Borgarstjórn - 5.5.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 5. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir Skúli Helgason, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Hjálmar Sveinsson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um nýjungar í velferðarþjónustu að beiðni borgarfulltrúa allra flokka.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hefja tilraunaverkefni næsta haust þar sem gerð verður úttekt á nýsköpunarumhverfi valdra eininga velferðarsviðs. Úttektin verði gerð af utanaðkomandi aðilum. Nýsköpun er háð því að stjórnendur og starfsmenn hafi frelsi og getu til að prófa nýjar hugmyndir og leiðir til að nálgast verkefni sín. Starfsumhverfið, viðhorf og menning innan fyrirtækjanna geta þar skipt sköpum. Nauðsynlegt er að starfsumhverfi mismunandi eininga innan velferðarsviðs verði tekið til sérstakrar skoðunar hvað þetta varðar. Horft verði til þess hvort umhverfið gefi nægt rými til nýsköpunar, hvetji til jákvæðra samskipta, frumkvæði og lausnamiðaðri hugsun. Skilgreindir verði styrkleikar og veikleikar mismunandi eininga. Úttektin nái til allra hlutaðeigenda, stjórnenda, starfsmanna, notenda og hagsmunaaðila.

Samþykkt að vísa tillögunni til velferðarráðs.

- Kl. 15.06 tekur Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir sæti á fundinum og Gréta Björg Egilsdóttir víkur af fundi.

- Kl. 15.10 tekur Kristbjörg Stephensen við fundarritun af Þórhildi Lilju Ólafsdóttur.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Innanríkisráðuneytið hefur með bréfi dagsettu 17. apríl sl. skorað á Reykjavíkurborg að virða gildandi skipulagsreglur og stjórnsýslumeðferð. Bent er á að uppbygging á Valssvæðinu sé óheimil með vísan til laga um loftferðir. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að framkvæmdaleyfi á svæði Valsmanna við Hlíðarenda verði dregið til baka tímabundið eða þar til þeir fyrirvarar sem ráðuneytið tilgreinir hafa verið uppfylltir en þeir eru að Samgöngustofa hafi lokið umfjöllun sinni um möguleg áhrif lokunar flugbrautar 06/24 og að verkefnastjórn um könnun á flugvallarkostum, svokölluð Rögnunefnd, hefur lokið störfum. Jafnframt er því beint til Samgöngustofu og Rögnunefndar að flýta sínum störfum.

Tillagan er felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Eina framkvæmdaleyfið sem Reykjavíkurborg hefur gefið út vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Hlíðarendasvæðinu var gefið út þann 10. apríl 2015 fyrir vegaframkvæmdum á svæði Valsmanna hf. við Hlíðarenda. Framkvæmdaleyfið var gefið út í samræmi við deiliskipulag fyrir Hlíðarenda sem tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda þann 14. janúar 2014 og hefur lagning vegarins engin áhrif á hindrunarfleti aðflugslína NA/SV-flugbrautar Reykjavíkurflugvallar (flugbraut 06/24). Útgáfa framkvæmdaleyfis er auk þess stjórnvaldsákvörðun sem verður ekki afturkölluð nema hún sé annað hvort framkvæmdaleyfishafa að skaðalausu eða að lagalegir annmarkar hafi verið á ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Fyrir liggur að framkvæmdaleyfi var gefið út í samræmi við lagaskyldur Reykjavíkurborgar og að það samræmist gildandi skipulagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir Hlíðarendasvæðið, gildandi skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll og ákvæðum skipulagslaga. Afturköllun framkvæmdaleyfis myndi fela í sér að stjórnvaldsákvörðun yrði dregin tilbaka án lagaheimildar. Af þessu leiðir að Reykjavíkurborg er ekki heimilt að afturkalla ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Tekið er undir áskorun innanríkisráðherra að Reykjavíkurborg virði gildandi skipulagsreglur og þá stjórnsýslumeðferð sem er í gangi fyrir Samgöngustofu og að ekki verði farið í framkvæmdir á því svæði sem eru hindrunarfletir að aðflugslínum að flugbrautum vallarins þ.m.t. flugbraut 06/24. Eins og fram kemur í bréfi innanríkisráðherra er ljóst að þær framkvæmdir sem byrjað er á eru undanfari frekari uppbyggingar og byggingarframkvæmda á svæðinu. Framsókn og flugvallarvinir leggjast gegn öllum ákvörðunum sem lúta að lokun flugbrautar 06/24 og uppbyggingu á því svæði á Hlíðarenda sem teppir aðflug að flugvellinum og ítreka fyrri bókanir um málið. Ranglega var staðið að ákvörðun um deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka flugbraut 06/24 af skipulagi og látið eins og brautin væri ekki til við gerð breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda. Niðurstaða áhættumats liggur ekki fyrir né afstaða Samgöngustofu. Þá er Rögnunefndin enn að störfum. Fyrir liggur að flugbraut 06/24 hefur ítrekað verið notuð í vetur í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs og því ljóst að verði hún lögð niður verður flugöryggi og sjúkraflugi stefnt í hættu. Framsókn og flugvallarvinir skora á meirihluta borgarstjórnar að veita ekki leyfi fyrir framkvæmdum á því svæði sem skipulagsreglurnar ná til enda óheimilt að reisa mannvirki sem ná upp fyrir þá fleti sem teppir aðflug að öllum þremur flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Þá harma Framsókn og flugvallarvinir það að á fundi borgarráðs 18. desember sl. hafi tillaga okkar verið felld að Reykjavíkurborg hefji án tafar viðræður við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu um að finna lausn á fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda þannig að fyrirhugaðar byggingar komist fyrir á reitnum án þess að vera hindrun fyrir flugbraut 06/24 eða svokallaða „neyðarbraut“ svo hún geti áfram haldið hlutverki sínu þrátt fyrir uppbyggingu á Hlíðarenda og allir hagsmunaaðilar geti vel við unað.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að bregðast við með ábyrgum hætti hefur nú verið felld með atkvæðum allra borgarfulltrúa meirihlutans. Samkomulag við ríki og Icelandair frá 25. október 2013 um að setja á stofn verkefnastjórn undir forystu Rögnu Árnadóttur er margbrotið en samkomulagið gekk meðal annars út á það að ekki yrði dregið úr flugöryggi eða með nokkrum hætti takmörkuð nýting Reykjavíkurflugvallar þar til verkefnastjórnin hefur lokið störfum. Skipulagið mun hafa þau áhrif að ekki verður hægt að lenda á eða nýta neyðarbrautina, flugbraut 06/24, á Reykjavíkurflugvelli og ekki nothæf flugbraut í sambærilegri legu á Keflavíkurflugvelli. Innanríkisráðherra hefur sent Reykjavíkurborg harðort bréf þar sem borgarstjóra er bent á að þessi vegferð og veiting framkvæmdaleyfis í framhaldinu er í andstöðu við lög um loftferðir og þess vegna sé borginni óheimilt að veita framkvæmdaleyfi. Meirihlutinn vinnur því gegn þeirri sátt sem náðist í málinu þegar því var vísað til Rögnunefndarinnar og virðir að vettugi það svigrúm sem skapa átti.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Í því skyni að auka gagnsæi í skólastarfi og upplýsingagjöf til foreldra, samþykkir borgarstjórn að skýrsla með heildarniðurstöðum um árangur reykvískra grunnskóla í lesskimun og stærðfræðiskimun þar sem m.a. koma fram upplýsingar um árangur hvers skóla, verði birtar á heimasíðu viðkomandi skóla.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

  Framsókn og flugvallarvinir leggja til að skimanir úr stærðfræði og lestri verði með ákveðnum miðstýrðum hætti kynntar foreldrum barna í foreldraviðtölum, þar sem að farið verði yfir með foreldrum a) niðurstöður nemandans og samanburð við síðustu skimun ef því er til að dreifa, b) samanburður nemenda við jafnaldra sína í skólanum sem og öðrum skólum borgarinnar, c) samburð skólans í heild við aðra skóla í borginni og d) hæsta gildi, lægsta gildi og miðgildi skólans í skimunum í samanburði við aðra skóla borgarinnar.  Ábyrgð á innleiðingu þessarar kynningar er á vegum skóla- og frístundasviðs. 

Tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins felur í sér tilraun til miðstýringar og ástæðulausra afskipta af upplýsingamiðlun skólastjóra í grunnskólum borgarinnar.  Skólastjórar standa vel að upplýsingamiðlun til foreldra í dag með áherslu á bein samskipti við foreldra þeirra barna sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.  Fyrir liggur eindregin andstaða skólastjóra við þá tillögu  sem hér er til umfjöllunar. Skólastjórnendur þriggja hverfa af sex lögðust eindregið gegn tillögunni, í tveimur hverfum til viðbótar höfðu skólastjórar miklar efasemdir um tillöguna en í einu hverfi voru skoðanir skiptar.  Fulltrúar meirihluta ráðsins telja mikilvægt að hlusta á sjónarmið skólastjóra í þessu efni sem leggja áherslu á að tilgangur skimana af þessu tagi sé fyrst og fremst að greina og aðstoða í tíma þau börn sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda en ekki að ýta undir villandi samanburð á árangri skóla út frá takmörkuðum upplýsingum.  Mikilvægt er að virða sjálfstæði skóla og treysta dómgreind skólastjórnenda varðandi tilhögun á miðlun upplýsinga um niðurstöður les- og stærðfræðiskimana en allar þessar upplýsingar eru opinberar á vef skóla- og frístundasviðs.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja miður að borgarstjórn hafi ekki verið tilbúin að samþykkja breytingartillögun um miðstýrða upplýsingagjöf til foreldra um niðurstöður skimana en ljóst er að foreldrar búa þar ekki við jafnræði í upplýsingagjöf. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli hafna því að skýrslur með heildarniðurstöðum um árangur hvers grunnskóla í stöðluðum kunnáttuprófum í lestri og stærðfræði (lesskimun og stærðfræðiskimun) verði gerðar aðgengilegar með því að birta þær á heimasíðu viðkomandi skóla ásamt skýrslu um heildarniðurstöður fyrir grunnskóla borgarinnar. Með slíkri birtingu væri stórt skref stigið í þá átt að auka gagnsæi og upplýsingagjöf um skólastarf til reykvískra foreldra.

5. Lagt er til að Þórlaug Ágústsdóttir taki sæti Viktors Orra Valgarðssonar sem varamaður í stjórnkerfis- og lýðræðisráði.

Samþykkt.

6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. apríl

- 34. liður, hugmynd af Betri Reykjavík um lækkun útsvars felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið; fundargerð endurskoðunarnefndar frá 18. febrúar, 2. liður.

Framsókn og flugvallarvinir telja mikilvægt að ekki séu gerðir ráðgjafasamningar við þau endurskoðunarfyrirtæki sem sinna endurskoðun fyrir borgina, dótturfélög hennar, byggðarsamlög og hlutdeildarfélög hennar,  hverju sinni.  

7. Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. apríl, mannréttindaráðs frá 28. apríl, menningar- og ferðamálaráðs frá 27. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 29. apríl, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 20. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. apríl og velferðarráðs frá 16. apríl. 

Fundi slitið kl. 17.44

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Sóley Tómasdóttir

Áslaug Friðriksdóttir Skúli Helgason

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.5.2015 - prentvæn útgáfa