No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2020, þriðjudaginn 6. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Pawel Bartoszek. Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir og Vigdís Hauksdóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Björn Gíslason, Jórunn Pála Jónasdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir og Örn Þórðarson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar leggur forseti borgarstjórnar fram tillögu um að öllum málum á dagskrá fundarins verði frestað í ljósi yfirvofandi aðgerða í tengslum við neyðarstig almannavarna vegna COVID-19.
1. Samþykkt að taka á dagskrá umræðu um neyðarstig almannavarna vegna COVID-19.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Í ljósi ástandsins er tilhögun um frestun mála eðlileg en mikilvægt er að fundir borgarstjórnar geti framvegis að fullu farið fram í gegnum fjarfundarbúnað svo að tryggja megi áframhald borgarstjórnarfunda við þessar nýju aðstæður. Mikilvægt er að borgarstjórn tryggi að enginn borgarbúi verði skilinn eftir efnahagslega né félagslega í þessum aðstæðum sem nú blasa við.
2. Óundirbúnum fyrirspurnum til borgarstjóra er frestað.
3. Lögð fram ferðamálastefna Reykjavíkur 2020-2025, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020, ásamt uppfærðri tillögu að ferðamálastefnu Reykjavíkur sbr. bréf menningar- og ferðamálasviðs dags. 5. október 2020.
Frestað.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að gerð verði úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í grunn- og leikskólum borgarinnar. Skóla- og frístundasviði verði falið að vinna að úttekt í samstarfi við fræðimenn á þessu sviði og koma í framhaldi með tillögur til úrbóta.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að velferðarsviði verði falið að ganga til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. Í framhaldinu verði lögð fram kostnaðarmetin tillaga til meðferðar velferðarráðs og samþykktar í borgarráði.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn fari þess á leit við innri endurskoðun að hún geri úttekt á sérkennslu leik- og grunnskóla í Reykjavík. Stór hópur reykvískra barna eru í sérkennslu, sum í fáeina tíma á viku en önnur eru í sérkennslu alla grunnskólagönguna. Óljóst er hvort nokkuð sem tengist sérkennslu í reykvískum skólum sé samræmt; greiningar á námsgetu, sérkennslan sjálf eða mat á árangri. Fjölmörg rök hníga að gerð heildstæðrar úttektar á sérkennslu í skólum Reykjavíkur. Fullnægjandi upplýsingar um sérkennslumál skortir. Íslensk börn standa verr að vígi í lestri og lesskilningi samanborið við nágrannalönd. Samkvæmt PISA 2018 lesa um 34% drengja 14/15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Samkvæmt Lesskimun 2019 les aðeins 61% barna í Reykjavík sér til gagns eftir 2. bekk. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort sérkennslan skili tilætluðum árangri. Í úttektinni felst að skoða hvort: 1. Nemendur í sérkennslu séu að fá einstaklingsmiðaða sérkennslu byggða á faglegu mati sérfræðinga skólaþjónustu og í samræmi við skilgreindar þarfir þeirra. 2. Greiningar sem liggja til grundvallar sérkennslu séu unnar af fagaðilum skólaþjónustu og séu samræmdar milli skóla. 3. Til staðar sé samræmt eftirlit með sérkennslunni og eftirfylgni. 4. Að fjármagninu sé varið í þeim tilgangi sem því er ætlað.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að skipaður verði stýrihópur um hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir vegna fjármálastöðu Reykjavíkurborgar. Stýrihópurinn skal vera skipaður átta kjörnum fulltrúum, einum frá hverjum flokki sem fulltrúa á í borgarstjórn. Verkefni stýrihópsins er að rýna fjárhagsáætlanir borgarinnar og skila tillögum að verulegri hagræðingu næstu þrjú árin án þess að til skerðinga komi á lögbundinni þjónustu eða grunnþjónustu. Skulu verklok stýrihópsins fyrir fjárhagsáætlun 2021 vera 15. nóvember 2020 og 1. október næstu ár á eftir.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.
8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að borgin skapi rými innanhúss sem er opinn samverustaður fyrir borgarbúa sem vilja koma saman og ræða sín á milli, þeim að kostnaðarlausu. Rýmið verði hugsað fyrir stóra hópa jafnt sem minni. Þeim sem koma í rýmið gefist færi á að snæða sinn eigin mat og lagt er til að boðið verði upp á kaffi- og vatnsaðstöðu og salernisaðstöðu. Vettvangurinn verði opinn almenningi en lagt er til að rýmið mæti sérstaklega þörfum þeirra sem eru án atvinnu og gætu haft áhuga á því að setja fram hugmyndir til atvinnusköpunar með öðrum eða vilja einfaldlega vera í samskiptum við fólk í svipaðri stöðu. Rýmið verði hugsað sem vettvangur fyrir samveru, hugmyndavinnu og staður fyrir þau sem vilja koma hugmyndum í framkvæmd. Mikilvægt er að þau sem vilja vinna að nýjum hugmyndum fái aðstöðu til slíks með nægu rými, fundarherbergjum og aðstöðu til símhringinga. Rýmið þarf að vera þannig að hópar fólks geti verið þar en að hægt sé að virða nálægðartakmarkanir sem eru í gildi hverju sinni vegna kórónuveirunnar. Á bókasöfnum borgarinnar geta hópar komið saman en slíkt er orðið erfiðara eftir því sem hóparnir stækka. Félagsmiðstöðvar og samfélagshús eru víðsvegar um borgina og stýrihópur um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk hefur unnið að tillögum um þróun félagsmiðstöðvanna. Lagt er til að skoðað verði hvort umrædd tillaga geti fallið að notkun samfélagshúsanna. Ef slíkt hentar ekki verði samveru- og sköpunartorginu fundinn annar staður. Menningar- og ferðamálasviði og velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunar með öðrum innan borgarinnar, eftir því sem við á.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.
9. Umræðu um samgöngusáttmála er frestað.
10. Lögð fram svohljóðandi tillaga Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að reglulegum fundum borgarstjórnar verði fjölgað úr tveimur fundum í mánuði í fjóra og hefjist kl. 10:00 í stað 14:00. Gerðar verði breytingar til samræmis við það á samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar, 8. grein, í kaflanum fundir borgarstjórnar og fundarsköp. Greinin verði svohljóðandi eftir breytingu: Borgarstjórn heldur reglulega fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur fjórum sinnum í mánuði, fyrsta, annan, þriðja og fjórða þriðjudag hvers mánaðar sem ekki ber upp á helgidag eða almennan frídag, og skal fundur að jafnaði hefjast kl. 10:00.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.
11. Lögð fram svohljóðandi tillaga Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að leita leiða til að gera reglur Bílastæðasjóðs varðandi útgáfu íbúakorta í miðborg Reykjavíkur nútímalegri og sveigjanlegri til að mæta breyttum aðstæðum á tímum bíllauss lífsstíls og deilibíla. Samráð verði haft við stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur.
Frestað.
12. Laðgar fram fundargerðir borgarráðs frá 17. og 24. september og 1. október.
Afgreiðslu á 27. lið fundargerðarinnar frá 17. september; framlenging á tímabundnum göngugötum í miðborginni, er frestað.
Afgreiðslu á 30. lið fundargerðarinnar frá 17. september; Grófarhús við Tryggvagötu, er frestað.
Afgreiðslu á 8. lið fundargerðarinnar frá 1. október; 2. áfangi Laugavegar sem göngugötu – deiliskipulag, er frestað.
Afgreiðslu á 9. lið fundargerðarinnar frá 1. október; Brynjureitur – deiliskipulag, er frestað.
Afgreiðslu á 10. lið fundargerðarinnar frá 1. október; Frakkastígsreitur – deiliskipulag, er frestað.
Afgreiðslu á 11. lið fundargerðarinnar frá 1. október; Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur – deiliskipulag, er frestað.
15. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 2. október, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. og 24. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. ágúst og 14. og 28. september, skipulags- og samgönguráðs frá 23. september, skóla- og frístundaráðs frá 11. og 22. september, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 30. september og velferðarráðs frá 16. september.
Fundi slitið kl. 14:15
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Pawel Bartoszek
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 6.10.2020 - Prentvæn útgáfa