Borgarstjórn - 6.10.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 6. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.01. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eva Einarsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar minnist forseti borgarstjórnar fyrrum borgarfulltrúa, Jónu Gróu Sigurðardóttur og Kristjáns Benediktssonar, sem létust nýverið. Borgarstjórn þakkar fyrir framlag þeirra í þágu borgarinnar og sendir fjölskyldum þeirra og vinum innilegar samúðarkveðjur.

1. Lögð fram tillaga að hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2015-2020, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs dags. 1. október sl.

Samþykkt að taka svohljóðandi breytingatillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá: 

Eftirfarandi bætist við kaflann Aðgerð I: Uppbygging hjólaleiða: Við hönnun nýrra gatna og endurgerð gamalla verði leitast við að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar þar sem aðstæður leyfa. 

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs.

Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2015-2020 samþykkt.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við leggjumst gegn þeirri ákvörðun meirihlutans að vísa fyrirliggjandi viðaukatillögu Sjálfstæðisflokksins um drög að hjólreiðaáætlun 2015-2020 til umhverfis- og skipulagssviðs. Tillagan felur í sér að við hönnun nýrra gatna og endurgerð gamalla verði leitast við að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar þar sem aðstæður leyfa. Ljóst er að tillagan er í fullu samræmi við markmið áætlunarinnar og felur í sér breytingu til batnaðar varðandi aðstæður hjólreiðafólks í borginni. Meirihlutinn samþykkir ekki tillöguna heldur kýs að vísa henni inn í borgarkerfið án nokkurra tilmæla um meðhöndlun. Embættismenn í borgarkerfinu munu því hafa sjálfdæmi um hvort tillagan verði nýtt til að bæta aðstæður hjólreiðafólks í Reykjavík eða henni hreinlega stungið ofan í skúffu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja áætlunina en gera athugasemdir við að ekki er gert ráð fyrir fullnægjandi göngu- og hjólastígum í Úlfarsárdal, nýjasta íbúahverfi borgarinnar, á gildistíma áætlunarinnar og óska eftir að úr því verði bætt. Einnig mætti standa betur að ýmsum tengingum göngu- og hjólastíga innan hverfa og milli þeirra.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir telja hjólreiðaáætlunina vel unnið skjal og margt þar sem göfugt er að vinna að. Í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar væri þó heppilegra að framkvæmd og fjárútlát tengd áætluninni væri árin 2015-2025, þ.e.a.s. að borgin hefði 10 ár í stað 5 ára til að vinna áætluninni brautgengi. Á tímum eins og nú ber okkur skylda til að forgangsraða fjármunum í þágu lögbundinnar grunnþjónustu.

2. Fram fer umræða um biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.

3. Lagt er til að Jón Ingi Gíslason taki sæti Stefáns Þórs Björnssonar í stjórnkerfis- og lýðræðisráði.

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

4. Lagt er til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti Heiðu Bjargar Hilmisdóttur í heilbrigðisnefnd. Jafnframt er lagt til að Kristín Soffía verði formaður nefndarinnar.

Samþykkt. 

5. Lagt er til að Halldóra Mogensen taki sæti Þórlaugar Ágústsdóttur sem varamaður í hverfisráði Miðborgar.

Samþykkt. 

6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 17. og 24. september og 1. október. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. september: 

Framsókn og flugvallarvinir ítreka þegar framlagða tillögu frá 17. mars 2015, sem segir „Í tilefni þess að í ár er fagnað 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi samþykkir borgarstjórn að gerð verði jafnlaunaúttekt hjá Reykjavíkurborg, sem staðfest verður með jafnlaunavottun á afmælisárinu.“

7. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 1. október. 

- 4. liður fundargerðarinnar, viðaukar við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, samþykktur og vísað til seinni umræðu. 

Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 18. september, mannréttindaráðs frá 22. september, menningar- og ferðamálaráðs frá 14. og 28. september, skóla- og frístundaráðs frá 23. september, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 21. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 16., 23., og 30. september og velferðarráðs frá 3. og 10. september.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar íþrótta- og tómstundaráðs frá 18. september: 

Mikilvægt er að ekki séu veittir styrkir frá Reykjavíkurborg til íþróttafélaga nema sú krafa sé gerð samhliða að íþróttafélagið sem styrkinn fær innheimti jafnframt félagsgjöld, og jafnvel að þau hafi innheimt þau í eitt eða tvö ár áður en að styrkur er veittur.  

Fundi slitið kl. 18.25

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Kjartan Magnússon Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 6.10.2015 - prentvæn útgáfa