Borgarstjórn - 6.3.2018

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 6. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Magnús Már Guðmundsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Dóra Magnúsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Börkur Gunnarsson, Kjartan Magnússon, Áslaug María Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagðar fram niðurstöður stýrihóps um nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar á sviði velferðartækni, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. mars 2018. R18020226

Samþykkt. 

Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur fram svohljóðandi bókun: 

Innleiðing velferðartækni hefur verið eitt af mínum hjartans málum undanfarin ár. Það eru því heilmikil tímamót og mjög ánægjulegt að borgarstjórn hafi nú samþykkt sína fyrstu stefnu á sviði velferðartækni. Ekkert annað en miklar breytingar eru fyrirséðar í velferðarþjónustunni og því algjörlega tímabært að hefja þróun og innleiðingu nýrra lausna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon, Börkur Gunnarsson og Marta Guðjónsdóttir leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúarnir lýsa yfir ánægju sinni með niðurstöður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar á sviði velferðartækni og að Áslaug Friðriksdóttir hafi haft frumkvæði að því að til hópsins var stofnað. Nú munu starfsmenn geta nýtt velferðartækni við veitingu þjónustunnar þannig að hún verði skilvirkari, sveigjanlegri og styðji við endurhæfingu í heimahúsum. Þannig munu þeir auka sjálfstæði, öryggi og lífsgæði borgarbúa.

2.    Lagðar fram niðurstöður starfshóps um mótun stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara 2018-2022, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. mars sl. R18020227

Samþykkt. 

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa: 

Reykjavíkurborg bannar notkun allra tegunda snjallsíma í skólum borgarinnar á skólatíma, hvort sem um er að ræða í frímínútum eða kennslustofum.

-    Kl. 15:01 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Dóra Magnúsdóttir víkur af fundi. 

-    Kl. 15:18 tekur Sigurður Björn Blöndal sæti á fundinum og Ilmur Kristjánsdóttir víkur af fundi. 

-    Kl. 15:30 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir víkur af fundi. 

Tillagan er felld með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn atkvæði Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa.  R18030009

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun: 

Snjallsímanotkun er ávanabindandi. Rannsóknir sýna að merkja megi mikil tengsl á milli aukningar snjallsímanotkunar barna og aukins kvíða hjá grunnskólabörnum, ásamt minni félagsfærni. Hlutverk Reykjavíkurborgar á að vera að styðja við skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra með því að banna snjallsímanotkun í grunnskólum borgarinnar. Er miður að allir 14 borgarfulltrúarnir neiti að taka frumkvæði í þessu máli, fylgja erlendum fordæmum, taka mark á íslenskum og erlendum rannsóknum sem sýna fram á ofangreind tengsl snjallsímanotkunar og aukinnar vanlíðunar barna og þannig skorta kjark til að láta augljósa hagsmuni barna ráða ferðinni.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Skiptar skoðanir eru á hvernig best er að bregðast við nýjum veruleika sem fylgir snjallsímum. Samræmdar viðmiðunarreglur grunnskólanna gætu verið mjög til bóta en einhliða bann borgaryfirvalda er ekki skynsamlegt né vænlegt til árangurs.

4.    Fram fer umræða um lóðaúthlutanir Reykjavíkurborgar á yfirstandandi kjörtímabili. R17070119

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Á fyrstu tveimur og hálfu ári kjörtímabilsins úthlutaði borgin einungis lóðum undir 317 íbúðir í einum mesta húsnæðisvanda í Reykjavík í áratugi, þ.e. frá því í júní 2014 þar til 31. desember 2016. Þar af var eingöngu lóðum fyrir sex fjöleignarhús með fleiri en fimm íbúðum úthlutað, þ.e. fyrir eitt slíkt hús 2014, eitt slíkt hús 2015 og fjögur slík hús 2016. Á árinu 2017 var hins vegar úthlutað lóðum fyrir 1711 íbúðir og því ber að fagna. Enn er því langt í land með að þessar íbúðir verði tilbúnar enda er nú fyrst verið að selja íbúðirnar í þeim tveimur fjöleignarhúsum með fleiri en fimm íbúðum á lóðunum sem var úthlutað 2014 og 2015. Uppbyggingin hefur gengið hægt og húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega vegna skorts á íbúðum. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands komust einungis 322 íbúðir á fokheldisstig eða hærra á árinu 2017. Á síðustu 7 árum hafa einungis 1966 íbúðir náð a.m.k. fokheldisstigi í Reykjavík.

5.    Fram fer umræða um afgreiðslutíma tillagna og fyrirspurna. R17020193

6.    Fram fer umræða um skaðsemi plasts. R18030052

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt norrænni rannsókn berast margfalt fleiri plastagnir, sem talið er að skaði lífríkið, út í sjó frá íslenskum skólphreinsistöðvum en sænskum og finnskum. Frá árinu 2016 hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað lagt til að hreinsibúnaður skólphreinsistöðva í Reykjavík verði efldur í því skyni að hann verði á við það sem best þekkist á Norðurlöndum. Þannig yrði magni plastagna, sem berst úr skólpdælustöðvum í Reykjavík, haldið í algeru lágmarki. Því miður hefur núverandi borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna ekki enn samþykkt tillögur Sjálfstæðisflokksins í þessu mikilvæga umhverfismáli.

7.    Fram fer umræða um málefni Kjalarness. R16030152

8.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 22. febrúar og 1. mars 2018. R18010002

- 14. liður fundargerðarinnar frá 22. febrúar, endurgreiðsluhlutfall launagreiðenda af greiddum lífeyri, samþykktur. R16030056

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, sitja hjá við afgreiðslu málsins.  

- 14. liður fundargerðarinnar frá 1. mars, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018, samþykktur. R17100024

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, situr hjá við afgreiðslu málsins.

9.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 2. mars, mannréttindaráðs frá 27. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 26. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 28. febrúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 26. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. febrúar og velferðarráðs frá 22. febrúar.  R18010074

- 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 2. mars, breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, er vísað til síðari umræðu borgarstjórnar. R18020258

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókanir undir eftirtöldum liðum fundargerðar forsætisnefndar frá 2. mars:

8. liður: Samkvæmt svarbréfi umhverfis- og skipulagssviðs kemur fram að stór hluti forgangsakreina Strætó var byggður fyrir árið 2010 og því ljóst að hvorki þessi meirihluti né sá síðasti hafa sett það í forgang við að bæta almenningssamgöngur og taka á þeirri miklu aukningu umferðarþunga með því að huga að forgangsakreinum Strætó. Nú hefur borgarstjóri dregið upp úr hattinum orðið Borgarlína, ásamt öðrum bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu og ætlar að breiða yfir aðgerðarleysi sitt í almenningssamgöngum síðustu tvö kjörtímabil.  

9. liður: Varðandi kostnað við að manna störf á skóla- og frístundasviði nú í haust var farið í mikla vinnu sem er talin upp í 14 liðum í samantekt frá skóla- og frístundasviði. Beinn útlagður kostnaður við þetta verkefni er skv. svarbréfi 13.615.046 kr. þar af auglýsinga- og birtingakostnaður fyrir rúmlega 10 milljónir.  Ekki hefur verið hægt að svara fyrirspurn minni um hver kostnaðurinn hafi verið í formi heildarvinnutíma embættismanna, enda er þar líklega um að ræða stærstu kostnaðarliðina. 

 

12. liður: Samkvæmt svarbréfi frá umhverfis- og skipulagssviði kemur fram að þegar heildarfjárútlát vegna þrenginga gatna, forgangsakreina strætó og hljólreiðastíga eru tekin saman þá hefur á síðustu 2 kjörtímabilum verið eytt 78% í hjólreiðastíga eða rúmlega 2,2 milljörðum, 8% í þrengingu gatna eða 226 milljónum og í forgangsakreinar fyrir Strætó 14%. Hversu margir nota strætó sem samgöngutæki? Og hversu margir nota hjólreiðar sem samgöngutæki? Fjöldi farþega samkvæmt skýrslu stjórnar stætó 2016 voru 45.000 farþegar með strætó á dag. Í hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar kemur fram að árið 2014 hafi 9000 manns noti reiðhjól til að hjóla til og frá vinnu.  Þannig að 45.000 farþegar og 406 milljónir á síðustu 8 árum og 9000 manns og 2,2 milljarðar. 9.022 kr. á strætó farþega eða 244.444 á hjólandi einstakling. Þetta er forgangsröðun núverandi meirihluta.  

 

15. liður: Ljóst er að umtalsverða fjármuni er hægt að spara með því að sameina fjármálaskrifstofur Malbikunarstöðvarinnar Höfða, Faxaflóahafna, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Strætó og Sorpu. Mikilvægt er að gera kostnaðar- og hagkvæmnisathugun áður en að lögð verður fram tillaga um slíkt. Í svarbréfinu er fylgiskjal sem er samanburður á fjármáladeildum Strætó, Sorpu og SHS (slökkviliðið) og þar kemur fram að það mætti ná a.m.k. 60-70 milljóna króna rekstrarhagræðingu á ári með því að sameina fjármáladeildir þessara fyrirtækja í eina fjármálaskrifstofu og ljóst er að gera má betur með því að taka Faxaflóahafnir, Strætó og Sorpu undir þá hagræðingu líka. Rök mæla með því að misferlisáhætta og uppgörsáhætta myndi minnka verulega. 

10.    Samþykkt að taka kosningu í mannréttindaráð á dagskrá. Lagt er til að Janus Arn Guðmundsson taki sæti í mannréttindaráði í stað Magnúsar Sigurbjörnssonar R14060108

Samþykkt.

Fundi slitið kl. 20.32

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Kristín Soffía Jónsdóttir    Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 6.3.2018 - prentvæn útgáfa