Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2019, þriðjudaginn 5. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer kjör fjögurra varaforseta borgarstjórnar. R18060080
1. varaforseti er kosinn Pawel Bartoszek með 23 atkvæðum.
2. varaforseti er kosinn Eyþór Laxdal Arnalds með 22 atkvæðum. Marta Guðjónsdóttir hlýtur eitt atkvæði.
3. varaforseti er kosin Guðrún Ögmundsdóttir með 23 atkvæðum.
4. varaforseti er kosin Marta Guðjónsdóttir með 21 atkvæði. Tveir seðlar eru auðir.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti borgarstjórnar óskar öllum varaforsetum, jafnt úr minnihluta sem meirihluta, til hamingju með kjörið og hlakkar til samstarfsins. Hér er verið að auka aðgengi minnihlutans að ákvarðanatöku í borginni og er það mikilvægt og gott lýðræðismál.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Borgarstjórn tekur undir samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 30. janúar 2019 um að lækka hámarkshraða á eftirfarandi götum niður í 40 km: Hringbraut frá Ánanaustum að Sæmundargötu, Hofsvallagötu milli Hringbrautar og Ægissíðu, Ægissíðu, Nesvegi milli Kaplaskjólsvegar og Granaskjóls/Sörlaskjóls, ásamt þeim úrbótum sem samþykktar voru fyrir öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á Hringbraut. Borgarstjórn beinir því til skipulags- og samgönguráðs að rýna næstu skref, á hvaða götum í Reykjavík verði hægt að lækka hámarkshraða niður í 40 km.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19020049
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er fagnaðarefni að samkomulag hafi nú náðst við veghaldara um að lækka hámarkshraða við Hringbraut, úr 50 km/klst. í 40 km/klst. Allar rannsóknir sýna að besta leiðin til að fækka alvarlegum umferðarslysum er að draga úr hraða bifreiða. Næstu skref eru að vinna áfram tillögur að lækkun hámarkshraða vestan Kringlumýrarbrautar eins og starfshópur leggur til í skýrslu frá janúar 2017 um umferðarhraða vestan Kringlumýrarbrautar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að umferðaröryggismál borgarinnar eru víða í ólestri. Á síðustu átta árum hefur borgin sýnt af sér ámælisvert ábyrgðarleysi og er núna fyrst að bregðast við með tillögu að úrbótum við Hringbraut, sem tekur þó aðeins á einum takmörkuðum þætti vandans. Vandi Hringbrautar hefur verið þekktur um árabil, en ekki er brugðist við fyrr en slys verður á barni. Það eru óásættanleg vinnubrögð. Setja þarf borginni nýja umferðaröryggisstefnu svo frekari slys verði fyrirbyggð enda öryggi fólksins í borginni forgangsmál. Í tvígang hefur verið samþykkt í borgarkerfinu að gera úttekt og úrbætur á hraðakstri í borgarlandinu, en engar úttektir verið unnar. Hinn 28. maí 2009 samþykkti borgarráð að gerð yrði úttekt á hraðakstri og kappakstri í borgarlandinu. Gerðar yrðu tillögur að úrbótum og stefnumörkun um hraða umferðar innan borgarlandsins í ljósi umferðaröryggisstefnu borgarinnar. Úttektin skyldi unnin í samráði við lögreglu, rannsóknarnefnd umferðarslysa og tryggingafélög, íbúa og aðra hagsmunaaðila, eftir atvikum. Úttektin var aldrei framkvæmd og engri niðurstöðu skilað til borgarráðs. Hinn 25. nóvember 2015 var svo skipaður starfshópur um umferðarhraða vestan Kringlumýrarbrautar. Í janúar 2017 var áliti hópsins skilað, ásamt séráliti minnihlutans. Var niðurstaðan sú að áður en til lækkunar á hámarkshraða kæmi, skyldi víðtækt samráð haft um tillögurnar, t.d. við Samgöngustofu, SÍS, FÍB o.fl. Þetta samráð átti sér aldrei stað.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Kynnt hafa verið, í skipulags- og samgönguráði, drög að einni umfangsmestu umferðaröryggisáætlun sem unnin hefur verið fyrir Reykjavík og að baki henni liggur djúp greining á umferðarslysum innan borgarinnar. Mikilvægt er að halda því til haga að Hringbrautin er þjóðvegur í þéttbýli og er Vegagerðin því veghaldari. Reykjavíkurborg getur því ekki, og hefur ekki getað, farið í einhliða aðgerðir og er háð samningum við Vegagerðina. Hingað til hefur Vegagerðin lagst gegn því að lækka hraðann á Hringbraut og er þessi viðsnúningur því sannarlega fagnaðarefni.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þeir sem hafa tjáð sig um þessi mál eru ekki á einu máli um hvort lækkun hraða ein og sér dragi úr slysatíðni þar sem hraði á Hringbraut sé mögulega ekki eina vandamálið heldur einnig t.d. gölluð gönguljós. Bent hefur verið á af sérfræðingi að það vanti rauða og græna kallinn í ljósin fyrir gangandi. Gangandi sér ekki þegar ljósin skipta sér, t.d. þegar fleiri en einn ganga yfir þá grípa nemarnir bara annan aðilann. Þessi breyting mun vonandi hafa áhrif á ökumenn á brotlegum hraða til lækkunar á þeirra ökuhraða. Nauðsynlegt er að fara í róttæka úttekt á götunni til að finna leiðir til að auka öryggi gangandi og skoða hvernig megi hanna gönguþverun með tilliti til aukins öryggis gangandi og hjólandi vegfarenda. Allar tillögur eiga að vera lagðar fram í fullu samráði við hagsmunaaðila, íbúasamtök, Samgöngustofu, Strætó og aðra sem fara þarna um og þeim boðið að skila inn umsögn um málið. Einnig þarf að leita álits og umsagnar bæjarstjórnar Seltjarnarness, en þarna er um að ræða þjóðbraut inn og út úr þeirra bæjarfélagi. Það er samt ljóst að umferðaröryggismál á Hringbraut eru ekki í lagi hvað margt varðar. Það er um að gera að prófa þessa breytingu á meðan önnur úrræði eru ekki á teikniborðinu um umferðaröryggi á Hringbraut. Þá þarf að rannsaka í framhaldinu áhrif breytingarinnar á flæði, ökuhraða og öryggi á götunni.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði, ásamt Bílastæðasjóði, útfærslu á rekstrarútboði fyrir þau sjö bílastæðahús sem sjóðurinn rekur í miðborg Reykjavíkur. Einkaaðilum verði þannig falinn rekstur bílastæðahúsanna með það fyrir augum að bæta nýtingu og efla þjónustu í húsunum og jafnframt auka tekjur borgarinnar af þeim. Sviðið skili tillögum að útboðsskilmálum til skipulags- og samgönguráðs fyrir 1. ágúst 2019. R19020050
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:
Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við Bílastæðasjóð, að skoða bestu leiðir varðandi rekstur þeirra sjö bílastæðahúsa sem sjóðurinn rekur í miðborg Reykjavíkur, þar með talið rekstrarútboð, með það fyrir augum að bæta nýtingu, efla þjónustu og auka hagkvæmni. Einnig skal rýna fyrirkomulag rekstrarins út frá markmiðum borgarinnar varðandi stýringu bílastæða, bætta nýtingu borgarrýmis, bílastæðastefnu og stefnu aðalskipulags. Sviðið skili tillögum til skipulags- og samgönguráðs fyrir 1. ágúst 2019.
Breytingatillagan samþykkt með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðiflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Tillagan samþykkt svo breytt með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðiflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðisflokkur fagnar því að tillaga flokksins um bættan rekstur, nýtingu og þjónustu bílastæðahúsa borgarinnar hafi verið samþykkt. Sjálfstæðisflokkur leggur áherslu á að kannaðir verði möguleikar á rekstrarútboði. Ávinningurinn af útvistun blasir við, enda hafa einkaaðilar gjarnan meira svigrúm og sveigjanleika til að auka þjónustu við notendur bílastæðahúsanna, t.d. hvað varðar lengd opnunartíma. Því væri það til hagsbóta fyrir alla borgarbúa og borgarsjóð að fela einkaaðilum rekstur húsanna.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í þessari breytingatillögu sem hefur verið samþykkt er enn rætt um rekstrarútboð. Flokki fólksins hugnast mjög að bæta rekstur bílastæðahúsa í Reykjavík en þó ekki með því að bjóða reksturinn út. Ástæðan fyrir því er sú að með því að fela einkaaðilum að sjá um rekstur bílastæðahúsa myndast einokunarstaða og hægt yrði að hækka gjöld á notendur og greiða rekstaraðilum arð. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir eða tryggja að þjónusta batni bara við einkavæðingu. Gjaldið þyrfti að hækka ef bæta á reksturinn eða hagræða með öðru móti og er þá ekki alveg eins gott að Bílastæðasjóður sæi áfram um reksturinn og fengi tekjurnar en gæti jafnframt bætt þjónustuna? Samkvæmt lögum um bílastæðagjöld á einungis að verja bílastæðagjöldum til uppbyggingar almenningsbílastæða. Það má svo vera önnur tillaga að Bílastæðasjóður standi sig betur í rekstrinum og þjónustunni við notendur.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar leggjast gegn tillögum þar sem mögulega kæmi til greina að bjóða út þjónustu við borgarbúa.
4. Fram fer umræða um viðbrögð við niðurstöðum átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. janúar sl. R19010307
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Átakshópur í húsnæðismálum skilaði afar góðum tillögum sem mikilvægt er að fjármagna og framkvæma. Tillögurnar eru mikilvægt innlegg í viðkvæma stöðu kjaraviðræðna með fjölgun stofnframlaga og hækkun þeirra. Reykjavík hefur allt frá upphafi laga um almennar íbúðir lagt áherslu á gott samstarf við verkalýðshreyfinguna og önnur uppbyggingarfélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Með öðrum orðum þá eru um 90% af öllum stofnframlögum að fara til uppbyggingar innan Reykjavíkur. Þá er mikilvægt að önnur sveitarfélög taki þátt í þessari uppbyggingu almennra íbúða. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir uppbyggingu á ríkislóðum til lengri tíma, þær setja samgöngur í samhengi við kjaramál og leggja til lagabreytingu um völd sveitarfélaga til að skilgreina fjölda leiguíbúða á reit með svokölluðu Carlsberg-ákvæði. Þá eru tillögur um að skylda sveitarfélög til að eiga ákveðið lágmarkshlutfall félagslegra íbúða í viðræðuferli sem afar mikilvægt er að klára. Borgarstjórn samþykkir hér í dag að koma þeim tillögum sem snúa að borginni í farveg með því að uppfæra áætlun um úthlutun lóða, skipa samninganefnd við ríkið um kaup og uppbyggingu á ríkislóðum og hraða vinnu við einföldun ferla í skipulags- og byggingarmálum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Húsnæðismálin í Reykjavík eru komin í öngstræti. Nú er svo komið, í fyrsta sinn í áratugi, að húsnæðismálin eru talin eitt helsta málið í kjaraviðræðum. Samkvæmt könnun sem leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs lét gera sögðust einungis 8% leigjenda vilja vera á leigumarkaði og 86% aðspurðra leigjenda sögðust vilja búa í eigin húsnæði. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að byggja hagkvæmt húsnæði. Reykjavík hefur sofið á verðinum hvað varðar skipulagningu hagkvæms húsnæðis í borginni síðustu ár. Það skref að ganga til viðræðna við ríkið um Keldnalandið er mjög jákvætt. Hér er tækifæri til að byggja upp hagkvæmt húsnæði innan borgarmarkanna, en undanfarið hafa húskaupendur þurft að leita langt út fyrir borgina með tilheyrandi dreifingu byggðar og auknu álagi á samgöngur. Þá er brýnt að Keldnalandið nýtist fyrir stofnanir og fyrirtæki. Þannig léttist á umferðinni sem er allt of þung í vestur að morgni og austur síðdegis. Nauðsynlegt er að hefja skipulagsvinnu sem allra fyrst þar sem hún tekur langan tíma. Samhliða verður mikilvægt að ráðast í stórátak í samgöngumálum með það fyrir augum að styðja við fjölbreyttar samgöngur.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillögur um fyrstu viðbrögð borgarinnar við niðurstöðum átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði snúa að mikilvægum þáttum sem þarf að huga að en mikilvægt er að ganga lengra fram í þeim málefnum. Í umfjöllun átakshópsins kemur fram að „Sveitarfélögum ber samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um húsnæðismál að tryggja þeim félagslegt húsnæði sem ekki geta séð sér og sínum fyrir því eða eftir atvikum möguleika á almennum íbúðum“. Sósíalistar hefðu því einnig viljað sjá í fyrstu viðbrögðum borgarinnar við niðurstöðum átakshópsins, tillögur um hvernig unnið verði að því að koma öllum þeim aðilum sem standa að baki 903 umsóknum eftir félagslegri leiguíbúð, inn í öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði en markmið meirihlutans um að fjölga almennum félagslegum íbúðum um 500 á kjörtímabilinu dugar ekki til. Viðvera á biðlista er ekki það sama og aðgengi að öruggu húsnæði og mikilvægt er að ræða þessi mál í samhengi við niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í skýrslunni eru fjölmargar góðar tillögur. Ekki er þó sérstaklega fjallað um félagslega blöndun og mikilvægi þess að í hverfum séu fjölbreyttar gerðir húsnæðis á ólíku verðbili. Blöndun byggðar hefur ekki tekist alls staðar þrátt fyrir að kveðið sé á um það í aðalskipulagi og má í því sambandi nefna Fellahverfið. Þar hefur fólk einangrast félagslega og menningarlega. Að vinda ofan af þeim mistökum gæti reynst þrautin þyngri fyrir borgarmeirihlutann. Mikilvægt er að gera ekki sömu mistökin aftur. Í Reykjavík hefur stéttaskipting vaxið síðustu ár. Bilið milli ríkra og fátækra hefur stóraukist. Þetta er átakanleg staðreynd í borg þar sem allir ættu að hafa nóg ef rétt væri haldið á spilunum. Einn liður í baráttunni gegn stéttaskiptingu er að hanna hverfi með þeim hætti að innan þess séu margar gerðir húsnæðis, misstórt og misdýrt hvort heldur um sé að ræða eign eða leiguhúsnæði. Verð íbúða ræðst einkum af stærð þeirra en einnig landgerðinni, gerð húsnæðis og hvort hægt sé að beita afkastamiklum vinnubrögðum við byggingu húsnæðisins. Huga þarf að staðsetningu skólanna og hvernig skólahverfið sem slíkt er myndað. Skólar ættu að vera staðsettir þannig að nemendur komi bæði úr einbýlishúsa-, raðhúsa- og blokkakjarna.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að listaverkaeign Listasafns Reykjavíkur verði gerð sýnilegri í skólum borgarinnar í þeim tilgangi að efla áhuga nemenda á menningu og listum. Safnstjóra Listasafns Reykjavíkur verði falið að koma á samstarfi við skóla- og frístundasvið og þess gætt við útfærslu verkefnisins að haft verði samstarf við skólastjóra og kennara. Jafnframt er lagt til að verk Listasafns Reykjavíkur verði sýnilegri í öðrum stofnunum borgarinnar í þeim tilgangi að sem flestir geti notið þeirra fjölda verka sem eru í eigu borgarinnar. Skoðað verði að koma upp sérstökum sýningum á safnaeigninni og á einstökum verkum eftir atvikum í skólum og stofnunum borgarinnar. R19020054
- Kl. 17:30 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti.
- Kl. 17:32 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum og Baldur Borgþórsson tekur sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Rétt er að það komi fram að nú þegar eru verk Listasafnsins til sýnis í mörgum grunnskólum og stofnunum borgarinnar og þá býðst skólunum að fá svokallaðar flökkusýningar að láni í 2-3 vikur ásamt fræðslupakka sér að kostnaðarlausu. Frá skólabyrjun í haust hefur flökkusýning verið úti í skólunum flestar vikur og ríflega 60 kennarar fengið fræðslu um notkun þeirra í kennslu. Ef ætlunin er að gera verulegar breytingar á umfangi verkefnisins er rétt að leita faglegrar umsagnar Listasafnsins, leggja mat á kostnað og eftir atvikum skoða málið í tengslum við fjárhagsáætlunargerð. Því þykir rétt að vísa tillögunni til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs þar sem slík vinna getur farið fram.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að tillögunni hafi verið vísað til frekari úrvinnslu í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar, enda er mikilvægt að kynna börnum menningararf sinn. Þá er það gefandi fyrir börn að vera innan um listaverk, með því öðlast þau aukinn skilning á myndlist. Þess vegna eigum við að fara fleiri leiðir í að gera þann mikla auð sem safnkostur Listasafnsins er, sýnilegri og aðgengilegri en Listasafn Reykjavíkur varðveitir um 17 þúsund listaverk af ýmsum gerðum. Þá þarf að finna leiðir til að há innri leiga á verkum Listasafnsins komi ekki í veg fyrir að skólar og stofnanir borgarinnar nýti sér þann dýrmæta safnkost sem er í eigu Listasafnsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hugsunin á bak við þessa tillögu er góð og sjálfsagt að flytja þau listaverk sem hægt er og eru auðveld í flutningi út í skóla og stofnanir Reykjavíkurborgar. Í geymslum er sagður mikill fjöldi listaverka af alls kyns toga. Listaverk í geymslum eru engum sýnileg og þar að leiðandi engum til gleði. Sjálfsagt er að flytja eitthvað af þessum listaverkum t.d. í skóla og stofnanir til skreytingar. Einnig mætti skoða að leyfa íbúum úthverfa borgarinnar og hverfafélögum að velja skreytingar til að skreyta hverfin sín. Borgarmeirihlutinn er hvattur til að láta opna geymslurnar og sýna borgarbúum hvað þar er að finna og gefa þannig borgarbúum tækifæri til að gera upp við sig hvort þarna séu listaverk sem þeir vilja að skreyti nærumhverfið. Þegar kemur að skreytingum hafa úthverfin setið á hakanum. Það er ekki mikið um skreytingar í úthverfum og staðsetning þeirra er misgóð.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Miðflokkurinn styður þessa tillögu. Listaverkaeign Reykjavíkur telur um 17 þúsund verk og megnið af þeim hulið sjónum eiganda sinna, þ.e. borgarbúa. Tímabært er að dusta rykið af þessari dýrmætu eign og hún gerð sýnileg í öllum opinberum byggingum og rýmum borgarinnar hvort sem er innan- eða utanhúss.
6. Fram fer umræða um list í almannarými og hlutverk borgarinnar í listskreytingu borgarlandsins. R19020055
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
List í almannarými er öllum borgum afar mikilvæg. Vel heppnuð listaverk í almannarýmum geta brotið upp hversdaginn og skapað líflegar umræður. Tekjur borgarinnar af gatnagerðargjöldum og byggingarréttargjöldum og nú síðast innviðagjöldum hafa og munu fara til gatnagerðar, stíga, lýsingar, grunnskóla, leikskóla og annarra nauðsynlegra innviða auk listar. Alls mun borgin hafa um sex milljarða í tekjur af Vogabyggð en mun um leið fjárfesta a.m.k. öðru eins til þessara innviða í hverfinu. Hin alþjóðlega samkeppni sem fram fór í tengslum við uppbygginguna í Vogabyggð er einstök á landsvísu. Virt listakona bar sigur úr býtum en eins og alltaf þegar listaverk eða önnur mannanna verk koma til framkvæmda, þarf að meta hvort framkvæmdin sé raunhæf og hver rekstrarkostnaðurinn er.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að mat verði lagt á raunhæfni og rekstrarkostnað listaverksins Pálmar eftir listakonuna Karin Sander sem hlutskarpast var í alþjóðlegri listaverkasamkeppni um ný almenningslistaverk í Vogabyggð.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19010428
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
List í almannarými er öllum borgum afar mikilvæg. Vel heppnuð listaverk í almannarýmum geta brotið upp hversdaginn og skapað líflegar umræður. Tekjur borgarinnar af gatnagerðargjöldum og byggingarréttargjöldum og nú síðast innviðagjöldum hafa og munu fara til gatnagerðar, stíga, lýsingar, grunnskóla, leikskóla og annarra nauðsynlegra innviða auk listar. Alls mun borgin hafa um sex milljarða í tekjur af Vogabyggð en mun um leið fjárfesta a.m.k. öðru eins til þessara innviða í hverfinu. Hin alþjóðlega samkeppni sem fram fór í tengslum við uppbygginguna í Vogabyggð er einstök á landsvísu. Virt listakona bar sigur úr býtum en eins og alltaf þegar listaverk eða önnur mannanna verk koma til framkvæmda, þarf að meta hvort framkvæmdin sé raunhæf og hver rekstrarkostnaðurinn er.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að listaverkið Pálmar sé endurmetið með þeim hætti sem lagt er til, enda lagði Sjálfstæðisflokkurinn til í borgarráði í síðustu viku að þessi ákvörðun dómnefndar yrði endurmetin. Þeirri tillögu Sjálfstæðisflokks var frestað en hæglega hefði verið hægt að taka hana til meðferðar og afgreiðslu. Ekki liggur fyrir í þessu tilfelli hver ber ábyrgð á umframkostnaði við verkið í Vogabyggð. Þá er ljóst að kostnaðurinn er fjármagnaður með hærri lóðagjöldum sem hefur í för með sér hærra íbúðaverð en kostnaðurinn við verkið nemur um 100.000 kr. á hverja íbúð í hverfinu. Þá vekur athygli að Reykjavíkurborg ver um 16 milljónum kr. árlega í listaverkakaup en hér er um tíu sinnum hærri upphæð að ræða.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til af meirihlutanum að „leggja eigi mat á vinningstillögu um listaverkið í Vogabyggð.“ Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það hjákátlegt að einungis sé verið að tala um að leggja „mat á raunhæfni“ vinningstillögunnar. Ekki er betur séð en almenningur og fjöldi sérfræðinga hafi nú þegar lagt mat á þetta verk og allt í sambandi við það. Það sem borgarmeirihlutinn þarf að gera er að hverfa frá þessu verkefni/ákvörðun umsvifalaust enda er hugmyndin arfavitlaus í víðum skilningi. Fyrst og fremst eru pálmatré, eins og þau sem sýnd eru á vinningstillögunni, plöntur sem þurfa ljós og nokkuð háan hita allt árið. Þetta eru hitabeltisplöntur þar sem 12 tíma dagur er og 12 tíma nótt. Hér er allt önnur ljóslota sem hitabeltispálmar eru ekki lagaðir að. Pálmi er planta sem á ekki heima hér. Til að aðlaga ljóslotu að þessum plöntum, þarf að lýsa að vetri til og myrkva á sumrin. Með lýsingu og hitun að vetri til myndast móða innan á glerhjúpnum, nema að það sé hindrað með einhverjum kostnaðarsömum aðgerðum svo sem þreföldu gleri og loftblæstri. Annað sem nefna má í þessu sambandi er að þá daga sem glerið er hreint er það lítt sýnilegt fuglum og þeir munu því fljúga á það þegar þeir ætla að setjast í tréð og margir þeirra rotast.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn er kominn í öngstræti með exotíska listaverkið í Vogabyggð sem dómnefnd taldi óvænt, skemmtilegt og djarft. Því hefur verið haldið fram síðan listaverkið Pálmatré var kynnt að það verði fjármagnað með innviðagjöldum sem fást með uppbyggingu Vogabyggðar. Það er rangt því svokölluð innviðagjöld, sem margir telja ólögmæt, standa einungis undir helmingi kostnaðar. 70 milljónir munu koma beint frá útsvarsgreiðendum. Það er forkastanlegt að ekki skuli vera búið að kanna rekstrarkostnað á verkinu áður en það var valið. Á það skal bent að borgin er komin út í horn því tæpast er hægt að hætta við verkið nema að skapa höfundinum skaðabótarétt.
8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Borgarstjórn samþykkir að fela velferðarsviði að hefja viðræður við Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum um styrkveitingu utan umsóknartíma. Félagið er tiltölulega nýtt og leitast við að ná til leigjenda Félagsbústaða og heyra raddir þeirra. Helsta starfsemin hefur farið fram í gegnum samfélagsmiðla, félagafund og á stjórnarfundum. Til þess að félagið geti sinnt markmiðum sínum um að ná til leigjenda hjá Félagsbústöðum, þurfa þau á fjárstuðningi að halda til að gera félagið sýnilegra. R19020056
Tillagan er felld með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í gildi eru reglur um styrki á vegum Reykjavíkurborgar frá 25. maí 2017. Samkvæmt þeim er almennur frestur til að sækja um styrki til borgarsjóðs 1. október ár hvert. Almennt þurfa að liggja að baki góð rök fyrir því að vikið sé frá þeim fresti. Umrætt félag er enn ungt að aldri og lítil reynsla komin á starfsemi þess og því óeðlilegt að leggja strax til að gerður sé við það samstarfssamningur til lengri tíma. Umrætt félag getur sótt um fyrir tiltekið verkefni í borgarsjóð, skilað verk- og fjárhagsáætlun, rétt eins og önnur félög í Reykjavík sem mörg sinna mikilvægum hlutverkum. Það er hinn eðlilegi farvegur á þessu stigi málsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokki fólksins finnst mjög mikilvægt að Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum þrífist og dafni. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnaði mjög tilkomu þess og veit að gleði meðal þessa hóps með tilkomu félagsins var mikil enda þörf á félagi af þessu tagi einnig mikil. Hins vegar er ákveðinn skilningur að velferðarsvið geti ekki tekið þetta félag fram yfir önnur sambærileg hvað varðar sérstakan samstarfssamning við velferðarsvið. Breyta þyrfti reglum ef jafnræði ætti að ríkja gagnvart öðrum sambærilegum félögum sem velferðarsvið myndi þá gera samstarfssamning við. Komi til skoðunar á reglum í þessu sambandi myndi Flokkur fólksins fagna því.
9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að láta vinna breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar þannig að fundir borgarstjórnar hefjist kl. 10 fyrir hádegi á 1. og 3. þriðjudegi í mánuði í stað kl. 14. Samhliða þessu þarf að gera aðrar breytingar sem lúta að tímasetningu annarra funda og undirbúningi. R18110065
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar er fjallað um fundi borgarstjórnar og þar kemur fram að borgarstjórnarfundir hefjist að jafnaði kl. 14:00. Staðið hefur yfir endurskoðun og einföldun fundaskipulags Reykjavíkurborgar og verið að skoða það heildrænt með tilliti til margra þátta sem þurfa að ganga upp í skipulaginu. Það að flýta fundum borgarstjórnar kemur til greina í þeirri vinnu en ekki þykir rétt að samþykkja tillöguna að svo stöddu áður en heildarmynd mögulegra breytinga liggur fyrir.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins er nokkuð hissa á að meirihlutinn skuli vilja fella tillögu um að hefja fundi borgarstjórnar fyrr að degi til en þeir byrja kl. 14:00 ekki síst vegna þess að tal um að gera vinnustaðinn Borgarstjórn Reykjavíkur fjölskylduvænan eða fjölskylduvænni er ekki síst komið frá borgarfulltrúum meirihlutans. En sjálfsagt er hér eitthvað á ferðinni sem er meira í orði en á borði hjá meirihlutanum. Borgarstjórnarfundir eru einu fundirnir sem vara ávallt langt fram á kvöld og jafnvel fram yfir miðnætti enda hefur borgarfulltrúum verið fjölgað, eru núna 23 talsins. Flestir borgarfulltrúar mæta snemma til vinnu daginn eftir m.a. á skipulagða fundi. En eins og borgarfulltrúi Flokks fólksins sagði við flutning tillögunnar þá mun hann ekki gráta þótt þessi tillaga fái ekki brautargengi enda á hann ekki ung börn heima. En það eru margir aðrir í borgarstjórn í þannig fjölskylduaðstæðum, með ung börn heima. Talið var að borgarstjórn hefði hugsanlega viljað sammælast um þessa tillögu þannig að starfið og fundirnir verði nær eðlilegum vinnutíma. Allir í borgarstjórn eru atvinnumenn, þetta er þeirra aðalvinna og mikil vinna.
10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Lagt er til að gerð verði mislæg gatnamót við Bústaðaveg/Reykjanesbraut í tengslum við aðrar framkvæmdir á svæðinu.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19020057
Lagt er til að tillögunni verði vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
Fellt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Hildar Björnsdóttur, Jórunnar Pálu Jónasdóttur, Egils Þórs Jónssonar, Mörtu Guðjónsdóttur, Katrínar Atladóttur, Arnar Þórðarsonar, Björns Gíslasonar og borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins; Ólafur Kr. Guðmundsson, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands og borgarfulltrúi Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eðlilegt og tímabært er að unnið sé að endurbótum á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar í samstarfi við ríkið. Í þeirri vinnu er nauðsynlegt að hugað verði að öryggi allra vegfarenda sem um gatnamótin kunna fara, jafnt þeirra sem fara um á eigin bíl sem og þeirra sem fara gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum. Þá er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að væntanlegar endurbætur á gatnamótum gangi ekki á Elliðarárdalinn og skerði ekki aðgang nágranna að dalnum, heldur auki hann. Á þessari stundu þykir okkur ekki liggja fyrir að besta og eina leiðin til að ná fram umræddum markmiðum sé með mislægum gatnamótum. Höfuðmáli skiptir að markmiðin um öryggi allra vegfarenda, skilvirkni umferðar og vandað borgarrými nái fram að ganga.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðisflokkurinn telur rétt að gatnamótin verði lagfærð með umferðaröryggi í huga. Flokkurinn leggur áherslu á að útfærslan verði lágreist og gangi ekki á umhverfi Elliðaárdalsins og farvegi Elliðaánna. Þá leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokks einnig áherslu á að útfærslan gangi sem minnst á borgarlandið. Jafnframt verði þess sérstaklega gætt að leggja áherslu á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Við hörmum að meirihluti borgarstjórnar hafi hafnað þeirri málsmeðferðartillögu að vísa málinu til skipulags- og samgönguráðs til frekari meðferðar, þar sem unnt væri að skoða fjölbreyttar útfærslur gatnamótanna, auk þess sem hægt væri að óska gagnlegra umsagna um útfærslurnar, t.d. frá Vegagerðinni, umhverfis- og skipulagssviði og íbúum á svæðinu. Einnig er gerð athugasemd við að vinnu vegna sambærilegrar tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafi ekki enn verið lokið en hún var samþykkt í mars 2017 eða fyrir tæpum tveimur árum. Það er óásættanlegt að mál sem varða umferðaröryggi á einum af hættulegustu gatnamótum landsins fái ekki skjótari framgöngu í borgarkerfinu en þetta.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður tillögu um mislæg gatnamót við Bústaðaveg og Reykjanesbraut. Þetta stóð til en verkið hófst aldrei. Umferðarteppa sem þarna myndast er orðin háalvarleg, vissulega verst á ákveðnum tíma að morgni og seinni partinn. En í raun er vandamálið viðloðandi alla daga í mismiklum mæli þó. Borgarfulltrúi Flokks fólksins þekkir þetta vel enda er ein af þeim sem situr föst í umferð akkúrat á þessum stað oft í viku. Þeir sem hins vegar þurfa ekki að búa við þennan veruleika reglulega virðast engan veginn geta sett sig í þessi spor og vilja jafnvel tala niður þennan mikla vanda sem fjöldi borgarbúa sem býr við þetta er orðinn langþreyttur á og jafnvel vonlaus. Um leið og hálka myndast eða snjóar þá margfaldast þessi vandi. Á stuttum kafla við þessi gatnamót getur það tekið allt að 45 mínútum sem bílarnir bifast áfram með tilheyrandi mengun sem hlýst af því þegar stöðugt þarf að hemla og taka af stað aftur jafnvel mörgum sinnum á mínútu. Það gengur ekki lengur að hunsa þennan vanda. Hann hverfur ekki við það.
11. Fram fer umræða um aðkomu minnihlutans að gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar. R19020058
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarf um gerð fjárhagsáætlunar er nú þegar afar mikið, bæði í gegnum borgarráð og fagráð borgarinnar. Þá á minnihlutinn fulltrúa í öllum B-hluta fyrirtækjum sem tryggir minnihlutanum samráð við gerð fjárhagsáætlunar. Samstarf við minnihlutann við gerð fjárhagsáætlunar hefur því gengið með ágætum að undanförnu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er dapurt að þurfa að sætta sig við að vera borgarfulltrúi í minnihluta sem hefur enga alvöru aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar meirihlutans í borgarstjórn. Við í minnihlutanum getum vissulega komið með tillögur en þær hafa allar verið stráfelldar kerfisbundið og markvisst af meirihlutanum. Okkur í minnihlutanum er boðið á ýmsa fundi um fjármál en þá má bara horfa en ekki snerta. Í minnihlutanum eru 11 borgarfulltrúar, hópur sem er með meira atkvæðamagn að baki en meirihlutinn sem er með 12 borgarfulltrúa. Eðlilegt væri að minnihlutinn kæmi að þessu borði þegar fjárhagsáætlun er gerð og það með virkum hætti á öllum stigum fjármálaákvarðana. Hvernig á minnihlutinn að sinna hlutverki sínu ef hann hefur aldrei neina aðkomu að útdeilingu fjármagns, að ákvörðunum um fjármál á fyrstu stigum? Það er ósk borgarfulltrúa Flokks fólksins að á þessu fyrirkomulagi verði breyting. Það er í þágu allra borgarbúa að unnið sé saman. Þannig næst breiðari sýn og meiri sátt í borgarstjórn.
12. Lagt er til að Alexandra Briem, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Hildur Björnsdóttir, Sabine Leskopf og Valgerður Sigurðardóttir taki sæti sem varamenn í forsætisnefnd. R18060080
Samþykkt.
13. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 17., 24. og 31. janúar. R19010002
14. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 1. febrúar, mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 24. janúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. og 28. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 22. janúar, skipulags- og samgönguráðs frá 16., 23. og 30. janúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 30. janúar og velferðarráðs frá 23. janúar. R19010073
- 3. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Ásgerðar Jónu Flosadóttur, er samþykktur. R19010394
16. Lagt er til að Þór Elís Pálsson taki sæti í mannréttinda- og lýðræðisráði í stað Ásgerðar Jónu Flosadóttur. R18060083
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 22:19
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Björn Gíslason Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.2.2019 - prentvæn útgáfa