Borgarstjórn - 6.6.2017

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 6. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar til 2020 sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. júní sl. Einnig er lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 30. maí 2017, þar sem lagt er til að húsnæðisáætlunin og meðfylgjandi tillögur í húsnæðismálum verði samþykktar.

Samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er í senn róttæk, félagsleg og stórhuga. Reykjavík hefur með átaki í skipulagi tryggt fjölbreytt byggingarsvæði fyrir allar gerðir íbúða með áherslu á litlar og meðalstórar íbúðir á grundvelli markmiða um húsnæði fyrir alla, félagslega blöndun og aðalskipulag Reykjavíkur. Borgin leggur samanlagt fram 59 milljarða til fjárfestinga, húsnæðisstuðnings og sérstakra búsetuúrræða næstu fimm ár. Húsnæðisáætlun veitir kærkomna yfirsýn yfir framgang þessara mála. Byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir eru komin á framkvæmdastig í borginni og fjölgar hratt, byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir að auki liggja fyrir í staðfestu skipulagi og um 4.000 íbúðir eru í formlegu skipulagsferli. Auk þess eru svæði fyrir rúmlega 9.000 íbúðir í þróun. Megináhersla í húsnæðisáætlun borgarinnar er á samstarf við byggingafélög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjónarmiða. Alls eru um 3.700 staðfest áform um íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur og búsetu. Á öllum nýjum þróunarsvæðum hefur verið samið um að hlutfall leigu- og búseturéttaríbúða á hverju uppbyggingarsvæði verði 20-25%. Jafnframt hefur verið samið um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að um 5% af öllum nýjum íbúðum. Samhliða samþykkt húsnæðisáætlunar voru samþykktar tillögur sem lúta að hraðari uppbyggingu, betri og öruggari leigumarkaði og ódýrari íbúðum fyrir ungt fólk. Áætlunin og tillögurnar eru samþykktar til þess að tryggja félagslega blöndun um alla borg.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Síðustu 3 árin hafa borgarbúar orðið vitni að endalausum leiksýningum borgarstjóra þar sem hann þylur upp áætlanir um fjölgun íbúða á vegum fasteignafélaganna í borginni. Reynslan hefur sýnt að áætlanir meirihlutans í húsnæðismálum standast engan veginn og því er óábyrgt að samþykkja enn eina áætlunina frá meirihlutanum í Reykjavík. Því greiða borgarfulltrúar minnihlutans, allir sem einn, atkvæði gegn þessari húsnæðisstefnu sem gengur í raun út á að fresta kosningaloforðum meirihlutans um a.m.k. eitt kjörtímabil í viðbót. Hefðu tillögur sem bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn og flugvallarvinir hafa lagt fram um úthlutun lóða í Úlfarsárdal verið samþykktar væri allt annað ástand í húsnæðismálum í Reykjavík en nú er. Þá vantaði ekki 5.000 íbúðir í dag og þá væri húsnæðisverð ekki að rjúka upp langt umfram alla eðlilega verðþróun sem gerir það að verkum að ungt fólk getur ekki flutt í húsnæði í borginni og býr annað hvort enn í foreldrahúsum eða hefur flutt í nágrannasveitarfélögin. Lóðaskorturinn er í boði meirihlutans í Reykjavík sem hefur búið til húsnæðisvandann með einstrengingslegri þéttingar- og lóðaskortsstefnu og hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina ásamt borgarbúum fengið meira en nóg af endalausum áætlunum og glæruhúsum meirihlutans og hyggjast ekki taka þátt í enn einni leiksýningu borgarstjóra.

2. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn fer þess á leit við samgönguráðherra að hann endurskoði reglugerð um leigubifreiðar og leiti leiða til að draga úr aðgangshindrunum í greinina til að bregðast við aukinni þjónustuþörf og draga úr ólöglegum akstri.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að gefa borgarstarfsmönnum kost á auknum sveigjanleika við starfslok. Ljóst er að gagnkvæmur ávinningur getur falist í því fyrir Reykjavíkurborg og starfsfólk hennar að núgildandi reglur varðandi það hvernig og hvenær fólk lýkur atvinnuþátttöku, verði rýmkaðar. Annars vegar getur verið óæskilegt að knýja fólk til að láta af störfum meðan það hefur enn gott starfsþrek og vilja til að halda áfram starfi. Hins vegar getur verið æskilegt að gefa fólki kost á að hætta eða draga úr atvinnuþátttöku fyrr en nú er. Tækifæri geta falist í því að Reykjavíkurborg þurfi ekki að segja upp föstum ráðningarsamningum við starfsmenn sem hafa óskerta starfsorku eða jafnvel reynslu og þekkingu sem viðkomandi stofnun telur eftirsóknarverða og getur jafnvel illa verið án. Borgarstjórn felur borgarráði að móta tillögur um sveigjanleg starfslok sem miði að því að rýmka þær reglur sem nú gilda um þessi mál.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um atvinnu- og virkniúrræði á vegum Reykjavíkurborgar.

- Kl. 15.50 víkur Áslaug María Friðriksdóttir af fundi og Björn Gíslason tekur sæti.

4. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. maí og 1. júní.

37. liður fundargerðarinnar frá 1. júní, viðauki vegna endurskoðunar á lánsfjáráætlun vegna breytinga á samþykktum Brúar lífeyrissjóðs, samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

42. liður fundargerðarinnar frá 1. júní, viðauki við samkomulag Reykjavíkurborgar, íslenska ríkisins og Hörpu ohf. um framlengingu og endurskoðun á sérstökum framlögum, samþykktur með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn einu atkvæði borgarfulltrúans Kjartans Magnússonar. Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

43. liður fundargerðarinnar frá 1. júní, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna viðaukasamkomulags um rekstur Hörpu samþykktur með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn einu atkvæði borgarfulltrúans Kjartans Magnússonar. Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

5. Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 23. maí, menningar- og ferðamálaráðs frá 22. maí, skóla- og frístundaráðs frá 24. maí, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 15. og 29. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 17., 24. og 31. maí og velferðarráðs frá 18. maí.

Fundi slitið kl. 16.08

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Líf Magneudóttir

Kjartan Magnússon Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 6.6.2017 - prentvæn útgáfa