Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2017, þriðjudaginn 7. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir.
Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að fjölga lóðum í Úlfarsárdal umfram þá takmörkuðu fjölgun sem verður vegna breytinga á deiliskipulagi sem nú er í vinnslu. Er þetta gert til að bregðast við alvarlegum lóðaskorti í Reykjavík. Hafist verði handa nú þegar við undirbúning þessa verkefnis til að Reykjavíkurborg geti uppfyllt þá mikilvægu grunnskyldu gagnvart íbúum sínum að útvega lóðir í samræmi við þörf. R17020065
Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögunni til borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn því að meirihlutinn ákveði að vísa tillögunni til borgarráðs. Einfaldast og fljótlegast er að samþykkja tillöguna í borgarstjórn til að létta undir með þeim sem eru í vandræðum á húsnæðismarkaði vegna mikillar hækkunar á verði og lítils framboðs. Tæki Reykjavíkurborgar til að takast á við það er aukið lóðaframboð. Viðbót við hverfið í Úlfarsárdal eins og tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gengur út á er mikilvæg viðbót við byggingar á þéttingarreitum í miðborginni og hraðar lausnum á húsnæðismarkaði þar sem vantar 4000 íbúðir nú þegar og svo 1000 íbúðir árlega. Sú ákvörðun vinstri meirihlutans í borgarstjórn að draga verulega úr íbúabyggð í Úlfarsárdal frá því sem áður var ákveðið dregur mjög úr möguleikum hverfisins á að vera sjálfbært varðandi ýmsa þjónustu og á það ekki síst við um íþrótta- og æskulýðsstarf. Að vísa tillögunni til borgarráðs ber vott um ákvarðanafælni meirihlutans og undirstrikar vandræðagang hans í húsnæðismálum í Reykjavík.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikill húsnæðisvandi í borginni og lóðaskortur en borgin úthlutaði einungis 6 fjölbýlishúsalóðum með fleiri en 5 íbúðum á fyrsta 31 mánuði kjörtímabilsins. Uppbygging gengur of hægt, m.a. vegna fárra lóðaúthlutana. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands fjölgaði íbúðum í Reykjavík einungis um 1644 íbúðir 2010 til ársloka 2016 en nauðsynlegt hefði verið að fjölga þeim um 700 á ári á þessu tímabili. Úlfarsárdalurinn er það svæði sem borgin getur úthlutað lóðum á því flestar þær lóðir sem verið er eða til stendur að byggja á eru í höndum fasteignafélaga á dýrustu stöðunum og hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar íbúðir sem mikil þörf er á. Mikilvægt er að stækka byggðina í Úlfarsárdal til að hverfið verði sjálfbært og þeir innviðir sem borgin hefur og er að fjárfesta í komi að sem mestum notum, til að hægt sé að uppfylla skuldbindingar borgarinnar gagnvart kaupendum lóða í hverfinu, til að uppfylla skuldbindingar borgarinnar við Fram, til að koma til móts við væntingar íbúanna og til að auka lóðaframboð í borginni sem er af skornum skammti. Stækka þarf hverfið enn meira en endurskoðun deiliskipulagsins gerir ráð fyrir og því eru vonbrigði að fyrirhuguð breyting nái ekki einnig til svæðisins fyrir ofan Mímisbrunn.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt áætlun fyrir árið 2017 verður úthlutun lóða í Reykjavík afar umfangsmikil eða fyrir um 3.000 íbúðir, þar á meðal í Úlfarsárdal þar sem íbúðum fjölgar nú ört. Það sem gefur þó enn betri mynd af umfangi þeirrar uppbyggingar sem nú er í gangi í Reykjavík er veiting byggingarleyfa. Metár í byggingu íbúða standa nú yfir í Reykjavík og sjaldan hefur eins mörgum byggingarleyfum verið úthlutað til íbúðarhúsnæðis. Markmið meirihluta borgarstjórnar um að 2.500-3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir fari í uppbyggingu á árunum 2014-2019 munu því nást. Alls eru staðfest áform um uppbyggingu leigu- og búseturéttaríbúða um 3.733. Sú uppbygging er ýmist hafin eða er í undibúningi í samstarfi við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Þessi félög eru ASÍ, BSRB, Félagsstofnun stúdenta, Byggingarfélag námsmanna, Háskólinn í Reykjavík, Búseti, Félag eldri borgara, Samtök aldraðra og Félagsbústaðir. Reykjavík er borg í örum vexti, lóðum undir þúsundir íbúða verður úthlutað á þessu ári og metár standa nú yfir í uppbyggingu.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagningu sparkvalla við grunnskóla:
Borgarstjórn samþykkir að haldið verði áfram lagningu sparkvalla með gervigrasi við borgarrekna grunnskóla í borginni. Miðað skal við að vellirnir verði upphitaðir, upplýstir og umhverfis þá verði boltagerði. Stefnt skal að því að slíkir vellir verði komnir á allar skólalóðir borgarrekinna grunnskóla eigi síðar en árið 2020. Einnig verði hugað að lagningu slíkra valla við sjálfstætt rekna grunnskóla. R17020066
Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata að vísa tillögunni til borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli ekki treysta sér til að samþykkja stefnumótun um að halda áfram og ljúka lagningu sparkvalla við grunnskóla í borginni heldur kjósi að vísa tillögu um slíkt til borgarráðs. Slíkir vellir hafa nú verið lagðir við flesta borgarrekna skóla og gegna þeir allir þýðingarmiklu hlutverki við hreyfingu og íþróttaiðkun barna í viðkomandi hverfum. Eftirfarandi skólar eiga eftir að fá slíka velli: Grandaskóli, Hagaskóli, Húsaskóli, Hvassaleitisskóli, Laugalækjarskóli, Vesturbæjarskóli og Vogaskóli. Einnig er rétt að huga að lagningu slíkra valla við sjálfstætt rekna skóla þar sem því verður við komið. Borgarstjórn er rétti vettvangurinn til að samþykkja slíka tillögu en vegna ákvarðanafælni virðist meirihlutinn ekki treysta sér til þess.
3. Fram fer umræða um öryggi í Reykjavík. R17020067
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórn er einhuga um að ofbeldi eigi ekki að líðast í Reykjavík og að stjórnvöld í höfuðborginni eigi að axla ábyrgð svo að gestir og íbúar megi finna til öryggis í umhverfi sínu. Í því ljósi er mikilvægt að skoða skipulag borgarinnar út frá öryggisþáttum og tryggja viðunandi eftirlit og löggæslu. Þó er ekki síður mikilvægt að ráðast að rót ofbeldisins með því að leggja áherslu á ábyrgð gerenda og efla forvarnir og fræðslu gegn ofbeldi. Jafnréttis-, kynja-, hinsegin- og kynfræðsla í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar er mikilvægur liður í slíkri fræðslu. Börn og ungmenni þurfa að hafa þekkingu til að setja sér og öðrum mörk, horfa með gagnrýnum huga á samfélagsgerðina og skoða hvaða áhrif fordómar og staðalmyndir hafa á viðhorf okkar og framkomu. Stefnt skal að því að verkefnið „opinskátt um ofbeldi“ verði tekið upp í öllum skólahverfum borgarinnar og að ofbeldisvarnarnefnd haldi áfram að vinna að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi í Reykjavík. Þá er einnig mikilvægt að starfshópurinn um örugga skemmtistaði fylgi eftir þegar samþykktum aðgerðaráætlunum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir fagna því að borgarráð hafi samþykkt einhuga á síðasta borgarráðsfundi 2.2.2017 að verja 4 milljónum til kaupa og uppsetningu á öryggismyndavélum í höfuðborginni og leggja þannig lóð á vogarskálarnir til að auka öryggisvitund borgarbúa.
4. Fram fer umræða um samninga og samskipti við íþróttafélög. R17020068
5. Fram fer umræða um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Grafarholti-Úlfarsárdal. R17020070
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að Reykjavíkurborg ljúki sem fyrst samningsgerð við íþróttafélagið Fram svo unnt sé að halda áfram löngu tímabærum framkvæmdum við uppbyggingu íþróttamannvirkja í Grafarholti-Úlfarsárdal. Rétt er að slíkar framkvæmdir verði í samræmi við þau fyrirheit um íbúafjölda sem félaginu voru gefin þegar framkvæmdir hófust við íþróttasvæðið í Grafarholti-Úlfarsárdal árið 2008. Íbúar þessara hverfa hafa sýnt Reykjavíkurborg ríkulegan samstarfsvilja og langlundargeð vegna seinkunar sem varð á uppbyggingu vegna efnahagsáfalla í þjóðfélaginu á sínum tíma. Ljóst er að metnaðarfull uppbygging í Úlfarsárdal muni leiða til þéttingar byggðar í hverfinu, sem er jákvæð í sjálfu sér. Sú ákvörðun vinstri meirihlutans í borgarstjórn að draga verulega úr íbúabyggð í Úlfarsárdal frá því sem áður var ákveðið, rýrir mjög möguleika rekstraraðila á því að veita öfluga þjónustu í hverfinu og á það ekki síst við um íþrótta- og æskulýðsstarf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því enn og aftur til að skipulag í Úlfarsárdal verði endurskoðað og íbúum fjölgað með það að markmiði að þar skapist góð skilyrði til að reka blómlegt íþrótta- og félagsstarf og að hverfin Grafarholt-Úlfarsárdalur verði sjálfbær hvað varðar fjölbreytilega þjónustu.
6. Samþykkt að fresta áður ákveðinni umræðu um afgreiðslutíma á tillögum og fyrirspurnum. R17020071
7. Lagt er til að Arnaldur Sigurðarson taki sæti sem varamaður í menningar- og ferðamálaráði í stað Björns Birgis Þorlákssonar. R14060109
Samþykkt.
8. Lagt er til að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir taki sæti sem varamaður í umhverfis- og skipulagsráði í stað Sigurðar Inga Jónssonar. R14060110
Samþykkt með 14 atkvæðum.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
9. Lagt er til að Arnaldur Sigurðarson taki sæti sem varamaður í heilbrigðisnefnd í stað Evu Lindar Þuríðardóttur. R14060126
Samþykkt.
10. Lagt er til að Þórlaug Ágústsdóttir taki sæti sem varamaður í hverfisráði Laugardals í stað Björns Birgis Þorlákssonar. R14060123
Samþykkt.
11. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. janúar og 2. febrúar 2017. R17010001
- 23. liður fundargerðarinnar frá 26. janúar; viljayfirlýsing vegna uppbyggingar á lóðum Heklu milli Brautarholts og Laugavegar og mögulegri lóð í Suður-Mjódd, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. R16020062
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja ekki tillögu meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna um að ráðstafa, án útboðs, 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd til bílaumboðsins Heklu. Á síðasta borgarráðsfundi hafnaði meirihlutinn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að málið yrði ekki tekið til afgreiðslu í borgarráði fyrr en íbúum og hagmunaaðilum á svæðinu, íbúasamtökunum Betra Breiðholti og hverfisráði Breiðholts yrði gefinn kostur á að skila umsögn um málið. Eðlismunur er á því að gefa þessum aðilum kost á að veita slíka umsögn áður en borgin samþykkir lóðarvilyrðið og að halda fund til að kynna vilyrðið eftir að það hefur verið samþykkt. Í samstarfssáttmála núverandi borgarstjórnarmeirihluta var sagt að gagnsæi og aukið íbúalýðræði yrði eitt af meginverkefnum kjörtímabilsins. Þar var því heitið að kynning og upplýsingagjöf yrði bætt í tengslum við skipulagsmál, bæði stór og smá, og að kraftar allra borgarbúa nýttust við stefnumörkun og ákvarðanatöku. Ljóst er að þessi loforð borgarstjórnarmeirihlutans eru innantóm og merkingarlaus. Mikilvægt er að auka framboð á atvinnulóðum í Reykjavík en slíkt er vel hægt að gera án þess að úthluta risalóðum á svæðum sem almennt hefur verið álitið að séu frátekin fyrir framtíðaraukningu á sviði útivistar, íþrótta- og æskulýðsmála.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Viljayfirlýsing við Heklu byggir á sameiginlegri samþykkt alls borgarráðs frá 4. febrúar 2016, þar með töldum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, þar sem lagt var fram erindi fyrirtækisins og ósk um viðræður um þróun lóðar fyrirtækisins við Laugaveg og mögulega lóð í Suður-Mjódd. Þegar um er að ræða nýjar lóðir fyrir atvinnurekstur í þeim tilvikum sem fyrirtæki þurfa að víkja vegna skipulagssjónarmiða er iðulega unnið að slíku í samvinnu borgar og viðkomandi fyrirtækja, en ekki með útboðsfyrirkomulagi. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn taka upp ný vinnubrögð í þessum efnum þyrfti að ræða það rækilega á víðtækum grunni en ekki aðeins taka eitt fyrirtæki fyrir. Þá er sú fullyrðing, að almennt sé álitið að það svæði sem hugsað er fyrir Heklu sé frátekið fyrir framtíðaraukningu á sviði íþrótta- og æskulýðsmála, furðuleg í ljósi þess að svæðið var gert að atvinnulóð í skipulagi í byrjun árs 2009, í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Einnig er vert að nefna að svæðið liggur við umferðarmikla stofnbraut og því ekki endilega kjörið sem íþróttasvæði.
12. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 3. febrúar, mannréttindaráðs frá 24. janúar, menningar- og ferðamalaráðs frá 23. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 20. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 25. janúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 23. janúar, fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 25. janúar og 1. febrúar og velferðarráðs frá 12. og 19. janúar. R17010084
Fundi slitið kl. 20.25
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Líf Magneudóttir
Skúli Helgason Kjartan Magnússon
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 7.2.2017 - Prentvæn útgáfa