Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2013, þriðjudaginn 5. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.01. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Óttarr Ólafur Proppé, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar þeim árangri sem Landhelgisgæslan hefur náð við að efla samstarf sitt við björgunaraðila erlendra vinaþjóða. Dönsk og norsk varðskip og flugvélar, sem hafa margoft tekið þátt í björgunaraðgerðum hér við land, hafa reglulega viðkomu í Reykjavík og taka þá þátt í björgunaræfingum með Landhelgisgæslunni. Nú sem fyrr býður borgarstjórn slíka aðila velkomna til Reykjavíkur og fagnar áformum um aukið björgunarsamstarf vinaþjóða við norðanvert Atlantshaf.
- Kl. 14.04 tekur Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar þeim árangri sem náðst hefur við uppbyggingu björgunar- og almannavarnastarfs á liðnum árum bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Starfsemi og styrkur Landhelgisgæslu Íslands, björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila er góð sönnun þess að best er að sinna borgaralegum öryggismálum á vettvangi borgaralegra stofnana í anda friðar. Borgarstjórn leggur í því samhengi áherslu á fyrri samþykktir og stefnumörkun í þessum efnum, um að borgin verði leiðandi á sviði friðarmála.
Breytingartillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna samþykkt með 10 atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafni tillögu um að bjóða varðskip erlendra vinaþjóða, sem margoft hafa tekið þátt í björgunaraðgerðum hér við land og eru í samstarfi við Landhelgisgæsluna, velkomin til Reykjavíkur. Sú „breytingartillaga“ sem fulltrúar þessara flokka samþykktu í krafti meirihluta síns, er í raun ný tillaga, lögð fram í því skyni að draga athygli frá aðalatriðum upphaflegrar tillögu.
2. Fram fer umræða um kynjaða starfs- og fjárhagsáætlun.
- Kl. 15.55 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti.
3. Fram fer umræða um frístundastarf fatlaðra ungmenna
- Kl. 16.05 víkur Óttarr Ólafur Proppé af fundi og Páll Hjalti Hjaltason tekur þar sæti.
4. Fram fer umræða um aðalskipulag Reykjavíkur – grænu borgina.
- Kl. 16.55 víkur Hanna Birna Kristjánsdóttir af fundi og Áslaug Friðriksdóttir tekur sæti.
5. Lagt er til að Diljá Ámundadóttir taki sæti sem varamaður í menningar- og ferðamálaráði í stað Hugleiks Dagssonar.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.
6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 21. febrúar.
- 19. liður fundargerðarinnar, tilfærslur á fjárheimildum innan fjárhagsáætlunar 2013, samþykktur með 9 atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 28. febrúar.
- 24. liður fundargerðarinnar, umboð til borgarráðs vegna alþingiskosninga 27. apríl nk., samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.
8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 1. mars, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. og 21. febrúar, mannréttindaráðs frá 5. og 26. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 25. og 26. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 20. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. og 27. febrúar og velferðarráðs frá 29. nóvember 2012 og 7. febrúar.
Fundi slitið kl. 19.50
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Sóley Tómasdóttir Karl Sigurðsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 05.03.13