit til þess að það eru ekki allir leikskólar ánægðir með hvernig borgin hefur staðið að málum er varða Vináttuverkefnið. Hér hefði borgarmeirihlutinn geta gert miklu betur og sýnt í verki með því að styrkja þá leikskóla sérstaklega sem eftir því sækjast að taka þetta verkefni í stað þess að leikskólar þurfi að klípa þessa upphæð af því litla fjármagni sem þeim er veitt. Deila má um svigrúmið sem er innan þess faglega fjármagns sem vísað er til í svari skóla- og frístundarráðs. Aðeins 23 leikskólar af 62 leikskólum borgarinnar og einn grunnskóli af þeim 33 grunnskólum sem eru með 1.-3. bekk taka þátt í verkefninu Vinátta. Þetta er skelfilega lágt hlutfall og langt í frá að ná helming hvað varðar leikskólana. Þetta verkefni á að styrkja sérstaklega og sá styrkur að vera algerlega utan við það fjármagn sem skólunum er áskipað. Þetta er enn eitt dæmið um forgangsröðun þess meirihluta sem ríkti og þess núverandi þar sem mál sem snúa að börnum virðast sjaldnast sett í forgang.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 24. apríl:

Til stendur að fækka fundum í umhverfis- og heilbrigðisráði, úr tveimur á mánuði í einn sem vekur furðu þar sem ekkert samráð hefur verið haft við minnihlutaflokkana um þá ákvörðun. Í ljósi þess að borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald verður þessi einhliða ákvörðun að teljast afar óásættanleg. Þá sýnir þessi fækkun funda að áherslur meirihlutans á umhverfis- og heilbrigðismál eru litlar sem engar og opinberar með öllu og að ekki var þörf á að setja á laggirnar heilt nýtt ráð með ærnum tilkostnaði undir málaflokkinn. Hrossakaup er það fyrsta sem kemur upp í hugann og alveg í takti við það sem gerðist eftir borgarstjórnarkosningarnar 2014 þegar búið var til nýtt ráð til að halda meirihlutanum í borginni. Umhverfismálin eiga að vera áfram undir skipulags- og samgönguráði því nú hefur komið í ljós að einnig er verið að fækka fundum í skipulagsráði úr fjórum fundum á mánuði í þrjá. Málaflokkarnir eru enda svo skyldir að boðað er að ráðin haldi nokkra fundi sameiginlega. Bent er á að ekki verður fundur í umhverfis- og heilbrigðisráði í 70 daga í sumar, það eitt sýnir tilgangsleysi ráðsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 2. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá  24. apríl:

Meirihluti umhverfis- og heilbrigðisráðs leggur áherslu á skilvirka og öfluga stjórnsýslu. Hún fæst meðal annars fram með skipulögðum fundarhöldum. Fundir systurráðanna tveggja (UH-ráð og SS-ráð) fyrir allt árið 2019 eru hér með lagðir fram. Fundum UH-ráðs er fækkað og þeir lengdir. Fundir ráðanna eru samræmdir þannig að UH-ráð fundar eina viku og SS-ráð næstu þrjár. Þannig verður allur undirbúningur fyrir ráðsfundina skilvirkari og betri, bæði fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa. Þessar breytingar munu nýtast öllum málaflokkum sem falla undir bæði ráðin. Áréttað skal að ráðum í stjórnsýslu borgarinnar var ekki fjölgað síðastliðið vor heldur heyra umhverfismálin nú til sama ráðs og heilbrigðisnefnd.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 2. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 24. apríl:

Það getur ekki talist skilvirk og öflug stjórnsýsla að takmarka lýðræðislega aðkomu kjörinna fulltrúa með einhliða ákvörðun meirihlutans í ráðinu að fækka fundum. Það skal áréttað að með stofnun nýs umhverfis- og heilbrigðisráðs var ráðum í 1. flokki fjölgað þar sem heilbrigðisnefnd var í 3. flokki áður.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 2. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 24. apríl:

Drög að fundadagskrá var lögð fyrir ráðið til skrafs og ráðagerða sem kjörnir fulltrúar gátu eðli málsins samkvæmt haft skoðanir á og breytt. Það er leitt að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sjái ekki að þetta fyrirkomulag skili vandaðri, skilvirkari og agaðri vinnubrögðum sem er til hagsbóta fyrir borgarbúa og starfsfólk borgarinnar. Þess má geta að fundir lengjast og gefinn verður meiri tími til umræðu í fagráðinu. Þess má einnig geta að haldnir hafa verið undirbúningsfundir í umhverfis- og heilbrigðisráði þar sem öllu ráðinu var boðið en fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks sáu sér aldrei fært að mæta á eða hafa nokkurt samband í kringum þá fundi eða gert tilraunir til að koma málum á dagskrá í tæka tíð á þeim vettvangi. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 3. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. apríl:

Í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór í borgarstjórn 2. apríl sl. vegna tillögu Flokks fólksins þar sem farið var fram á nánara samráð um framkvæmdir við hagsmunaaðila, eldri borgara, fatlaða og almenna borgarbúa víðs vegar í borginni, m.a. með vel útfærðri skoðanakönnun. Í ljós hefur komið að ekki er möguleiki að hefja undirbúning eða framkvæmdir fyrr en grenndarkynning hefur átt sér stað. Jafnframt þarf að kanna vilja allra Reykvíkinga áður en hafist er handa við svo stórtækar aðgerðir á einu vinsælasta svæði borgarinnar. Það skal jafnframt bent á að ekki stendur til að hreyfihamlaðir né aldraðir hafi aðgang að götunum þegar veður eru válynd. Þá verða göturnar lokaðar þeim stærsta hluta ársins. Ljóst er að meirihluti borgarstjórnar ætlar að troða sínum hugmyndum og áætlun á lokun þessara gatna yfir alla borgarbúa og taka lítið sem ekkert mark á óskum hópa sem hafa áhyggjur af þessum framkvæmdum, þá sérstaklega hagsmunaaðila við þessar götur. Þessir aðilar eru þeir sem halda lífinu lifandi í götunum, en það virðist meirihlutanum engan veginn ljóst. 

Fundi slitið kl. 20:12

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir    Björn Gíslason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 7.5.2019 - Prentvæn útgáfa