Borgarstjórn - 6.2.2018

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 6. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.01. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Björn Gíslason og Marta Guðjónsdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að því að gera það kleift að hefja útsendingar úr nefndum og ráðum þannig að borgarbúar geti fylgst með umræðum þegar mikilvæg mál eru til umfjöllunar sem varða mikið hagsmuni almennings.

-    Kl. 14.04 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. 

Samþykkt með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni frá.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar kemur fram að nefndir borgarstjórnar geta ákveðið að efna til opinna funda með borgarbúum, íbúum einstakra hverfa, félögum eða hagsmunahópum. Nú þegar hafa mörg fagráð borgarinnar haldið slíka opna ráðsfundi og sent beint út á netinu. Óski kjörnir fulltrúar eftir því að hluti eða heild fundar fari fram fyrir opnum tjöldum, þá er ráðinu skylt að verða við því. Tillagan hefur því ekkert gildi vegna þess að hún er þegar komin í framkvæmd. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Í upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að Reykjavíkurborg eigi að vera leiðandi í nýjungum í upplýsingamiðlun og að ný tækni verði nýtt á markvissan hátt við að gera upplýsingar borgarinnar aðgengilegar. Sú nýja tækni sem nefnd er í stefnunni hefur ekki verið nýtt á markvissan hátt og ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að hefja útsendingar frá fundum og ráðum. Það lýsir best vilja meirihlutaflokkanna til að gera stjórnsýsluna opnari og gegnsærri. Við sjálfstæðismenn höfum flutt tillögur áður um að gera stjórnsýsluna opnari og aðgengilegri en þeim tillögum hefur verið vísað í nefndir og ráð og hafa ekki enn komið að fullu til framkvæmda. Það er því full ástæða að ítreka fyrri tillögur, auk þess sem lagt er til hér í dag að tæknileg vinna hefjist sem fyrst til að gera það kleift að hægt verði að hefja útsendingar frá fundum og ráðum. Mikilvægt er að gera vinnubrögð borgarinnar nútímalegri og gera ákvörðunarferli mála sýnilegri. Vissulega þarf að gæta persónuverndarsjónarmiða í einhverjum málum en í stórum hagsmunamálum sem varða almenning á stjórnsýslan að vera opin og gagnsæ.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að gera þær breytingar á sveitastjórnarlögum sem veita borgarstjórn sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Tillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í samræmi við gildandi lög hefur borgarstjórn nú þegar samþykkt á fundi sínum þann 19. september 2017, með 11 atkvæðum gegn 4, að fjöldi borgarfulltrúa verði á næsta kjörtímabili í lögbundnu lágmarki, eða 23. Var forsætisnefnd falið að vinna að nauðsynlegum breytingum á samþykktum borgarinnar. Á sama fundi var samþykkt með 11 atkvæðum gegn 4 að vísa frá tillögu um að beina því til Alþingis að endurskoða lagaákvæði um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Afstaða borgarstjórnar liggur því nú þegar fyrir og byggist hún á því að hún gat ekki látið upplausnarástand í landsmálum tefja frekar ákvörðun um fjölda borgarfulltrúa og vinnu við undirbúning næsta kjörtímabils innan ramma gildandi laga. Rétt er að taka enn aftur fram og halda því til haga að sú útfærsla sem forsætisnefnd hefur unnið með myndi leiða til takmarkaðs kostnaðarauka fyrir borgarsjóð, eða jafnvel sparnaðar. Þetta leiðir af því að nú þegar er greitt fyrir fundasetu ýmissa fulltrúa í ráðum og nefndum sem sóttir eru út fyrir hóp borgarfulltrúa, en með því að manna þær alfarið borgarfulltrúum er hægt að lækka þann kostnað á móti auknum launakostnaði borgarfulltrúa. Þessa staðreynd hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn aldrei ávarpað.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga Sjálfstæðisflokksins felur í sér að Alþingi breyti lagaákvæði í sveitarstjórnarlögum þannig að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki. Með því að vísa tillögunni frá staðfesta borgarfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina afstöðu sína um að þeir eru hlynntir fjölgun borgarfulltrúa og hafa engan áhuga á að sveitarstjórnarlögum verði breytt svo borgarstjórn geti sjálf metið þörfina fyrir fjölgun borgarfulltrúa.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að gerð neðanjarðarstokks á Miklubraut í því skyni að auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð, draga úr mengun og bæta aðstæður íbúa í nærliggjandi hverfum. Borgarstjóra er falið að leita þegar í stað eftir samstarfi við ríkið um málið og skipa starfshóp til að leiða verkefnið með fulltrúum ríkisins og Reykjavíkurborgar. M.a. verði skoðað hvort hagkvæmt sé að vinna verkið í einkaframkvæmd. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að meta skipulagslegan þátt verkefnisins og leggja til nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi svo það geti orðið að veruleika.

Vísað til borgarráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Gert er ráð fyrir mögulegri stokkalausn á Miklubraut í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, sem 12 af 15 borgarfulltrúum samþykktu 2014. Unnið hefur verið að málinu í samráði við íbúa í Hlíðum í tengslum við gerð hverfisskipulags. Miklabraut í stokk hefur einnig verið til umfjöllunar í samvinnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar undanfarin misseri. Fagnaðarefni er að frummati þessarar mikilvægu framkvæmdar sé nú lokið og mikilvægt að undirbúa markviss næstu skref. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Árum saman hefur vinstri meirihlutinn í borgarstjórn, undir forystu Samfylkingarinnar, hafnað stórframkvæmdum á vegum ríkisins í þágu samgöngubóta á stofnbrautum Reykjavíkur. Meðal annars hafa borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar tekið harða afstöðu gegn fækkun ljósastýrðra gatnamóta á Miklubraut þótt margsýnt hafi verið fram á að mislægar lausnir auki umferðaröryggi og greiði fyrir umferð. Árið 2012 gekkst núverandi borgarstjóri fyrir því að gerður var sérstakur samningur á milli Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og ríkisins hins vegar um að fresta ýmsum stórframkvæmdum í þágu samgöngumála í Reykjavík um óákveðinn tíma, þ.á.m. umræddum stokki á Miklubraut. Svo virðist sem borgarfulltrúar meirihlutans ætli nú að kúvenda í afstöðu sinni til slíkra samgöngubóta á Miklubraut og er það ánægjulegt í sjálfu sér. Vonandi er að hugur fylgi þar máli en ekki sé um að ræða einhvers konar bragð í aðdraganda kosninga. Við samþykkjum því að tillögu Sjálfstæðisflokksins um Miklubrautarstokk verði vísað til borgarráðs í trausti þess að þessi mikilvæga framkvæmd verði ekki tafin frekar heldur unnið að málinu af festu og heilindum. 

4.    Fram fer umræða um Miklubraut í stokk, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar.

-    Kl. 16.19 víkur Skúli Helgason af fundinum og Sabine Leskopf tekur sæti. 

5.    Fram fer umræða um #metoo sögur kvenna af erlendum uppruna.

-    Kl. 16.49 víkur Halldór Halldórsson af fundinum og Börkur Gunnarsson tekur sæti. 

6.    Fram fer umræða um vatnsverndarsvæði vatnsbóla innan höfuðborgarsvæðisins.

-    Kl. 18.15 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Eva Baldursdóttir tekur sæti.

7.    Fram fer umræða um málefni Norðlingaholts

8.    Lagt er til að Ragnar Auðun Árnason taki sæti sem varamaður í íþrótta- og tómstundaráði í stað Benónýs Harðarsonar.

    Samþykkt. 

    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi situr hjá við afgreiðslu málsins.

9.    Lagt er til að Elísabet Gísladóttir taki sæti sem varamaður í ofbeldisvarnarnefnd í stað Hildar Sverrisdóttur. 

    Samþykkt. 

    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi situr hjá við afgreiðslu málsins.

10.    Lagt er til að Örn Þórðarson taki sæti sem varamaður í fjölmenningarráði í stað Hildar Sverrisdóttur. 

    Samþykkt. 

    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi situr hjá við afgreiðslu málsins.

11.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. og 25. janúar og 1. febrúar 2018. 

- Samþykkt að vísa 17. lið fundargerðarinnar frá 1. febrúar, lántökuheimild fyrir Strætó bs. vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð til meðferðar borgarráðs að nýju. 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun undir lið nr. 18 í fundargerð borgarráðs frá 18. janúar: 

Mikilvægt er að æðstu stjórnendur Reykjavíkurborgar greiði fyrir verkefni um greiningu á misferlisáhættu á öllum sviðum borgarinnar og að brugðist verði við því án tafar, enda ljóst af bréfi innri endurskoðanda, dags. 14. desember 2017, að misferlisáhætta sé til staðar innan borgarkerfisins. Í samstarfssáttmála borgarstjórnar árin 2014-2018 er markmið að auka gagnsæi og traust á stjórnsýslunni og ætti því þetta verkefni að vera sett í forgang. 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi leggur fram svohljóðandi bókun undir lið nr. 19 í fundargerð borgarráðs frá 18. janúar: 

Í nýsamþykktri tillögu um stefnumótun í kynfræðslu sem samþykkt var í borgarstjórn nú í janúar kemur skýrt fram að kynfræðsla eigi að vera í höndum þriggja fagstétta, þ.e.a.s. skólahjúkrunarfræðings, kennara og frístundaráðgjafa í félagsmiðstöð. Ekki er rætt um aðkomu annarra. Í samningi sem ég hef fengið afhentan á þessum fundi, dags. 23. janúar, á milli MAR og Samtakanna 78 kemur ekkert fram um hvaða kröfur eru gerðar til þeirra aðila sem taka að sér fræðslu til barna og ungmenna í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Þá tel ég að þessi liður 1. gr. samningsins fari gegn ofangreindri tillögu um stefnumótun um kynfræðslu og árétta að mikilvægt er að til þess menntaðir aðilar sjái í hvívetna um menntun barna í grunnskólum Reykjavíkur. Í anda samþykktrar tillögu um stefnumótun um kynfræðslu, er eðlilegt að Reykjavíkurborg geri samning við Samtökin 78 um fræðslu til fagaðila, en sinni ekki fræðslu til barna og ungmenna.

12.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 2. febrúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. og 26. janúar, mannréttindaráðs frá 9. og 23. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 22. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 24. janúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 15. og 29. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 17., 24. og 31. janúar og velferðarráðs frá 18. janúar

13.    Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir: 

a.    Óskað er eftir að tekið verði saman sundurliðaður heildarkostnaður sem Reykjavíkurborg hefur lagt í vegna a) þrengingu gatna b) hjólreiðarstíga og c) forgangsakreina Strætó innan Reykjavíkur, annars vegar á þessu kjörtímabili og hins vegar á árunum 2010-2014. 

b.    Í aðgerðaráætlun 2015-2020 um framtíð úrgangsmála í Reykjavík, kemur fram að söfnun á gler- og steinefni eigi að hefjast á grenndarstöðvum 2015-2016. Óskað er eftir upplýsingum um hvar þær grenndarstöðvar eru staðsettar sem taka á móti ofangreindu. 

c.    Óskað er eftir upplýsingum um hvort að fram hafi farið kostnaðar- og hagkvæmnisathugun á því að sameina fjármálaskrifstofur fyrirtækja Reykjavíkurborgar, eins og Malbikunarstöðvarinnar Höfða, Faxaflóahafna, Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins, Strætó og Sorpu. Ef svo er þá óskast lögð fram þau gögn og skýrslur er það mál varða. 

d.    Í borgarráði 1. febrúar 2018 var lögð fram samantekt á aðgerðum sem miða að því að manna störf á skóla- og frístundasviði, dags. 29. janúar 2018. Um er að ræða ítarlegt skjal þar sem margra leiða hefur verið leitað. Óskað er eftir upplýsingum hvort að tekið hafi verið saman hver kostnaðurinn hafi verið við alla þá 14 liði sem þar eru nefndir. Hefur verið tekið saman tímafjöldi embættismanna sem að verkefninu hafa komið? Hver var heildarkostnaðurinn við lið 1.8, jólagjafir? Hver var kostnaðurinn við nr. 2.2, nýtt útlit og nálgun í auglýsingu? Var keypt utanaðkomandi þjónusta auglýsinga- eða hönnunarstofu og þá hverrar og fyrir hvaða fjárhæð? 2.3. Við hvaða birtingarráðgjafa var gert samkomulag og hver var kostnaðurinn við hann? Hver var kostnaður við lið 2.7, þjónustu Capacent? Hver var kostnaðurinn við lið 2.12 um samning um dansverkefni? 

e.    Á árinu 2015 samþykkti meirihlutinn í borgarstjórn að velferðarsvið tæki yfir rekstur gistiskýlis fyrir húsnæðislausa karla sem hafði verið í höndum góðgerðarsamtaka áður í stað þess að ganga að framkomnum tilboðum Hjálpræðishersins og Samhjálpar um reksturinn. Nú er óskað eftir að tekið verði saman rekstrarkostnaður sem fallið hefur á Reykjavíkurborg frá því að hún tók við rekstrinum, bæði með og án innri leigu. Óskað er eftir sundurliðun á rekstrarkostnaði, innri leigu, launakostnaði, aðföngum/rekstri og síðan annað ef haldið er utan um kostnaðarþættina í bókhaldskerfinu með þeim hætti.  

f.    Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um auglýsingakostnað Reykjavíkurborgar, eftir því í hvaða miðlum er og hefur verið auglýst vegna ársins 2015, 2016 og 2017. Þá er óskað eftir sundurliðuðum kostnaði við birtingarhús eða birtingarráðgjafa og hversu mikið sé greitt í “kostaðar” auglýsingar á samfélagsmiðlum. Einnig óskast upplýst hvort að borgin hafi á þessu tímabili gert sérstaka auglýsinga eða kostunar samninga við fjölmiðla.

g.    Óskað er eftir að tekið verið saman og lagt fram stöðuskjal og kostnaðarskjal varðandi hönnun mannvirkja og uppbyggingu á samþættum leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf, menningarstöð, bókasafn, sundlaug og íþróttaaðstöðu Fram í Úlfarsárdal. Skal sérstaklega sett fram hver staðan er miðað við upphaflegar áætlanir og borgarfulltrúar upplýstir um hvort að breytingar séu fyrirsjáanlegar á ákveðnum verk- eða kostnaðarþáttum. 

h.    Óskað er eftir upplýsingum um hvaða lögmannsskrifstofur Reykjavíkurborg hefur átt viðskipti við síðastliðin þrjú ár, 2015, 2016 og 2017 og sundurliðun óskast á fjárhæðum sem greiddar hafa verið til þeirra.

Samþykkt að vísa fyrirspurnunum til vinnslu á vettvangi forsætisnefndar. 

Fundi slitið kl. 20.00

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Marta Guðjónsdóttir    Kristín Soffía Jónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 6.2.2018 - prentvæn útgáfa