Borgarstjórn - 7.2.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 7. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Olga Margrét Cilia, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um samkeppnishæfni borga. MSS23020038

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg hefur á undanliðnum árum staðist illa samanburð við aðrar erlendar borgir þegar kemur að samkeppnishæfni og lífvænleika. Árið 2022 hrapaði Reykjavíkurborg til að mynda niður um 25 sæti á lista Economist yfir lífvænleika borga, en engin önnur borg í Evrópu féll með viðlíka hætti. Vermir Reykjavík nú 48. sætið á listanum. Sömu sögu má segja af lista IESE (Cities in Motion), en á árunum 2015 til 2019 mældist Reykjavík meðal efstu fimm borga á listanum en hefur nú hrapað niður í 33. sæti listans. Það sem hefur ekki síst áhrif á slakt gengi borgarinnar í alþjóðlegum samanburði er skortur á fjölbreyttum greiðum samgöngum, gríðarlegur húsnæðisskortur og einhæfni í skólamálum, svo eitthvað sé nefnt. Reykjavík er í lifandi samkeppni við erlendar borgir um fólk og fyrirtæki. Það er fyrirséð að á næstu árum munum við þurfa þúsundir erlendra sérfræðinga til starfa hérlendis svo standa megi undir verðmætasköpun samfélagsins. Við þurfum að tryggja öfluga, aðlaðandi og samkeppnishæfa höfuðborg, ef við viljum tryggja að innlent sem erlent hæfileikafólk velji að búa og starfa hérlendis.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavík getur varla orðið samkeppnishæf borg nema farið verði að sinna börnum borgarinnar almennilega og sjá til þess að öll börn fái þörfum sínum mætt. Það er alveg sama hvað gera á flottar byggingar og torg eða setja háleit markmið í stafrænum lausnum þá situr sú borg ávallt með þeim neðstu á meðan mörg hundruð börn í vanda fá ekki hjálp. Reykjavík stendur ekki jafnfætis öðrum borgum þegar kemur að almenningssamgöngum. Þjónusta Strætó er skert og því ekki valkostur nema fyrir takmarkaðan hóp. Sífellt er kvartað yfir stappinu með Klapp greiðslukerfið en erlendir ferðamenn eiga einmitt í mesta basli með það. Til að Reykjavíkurborg geti laðað til sín ungt fólk þá þarf að auka framboð á ódýru húsnæði. Eins og staðan er í dag þá flýja ungar fjölskyldur í nærliggjandi sveitarfélög. Auðvitað er margt gott í Reykjavík, allavega fyrir þá sem eiga öruggt heimili og fyrir þá sem komast á milli staða innan borgarinnar án vandkvæða. Nauðsynlegt er að einfalda kerfið, rekstrarumhverfi, og minnka flækjustig til að verktakar vilji byggja í borginni. Ójöfnuður hefur aldrei verið meiri. Þessu þarf að breyta ef borgin ætla að tikka í öll box. Flokkur fólksins vill standa vörð um íslenskuna sem samskiptamál og sem fyrsta mál.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að greiða foreldrastyrk að fjárhæð 200.000 kr. mánaðarlega til þeirra foreldra sem annað hvort þurfa eða kjósa að vera heima með börnin sín að fæðingarorlofi loknu, frá 12 mánaða aldri til allt að tveggja ára aldurs.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23020039
Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs gegn einu atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Hæglega hefði mátt samþykkja tillögu Sjálfstæðisflokks um foreldrastyrk strax á fundi borgarstjórnar, svo unnt væri að bjóða foreldrum í Reykjavík fleiri úrræði í kjölfar fæðingarorlofs. Því er þó fagnað að málinu sé vísað til áframhaldandi úrvinnslu borgarráðs. Sá valkostur að bjóða foreldrastyrk að fjárhæð 200.000 kr. mánaðarlega til þeirra foreldra sem annað hvort þurfa eða kjósa að vera heima með börnin sín að fæðingarorlofi loknu, frá 12 mánaða aldri til allt að tveggja ára aldurs, er ein leið til að mæta þörfum fjölskyldufólks. Leikskólavandinn í Reykjavík er aðkallandi og mörg hundruð fjölskyldur glíma við úrræðaleysi. Það er mikilvægt að mæta stöðunni með fjölbreyttum lausnum enda þarfir fjölskyldna fjölbreytilegar. Vinna þarf að lausnum á borð við fjölgun leikskólarýma, eflingu dagforeldrastéttar, stuðningi við einkaframtak í leikskólamálum og loks styrkjum til þeirra sem kjósa (eða þurfa) að dvelja lengur heima með börnum sínum. Þannig hafa fjölskyldur úr ólíkum kostum að velja. Sjálfstæðisflokkurinn vill meira frelsi og fleiri valkosti fyrir fjölskyldur í Reykjavík.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Stefna meirihlutans er sú að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum lausnum. Uppbygging nýrra leikskóla er forgangsatriði og fyrir dyrum stendur heildstæð stefnumótun í málefnum barna á fyrstu sex árum ævinnar. Þar verður unnið að mótun tillagna um leiðir til að efla leikskólastarfið í borginni samhliða því að mæta betur þörfum foreldra yngstu barna og er tillögum um foreldrastyrki og heimgreiðslur vísað í þá vinnu með viðkomu í borgarráði. Í umræðunni var varpað fram mikilvægum rökum um tengsl við jafnréttisbaráttuna, mikilvægi tengslamyndunar, velferð og hagsmuni barna, jaðarsetningu viðkvæmra hópa, fjárhagslegt umfang og fleiri þætti sem þarf að leggjast vel yfir í rýni á tillögunum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til í borgarstjórn að foreldrar yngstu barnanna hafi val um að þiggja heimgreiðslur meðan beðið er eftir leikskólaplássi. Fyrsta tillaga þess efnis var snemma á síðasta kjörtímabili og var kosningaloforð Flokks fólksins 2018 og 2022. Þá fékk þessi tillaga litla áheyrn en hefur nú öðlast vinsældir hjá öðrum flokkum. Flokkur fólksins vill sjá þetta úrræði sem val fyrir foreldra sem hafa tök á að vera heima með barn sitt lengur eftir fæðingarorlof. Heimgreiðsluúrræðið myndi létta álagi vegna manneklu og stytta biðlista leikskólanna. Allt of fátt hefur staðist sem lofað var í leikskólamálum. Hvorki voru ný leikskólapláss tilbúin sem lofað hafði verið, né hefur meirihlutinn ráðið við að leysa mannekluna. Foreldrar, starfsfólk leikskóla og leikskólastjórar senda ítrekuð áköll en hafa ekki haft erindi sem erfiði. Leikskólar senda börn heim vikulega eða jafnvel oftar vegna manneklu. Þjónusta við foreldra barna í leikskóla hefur farið hríðversnandi undanfarin misseri. Opnunartímar hafa verið skertir og sérhvern dag eru foreldrar í óvissu með hvort barnið þeirra fái að vera heilan dag á leikskólanum. Með heimgreiðslukerfi er komið til móts við óskir foreldra um fleiri leiðir til að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn fær pláss í leikskóla. 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Heimgreiðslur eru oft kynntar sem snjallar bráðabirgðalausnir til að koma til móts við börn og foreldra þeirra sem enn hafa ekki fengið inngöngu á leikskóla eða dagvistun hjá dagforeldri. Í rauninni geta þær reynst afar skaðlegar þar sem þær eru einkum til þess fallnar að halda konum inni á heimilum og frá atvinnuþátttöku og draga jafnvel úr líkunum á því að börn njóti aðgengis að fyrsta menntastigi barna, leikskólanum. Vinstri græn gjalda varhug við heimgreiðslum og telja þær ekki farsæla viðbót til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Lausnin á vandanum felst í lengra og sveigjanlegra fæðingarorlofi, eflingu leikskólastigsins, fjölgun leikskólakennara, bættra starfsaðstæðna og öflugri uppbyggingu menntastofnana í öllum hverfum.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss séu foreldrum boðnar heimgreiðslur, þ.e. mánaðarlegan styrk á meðan að beðið er eftir leikskólaplássi. Þetta úrræði væri val fyrir foreldra fyrstu tvö ár barnsins. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið myndi létta á biðlistum leikskólanna sem eru í sögulegu hámarki vegna manneklu, myglu í leikskólahúsnæði og seinkun á verkefninu Brúum bilið. 

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23020042
Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs gegn einu atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna.

-    Kl. 17:50 tekur Rannveig Ernudóttir sæti á fundinum og Olga Margrét Cilia víkur af fundi. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Heimgreiðsluúrræðið myndi fyrir víst létta á vinnuálaginu vegna manneklu og létta á biðlistum vegna seinkunar á verkefninu Brúum bilið. Þetta úrræði væri val fyrir foreldra fyrstu tvö ár barnsins á meðan beðið er eftir leikskólaplássi. Sú þjónusta sem nú er í boði í leikskólum borgarinnar er óviðunandi. Það er ekki aðeins eitt heldur margt. Húsnæði margt hvert er myglað með tilheyrandi raski. Opnunartímar hafa verið skertir og fólk fæst ekki til að vinna á leikskólum. Öll áhersla þessa meirihluta ætti að vera á að leysa mannekluvandann sem fengið hefur að festa sig í sessi. Meirihluti borgarstjórnar virðist hafa gefist upp. Þetta er fyrst og fremst spurning um laun og vinnuaðstæður. Meirihlutinn í borgarstjórn getur leyst þennan vanda enda heldur hann utan um buddu borgarsjóðs. Nú berst foreldrum bréf frá leikskólum borgarinnar þess efnis að loka þurfi deildum og settar hafa verið á skipulagðar skerðingar. Áhyggjur foreldra eru áþreifanlegar en ekki síður má finna til með starfsfólki sem reynir að halda sjó við þessar erfiðu aðstæður. Þetta ástand er með öllu óboðlegt að mati Flokks fólksins. Lítið er að frétta af úrbótum og úrræðum meirihlutans sem staðfestir uppgjöf hans í þessu erfiða máli.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Stefna meirihlutans er sú að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum lausnum. Uppbygging nýrra leikskóla er forgangsatriði og fyrir dyrum stendur heildstæð stefnumótun í málefnum barna á fyrstu sex árum ævinnar. Þar verður unnið að mótun tillagna um leiðir til að efla leikskólastarfið í borginni samhliða því að mæta betur þörfum foreldra yngstu barna og er tillögum um foreldrastyrki og heimgreiðslur vísað í þá vinnu með viðkomu í borgarráði. Í umræðunni var varpað fram mikilvægum rökum um tengsl við jafnréttisbaráttuna, mikilvægi tengslamyndunar, velferð og hagsmuni barna, jaðarsetningu viðkvæmra hópa, fjárhagslegt umfang og fleiri þætti sem þarf að leggjast vel yfir í rýni á tillögunum.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Reykjavíkurborg samþykkir að vinna gegn öllum frekari áformum um útvistun hjá Strætó bs. Umræður um slíkt hafa átt sér stað á vettvangi félagsins og mikilvægt að þær nái ekki fram að ganga þar sem um mikilvæga grunnþjónustu er að ræða. Það hefur sýnt sig að útvistun leiðir til lakari kjara þeirra sem veita þjónustuna sem og í mörgum tilfellum aukins kostnaðar og eftirlits. Mikilvægt er að efla þjónustu Strætó bs. og tryggja að hún sé á vegum sveitarfélaganna og mótuð eftir vilja og væntingum þeirra sem reiða sig á strætó. Jafnframt er mikilvægt að rödd vagnstjóra komi að mótun félagsins.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23020040
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins að fresta tillögunni. 

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarstjórn samþykkir að óska eftir því við náttúruverndaryfirvöld að hafinn verði undirbúningur að friðlýsingu Esjuhlíða.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23020041
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins að fresta tillögunni.

6.    Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins að fresta umræðu um Klapp, greiðslukerfi Strætó. MSS23020043

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að umræður um Klapp-greiðslukerfi Strætó fari fram eins og dagskrá fundarins kveður á um. Um er að ræða mál sem snúast um mikilvæga þjónustu við Reykvíkinga og varða mikla fjárhagslega hagsmuni. Óviðunandi er að meirihlutinn dragi umræður í borgarstjórn vísvitandi á langinn og neiti að taka dagskrármál til umræðu í því skyni að losna við umræður um óþægileg mál, eins og hér er að gerast.

7.    Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins að fresta umræðu um orsakir skólaforðunar og viðbrögð skólayfirvalda og fagfólks. MSS23020044

8.    Lagt til að Birna Hafstein taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Söndru Hlífar Ocares.
Samþykkt. MSS22060048

9.    Lagt til að Egill Þór Jónsson taki sæti sem varamaður í heilbrigðisnefnd í stað Róberts Arons Magnússonar.
Samþykkt. MSS22060075

10.    Lagt til að Egill Þór Jónsson taki sæti í öldungaráði í stað Helgu Margrétar Marzellíusardóttur.
Samþykkt. MSS22060068

11.    Lagt til að Egill Þór Jónsson taki sæti í íbúaráði Kjalarness í stað Þorkels Sigurlaugssonar. Jafnframt er lagt til að Þorkell taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Helgu Margrétar Marzellíusardóttur. MSS22060060
Samþykkt.

-    Kl. 18:00 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum og Helga Þórðardóttir tekur sæti.
-    Kl. 18:02 víkur Friðjón R. Friðjónsson af fundi og Birna Hafstein tekur sæti.
-    Kl. 18:03 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti

12.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. janúar og 2. febrúar. MSS23010001
10. liður fundargerðarinnar frá 19. janúar; samningur við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, er samþykktur með fimmtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010075
5. liður fundargerðarinnar frá 2. febrúar; Vesturbæjarlaug - deiliskipulag, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK22120092
6. liður fundargerðarinnar frá 2. febrúar; Einimelur 18, 24 og 26 - stækkun lóðar og afsal lóðarleiguréttinda, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. FAS23010033
7. liður fundargerðarinnar frá 2. febrúar; Rofabær 39 - aðilaskipti, er samþykktur með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010250

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar: 

Það er jákvætt að hægt sé að leysa úr lóðamálum á opna svæðinu við Vesturbæjarlaug með nýrri deiliskipulagstillögu. Tillagan gerir ráð fyrir að almenningssvæðið stækki umtalsvert frá því sem reyndin er nú með því að girðingar sem hafa staðið í áratugi verða fjarlægðar. Málið er flókið og á sér langa sögu. Í þeim tilvikum þar sem íbúar vilja halda í hluta af lóðunum þurfa þeir að greiða fullt verð fyrir.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar:

Fyrirliggjandi tillaga felur í sér að mörk nokkurra einkalóða eru færð út um allt að 3,1 metra og að Sundlaugartúnið, sem er borgarland, minnki sem því nemur. Með breytingunni mun Sundlaugartúnið minnka um nokkur hundruð fermetra. Slíkt er óforsvaranlegt. Skortur er á grænum svæðum í Vesturbænum þar sem þeim hefur farið fækkandi á undanförnum árum. Með þessari ákvörðun heldur meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar áfram á þeirri braut. Sundlaugartúnið er vinsælt leiksvæði barna og unglinga en með þessari ákvörðun er dregið úr möguleikum til notkunar þess og frekari þróunar sem almenningssvæðis. Stækkun einnar lóðarinnar um þrjá metra til norðurs er sérstakt áhyggjuefni. Með því er gengið á hverfisstíg, sem þjónar gangandi og hjólandi umferð margra Vesturbæinga. Til dæmis þeirra er sækja leikskólann Vesturborg, Melaskóla, Vesturbæjarsundlaug, grenndargáma við túnið og þjónustu bakarís og verslana við Hofsvallagötu. Stígurinn er þröngur og frekar ætti að leita leiða til að breikka hann en festa þrengingu hans í sessi eins og hér er lagt til.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. og 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar: 

Liður 6; Einimelur 18, 24 og 26 - stækkun lóðar og afsal lóðarleiguréttinda: Sósíalistar mótmæla því að lóðamörk við Einimel 22-26 séu færð út og yfirtaki hluta af lóð við Vesturbæjarlaug sem er í eigu borgarbúa. Íbúar í einbýlishúsum við Einimel reistu girðingar inn fyrir það svæði og hindruðu þannig aðgang að almannalóð. Í stað þess að segja að slíkt sé óboðlegt ætlar borgin að láta undan og stækka lóð viðkomandi. Með því er verið að setja slæmt fordæmi sem sendir þau skilaboð að með því að taka almannalóðir af borginni sé möguleiki á að hún láti undan. Fulltrúi Sósíalista veltir því fyrir sér hvar slíka undangjöf er að finna gagnvart fátækum borgarbúum sem er oft og tíðum mætt með stálhnefa. Liður 7; Líkt og fram hefur komið í áætlunum Festi, þá mun Festi selja byggingarrétt í kjölfar samninga við borgina um fækkun bensínstöðva og því hagnast gríðarlega á húsnæðisuppbyggingu og hverfistengdri þjónustu. Þetta kemur í kjölfar samninga um fækkun bensínstöðva í borginni. Í stað þess að leitast við að fá umráð yfir lóðinni og vinna að því að skipuleggja húsnæði og þjónustu, færir borgin olíufélögum gríðarlegan auð sem mun koma til vegna mikils byggingarmagns. Forsenda fyrir uppbyggingu ætti ekki að vera út frá hagnaðarsjónarmiðum olíufélaga.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5., 15. og 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar:

Liður 5, Vesturbæjarlaug. Færa á lóðarmörk við Einimel 18-26 sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur. Leyfa á stækkun lóða sem gengur á almennt grænt svæði og minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug. Liður 15. fundargerð heilbrigðisnefndar: Reykjavíkurborg hefur gefið aftur út starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur og skotvöll Skotreynar á Álfsnesi þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir kærur tveggja hópa íbúa frá 24. september 2021 þar sem starfsleyfið var fellt úr gildi. Kjalnesingar töldu að þeir væru endanlega búnir að fá úrlausn málsins með birtingu úrskurðar kærendum í hag. Íbúar hafa sent samtals sjö kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hafa allir úrskurðir fallið kærendum í hag. Liður 22, embættisafgreiðslur. Foreldrum var synjað um systkinaafslátt fyrir skólamáltíð. Um er að ræða foreldra með sameiginlegt forræði þriggja barna sem eru með skipta búsetu og skipta því kostnaði samkvæmt lögum. Lögheimili er hjá báðum foreldrum. Erindið var lengi hunsað en síðan hafnað með þeim rökum að börn sem eiga tvö heimili sé ekki með sama „fjölskyldunúmer“. Nú þegar liggur fyrir að skóla- og frístundasvið þarf að lúta lögum eins og aðrir er mikilvægt að afslátturinn sé afturvirkur frá því lögin tóku gildi.

13.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 3. febrúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarnefndar frá 12. og 26. janúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 16. janúar, stafræns ráðs frá 25. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 25. janúar og 1. febrúar og velferðarráðs frá 27. janúar og 1. febrúar. MSS23010061

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir fundagerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. febrúar:

Tæming Árbæjarlóns var gerð án framkvæmdaleyfis og braut gegn gildandi deiliskipulagi Elliðaárdalsins. Mikil óánægja hefur verið vegna þessa, ekki síst vegna þess að Orkuveita Reykjavíkur tæmdi lónið án samráðs við íbúa og þvert á gildandi skipulag. Þetta var gert þó ekki lægi fyrir áætlun um niðurlagningu mannvirkja eins og ber að gera lögum samkvæmt sbr. 79. gr. gildandi vatnalaga. Með öðrum orðum; farið var í að tæma lónið án þess að samþykkt áætlun lægi fyrir eða framkvæmdaleyfis hafi verið aflað. Niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. október sl. kallar á viðbrögð og stórbætt vinnubrögð enda ber Orkuveitunni að fara eftir lögum og gildandi skipulagi. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Því skal haldið til haga að ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála tekur enga afstöðu til þess hvort skikka eigi Orkuveitu Reykjavíkur til þess að mynda aftur Árbæjarlón með því að loka gáttum Elliðaárvirkjunar. Aukinheldur er í úrskurðinum áréttað sérstaklega að ekki sé tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar stafræns ráðs:

Eins mikið og þjónustu- og nýsköpunarsvið langar að ná hæstu hæðum á erlendri grund þá er það undarlegt að ekki enn er komið á koppinn almennilegt innskráningarferli í leikskóla. Skýringin er sögð að stafræna umbreytingarverkefnið er unnið út frá notendamiðaðri hönnun þar sem ferlar eru greindir og rætt við foreldra og starfsfólk til að skilja betur þeirra upplifun af ferlinu. Af svari að dæma mætti halda að foreldrar og starfsfólk séu eitthvað öðruvísi en foreldrar og starfsfólk í öðrum sveitarfélögum þar sem rafrænt innskráningarferli í leikskóla er fyrir löngu komið í virkni. Það er ekki annað en hægt að draga þá ályktun í ljósi þessa að tæknilega hliðin sé eitthvað að vefjast fyrir þjónustu- og nýsköpunarsviði, eða að búið er að flækja sig í einhverjum smáatriðum. Það þarf ekki að fara fjallabaksleið að öllum hlutum. Hér erum við að tala um hjól sem er fyrir löngu búið að finna upp og sem hefur rúllað víðast annars staðar í nokkurn tíma. Flokkur fólksins hvetur þjónustu- og nýsköpunarsvið til að horfa á markmiðið, hafa heildarsýn og reyna að vinna með skilvirkum hætti. Tími kostar peninga. Notendamiðaðar rannsóknir/hönnun eru sjálfsagðar þar sem þær eiga við.

14.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi beiðni:

Undirritaðir borgarfulltrúar óska eftir því aukafundur verði haldinn í Borgarstjórn Reykjavíkur nú í vikunni með eftirfarandi umræðuefnum: Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Klapp, greiðslukerfi Strætó. Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að Reykjavíkurborg vinni gegn útvistun hjá Strætó. Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Friðjón R. Friðjónsson, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Trausti Breiðfjörð Magnússon. MSS23010044

Fundi slitið kl. 18:38

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Aðalsteinn Haukur Sverrisson    Trausti Breiðfjörð Magnússon