Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2017, þriðjudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.32. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Börkur Gunnarsson og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 ásamt greinargerðum og starfsáætlunum fagsviða, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október sl., ásamt greinargerð fjármálaskrifstofu, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. nóvember 2017. Jafnframt eru lagðar fram tillögur borgarstjóra undir eftirtöldum liðum í fundargerð borgarráðs frá 26. október sl.: 21. liður; álagningarhlutfall útsvars 2018, 22. liður; álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu, 23. liður; fyrirkomulag afsláttar til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega, 24. liður; gjalddagar og eindagar fasteignaskatts 2018 og tillögur borgarstjóra undir eftirtöldum liðum fundargerðar borgarráðs frá 31. október sl.: 3. liður; gjaldskrár Reykjavíkurborgar 2018 og 4. liður; tillaga um lántökur vegna framkvæmda 2018. R17020174
Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
Borgarstjórn samþykkir að fela fjármálasviði að gera úttekt á því hvað hægt er að lækka útsvar í stórum áföngum á móti bættum rekstri borgarinnar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur.
Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
Borgarstjórn samþykkir að lækka fasteignaskatta verulega í takt við mikla hækkun á fasteignaverði og umfram þá lækkun sem reiknað er með fyrir íbúðarhúsnæði úr 0,2% í 0,18% eða í 0,15%. Markmiðið er að borgin taki ekki til sín tekjur vegna mikilla hækkana en leyfi íbúum þess í stað að njóta þeirra. Hækkun fasteignamats stuðlar jafnframt að hækkun húsnæðisverðs sem nú þegar er orðið óviðráðanlegt, sérstaklega fyrir ungt fólk.
Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur.
Tillaga borgarstjóra um álagningarhlutfall útsvars 2018, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. október sl., er samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga borgarstjóra um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu 2018, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. október sl., samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga borgarstjóra um fyrirkomulag afsláttar til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2018, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. október sl., er samþykkt.
Tillaga borgarstjóra um gjalddagaskiptingu fasteignaskatta og lóðarleigu 2018, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. október, er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Samþykkt að vísa tillögu borgarstjóra um gjaldskrár, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október sl., til afgreiðslu á fundi borgarstjórnar þann 5. desember nk.
Samþykkt að vísa tillögu borgarstjóra um lántökur vegna framkvæmda á árinu 2018, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október sl., til afgreiðslu á fundi borgarstjórnar þann 5. desember nk.
Samþykkt að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 ásamt greinargerð og starfsáætlunum til síðari umræðu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjárhagsáætlun sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu borgarsjóðs upp á 3,4 milljarða fyrir árið 2018. Áhersla meirihlutans er sókn í skóla- og velferðarmálum ásamt mikilli uppbyggingu innviða og lækkun fasteignagjalda. Í fyrsta lagi er sótt verulega fram í skólamálum og velferðarmálum. Í öðru lagi er ráðist í fjárfestingar fyrir 18 milljarða á næsta ári, með sérstaka áherslu á götur, stíga og íþróttamannvirki. Í þriðja lagi heldur sókn í húsnæðismálum áfram en alls fara 69 milljarðar til húsnæðismála á næstu fimm árum í Reykjavík. Rekstur borgarsjóðs er sterkur, gjöldin eru í lágmarki og þjónustan batnar ár frá ári.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg fer ekki varhluta af jákvæðri tekjuþróun í samfélaginu eins og sjá má á því að A-hluti fer í 117 milljarða í tekjum skv. áætlun fyrir árið 2018 úr 100 milljörðum árið 2016. Það er 16,2% hækkun tekna á tveimur árum. Skuldir og skuldbindingar A-hluta fara úr 83,7 milljörðum árið 2016 í 107,6 milljarða kr. eða hækka frá árinu 2016 til 2018, standist áætlun, um 28,5%. Það er borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina mikið áhyggjuefni að þar sem hagsveiflan er nú við toppinn sé Reykjavíkurborg ekki að ná betri árangri en 9,4% í veltufé frá rekstri þegar sveitarfélögin í landinu eru að meðaltali í 12% veltufé frá rekstri og að skuldir séu að hækka á A-hluta um 8 milljarða á milli áranna 2017-2018 og á samstæðu um 16,4 milljarða á milli ára. Það er ekki nema lítill hluti af þessu sem skýrist af hækkun lífeyrisskuldbindinga. Þrátt fyrir einstakt góðæri tekst meirihlutaflokkunum í Borgarstjórn Reykjavíkur ekki að reka borgarsjóð með nægilegum afgangi en þeim tekst áfram að hækka skuldir bæði borgarsjóðs og samstæðureiknings borgarinnar.
2. Lagt fram frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2018-2022 ásamt greinargerð, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október sl. R17020174
Samþykkt að vísa frumvarpi að fimm ára áætlun fyrir árin 2017-2021 til síðari umræðu.
3. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19., 26. og 31. október og 2. nóvember. R17010001
14. liður fundargerðarinnar frá 19. október, breyting á deiliskipulagi Alliance-reits, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Umrædd deiliskipulagsbreyting felur í sér stóraukið byggingarmagn á Alliance reit og ný byggingarsvæði. Byggingarmagn ofanjarðar meira en tvöfaldast, fer úr 3.300 í 6.700 fermetra, sem er mjög mikið miðað við heildaryfirbragð nærliggjandi byggðar. Fleiri og hærri byggingar valda því að útsýni úr hverfinu skerðist til vesturs og skuggavarp eykst. Slíkt orkar tvímælis í hverfi eins og gamla Vesturbænum sem hefur í meira en öld þróast í nánu sambandi við höfnina og sjávarútveginn. Þá er skilgreining á landnotkun aðalskipulags víkkuð út hvað snertir hótelrekstur og verður reiturinn aðallega nýttur í því skyni. Slíkt stingur í stúf við fyrri markmið um að uppbygging á svæðinu eigi að styrkja íbúabyggð þar. Þá eru bílastæði fjarlægð af yfirborði þrátt fyrir mikinn og vaxandi bílastæðaskort í hverfinu. Samkvæmt umferðargreiningu mun aukning umferðar af skipulögðum en óbyggðum reitum við Vesturbugt, Austurhöfn og í grennd við Alliance reitinn leiða af sér rúmlega 13 þúsund bílferðir á sólarhring. Hætta er á miklum umferðartöfum á Mýrargötu og nálægum gatnamótum ef svo mikil umferð bætist við án mótvægisaðgerða. Þá mun breytingin þrengja mjög að hinu friðlýsta Alliance húsi og draga úr vægi þess í hverfinu en útlit er fyrir að það verði innikróað af hótelum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Bókun Sjálfstæðisflokksins er afar villandi enda er skautað fram hjá því að byggingarmagnið á svæðinu hefur þvert á móti verið minnkað umtalsvert frá því skipulagi sem var í gildi þegar Reykjavíkurborg keypti reitinn.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins standa við bókun sína um deiliskipulagsbreytingu á Alliance-reit enda hafa borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna ekki hrakið neitt sem í henni stendur. Eðlilegt er að þegar aukið byggingarmagn samkvæmt ósamþykktri deiliskipulagstillögu er reiknað út sé miðað við gildandi deiliskipulag en ekki skipulag sem löngu hefur verið fellt úr gildi. Það segir sig sjálft að þeir íbúar, sem fjárfestu í húsnæði á viðkomandi reit gerðu ráð fyrir því að staðið yrði við gildandi deiliskipulag en ekki ráðist í breytingu sem fæli í sér að byggingarmagn á reitnum yrði meira en tvöfaldað.
16. liður fundargerðarinnar frá 19. október, breyting á deiliskipulagi suður-Mjóddar, svæði Íþróttafélags Reykjavíkur, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Umrædd tillaga felur í sér margvíslegar breytingar á deiliskipulagi syðri-Mjóddar sem sumar eru til bóta en aðrar ekki. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja allar þær breytingar á íþróttasvæði ÍR sem eru fallnar til þess að efla starf félagsins í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Breiðholti. Hins vegar hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagst eindregið gegn þeirri ákvörðun Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna að ráðstafa, án útboðs, 24 þúsund fermetra lóð á svæðinu til bílaumboðs. Gerðar eru athugasemdir við slíka skerðingu á íþrótta- og útivistarsvæði sem fremur ætti að taka frá í þágu framtíðarhagsmuna ÍR. Þá er mikilvægt að komið verði til móts við þarfir eldri borgara í ljósi þess að púttvöllur þeirra er á framtíðarbyggingarreit þjónustumiðstöðvar við Árskóga.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Deiliskipulag fyrir suður-Mjódd er unnið í samráði við alla hagsmunaaðila. Bílaumboðið Hekla víkur frá Laugavegi, af skipulagsástæðum, og vilyrði um lóð fyrir fyrirtækið er til að greiða fyrir þeim flutningi, eins og fjölmörg fordæmi eru fyrir þegar þannig háttar. Við útfærslu lóðarinnar er þess gætt að hún gangi ekki á framtíðarsvæði ÍR og er deiliskipulagið unnið í góðri sátt við félagið. Tekið er undir að sjálfsagt er að koma til móts við óskir um púttvöll fyrir eldri borgara.
22. liður fundargerðarinnar frá 2. nóvember; tillögur að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2017 samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.
23. liður fundargerðarinnar frá 2. nóvember; tillögur að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2017 samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi leggur fram svohljóðandi bókun:
Á fundi borgarráðs 31. ágúst sl. var samþykkt að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að leita tímabundinna lausna til aukningar á félagslegu húsnæði í Reykjavík, í samræmi við samþykkt velferðarráðs og húsnæðisáætlun borgarinnar. Á fundi borgarráðs 24. ágúst sl. komu fram áhyggjur borgarráðsfulltrúa, þá Framsóknar og flugvallarvina, yfir því að sú aðferðarfræði sem tillagan gerir ráð fyrir varðandi tímabundin úrræði myndi leiða til enn frekari verðhækkana á fasteignamarkaði og hækkana á leigu þar sem samkeppnin myndi aðeins aukast um það takmarkaða húsnæði sem fyrir er í borginni. Í umsögn fjármálaskrifstofu segir að tillagan sé ekki líkleg til að skapa hækkanir á fasteigna- og leigumarkaði og það rökstutt með að um verði að ræða óhefðbundnar lausnir. Ekki er að sjá neitt óhefðbundið við kaup í liðum 27-34 í fundargerð frá 19. október og 17-21 í fundargerð frá 2. nóvember.
Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu óháðs borgarfulltrúa Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttir á dagskrá:
Skóla- og frístundasviði er falið að taka saman þá þætti sem misfórust í uppbyggingu og innleiðingu Reykjavík International School RIS, þannig að lögð sé áhersla á hvað betur má fara, hvernig Reykjavíkurborg getur stutt við nýja skóla og veitt þeim leiðbeiningar svo að menntahagsmunir barna sem þangað sækja nám séu ætíð hafðir í hávegum.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
4. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 3. nóvember, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. október, mannréttindaráðs frá 31. október, menningar- og ferðamálaráðs frá 23. október, skóla- og frístundaráðs frá 25. október, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 16. og 30. október, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. október og 1. nóvember og velferðarráðs frá 12. og 26. október. R17010084
- Kl. 16.59 víkur borgarstjóri af fundinum.
2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 3. nóvember sl., tillaga að breytingu á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar vegna girðinga, samþykktur. R17090019
3. liður fundargerðar forsætisnefndar vegna síðari umræðu frá 3. nóvember sl., tillaga að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna umboðsmanns borgarbúa, samþykktur. R17100263
5. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 30. október sl., við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna bæklings um húsnæðismál, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 17. október sl. R17030164
6. Lagðar fram fyrirspurnir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til borgarstjóra, dags. 7. nóvember 2017, við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018. R17020174
7. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa:
Í svari til Fréttablaðsins sem birtist í blaðinu 18.10.2017 segir skrifstofustjóri borgarstjórnar um meintan vafa um hæfi Kristínar Soffíu Jónsdóttur, að borgarstjórn hafi enga aðkomu að málefnum borgarfulltrúa í fæðingarorlofi enda sitji þeir ekki í borgarstjórn á meðan á því stendur og þiggja hvorki laun né önnur réttindi á þeim tíma. Þrátt fyrir þetta svar er á 196. fundi forsætisnefndar 5. apríl 2016, undir 1. lið, ekki sömu eða sambærileg sjónarmið höfð til hliðsjónar við þá málsmeðferð og þar virtist nákvæmlega ekkert vera því til fyrirstöðu að málefni borgarfulltrúans Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, sem var í fæðingarorlofi frá 13. desember 2015-13. júní 2016, falin innri endurskoðanda og regluverði borgarinnar til skoðunar. Er ekki að sjá að þau sjónarmiðin sem skrifstofustjóri borgarstjórnar hefur nú uppi varðandi það að borgarstjórn hafi enga aðkomu að málefnum borgarfulltrúa meðan þeir eru í fæðingarorlofi hafi gætt áður. Óskað er eftir skriflegum skýringum frá skrifstofustjóra borgarstjórnar og forseta borgarstjórnar að því er varðar sjónarmið þessu tengdu. R17030180
8. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa:
18. október 2017 birtist frétt í Fréttablaðinu þar sem sagt var frá vafa um kjörgengi borgarfulltrúans Kristínar Soffíu Jónsdóttur en deginum áður, 17. október, hafði hún setið fund borgarstjórnar. Ekkert var rætt um vafa á kjörgengi hennar í sal borgarstjórnar. Ekki er að sjá í fundargerðum forsætisnefndar að neinar umræður hafi farið þar fram um kjörgengi hennar og fyrst er að sjá það í fundargerð 23. október 2017. Verkefni forsætisnefndar eru tiltekin í samþykkt hennar og þar eru þau tíunduð. Ekki er hægt að sjá hvernig álitamál um kjörgengi sé komið inn á borð forsætisnefndar enda hvergi að sjá að því máli hafi verið vísað til hennar. Því er óskað eftir skriflegu svari frá borgarlögmanni um valdsvið forsætisnefndar til að fjalla um vafa um kjörgengi, sérstaklega þegar haft er í huga að ekki er að sjá að borgarstjórn eða borgarráð, eða aðrir til þess bærir aðilar innan borgarkerfisins hafi vísað málinu til nefndarinnar. Þá er jafnframt óskað eftir að borgarlögmaður taki saman í svari sínu umfjöllun um hvaða stofnun er réttbær til að taka ákvörðun þegar vafi leikur á um almennt hæfi borgarfulltrúa. R17030180
Fundi slitið kl. 17.16
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Magnús Már Guðmundsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 7.11.2017 - prentvæn útgáfa