Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2019, þriðjudaginn 5. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um nýja starfsemi sem heldur utan um stuðningsþjónustu á vegum velferðarsviðs, sbr. 3. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. febrúar 2019. R19020100
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hlutverk samstarfsnets á sviði stuðningsþjónustu tryggir aukið jafnræði milli barna og barnafjölskyldna í borginni og einfaldar aðgengi foreldra og barna að þjónustu og upplýsingum út frá þeirra þörfum og óskum. Meirihlutinn leggur áherslu á þjónustu við börn og ungmenni, snemmtæka íhlutun og heilsueflingu. Ráðist hefur verið í mikið samráð og gríðarmikla úttekt á starfinu og hér gefur að líta afrakstur þeirrar vinnu. Mikil tækifæri eru í öflugu samstarfi bæði innan borgarkerfisins og við utanaðkomandi aðila, s.s. heilbrigðisþjónustu og löggæslu sem og notenda- og hagmunasamtök og alla þá aðila sem koma með einum eða öðrum hætti að velferð barna í Reykjavík.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Eins og Flokkur fólksins hefur áður bókað þá er þetta samstarfsnet ágætis tillaga að mörgu leyti enda samþykkti Flokkur fólksins hana í velferðarráði. Því er þó ekki að neita að áhyggjur eru af þeim veikleikum sem nefndir eru í gögnum, þá helst mögulegu tengslarofi við starfsmenn þjónustumiðstöðva og aukinni yfirbyggingu á kostnað fjármagns í grasrótina. Ráða á framkvæmdarstjóra en samt ekki að setja í þetta fjármagn. Hvað verður skorið niður á móti þeim kostnaði? Ekki er ljóst hvernig þessi endurskipulagning kemur heim og saman við starfsemi þjónustumiðstöðvanna né hvernig þær snerta starfsmennina. Er þetta viðbót, sbr. nýr framkvæmdastjóri, eða er þetta upphafið á niðurlagningu þjónustumiðstöðva eða í það minnsta sameiningu einhverra þeirra? Á þessu þyrfti að skerpa betur. Nú þegar er flækjustigið mikið og báknið stórt. Þarf ekki að tala aðeins skýrar um hvernig þetta á að vera á þessu stigi? Það skiptir öllu að vinna þetta í sátt við notendur þjónustunnar og starfsmenn. Loksins er farið að tala um að bið barna eftir þjónustu sé óásættanleg. Í dag eru börn að bíða mánuðum saman eftir þjónustu. Þegar börn eru annars vegar sem þarfnast hjálpar af einhverju tagi skal aðstoð veitt án biðar.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
I. Borgarstjórn samþykkir að álagningarhlutfall útsvars fyrir tekjuárið 2019 verði 14,00% frá og með 1. maí nk. en útsvarið er nú í lögbundnu hámarki eða 14,52%. II. Borgarstjórn samþykkir að lækka rekstrargjöld heimilanna sem nemi tölunni 36 þúsund krónum á heimili í borginni að jafnaði á ársgrundvelli. Það verði gert með lækkun arðgreiðsluáforma Orkuveitu Reykjavíkur. Fjármálaskrifstofu og stjórn Orkuveitunnar verði falin nánari útfærsla á lækkun rekstrargjalda heimilanna. Stefnt er að því að lækkunin taki gildi 1. maí nk. III. Borgarstjórn samþykkir að semja við ríkið um kaup á Keldnalandinu án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins. Borgin hefjist tafarlaust handa við skipulagningu Keldnalandsins fyrir stofnanir, fyrirtæki og heimili. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að leiða skipulagsvinnuna. Enn fremur verði lögð sérstök áhersla á að skipuleggja lóðir fyrir hagstætt húsnæði, sem sárlega vantar í borginni. Jafnframt verði fallið frá sérstökum innviðagjöldum enda álitamál hvort slík gjöld standist. Aðgerðin í heild sinni verði liður í innleggi borgarinnar í kjaraviðræður. IV. Borgarstjórn samþykkir að stilla byggingarréttargjöldum í borgarlandinu í hóf með því að tryggja nægt framboð fjölbreyttra lóða.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 16:40 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti. R19030052
Tillaga merkt I um álagningarhlutfall útsvars er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga merkt II um lækkun arðgreiðsluáforma OR er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga merkt III um kaup og skipulagningu á Keldnalandinu er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga merkt IV um byggingarréttargjöld er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú standa yfir mjög erfiðar kjaradeilur á vinnumarkaði. Reykjavíkurborg getur vel liðkað fyrir yfirstandandi kjaraviðræðum. Þess vegna eru það mikil vonbrigði að meirihlutinn sjái sér ekki fært að samþykkja tillöguna, sem lýtur að lækkun launaskatts, lækkun gjalda á heimilin, hagkvæmu húsnæði og að endingu gjöldum sem borgin leggur á húsbyggjendur. Fyrrnefndar aðgerðir myndu skila miklu fyrir tugþúsundir borgarbúa. Afgreiðsla meirihlutans skýtur vægast sagt skökku við. Því til stuðnings má benda á að forsvarsmenn verkalýðsfélaganna hafa sagt að ekki verði skrifað undir kjarasamninga nema fyrir liggi skuldbindandi samkomulag um að bæta aðstæður fólks á húsnæðismarkaði. Þannig þykir okkur rétt að Reykjavíkurborg mæti þessari kröfu án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins. Húsnæðisverð hefur hækkað um 100% á síðustu átta árum sem er engin tilviljun enda hefur stefna meirihlutans í húsnæðismálum beðið skipbrot. Þannig er krafa verkalýðsfélaganna í húsnæðismálum heldur engin tilviljun. Átakshópur stjórnvalda í húsnæðismálum hefur jafnframt bent á þessa staðreynd. Borgin ætti því með réttu að hefjast tafarlaust handa við skipulagningu Keldnalandsins fyrir hagstætt húsnæði, sem sárlega vantar í borginni. Þá má benda á að launaskattur (útsvar) er í lögleyfðu hámarki í Reykjavík. Borgin tekur meira af launum fólks en nokkurt annað sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík tekur meira en ríkið af launum. Því er ekki eingöngu um sanngirnismál að ræða heldur mikilvæga aðgerð til að bæta kjör launafólks í borginni og draga úr verðbólguhættu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í samstarfssáttmála meirihlutans segir skýrt: „Útsvar skal haldast óbreytt“ og það er mikill ábyrgðarhluti að leggja til verulega lækkun á útsvarstekjum borgarinnar á sama tíma og mikil óvissa er um bæði efnahagshorfur og stöðuna á vinnumarkaði. Meirihlutinn telur ekki að útspil í þá veru að lækka útsvar í einu sveitarfélagi sé til þess fallið að leysa kjaradeilur á almennum vinnumarkaði. Þá má setja ákveðið spurningarmerki við þá nálgun sem tekin er í tillögunni að falla eigi frá öllum skilyrðum í samningum við ríkið þegar kemur að kaupum á landi og skipulagningu þess. Stór hluti útgjalda heimilanna fer í samgöngur og því er kappsmál að lækka þann kostnað. Það verður ekki gert nema að fjármögnun til grænna samgönguverkefna á borð við borgarlínu sé tryggð. Loks þarf að halda til haga að engan veginn er raunhæft að hægt sé að fjármagna tæplega 2 milljarða lækkun útsvars með hagkvæmari innkaupum á allra næstu misserum. Þarna hefur Sjálfstæðisflokkurinn náð að koma hálfri stefnuskránni sinni í þann dulbúning að flokkurinn sé að ná til þeirra sem lægstar hafa tekjur á sama tíma og hátekjuskatti er alfarið hafnað. Þá eru viðbrögð flokksfélaga þeirra í forystu nágrannasveitarfélaga auk formanns Sambands sveitarfélaga þau að leggjast gegn lækkun útsvars í tengslum við kjarasamninga.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Útsvarslækkun um 0,52% myndi leiða til þess að láglaunamanneskja með 300.000 krónur á mánuði myndi greiða um 1.500 krónum minna mánaðarlega í útsvar. Ekki er séð að slíkt bæti kjör hinna verr settu. Útsvarslækkun myndi einnig fela í sér lægri greiðslur hinna betur settu til samneyslunnar. Sósíalistar telja mikilvægt að vinna að því að koma útsvari á fjármagnstekjur í gegnum þingið. Sé litið til síðasta árs má áætla að borgarsjóður hefði þá getað fengið um 9,5 milljarða. Fulltrúi Sósíalistaflokksins styður að fallið verði frá hluta arðgreiðsluáforma Orkuveitu Reykjavíkur svo að lækka megi gjaldskrár. Þær voru hækkaðar á sínum tíma þegar reksturinn stóð illa, nú eru horfur betri og telur fulltrúi Sósíalistaflokksins því að eðlilegt sé að lækka gjaldskrár í ljósi þess að ekki er lengur þörf á eins hárri upphæð frá notendum þjónustunnar. Sósíalistar vilja eyða verðhækkandi áhrifum byggingarréttargjaldsins á félagslegar íbúðir og íbúðir óhagnaðardrifinna leigufélaga. Í stað þess að lækka byggingarréttargjaldið á alla uppbyggingu, hafa sósíalistar lagt fram að byggingarréttargjald verði almennt hækkað, þannig að meira komi inn t.d. frá þeim sem byggja stærri íbúðir skilgreindar sem lúxusíbúðir og að það fjármagn verði nýtt til að auka stofnframlag til félagslegrar íbúðauppbyggingar og íbúðauppbyggingar óhagnaðardrifinna leigufélaga.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins styður þessar tillögur og telur þær allar löngu tímabærar. Reykjavíkurborg getur ekki setið hjá í þeim kjaraviðræðum sem nú eru. Þegar skattar eru greiddir og innheimtir þá er það svo í tilfelli Reykvíkinga að fyrstu 14,52% renna í sjóði borgarinnar áður en ríkið fær nokkra einustu krónu til sín. Reykjavíkurborg er með útsvarið í hæstu mögulegu hæðum sem leyft er samkvæmt lögum. Það að lækka útsvar skilar sér því fyrst og fremst til þeirra sem lægst hafa launin. Því er sérstaklega fagnað að tillögurnar eru að fullu fjármagnaðar með aðhaldi í innkaupum og auknum útboðum á öllum sviðum borgarinnar. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur þegar lagt fram þá tillögu til sparnaðar hjá borginni en sú tillaga var felld. Tekið er heilshugar undir þær tillögur er snúa að Orkuveitu Reykjavíkur um að falla frá arðgreiðslum og fara í stórfelldar gjaldskrárlækkanir sem er allra hagur, hvort sem um er að ræða leigjendur, barnafjölskyldur, öryrkja, eldri borgara og í raun hvaða fjölskyldumynstur sem er. Einnig er lýst yfir fullum stuðningi við uppbyggingaráform á Keldum og að þeim áformum verði flýtt sem mest og að þau komist til framkvæmda sem fyrst.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins vill að borgin nái beint til þeirra sem verst eru settir þegar kemur að sérstökum aðgerðum til að liðka fyrir kjaraviðræðum. Reykjavíkurborg getur gert fjölmargt í þessum efnum til að létta á þeim hópi sem minnst hefur milli handanna. Borgin getur t.d. tekjutengt ýmsan kostnað, sem dæmi skólamáltíðir, frístund, tómstundir og námskeið og aðra nauðsynlega þjónustu. Nú þegar er verið að koma til móts við þennan hóp að einhverju leyti en ganga þarf lengra og freista þess að ná fram meira jafnræði í þáttum sem eru nauðsynlegir og sjálfsagðir enda skal ekki mismuna börnum á grundvelli efnahags foreldra. Með því að einblína sérstaklega á þennan hóp með ákveðnar aðgerðir er ekki einungis verið að létta fjárhagslega á fjölskyldum og einstaklingum heldur er einnig verið að létta á áhyggjum og vanlíðan sem tengist því að ná ekki endum saman. Sé dregið úr streitu og kvíða foreldra mun það skila sér til barnanna. Aðgerðir sem gagnast fátækum jafnt sem efnamiklum leiða ekki til aukins jafnaðar. Hvað varðar 4. lið tillögunnar sem hér um ræðir og varðar að byggingarréttargjöldum sé stillt í hóf er tekið undir mikilvægi þess almennt séð.
- Kl. 17:48 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur sæti.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að Reykjavíkurborg fari í samstarf með Faxaflóahöfnum um að endurheimta Miðbakkann sem aðgengilegt og líflegt almannarými fyrir alla íbúa og gesti borgarinnar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19030049
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja það jákvætt að gera eigi Miðbakkann að aðlaðandi almannarými þar sem mannlíf og rekstur fái að blómstra. Það er í takt við þær breytingar sem orðið hafa á hafnarsvæðinu á undanförnum árum. Að tillögu sjálfstæðismanna í stjórn Faxaflóahafna árið 2008 var ákveðið að glæða verbúðirnar bæði á Grandanum og við Geirsgötu nýju lífi vegna þeirrar þróunar sem var að eiga sér stað á hafnarsvæðinu m.a. með tilkomu Sjóminjasafnsins. Þá var einnig ákveðið að flytja gamla saltverkunarhúsið Sólfell, sem lengi stóð við Kirkjusand, og var því fundinn staður við Reykjavíkurhöfn sem er í tengslum við gömlu verbúðirnar við Vesturhöfn sem byggðar voru á svipuðum tíma. Þessar breytingar hafa verið mikil lyftistöng fyrir hafnarsvæðið og glætt það miklu lífi enda er svæðið orðið eitt mesta aðdráttarafl íbúa og ferðamanna. Sú staðreynd styður enn frekar að þróa eigi og nýta Miðbakkann með svipuðum hætti.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta er ágæt tillaga svo fremi sem áherslan er á almenning og að aðgengi að svæðinu sé gott, einnig fyrir þá sem koma lengra að og koma akandi. Mikilvægt er að við skipulag á svæðinu verði sett inn bílastæði sem fatlaðir og aldraðir borgarar geti nýtt sér án fyrirhafnar og án vandkvæða. Sjá má fyrir sér að Reykjavíkurborg komi t.d. upp listamiðstöðvum/vinnurýmum á þessum bletti þar sem einstaklingar geta leigt vinnurými til að sinna sinni list- og nýsköpun og þar sem markmiðið er framleiðsla og sala. Það er þó mikilvægt að stilla byggingarmagni í hóf og að engin bygging verði hærri en þrjár hæðir. Flokkur fólksins leggur til að svæðið verði skipulagt með tilliti til þeirra húsa sem eru vestan við Miðbakkann og að ekki verði leyfð hótelbygging á svæðinu. Gott væri að gera ráð fyrir að skip geti lagt að Miðbakkanum t.d. þegar konungur Danmerkur kemur í heimsókn, siglandi.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Borgarstjórn samþykkir að fara í auglýsingaherferð með það að markmiði að gera réttindi leigjenda sýnilegri. Leigjendum hefur fjölgað mikið á síðustu árum og eftirspurnin eftir húsnæði er gríðarleg. Skortur á íbúðum hefur leitt til þess að leigjendur hafa margir hverjir sætt sig við erfiðar aðstæður á leigumarkaði og gengist við kröfum leigusala, sem ganga gegn réttindum þeirra, af ótta við að missa húsnæðið. Reglulega birtast okkur frásagnir um skyndilegar og miklar leiguverðshækkanir og ótta leigjenda við fyrirvaralausa uppsögn leigusamnings. Þá eru dæmi um að tryggingafé sé haldið eftir af leigusölum með ólögmætum hætti og að óíbúðarhæf rými séu leigð út sem íbúðir. Mögulega greina margir leigjendur ekki frá slæmum aðstæðum sínum af ótta við að glata leiguhúsnæði sínu. Mikilvægt er að réttindi leigjenda séu tryggð og því er nauðsynlegt að þau séu sýnileg. Hér er lagt til að Reykjavíkurborg hefji fræðsluátak um réttindi leigjenda og stuðli þar að leiguvernd. Lagt er til að velferðarsviði í samvinnu við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu verði falið að útfæra ítarlegri hugmyndir að framsetningu auglýsingaherferðarinnar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19020165
Tillögunni er vísað frá með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna auk borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þeirra Hildar Björnsdóttur, Ólafs Kr. Guðmundssonar, Egils Þórs Jónssonar, Mörtu Guðjónsdóttur, Katrínar Atladóttur, Arnar Þórðarsonar og Björns Gíslasonar, gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Jórunnar Pálu Jónasdóttur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Húsnæðismál og virkur leigumarkaður er eitt af forgangsmálum núverandi meirihluta. Mikilvægt er að leigjendur séu upplýstir um réttindi sín og viti hvert þeir geta leitað eftir ráðgjöf. Meirihluti borgarstjórnar tekur undir þær tillögur átakshóps stjórnvalda í húsnæðismálum sem snúa að því að efla stöðu leigjenda á húsnæðismarkaði. Mikilvægt er að réttindi leigjenda séu tryggð og því er nauðsynlegt að leigjendur séu upplýstir um réttindi sín og viti hvert þeir geta leitað eftir ráðgjöf. Leggur hópurinn til að farið verði í fræðsluátak um réttindi og skyldur leigjenda og leigusala og þess gætt að upplýsingar séu aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku. Auk þess er lagt til að stuðningur við hagsmunasamtök leigjenda verði aukinn og þau styrkt til að verða virkir málsvarar leigjenda. Að lokum er rétt að benda á að öllum grasrótarsamtökum, þ.m.t. samtökum leigjenda, er frjálst að sækja um styrki til borgarsjóðs til hvers kyns verkefna, að uppfylltum styrkjareglum borgarinnar. Tillögunni er vísað frá á þeim forsendum að málið er þegar í réttum farvegi á vegum ríkisins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mikilvægt að styðja við bakið á leigjendum og reyna að ná til þeirra sem allra flestra. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að það sé best gert með því að beina upplýsingum til leigjenda með markvissum og beinum hætti, t.d. með því að senda þeim upplýsingabækling/dreifibréf eða nýta netið. Almenn auglýsingaherferð getur verið mjög kostnaðarsöm. Slík herferð nær til alls almennings, en ekki er víst að hún nái hvað best til sjálfs markhópsins. Flokkur fólksins leggur til að haldið verði uppi markvissu sambandi við leigjendur og upplýsingum um rétt þeirra beint til þeirra. Í upplýsingabæklingi eða dreifibréfi er hægt að upplýsa um réttindi leigjenda og aðrar tengdar upplýsingar. Í bæklingnum ætti einnig að vera hægt að finna upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér ef leigjendur telja brotið á rétti sínum. Oft heyrist að leigjendur þekki ekki rétt sinn. Stundum er það vegna þess að þeir fá ekki upplýsingar, stundum vegna þess að réttindi þeirra hafa breyst. Fólki gengur misvel að fá upplýsingar í gegnum netið. Það eru heldur ekki allir sem nota tölvu. Stundum er einnig erfitt að ná í tiltekna aðila símleiðis. Símsvörun hefur almennt séð minnkað í samfélaginu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja það ekki hlutverk borgarinnar að ráðast í sérstaka auglýsingaherferð til að upplýsa leigjendur um rétt sinn. Öðru nær ætti borgin að fara í markvissar aðgerðir í húsnæðismálum eins og bent er á í niðurstöðum átakshópsins um húsnæðismál. Húsnæðisverð í borginni hefur hækkað um eitt hundrað prósent á síðustu átta árum og ljóst er að sú þróun er tilkomin vegna skorts líkt og átakshópurinn benti réttilega á. Hins vegar þarf borgin að tryggja góða upplýsingagjöf til leigjenda Félagsbústaða. Bent er á að frjáls félagasamtök geta leitað í almenna styrki frá Reykjavíkurborg.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Lagt er til að fella niður ólöglega álögð innviðagjöld. R19020168
Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sterk rök eru fyrir því að innviðagjald sé ólögmætt því ekki er lagastoð fyrir innheimtu þess. Hinn 9. febrúar 2017 skilaði borgarlögmaður minnisblaði um að borgin teldi sig ekki þurfa lagaheimild til töku innviðagjaldanna, þar sem um væri að ræða einkaréttarlegan samning við lóðarhafa. Það væri hvorki skattur né þjónustugjald í skilningi laga. Þá kom fram í svarinu að innviðagjöldum væri ætlað að mæta kostnaði sem fælist í gerð nýrra gatna, lagnakerfa, færslu gatna og lagna, gerð stíga, torga, opinna svæða, byggingu skóla o.s.frv. Gjaldið virðist einkum lagt á við tvenns konar aðstæður, í fyrsta lagi þegar einkaaðilar kaupa lóðir í eigu Reykjavíkurborgar og í öðru lagi þegar lóðarhafar sem þegar eiga lóðarleiguréttindi á tiltekinni lóð hafa óskað eftir breytingum á deiliskipulagi lóðar sinnar. Innviðagjaldið er að stórum hluta almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar til viðbótar við þá tekjustofna sem ákvarðaðir eru samkvæmt lögum. Verði innviðagjaldið dæmt ólögmætt gætu lóðarhafar krafist endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Verði ekki látið reyna á þessa réttarspurningu fyrir dómstólum leggur borgarfulltrúi Miðflokksins það til að álit verði fengið á lögmæti þess hjá umboðsmanni Alþingis sem hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Innviðagjöld eru innheimt á grunni einkaréttarlegra samninga og liggur ekkert til grundvallar fullyrðingum um ólögmæti þeirra. Óháð skoðun fólks á ágæti innviðagjalda er umræðunni til lítils gagns að krydda dagskrá borgarstjórnarfunda með órökstuddum gífuryrðum um lögbrot. Í ljósi þess að ekki eru álögð nein ólögleg innviðagjöld hjá borginni í dag er tillögunni vísað frá.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fjölmörg álit löglærðra aðila liggja til grundvallar þeirri skoðun að innviðagjöld geti vart staðist lög. Það álit sem mest hefur verið rætt um er álit sem Samtök iðnaðarins létu gera fyrir samtökin af LEX lögmannsstofu. Engum blöðum er um það að fletta að sterk rök eru fyrir því að gjaldtakan sé ólögmæt. Slíkar ábendingar ber að taka mjög alvarlega en ljóst er að meirihlutinn tekur slíkar aðvaranir ekki alvarlega miðað við bókun sína. Ekkert skynbragð er lagt á alvarleika málsins frekar en í öðrum áfellismálum sem komið hafa upp eftir kosningar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn innheimtu svokallaðs innviðagjalds enda telja þeir innheimtuna ekki ábyrga á grundvelli réttaróvissu sem um gjaldið ríkir. Þannig gæti borgin mögulega þurft að endurgreiða milljarða króna reynist gjaldið ólögmætt enda gætu „lóðarhafar krafist endurgreiðslu innviðagjaldsins á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda,“ eins og segir í áliti LEX. Í lögfræðiálitinu eru færð fyrir því nokkuð sterk rök að gjaldtakan sé ólögmæt. Telur lögmannsstofan m.a. að innviðagjaldið sé að stórum hluta nýtt sem almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar. Það sé gert til viðbótar við þá tekjustofna sem borginni standa nú þegar til boða á grundvelli laga. Þannig má leiða að því líkur að hér sé um viðbótarskattlagningu að ræða. Þessu tengt hefur Víðir Smári Petersen lögmaður m.a. bent á að innviðagjaldinu sé ætlað að standa undir gatnagerð, en gatnagerðargjöld séu í lögum skilgreind sem skattur. Hins vegar hefur Reykjavíkurborg engar heimildir til að leggja á nýja skatta án þess að sú skattlagning eigi sér stoð í lögum.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Eftir því sem næst er komist hefur reynt á gildi þessara innviðagjaldasamninga milli borgar og lóðarhafa fyrir dómstólum. Engu að síður er lögmæti þessara samninga ekki hafið yfir alla vafa og það er vont. Mismunandi skoðanir eru á réttmæti slíks skatts. Í fréttum var haft eftir verktökum að þeir veigri sér við að leita réttar síns gagnvart hugsanlega ólögmætum innviðagjöldum af ótta við afleiðingar um áhrif þess á framtíðarverkefni þeirra. Svona fréttir vekja upp ýmsar spurningar. Borgin er án efa í yfirburðastöðu við samningagerð um þessi gjöld og þess vegna er kannski ekki hægt að tala beint um samninga. Þegar breyta á gömlu hverfi eins og í Vogbyggð í allt annars konar hverfi kann vel að vera eðlilegt að aðilar semji um innviðagjöld og samráð þarf þá að vera um hvernig eigi að verja þeim. Spurning er hvort innviðagjöld ættu að vera breytileg eftir því hvar og hvernig hverfi er um að ræða. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að umræða um innviðagjöld á þessu stigi hljóti að hafa á sér marga vinkla og fjölmargt er óljóst þegar kemur að umræðunni um hvenær eðlilegt er að leggja þau á og hvenær ekki og hvort þau ættu að vera yfir höfuð og leggur því til að skýrar reglur verið settar um álagningu þeirra.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela Reykjavíkurborg í samstarfi við Landspítala háskólasjúkrahús að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis. Hér er um að ræða framrúðuskífu í stað gjaldmæla. Framrúðuskífan er notuð mjög víða á meginlandinu, jafnt í miðborgum sem og við aðstæður eins og hér um ræðir. Þessi möguleiki yrði í boði við innganga a.m.k. við bráðamóttökur og fæðingardeild og aðrar deildir þangað sem fólk kann að þurfa að leita í slíkum flýti að það getur ekki tafið við að finna stæði og greiða stöðugjald. Bílastæðin skulu merkt til umræddra nota. Leyfilegur tími væri tilgreindur á skiltum við stæðin. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er er lagt á stöðugjald skv. ákveðinni gjaldskrá. Hér er ekki meiningin að vera með nákvæma útfærslu á fyrirkomulaginu en sem dæmi mætti nálgast bifreiðaklukkuna í afgreiðslu t.d. bráðavaktar eða í móttöku í anddyri spítalans og á bensínstöðvum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19030050
Samþykkt að vísa tillögunni til frekari meðferðar hjá stýrihóp um bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklát yfir að tillögunni var hvorki vísað frá né var hún felld heldur vísað áfram. Borgarfulltrúi vill ítreka að það hefur sýnt sig þar sem þetta fyrirkomulag er í gildi að það er gott. Þess utan hefur það sýnt sig að bifreiðastæðaklukkur er mun kostnaðarminni leið en aðrar leiðir við að innheimta bílastæðagjöld og er hægt að framkvæma strax. Allar mögulegar hindranir sem hægt er að hugsa sér í þessu sambandi er hægt að yfirstíga. Þessi tillaga er tilkomin af ástæðu, svo mikið er víst. Við getum öll fundið okkur í þessum erfiðu aðstæðum að vera í þeim sporum að geta lagt nálægt inngangi bráðamóttöku eða fæðingardeildar, stillt bifreiðastæðaklukkuna og hlaupið inn þegar um neyðartilfelli er að ræða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hvetur meirihlutann og þá nefnd sem fær tillöguna til umfjöllunar að meðhöndla hana með opnum huga og freista þess að ræða við forsvarsaðila Landspítala háskólasjúkrahúss.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 21. febrúar. R19010002
8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 1. mars, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 22. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 12. febrúar, skipulags- og samgönguráðs frá 20. febrúar og velferðarráðs frá 20. febrúar. R19010073
Fundi slitið kl. 21:36
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir Vigdís Hauksdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.3.2019 - Prentvæn útgáfa