Borgarstjórn - 6.5.2004

Borgarstjórn

BORGARSTJÓRN

Ár 2004, fimmtudaginn 6. maí, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Árni Þór Sigurðsson, Katrín Jakobsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Stefán Jón Hafstein, Stefán Jóhann Stefánsson, Anna Kristinsdóttir, Jóhannes Bárðarson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Björn Bjarnason, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar lagði forseti til að fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. apríl yrði tekin inn á dagskrá sem 10. liður. Samþykkt með 12 samhljóða atkvæðum.

1. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003; fyrri umræða. Jafnframt lögð fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf., dags. í dag. Samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar ásamt endurskoðunarskýrslu til síðari umræðu.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 20. apríl. 9. liður fundargerðarinnar, lántaka Landsvirkjunar, samþykktur með 14 atkvæðum gegn 1.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað vegna 9. liðar fundargerðarinnar: Ég greiði atkvæði gegn þessari lántöku og vísa til bókunar F-listans í borgarráði þar sem lýst er áhyggjum af aukinni skuldabyrði á íbúa Reykjavíkur vegna ábyrgða Reykjavíkurborgar á lántökum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. apríl.

- Kl. 15.45 vék borgarstjóri af fundi og borgarritari tók þar sæti. - Kl. 15.58 vék Ingibjörg Sólrún Gísladóttir af fundi og Helgi Hjörvar tók þar sæti. - Kl. 16.34 vék Guðlaugur Þór Þórðarson af fundi og Gísli Marteinn Baldursson tók þar sæti. - Kl. 16.55 vék Katrín Jakobsdóttir af fundi og Guðný Hildur Magnúsdóttir tók þar sæti. - Kl. 17.07 vék Gísli Marteinn Baldursson af fundi og Margrét Einarsdóttir tók þar sæti.

16. liður fundargerðarinnar, orkusölusamningur við Norðurál, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. 17. liður fundargerðarinnar, lántaka Orkuveitu Reykjavíkur, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

4. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 4. maí.

- Kl. 17.45 vék Stefán Jón Hafstein af fundi og Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók þar sæti.

13. liður fundargerðarinnar, kosning fulltrúa í framtalsnefnd, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. 14. liður fundargerðarinnar, kosning fulltrúa í ýmsar nefndir, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. 19. liður fundargerðarinnar, lántaka Landsvirkjunar, samþykktur með 14 atkvæðum gegn 1. 26. liður fundargerðarinnar, tillaga um veitingu áfengisveitingaleyfis í Egilshöll, felldur með 7 atkvæðum gegn 6.

Alfreð Þorsteinsson, Anna Kristinsdóttir og Jóhannes Bárðarson óskuðu bókað vegna 26. liðar fundargerðarinnar:

Borgarfulltrúarnir telja að vegna þeirra málsmeðferðarreglna sem nú eru í gildi um áfengisveitingaleyfi sem Reykjavíkurborg starfar eftir og vegna ákvæða í stjórnsýslulögum um jafnræði sé Reykjavíkurborg ekki stætt á að hafna umsókn um áfengisveitingaleyfi Sportbitans.

Árni Þór Sigurðsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Helgi Hjörvar, Stefán Jóhann Stefánsson og Guðný Hildur Magnúsdóttir óskuðu bókað vegna 26. liðar fundargerðarinnar:

Veitingastaðurinn Sportbitinn er staðsettur innan veggja Egilshallar, sem er íþróttamannvirki þar sem m.a. fara fram í stórum stíl íþróttaæfingar og keppni barna og unglinga, auk þess sem þar fer fram kennsla grunnskólabarna í leikfimi. Þá er hluti veitingastaðarins einnig ísbúð og sælgætisverslun, og því ljóst að hann dregur að sér þessa aldurshópa. Það er og hefur verið skýr stefna Reykjavíkurborgar að íþróttir og áfengisveitingar fari ekki saman, og birtist hún m.a. í ákvæðum málsmeðferðarreglna borgarráðs vegna vínveitingaleyfa, þar sem bannað er að veita tækifærisleyfi til áfengisveitinga í íþróttamannvirkjum í tengslum við íþróttaviðburði. Þá hefur það einnig ætíð verið skýr stefna Reykjavíkurborgar, að halda beri áfengi frá börnum og unglingum, eins og birst hefur í fræðslu- og forvarnarstarfi borgarinnar um árabil. Fyrir liggur að umsóknin hefur vakið hörð viðbrögð bæði foreldra barna sem stunda íþróttir í Egilshöllinni og foreldrafélaga grunnskólanna, sem og forsvarsmanna íþróttahreyfingarinnar, sem telja áfengisveitingar á þessum stað ganga þvert á öll yfirlýst markmið á þessu sviði.

Hanna Birna Krisjánsdóttir, Kjartan Magnússon og Margrét Einarsdóttir óskuðu bókað vegna 26. liðar fundargerðarinnar:

Í frekari umræðu um þetta mál og með vísan til umsagnar borgarlögmanns hefur komið skýrlega í ljós að samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi þegar umsóknin var lögð fram fyrir rúmlega 3 mánuðum, ber að veita þetta leyfi, enda öll nauðsynleg skilyrði uppfyllt af umsækjanda. Það er grundvallarregla í stjórnsýslu að afgreiða á umsóknir um leyfi á grundvelli þeirra reglna, sem gilda þegar sótt er um viðkomandi leyfi. Þegar kjörnir fulltrúar taka stjórnvaldsákvarðanir ber þeim að fara að reglum stjórnsýslulaga, ekki síst jafnræðisreglunni.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað vegna 26. liðar fundargerðarinnar:

Ég fagna þeirri niðurstöðu sem nú er fengin í Borgarstjórn Reykjavíkur, en vísa að öðru leyti til bókunar minnar á fundi borgarstjórnar 1. apríl sl.

5. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 28. apríl.

6. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 27. apríl.

7. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 26. apríl. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

8. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 28. apríl. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

9. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. apríl.

10. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. apríl.

11. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 16. apríl.

12. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 19. apríl.

13. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 20. apríl.

14. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 27. apríl.

- Kl. 18.00 vék Helgi Hjörvar af fundi.

15. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 28. apríl. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með 14 samhljóða atkvæðum. 16. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 15. apríl.

17. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 29. apríl.

Fundi slitið kl. 18.02.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Anna Kristinsdóttir Kjartan Magnússon