Borgarstjórn - 5.4.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 5. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Ingvar Mar Jónsson, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Hildur Sverrisdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Samþykkt að taka á dagskrá umræðu um siðareglur og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar vegna upplýsinga um aflandsfélög í eigu borgarfulltrúa. 

- Kl. 14.12 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti.

2. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um auknar tekjur til sveitarfélaga vegna ferðamanna:

Borgarstjórn skorar á Stjórnstöð ferðamála að beita sér fyrir því að sveitarfélögum verði tryggð hlutdeild í tekjustofnum til að mæta auknum straumi ferðamanna til landsins og kostnaði sem sveitarfélög verða fyrir þess vegna. Augljóst er að sveitarfélög um allt land verða fyrir margvíslegum auknum kostnaði vegna umhirðu og aðstöðusköpunar, uppbyggingar innviða og slits á vegum. Tekjur af virðisaukaskatti, gistináttagjaldi og öðrum sköttum af ferðafólki renna hins vegar í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaga. Sú yfirlýsta stefna ferðamálaráðherra að gjaldtaka af ferðaþjónustu sé ekki forgangsmál, þar sem ríkissjóður njóti nú þegar milljarða skatttekna af ferðaþjónustu, er óásættanleg fyrir sveitarfélög. Málflutningur ráðherra dregur einvörðungu fram hversu ósanngjarnt er að sveitarfélög beri fyrst og fremst kostnað en njóti í miklu minna mæli ábata af aukinni ferðaþjónustu en ríkið. Borgarstjórn óskar einnig liðsinnis Samtaka aðila í ferðaþjónustu við að vekja stjórnvöld í málinu og knýja á um að gistináttagjald og/eða aðrir tekjustofnar tengdir ferðaþjónustu renni til sveitarfélaga. Að öðrum kosti er hætt við því að sú breiða samstaða sem hefur verið um að byggja upp öfluga ferðaþjónustu um allt land bresti.

- Kl. 14.30 tekur Kristbjörg Stephensen við ritun fundarins.

Samþykkt með fjórtán greiddum atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.

3. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina um griðasvæði hvala – hvalaskoðunarsvæði í Faxaflóa, ítrekun:

Borgarstjórn Reykjavíkur ítrekar fyrri áskorun sína á ríkisstjórnina að stækka griðasvæði hvala – hvalaskoðunarsvæði í Faxaflóa og minnir á að að gríðarmiklir hagsmunir íslenskrar ferðaþjónustu eru að veði. Uppbygging hvalaskoðunarfyrirtækja við Gömlu höfnina hefur styrkt og eflt fyrirtæki og mannlíf á svæðinu, þar sem þúsundir ferðamanna leggja leið sína á svæðið og njóta þar afþreyingar og þjónustu með tilheyrandi tekjuauka fyrir þjónustuaðila og Reykjavíkurborg.

Samþykkt með þrettán atkvæðum. Tveir borgarfulltrúar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um götuþvott:

Framsókn og flugvallarvinir leggja til að götur borgarinnar verði þrifnar nú með sama hætti og verið hefur undanfarin ár og því verði fallið frá samþykkt umhverfis- og skipulagssviðs þess efnis að þvo ekki húsagötur eftir veturinn.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs.

5. Fram fer umræða um málefni Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfis.

- Kl. 16.10 tekur Helga Björk Laxdal við ritun fundarins að nýju.

6. Samþykkt að taka á dagskrá lausnarbeiðni Júlíusar Vífils Ingvarssonar, dags. í dag. 

Samþykkt. 

7. Lagt er til að Sigríður Rut Júlíusdóttir taki sæti Haraldar Flosa Tryggvasonar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Jafnframt er lagt til að Brynhildur Davíðsdóttir verði formaður stjórnarinnar í stað Haraldar Flosa.

Samþykkt. 

8. Lagt er til að Sigrún Jóhannsdóttir taki sæti varamanns í hverfisráði Kjalarness í stað Sigþórs Magnússonar.

Samþykkt.

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.  

9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 17. og 31. mars 2016.

30. liður fundargerðarinnar frá 31. mars; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 vegna Varmahlíðar 1, samþykktur með 9 atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 1. og 5. apríl, mannréttindaráðs frá 22. mars, menningar- og ferðamálaráðs frá 14. og 29. mars, íþrótta- og tómstundaráðs frá 17. mars, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 21. mars og umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. og 30. mars 2016.

2. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 1. apríl; breyting á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar vegna lengdar bókana, fyrri umræða, er vísað til síðari umræðu. 

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Jóna Björg Sætran, leggur fram svohljóðandi bókun við 3. lið fundargerðar forsætisnefndar þann 1. apríl: 

Brýnt er að hafa nægan tíma til að rýna vel í orðalag og efni bókana áður en þær eru lagðar fram þannig að nægur tími gefist til að skoða vel allar hliðar viðkomandi mála. Þegar drög að umræddri bókun voru lögð fram á fundi forsætisnefndar 1. apríl 2016 vannst því miður ekki tími til þess sem leiddi til þess að ég gerði þau mistök að taka undir bókunina sem ég að loknum fundi taldi rangt hjá mér að hafa gert. Framsókn og flugvallarvinir styðja við opna stjórnsýslu og gagnsæi í hvívetna og óundirbúnar fyrirspurnir til borgarstjóra gætu orðið til opnari umræðu á fundum borgarstjórnar og gætu því verið til góðs og stutt við opna stjórnsýslu og gagnsæi. Því dreg ég stuðning Framsóknar og flugvallarvina við fyrrnefnda bókun frá 1. apríl sl. tilbaka.

Fundi slitið kl. 16.55

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Halldór Halldórsson Skúli Helgason

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.4.2016 - prentvæn útgáfa