Borgarstjórn - 7.3.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 7. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi dagskrártillögu:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera svohljóðandi breytingar á dagskrá fundarins: Mál sem er númer 5 á útsendri dagskrá borgarstjórnar, umræða um málefni Borgarskjalasafns, verði númer 1. Mál sem er númer 3 á útsendri dagskrá, tillaga um framtíðartilhögun á starfsemi Borgarskjalasafns, verði númer 2. Mál sem er númer 1 á útsendri dagskrá, umræða um hvernig borgarstjórn endurheimti traust almennings, verði númer 3. Mál sem er númer 2 á útsendri dagskrá, tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um þróun og uppbyggingu á lífsgæðakjörnum fyrir eldri Reykvíkinga, verði númer 4. Mál sem er númer 4 á útsendri dagskrá, umræða um Betri borg fyrir börn og skilvirkni þess, verði númer 5. Að öðru leyti er dagskrá fundarins óbreytt. MSS23010044

Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

2.    Fram fer umræða um hvernig borgarstjórn endurheimti traust almennings.

-    Kl. 13:50 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.
-    Kl. 13:50 víkur Sabine Leskopf af fundinum. MSS23020139

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Traust til opinberra stofnanna og þar með talið borgarstjórnar hefur sveiflast þó nokkuð undanfarin ár. Traust er að minnka í hinum vestræna heimi og er það áhyggjuefni. Hvað okkur í borgarstjórn varðar þá höfum við mýmörg tækifæri til að bæta orðspor og traust til borgarstjórnar. Fyrst og síðast er það gullna reglan um góð samskipti og virðingu fyrir hvert öðru, virðingu fyrir þjónustu borgarinnar, virðingu fyrir starfsfólki, tala málefnalega um málefni borgarinnar, tala vel um það sem vel er gert í þjónustu borgarinnar, tala vel um starfsfólkið sem vinnur verk sín af fagmennsku og metnaði alla daga og tala málefnalega um borgarfulltrúa allra flokka. Við erum öll samábyrg. Við getum öll haft áhrif á það að breyta þessu ef við viljum. Það verður ekki gert með því að benda í allar áttir. Það er í okkar höndum ef við viljum auka traust íbúa borgarinnar. Við munum fylgja málinu eftir í forsætisnefnd og skoða leiðir og verkefni sem við getum staðið saman að til þess að bæta ímynd borgarstjórnar og traust almennings.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn Reykjavíkur mælist með minnst traust þeirra stofnana sem nýr þjóðarpúls Gallup tók til. Borgaryfirvöld hafa ekki sinnt grunnþörfum, fjöldi er á bið eftir lögbundinni þjónustu og fjöldi íbúa og barna býr við ótryggar húsnæðisaðstæður í þeirri húsnæðiskreppu sem ríkir. Á meðan heimilislausum sem hafa hvergi höfði sínu að halla er vísað út í kuldann hrannast lúxusíbúðir upp fyrir þau ríku. Gjaldtaka fer sífellt hækkandi og bitnar verst á þeim sem ekki geta borið hana. Börn eru rukkuð fyrir grunnþjónustu á meðan borgaryfirvöld berjast ekki fyrir réttlátari skattheimtu. Stofnanir eru undirfjármagnaðar og slíkt bitnar á almenningi þar sem grunninnviðir drabbast niður og eru undirbúnir til útvistunar, sem síðan grefur enn frekar undan því að hægt sé að reka öfluga grunnþjónustu. Á meðan íbúar eru hvattir til að nota almenningssamgöngur er ekki unnið að því að byggja upp þá innviði svo þeir séu áreiðanlegir. Augljóst er að laga þarf það sem er bilað í borginni, byrja þarf á þeim sem búa við mesta óréttlætið og byggja þarf borgina út frá þörfum þeirra og væntingum. Traust er ekki hægt að efla þegar það er sífellt brotið með óuppfylltum loforðum og sinnuleysi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það skal ekki undra að traust almennings til meirihlutans í borgarstjórn er lítið sem ekkert. Síðustu meirihlutar undir stjórn borgarstjóra hafa gert ítrekuð alvarleg mistök í störfum sínum og ekki komið heiðarlega fram við borgarbúa. Í dag verða enn ein afglöpin gerð með því að leggja niður Borgarskjalasafn og undir það ætla Framsóknarmenn, nýir fulltrúar í meirihlutanum að kvitta. Það er mat Flokks fólksins að borgarstjóri sé fyrir löngu búinn að tapa yfirsýn og eru embættismenn farnir að stýra borginni. Flokkur fólksins óttast að verið sé að stýra skútunni í strand. Fjármálin eru í lamasessi og ítrekað er farið gegn óskum borgarbúum og að þeim logið. Skemmst er að minnast leikskólamálanna. Dæmi um forgangsmál meirihlutans er menningarhús í Grófinni, göngugötur og þétting byggðar þar sem bílar fá helst ekki aðkomu. Börn sem þurfa þjónustu vegna vanlíðunar sinnar eru sett á bið. Skilvirkni í rekstri og þjónustu er víða alvarlega ábótavant. Þetta er ástæða þess að traust mælist svo lágt. Það segir sig sjálft að mælingar lagast ekki fyrr en forgangsröðun verður í þágu fólksins og komið verður heiðarlega fram við það, haft við það samráð og virkt gagnsæi verði í störfum borgarinnar.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að skipa stýrihóp um áframhaldandi þróun og uppbyggingu á lífsgæðakjörnum fyrir eldri Reykvíkinga. Stýrihópnum verði falið skoða þá lífsgæðakjarna sem nú eru starfræktir í borginni og þá sem eru fyrirhugaðir. Einnig skal stýrihópurinn meta hvernig hægt er að styðja betur við fjölbreytta húsnæðiskosti eldra fólks. Nauðsynlegt er einnig að leggja mat á framtíðareftirspurn húsnæðis eldra fólks og þá lýðfræðilegu þróun sem er framundan til næstu 25 ára. Þá skal hópurinn leggja fram hugmyndir eða tillögur að því hvar í borgarlandinu væri hægt að skipuleggja ný svæði fyrir lífsgæðakjarna. Erindisbréf hópsins, sem þrír kjörnir fulltrúar skulu skipa, skal kveða á um að samráð verði haft við félög eldri borgara og þá aðila sem sinna þessari starfsemi núna, þá skulu velferðar- og umhverfis- og skipulagssvið styðja við starf stýrihópsins. Stýrihópurinn skal skila niðurstöðum og tillögum eigi síðar 1. september 2023.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23030035
Tillögunni er vísað frá með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

-    Kl. 15:10 víkur Björn Gíslason af fundinum og Helgi Áss Grétarsson tekur sæti. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa vonbrigðum sínum með frávísun meirihlutans á tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stýrihóp um þróun og uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldri Reykvíkinga. Tillagan miðaði að því að færa á svið borgarstjórnar húsnæðismál eldri Reykvíkinga, veita pólitíska forystu og draga fram hvernig lýðfræðileg þróun kallar á aðgerðir. Þá miðaði tillagan að því að reyna að leggja mat á framtíðareftirspurn eftir ólíkum búsetuvalkostum eldra fólks. Samkvæmt mannfjöldaspám Hagstofunnar mun eldri Íslendingum fjölga hlutfallslega mikið á næstu árum og áratugum. Eldri Reykvíkingar eiga skilið að þeim bjóðist góðir og fjölbreyttir húsnæðiskostir í öruggu umhverfi með greiðu aðgengi að heilsutengdri þjónustu, félagsskap og stuðningi við að búa heima hjá sér og sjá um eigið heimili fram eftir ævinni. Meirihlutinn tók þá ákvörðun að hafna samvinnu og samstarfi í borgarstjórn um húsnæðismál eldri Reykvíkinga og vísaði í 10 mánaða gamla ákvörðun um auglýsingu um samstarfsaðila í þessum málaflokki. Sú auglýsing hefur enn ekki birst, enda meirihlutinn verklaus í öllum málum sem bæta þjónustu við borgarana.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í samstarfssáttmála Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar segir „Við viljum stuðla að skipulagi og uppbyggingu lífsgæðakjarna í borginni í breiðu samráði, meðal annars með hugmyndasamkeppni. Við viljum fjölga hjúkrunarheimilum og efla samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun til að styðja við sjálfstæði fólks til að það geti búið sem lengst á eigin heimili.“ Vinna við að efna þetta markmið í samstarfssáttmálanum gengur vel. Fljótlega auglýsir Reykjavíkurborg eftir áhugasömum aðilum til þess að ráðast í uppbyggingu lífsgæðakjarna og þeirra sýn á það hvernig slíkir lífsgæðakjarnar ættu að vera. Fyrir liggur að ýmsir aðilar eru áhugasamir um að ráðast í slík verkefni bæði á borgarlandi og landi í eigu einkaaðila. Þessi vinna verður unnin í góðu samráði við félög eldra fólks og uppbyggingaraðila með tilliti til lýðfræðilegrar þróunar og framtíðar eftirspurnar. Þess vegna leggja borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar til að tillögunni verði vísað frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fjölmargir eldri Reykvíkingar njóta húsnæðisöryggis. Fólk á almennum leigumarkaði er í erfiðari stöðu. Sjálfsagt er að skipa stýrihóp um áframhaldandi þróun og uppbyggingu á búsetuúrræðum fyrir eldri Reykvíkinga sem starfar með hagsmunasamtökum eldra fólks. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur um skipulagða byggð fyrir eldra fólk. Það er hlutverk Reykjavíkurborgar að mæta fjölgun eldri borgara í borginni. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsnæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð. Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Þar þarf að hugsa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Með slíku er hægt að styðja við að eldast heima. Það vantar þjónustuíbúðir, uppbygging þeirra gengur hægt. Það vantar einnig leiguíbúðir með sameiginlegri félagsaðstöðu fyrir eldri Reykvíkinga, búsetuúrræði sem er t.d. rekið eftir Eden hugmyndafræðinni. Það væri eins konar millistig milli sjálfstæðrar búsetu og hjúkrunarrýmis. Fulltrúi Flokks fólksins elur enn þá von í brjósti að Reykjavík eigi eftir að eignast hagsmunafulltrúa aldraðra sem gæti einmitt unnið að þróun og uppbyggingu á lífsgæðakjörnum fyrir eldri Reykvíkinga.

4.    Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. febrúar 2023, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að borgarráð samþykki að starfsemi Borgarskjalasafns taki breytingum í samræmi við valkost þrjú í meðfylgjandi skýrslu KPMG um framtíðarhögun á starfsemi safnsins og verði verkefninu flýtt eins og kostur er. Tillagan felur í sér að skilgreind lögbundin verkefni þess verði flutt til Þjóðskjalasafns Íslands. Þjónustu- og nýsköpunarsviði verði falið að fylgja ákvörðuninni eftir m.a. með því að ganga frá samkomulagi um útfærslu og framkvæmd við Þjóðskjalasafn. Verkefni sem snúa að menningarmiðlun verði flutt til Borgarsögusafns og/eða annarra menningarstofnana á menningar- og íþróttasviði skv. nánari útfærslu. Í tillögunni felst því að Borgarskjalasafn verður lagt niður í núverandi mynd.

Greinargerð fylgir tillögunni. ÞON23010028

-    Kl. 16:38 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Stefán Pálsson tekur sæti.
-    Kl. 17:59 tekur Trausti Breiðfjörð Magnússon sæti á fundinum og Andrea Helgadóttir víkur af fundi.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um frávísun málsins er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins og Vinstri grænna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Borgarstjórn samþykkir að vinna nánari greiningar á tillögum og ólíkum sviðsmyndum um framtíðarhögun á starfsemi Borgarskjalasafns. Endanleg ákvörðun í málinu verði hvorki tekin fyrr en að undangengnu ítarlegu samtali og samvinnu við bæði ráðherra menningarmála og Þjóðskjalasafn, né fyrr en starfshópur menningar- og viðskiptaráðherra um framtíðarfyrirkomulag skjalasafna og mótun stefnu um rafræna langtímavörslu skjala hefur lokið störfum. Jafnframt verði þess gætt að til grundvallar tillögunni liggi ítarlegar greiningar á því hagræði sem náð skal fram með breytingunni, þeim fjárhagslegu forsendum sem ákvörðuninni er ætlað að byggja á og því hvernig kostnaði við mögulega yfirfærslu verkefna verður skipt milli ríkis og borgar.

Greinargerð fylgir breytingartillögunni.

Breytingartillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins og Vinstri grænna.

Forseti ákveður samkvæmt ósk borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að fram fari nafnakall um tillögu borgarstjóra með vísan til 3. mgr. 28. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar. 
Já segja Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Einar Þorsteinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Nei segja Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Kolbrún Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Stefán Pálsson og Trausti Breiðfjörð Magnússon. 
Tillaga borgarstjóra um framtíðarhögun starfsemi Borgarskjalasafns er samþykkt. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samkvæmt greiningu sem liggur fyrir er þörf á töluverðri uppbyggingu innviða til þess að standa undir kröfum nútíðar og framtíðar um gagnageymd og gagnaöryggi borgarinnar. En einnig til að tryggt sé að hætt verði að safna metrum af skjalaskápum af gögnum á pappír. Þessi ákvörðun snýst um umhverfið, um betri nýtingu fjármagns, um húsnæði og um mannauð. Mikil samlegðaráhrif felast í því að Þjóðskjalasafn taki að sér þetta mikilvæga gagnageymdarhlutverk og styrki þá um leið grundvöll Þjóðskjalasafns til þess að bæta sína innviði, frekar en að margir aðilar séu hver í sínu horni að byggja upp sams konar gagnaver, slíkt er hvorki umhverfisvænt né fjárhagslega skynsamlegt. Verkefni sem snúa að menningarmiðlun verða flutt til Borgarsögusafns, Borgarbókasafns eða annarra viðeigandi menningarstofnana Reykjavíkurborgar og þar er tækifæri til að auka og bæta aðgengi borgarbúa að menningararfi borgarinnar. Starfshópur sem vann fyrirliggjandi tillögur var skipaður starfsfólki víðsvegar úr borgarkerfinu, þar á meðal var borgarskjalavörður. Hópurinn átti víðtækt samráð og fékk til viðtals starfsfólk af þjónustu- og nýsköpunarsviði, menningar- og ferðamálasviði, Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni, þar á meðal þjóðskjalavörð. Í ljós kom í því samtali að samskonar þróun á sér nú stað allt í kringum okkur á Norðurlöndunum. Framundan er vandað samráð við ráðherra málaflokksins, Þjóðskjalasafn og aðra um framtíðar tilhögun. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins harma að meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar hafi ekki samþykkt tillögu minnihlutans um vandaðri undirbúning þeirrar tillögu sem hér er til afgreiðslu. Fulltrúarnir undirstrika mikilvægi þess að hagrætt verði í rekstri borgarkerfisins og að leitað verði leiða til einföldunar stjórnkerfisins. Í því skyni er sjálfsagt að kanna nánar ólíkar tillögur og sviðsmyndir um framtíðarhögun á starfsemi Borgarskjalasafns. Það er þó mikilvægt að vanda til verka við alla ákvarðanatöku hvað varðar framtíð safnsins, og að allar fjárhagslegar forsendur sem liggja að baki ólíkum sviðsmyndum, kostnaðargreiningum og áætluðu hagræði verði skýrar, ítarlegar og vel ígrundaðar. Fyrirséð er að allar umfangsmiklar breytingar munu taka langan tíma og því óskiljanlegt hvers vegna málið er afgreitt í svo miklum flýti.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í því ferli sem við sósíalistar höfum orðið vitni að í þessu máli hefur ekki verið minnst einu orði á lýðræðislegt mikilvægi þess að varðveita sögu sína. Það þarf að gera til að fræðasamfélagið geti greint hana og miðlað henni af sinni sérþekkingu og borgararnir sem kjósendur og þátttakendur í lýðræðissamfélagi hafi möguleika á taka upplýstar ákvarðanir í ljósi hennar. Þetta er eitt lykilhlutverk skjalasafna. Það veldur áhyggjum hversu litla innsýn borgarstjórnarmeirihlutinn virðist hafa í þetta mikilvæga hlutverk safnsins. Ekki er heldur minnst á það í neinum umsögnum eða greinargerðum meirihlutans varðandi tillögu um framtíð Borgarskjalasafns, að það sé lykilatriði að viðhalda samfellu í starfi. Ekki einu sinni úr ráði sem á að sinna ráðgjöf til borgarráðs um lýðræði og gagnsæi. Tillaga borgarstjóra er á engan hátt tímabær ákvörðun. Ef viðræður við ríkið um yfirtöku verkefnisins stranda eftir að lokum tímalínunnar er náð, hefur safninu blætt út allri sérþekkingu í millitíðinni. Mikilvægt er að halda í þá þekkingu sem býr í fólkinu sem þarf að vera til staðar í svo mikilvægri stofnun. Sósíalistar leggjast alfarið gegn því að Borgarskjalasafnið verði lagt niður.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjóri er að gera mistök með því að leggja niður Borgarskjalasafn undir merkjum sparnaðar. Borgarstjóri er að fylgja eftir vondri og eiginlega óskiljanlegri ráðgjöf. Borgarskjalasafn heyrir undir sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem er sérkennilegt þar sem það svið hefur það hlutverk að styðja við svið og stofnanir borgarinnar en ekki ráðskast með þær eða leggja niður. Meintur sparnaður við aðgerðina er stórlega ýktur. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við kostnaðarmat í skýrslu KPMG af borgarskjalaverði. Kostnaðurinn er uppblásinn og kostnaðarliðir eins og rekstri og kostnaði við byggingu blandað saman. Fullyrt er af starfsfólki að farið var á svig við samráð og samvinnu við starfsmenn og borgarskjalavörð og kom ákvörðun um niðurlagningu eins og blaut tuska í andlit þeirra. Lítil framtíðarsýn er um hvað gera eigi við þau gríðarlegu verðmæti sem safnið heldur utan um og þjónustuna sem það veitir. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að verja þurfi milljörðum í skrifstofur fyrir safnið þar sem það eigi að víkja úr Grófinni. Miðað er við áratuga greiningu á húsnæðisþörf fyrir tíma stafrænnar geymslu. Þetta stendur allt í skýrslu KPMG án þess að rætt hafi verið við borgarskjalavörð um málið sem hlýtur að þekkja þarfir þess best. Að baki þessum gjörningi liggur eitthvað allt annað en sparnaður.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna lýsir hryggð yfir því menningarlega metnaðarleysi sem birtist í þeirri ákvörðun borgarstjórnarmeirihlutans að leggja niður með pennastriki Borgarskjalasafn, sem þjónað hefur borginni vel í áratugi. Það að reka öflugt héraðsskjalasafn ætti að vera keppikefli Reykjavíkurborgar. Í slíkri stofnun felast bæði verðmæti og mikilvæg tækifæri, ekki hvað síst á tímum þegar borgin er á stafrænni vegferð sem mikið er látið með. Hætt er við að ákvörðun þessi muni leiða til verri þjónustu við borgarana og lengri boðleiðir í leit að skjölum kunna að reynast borginni kostnaðarsamar. Ekki verður heldur fram hjá því litið að vinnubrögð þau sem viðhöfð voru í aðdraganda ákvörðunarinnar voru algjörlega óásættanleg þar sem mikið vantaði upp á samráð við starfsfólk, sérfræðinga og helstu notendur safnsins.

5.    Samþykkt að fresta umræðu um verkefnið Betri borg fyrir börn og skilvirkni þess með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23030036

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla harðlega þeirri ákvörðun fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að ryðja tveimur málum af dagskrá borgarstjórnarfundarins í krafti meirihluta atkvæða. Slíkt sýnir að meirihlutinn er reiðubúinn að beita gerræðislegum vinnubrögðum til að takmarka lögverndaðan rétt borgarfulltrúa minnihlutans til að setja mál á dagskrá borgarstjórnarfunda og fá þau þar tekin til umræðu og afgreiðslu.

6.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík. Slíkum skýlum verði komið fyrir á fjölförnum biðstöðvum í öllum hverfum borgarinnar í því skyni að bæta aðstæður farþega og fjölga viðskiptavinum Strætó.

Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að fresta málinu.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23030037

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla harðlega þeirri ákvörðun fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að ryðja tveimur málum af dagskrá borgarstjórnarfundarins í krafti meirihluta atkvæða. Slíkt sýnir að meirihlutinn er reiðubúinn að beita gerræðislegum vinnubrögðum til að takmarka lögverndaðan rétt borgarfulltrúa minnihlutans til að setja mál á dagskrá borgarstjórnarfunda og fá þau þar tekin til umræðu og afgreiðslu. 
 
7.    Fram fer umræða um hlutverk Borgarskjalasafns Reykjavíkur. ÞON23010028

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í því ferli sem við sósíalistar höfum orðið vitni að í þessu máli hefur ekki verið minnst einu orði á lýðræðislegt mikilvægi þess að varðveita sögu sína. Það þarf að gera til að fræðasamfélagið geti greint hana og miðlað henni af sinni sérþekkingu og borgararnir sem kjósendur og þátttakendur í lýðræðissamfélagi hafi möguleika á taka upplýstar ákvarðanir í ljósi hennar. Þetta er eitt lykilhlutverk skjalasafna. Það veldur áhyggjum hversu litla innsýn borgarstjórnarmeirihlutinn virðist hafa í þetta mikilvæga hlutverk safnsins. Ekki er heldur minnst á það í neinum umsögnum eða greinargerðum meirihlutans varðandi tillögu um framtíð Borgarskjalasafns, að það sé lykilatriði að viðhalda samfellu í starfi. Ekki einu sinni úr ráði sem á að sinna ráðgjöf til borgarráðs um lýðræði og gagnsæi. Tillaga borgarstjóra er á engan hátt tímabær ákvörðun. Ef viðræður við ríkið um yfirtöku verkefnisins stranda eftir að lokum tímalínunnar er náð, hefur safninu blætt út allri sérþekkingu í millitíðinni. Mikilvægt er að halda í þá þekkingu sem býr í fólkinu sem þarf að vera til staðar í svo mikilvægri stofnun. Sósíalistar leggjast alfarið gegn því að Borgarskjalasafnið verði lagt niður.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Meirihlutinn í borgarstjórn hefur lagt niður Borgarskjalasafn. Allir í minnihluta greiddu atkvæði gegn tillögunni. Til grundvallar er skýrsla KPMG. Sagt er að gjörningurinn sé til að spara sem einfaldlega stenst ekki. Þegar ávirðingar á einhvern starfsmann eða stofnun í skýrslu sem þessari eru settar fram án þess að gefa viðkomandi aðila tækifæri til að tjá sig um málið þá er verið að brjóta stjórnsýslulög. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ófagmannlegt að birta slíkar ávirðingar, í keyptri milljóna skýrslu, án þess að andmælaréttur viðkomandi sé virtur. Að baki liggur eitthvað allt annað en sparnaður. Rekstur Borgarskjalasafns kostar nálægt 7,5% af þeim fjármunum sem hafa runnið til starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs á hverju ári að undanförnu svo það dæmi sé tekið til samanburðar (200 milljónir á móti þremur milljörðum). Hvað fjármuni varðar þá er enginn vandi að fá út háar fjárhæðir ef nógu mörgum árum er hrært saman. Rekstur Borgarskjalasafns kostar ekki mikið. Laun undir 100 milljónum króna á ári og annar kostnaður um 100 milljónir á ári. Ekkert af þessu var borið undir borgarskjalavörð. Allt yfirbragð KPMG skýrslunnar hefur það að markmiði að komast að tiltekinni niðurstöðu, að leggja Borgarskjalasafnið niður í núverandi mynd.

8.    Samþykkt að fresta kosningu í menningar-, og íþrótta- og tómstundaráð. MSS22060045

9.    Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í stafrænu ráði í stað Rannveigar Ernudóttir og að Rannveig taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Magnúsar Davíðs Norðdahl.
Samþykkt. MSS22060158

10.    Samþykkt að taka kosningu í skóla- og frístundaráð á dagskrá. Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Rannveigar Ernudóttur.
Samþykkt. MSS22060048

11.    Samþykkt að taka kosningu í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks á dagskrá. Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í stað Rannveigar Ernudóttur og að Rannveig taki sæti sem varafulltrúi í nefndinni í stað Magnúsar Davíðs Norðdahl. Jafnframt er lagt til að Elísabet verði formaður nefndarinnar.
Samþykkt. MSS22060053

12.    Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í umhverfis- og skipulagsráð. Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti sem varafulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði í stað Rannveigar Ernudóttur.
Samþykkt. MSS22060046

13.    Samþykkt að taka kosningu í innkaupa- og framkvæmdaráð á dagskrá. Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Kristins Jóns Ólafssonar og að Kristinn taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Rannveigar Ernudóttur.
Samþykkt. MSS22060064

14.    Samþykkt að taka kosningu í íbúaráð Breiðholts á dagskrá. Lagt til að Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir taki sæti sem varafulltrúi í íbúaráði Breiðholts í stað Alexöndru Briem.
Samþykkt. MSS22060056

15.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 2. mars. MSS23010001

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. og 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. mars:

Liður 11: Regluvörður hefur óskað eftir því við þjónustu- og nýsköpunarsvið að útbúa rafræna lausn við söfnun upplýsinga um innherjaskráningar frá starfsmönnum og kjörnum fulltrúum til að einfalda skráningu. Beiðnin er enn í bið hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og óvíst hvort eða hvenær hún verður afgreidd. Hér er einmitt vandamál sviðsins í hnotskurn. Það eru fleiri sem kvarta sáran yfir hægagangi hjá sviðinu með ýmsar lausnir. Liður 19: Niðurlagning Borgarskjalasafns. KPMG skýrslan er ekki vandað plagg að mati Flokks fólksins. Niðurstaðan er pöntuð. Flokkur fólksins telur að borgarstjóri og hans fólk séu fyrir löngu búin að ákveða að leggja niður Borgarskjalasafn og fengið KPMG til að leiða að þeirri niðurstöðu í skýrslunni. Einungis voru höfð tvö viðtöl við borgarskjalavörð og teymisstjóra eftirlits og rafrænna skila. Ekkert hefur verið fundað með öllum starfsmönnum Borgarskjalasafns, engir stefnumótunar- eða verkefnafundir haldnir með starfsmönnum. Greinendur hafa ekki kynnt sér ítarlega verkefni eða störf safnsins. Hér er ekki um neina stefnumótunarvinnu að ræða heldur er aðeins keyrt áfram og yfir alla sem málið varðar. Skýrslan er neikvæð, full af ávirðingum gagnvart borgarskjalaverði. Flokkur fólksins telur að borgarstjóri eigi umsvifalaust að draga þessa tillögu til baka og biðja starfsfólk Borgarskjalasafns afsökunar.

16.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 3. mars, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 20. febrúar, stafræns ráðs frá 22. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. mars og velferðarráðs frá 1. mars. MSS23010061

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerð borgarráðs frá 2. mars 2023: 

Ein helsta frumskylda hvers sveitarfélags er að hýsa grunnþjónustu og halda því húsnæði við með sómasamlegum hætti. Undanfarinn áratug hefur pólitísk yfirstjórn borgarinnar stórlega vanrækt viðhald leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila en sett margvísleg gæluverkefni í forgang. Slík vanræksla hefnir sín og er til langs tíma mun kostnaðarsamari en sá kostur að sinna ekki viðhaldi jafnóðum. Samkvæmt framlögðu mati er brýn þörf á viðhaldi í 37 skólum og þörf á meiriháttar viðhaldi í 76 skólum til viðbótar. Alls er því þörf á meiri háttar viðhaldi í 113 af 136 eða í 83% af skóla- og frístundabyggingum borgarinnar. Þessar tölur eru ekki einungis vitnisburður um kolranga forgangsröðun í viðhalds- og byggingarmálum Reykjavíkurborgar sl. áratug. Þær leiða einnig í ljós vítaverða vanrækslu og arfaslaka verkstjórn pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar á þessum tíma undir forystu Samfylkingarinnar.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir fundargerð stafræns ráðs frá 22. febrúar: 

Fyrir liggur umsögn ráðsins um áform þess efnis að leggja niður Borgarskjalasafn Reykjavíkur án viðunandi samráðs við sjálfan borgarskjalavörð og sem virðast einungis byggð á skýrslu ráðgjafafyrirtækis á sviði rekstrar og endurskoðunar sem rýnir í kostnaðarliði og fjárhagslegt mat, aðila sem býr hvorki yfir fagþekkingu til að meta menningarverðmæti safnsins né mikilvægi lýðræðis- og eftirlitshlutverks þess. Fulltrúi sósíalista spurði á kynningu á skýrslunni hvar þær fórnir kæmu fram sem hlytu að felast í gríðarlegum áætluðum peningasparnaði við að fela Þjóðskjalasafni verkefni Borgarskjalasafns og hvernig þær reiknuðust í krónutöluna. Ekki fengust viðunandi eða skýr svör við þeim spurningum. Forkastanlegt er að taka slíkar ákvarðanir án þess að bera þær undir fagfólk með skilning á menningarverðmætum sem ekki reiknast fram í reiknivélum bókhaldsfyrirtækja, án vitundar og fulls samráðs þeirra sem hafa varðveitt safnið af fagmennsku og af skyldurækni við stofnanir og einstaklinga sem hafa falið því einkasöfn sín til varðveislu. Skjalasöfn varðveita mikilvæg gögn sem hafa bein áhrif á almenn og sértæk réttindi borgara og lögaðila sem þarf ávallt að vera hægt að ganga að sem vísum. Því er ekki hægt að samþykkja umsögnina, sem vanrækir það hlutverk ráðsins sem snýr að lýðræði og gagnsæi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. og 6 lið fundargerðar stafræns ráðs frá 22. febrúar:

Liður 5: Í svari sviðsins segir að Gartner og Bloomberg ásamt John Hopkins háskólanum hafi verið að leita út um allan heim eftir viðurkenndum mælikvörðum sem mæla ávinning stafrænnar umbreytingar en án árangurs. Þrátt fyrir það ákvað sviðið að eyða bæði tíma og fjármunum í að leita þessara mælikvarða innanlands sem utan. Það er í raun með ólíkindum hversu langt þjónustu- og nýsköpunarsvið virðist ætla að ganga í leit sinni að mælikvörðum til að mæla sjálft sig. Það hljóta að vera góðar og gildar ástæður fyrir því að engar aðrar borgir í heiminum séu að eyða tíma í svona lagað. Það á ekki að vera hlutverk þjónustu- og nýsköpunarsviðs að sjá um úttektir á meintri arðsemi sjálfs síns heldur er það hlutverk óháðra ytri aðila. Liður 6: Á sama tíma og þjónustu- og nýsköpunarsvið heldur fram að engir mælikvarðar séu til í veröldinni til að mæla ábata stafrænna umbreytinga, er fullyrt að „góður og vandaður undirbúningur þar sem m.a. lögð er áhersla á að draga fram og skilja raunverulegar þarfir notenda hefur ítrekað sýnt sig að vera mjög hagkvæm nýting á tíma og fjármunum.“ Svör sviðsins eru eins og oft áður, meira í takt við hentugleika hverju sinni en raunveruleika.

17.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun vegna fundargerðar borgarstjórnar 21. febrúar:

Á síðasta borgarstjórnarfundi, 21. febrúar sl., lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um samráð við íbúa og rekstraraðila vegna breytinga við Brautarholt, sem óskað var eftir að tekin yrði á dagskrá með afbrigðum. Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar höfnuðu því hins vegar að tillagan yrði tekin á dagskrá. Umrædd tillaga birtist ekki í fundargerð fundarins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera athugasemd við það og óska eftir því að tillagan, sem er meðfylgjandi, verði birt í fundargerð þessa fundar: Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, lögð fram á fundi borgarstjórnar 21. febrúar 2023: Lagt er til að fyrirliggjandi tillaga, sem felur í sér breytingar á gangstétt og fækkun almennra bifreiðastæða við Brautarholt verði kynnt fyrir íbúum og rekstraraðilum í næsta nágrenni áður en lengra er haldið, þ.e.a.s. við Brautarholt, Stúfholt, Ásholt, Mjölnisholt, Stakkholt og Skipholt á kaflanum milli Brautarholts og Stórholts. MSS23010002

Fundi slitið kl. 19:15

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon    Árelía Eydís Guðmundsdóttir