Borgarstjórn - 7.3.2017

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 7. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga Hildar Sverrisdóttur borgarfulltrúa:

Borgarstjórn beinir þeim tilmælum til Alþingis að í meðförum áfengisfrumvarpsins svokallaða verði tekið mið af að aukin smásöluverslun með áfengi styður við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbær hverfi.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillagan er felld með átta atkvæðum borgarfulltrúanna Dags B. Eggertssonar, Lífar Magneudóttur, Skúla Helgasonar, Sabine Leskopf, Ilmar Kristjánsdóttur, Elsu Hrafnhildar Yeoman, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúanna Halldórs Halldórssonar, Kjartans Magnússonar, Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, Hildar Sverrisdóttur og Halldórs Auðars Svanssonar

Borgarfulltrúarnir Hjálmar Sveinsson og Magnús Már Guðmundsson sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki er útséð um hvernig áfengisfrumvarpið fer í meðförum þingsins og því ekki útséð um hvernig endanleg útfærsla verður. Þó er ljóst, enn sem fyrr, að aukin smásöluverslun með áfengi í einhvers konar mynd styður við sjálfbærni hverfa. Því veldur vonbrigðum að vilji meirihlutans til að stuðla að framgangi markmiða aðalskipulags síns hafi ekki orðið ofan á, og Alþingi hvatt til að taka mið af þeim anga málsins, heldur einblínt á aðra þætti áfengisfrumvarpsins sem voru tillögunni í raun óviðkomandi.

Borgarfulltrúarnir Dagur B. Eggertsson, Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Sabine Leskopf, Ilmur Kristjánsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir leggja fram svohljóðandi bókun:

Staðsetning áfengisverslana getur haft áhrif á skipulag og stefnumörkun í aðalskipulagi, og unnið með kaupmanninum á horninu og einstökum hverfiskjörnum, eða á móti þeim. Áfengisfrumvarpið á Alþingi varðar hins vegar fleiri þætti, svo sem lýðheilsu, málefni barna og unglinga og forvarnarstarf. Landlæknir og fleiri aðilar hafa viðhaft varnaðarorð um samþykkt frumvarpsins. Hægt væri að skilja samþykkt fyrirliggjandi tillögu þannig að skipulagsleg rök séu þau sem vega þyngst eða jafnvel þau einu sem borgarstjórn eigi að leggja til grundvallar í afstöðu sinni til þessara mála og fyrirliggjandi frumvarps á Alþingi. Undirritaðir borgarfulltrúar styðja hana því ekki.

Borgarfulltrúi Pírata, Halldór Auðar Svansson, leggur fram svohljóðandi bókun:

Í umræddu frumvarpi sem nú liggur fyrir á þingi er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir muni hafa nokkuð ríkar heimildir til að stýra staðsetningum smásöluverslana með áfengi. Borgarfulltrúi Pírata tekur undir það mikilvæga sjónarmið að slíkt styður við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbær hverfi. Verði frumvarpið ekki samþykkt er ÁTVR eindregið hvatt til að vinna náið með borginni að því að fella staðsetningu vínbúða að þessu markmiði aðalskipulags.

- Kl. 16.20 taka Heiða Björg Hilmisdóttir og Eva Einarsdóttir sæti á fundinum og Ilmur Kristjánsdóttir og Sabine Leskopf víkja.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að óska eftir því við Menntamálastofnun að Reykjavíkurborg fái sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í borginni í PISA-könnun 2015 í einstökum greinum; þ.e. lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði. Umræddar upplýsingar um árangur hvers skóla verði sendar viðkomandi skólastjórnendum sem kynni þær fyrir skólaráðum sínum og stjórn foreldrafélags í því skyni að hvetja til upplýstra umræðna um kennsluhætti og námsárangur.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að óska eftir því við Menntamálastofnun að Reykjavíkurborg fái sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í borginni í PISA-könnun 2015 í einstökum greinum; þ.e. lesskilningi, náttúruvísindum og stærðfræði, ásamt því að upplýst verði jafnframt um hvaða tegund (1-90) hver og einn skóli tók. Umræddar upplýsingar um árangur hvers skóla verði sendar viðkomandi skólastjórnendum sem kynni þær fyrir skólaráðum sínum og stjórn foreldrafélags í því skyni að hvetja til upplýstra umræðna um kennsluhætti og námsárangur.

Breytingartillagan er felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Upphafleg tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Það lýsir skammsýni og metnaðarleysi hjá borgarfulltrúum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna að hafna því að Reykjavíkurborg óski eftir sundurgreindum upplýsingum um árangur hvers skóla í borginni í PISA-könnun 2015 í einstökum greinum og afhendi þær viðkomandi skólastjórnendum, vilji þeir nota þær í því skyni að bæta skólastarfið. Flest önnur sveitarfélög landsins munu fá slíkar niðurstöður og nýta þær vafalaust til umbóta í skólastarfi sínu. Mörg erlend skólakerfi nota niðurstöður PISA prófa til að gefa grunnskólum endurgjöf á starf þeirra. Íslenska menntakerfið er í kjörstöðu að því leyti að hér þreyta allir 10. bekkingar PISA prófið og því ættu niðurstöður þess að nýtast betur en í öðrum OECD-ríkjum þar sem einungis er um úrtak að ræða. Árið 2012 tók Námsmatsstofnun (forveri Menntamálastofnunar) saman greinargóðar upplýsingar um frammistöðu hvers skóla. Margir skólastjórnendur fögnuðu því að fá slíka endurgjöf á starfsemi sína, nýttu niðurstöðurnar til umbóta í skólastarfi og efldu þannig hag nemenda sinna sem hlýtur að vera lokatakmarkið.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ber vott um sérkennilega ofurtrú á gildi PISA niðurstaðna þó fyrir liggi mat Menntamálastofnunar á því að niðurstöður fyrir einstaka skóla í Reykjavík séu í senn ónákvæmar og ómarktækar og stofnunin muni því ekki gera niðurstöðurnar opinberar. PISA rannsóknin veitir upplýsingar um stöðu menntakerfa í heild sinni en hentar ekki sem mælikvarði á stöðu einstakra nemenda eða skóla. Það er á þeim forsendum sem hvorki er skynsamlegt né gagnlegt að byggja á þeim til að stuðla að upplýstri umræðu um skólamál í borginni.

3. Umræðu um eftirlit með þjónustu Reykjavíkurborgar við fatlað fólk er frestað.

4. Lagt er til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í borgarráði í stað Hildar Sverrisdóttur.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

5. Lagt er til að Áslaug María Friðriksdóttir taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Hildar Sverrisdóttur.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

6. Lagt er til að Björn Jón Bragason taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur.

Samþykkt.

Skúli Helgason, Halldór Auðar Svansson og Hjálmar Sveinsson sitja hjá við afgreiðslu málsins.

7. Lagt er til að Herdís Anna Þorvaldsdóttir taki sæti sem varamaður í velferðarráði í stað Björns Jóns Bragasonar.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

8. Lagt er til að Lára Óskarsdóttir taki sæti í stjórnkerfis- og lýðræðisráði í stað Hildar Sverrisdóttur. Jafnframt er lagt til að Herdís Anna Þorvaldsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Láru.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

9. Lagt er til að Björn Gíslason taki sæti í mannréttindaráði í stað Hildar Sverrisdóttur. Jafnframt er lagt til að Herdís Anna Þorvaldsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Barkar Gunnarssonar.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

10. Lagt er til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti í menningar- og ferðamálaráði í stað Áslaugar Maríu Friðriksdóttur.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

11. Lagt er til að Herdís Anna Þorvaldsdóttir taki sæti í heilbrigðisnefnd í stað Björns Gíslasonar. Jafnframt er lagt til að Björn taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Herdísar.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

12. Lagt er til að Björn Gíslason taki sæti í innkauparáði í stað Barkar Gunnarssonar.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

13. Lagt er til að Björn Jón Bragason taki sæti sem varamaður í hverfisráði Grafarvogs í stað Ingibjargar Óðinsdóttur.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson og Hjálmar Sveinsson sitja hjá við afgreiðslu málsins.

14. Lagt er til að Kári Sölmundarson taki sæti í hverfisráði Miðborgar í stað Rafns Steingrímssonar. Jafnframt er lagt til að Sólrún Sverrisdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Kára.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

15. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 23. febrúar og 2. mars.

23. liður fundargerðarinnar frá 23. febrúar, auglýsing á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna lóðarinnar nr. 2 við Hlíðarenda er samþykktur með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur borgarfulltrúa. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúi sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

42. liður fundargerðarinnar frá 23. febrúar, flutningur á afgangi og halla frá 2015 hjá skóla- og frístundasviði er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

45. liður fundargerðarinnar frá 23. febrúar, viðauki við fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs vegna kjarasamninga er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

21. liður fundargerðarinnar frá 2. mars, auglýsing um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna fjölgunar íbúða á lóð nr. 20-26 við Hlíðarenda samþykktur með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir samþykkja ekki breytingar á skipulagi sem fela í sér auknar byggingarheimildir á þessu svæði á Hlíðarenda enda fela þær í sér hækkun á byggingum sem eru í aðflugslínu að neyðarbrautinni eða braut 06/24 sem reyndar hefur nú verið lokað skv. ákvörðun innanríkisráðherra. Framsókn og flugvallarvinir hafa hvorki nú né áður samþykkt nokkur þau atriði sem snúa að því að skerða starfsemi Reykjavíkurflugvallar eða takmarkanir á framtíðarnotkun hans og ljóst er að ef þessi skipulagstillaga fer í gegn verður nánast útilokað að enduropna umrædda braut.

16. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 3. mars, mannréttindaráðs frá 14. og 28. febrúar, menningar- og ferðamalaráðs frá 27. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 22. febrúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 20. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. febrúar og 1. mars og velferðarráðs frá 2. og 16. febrúar.

17. Lögð fram lausnarbeiðni Hildar Sverrisdóttur borgarfulltrúa, dags. 3. mars 2017.

Samþykkt.

Lögð er fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjórn þakkar Hildi Sverrisdóttur fyrir framlag hennar til borgarmálanna undanfarin sjö ár og óskar henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem hún mun takast á hendur á Alþingi.

Fundi slitið kl. 18.41

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Líf Magneudóttir

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 7.3.2017 - prentvæn útgáfa