Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2013, þriðjudaginn 5. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Dagur B. Eggertsson, Hjálmar Sveinsson, Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Sóley Tómasdóttir. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um aðalskipulag Reykjavíkur – borgin við sundin.
- Kl. 14.07 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum.
2. Fram fer umræða um málefni Vesturbæjar.
- Kl. 15.30 víkur Sóley Tómasdóttir af fundinum og Þorleifur Gunnlaugsson tekur sæti.
- Kl. 16.50 víkur Oddný Sturludóttir af fundinum og Björk Vilhelmsdóttir tekur sæti.
- Kl. 16.55 víkur Hanna Birna Kristjánsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti.
3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. desember, 17. janúar, 24. janúar og 31. janúar.
- 22. liður fundargerðarinnar frá 17. janúar, gjaldskrá fyrir hundaeftirlit samþykktur með 9 atkvæðum.
- 22. liður fundargerðarinnar frá 24. janúar, kosning varamanns í umhverfis- og skipulagsráð samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.
- 22. liður fundargerðarinnar frá 31. janúar, endurnýjun þjónustusamnings velferðarsviðs við Hjálparstarf kirkjunnar samþykktur með 14 atkvæðum gegn 1.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi VG lagði til á síðasta fundi borgarráð að þjónustusamningur um styrk til að veita ráðgjöf til þeirra sem leita til Hjálparstarfs kirkjunnar innanlands verði ekki endurnýjaður og umræddir fjármunir rynnu til Velferðarsviðs til að efla faglega ráðgjöf Þjónustumiðstöðva borgarinnar. Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu og því tilgangslaust að flytja tillöguna aftur hér. Borgarfulltrúi VG áréttar að tæplega 9 milljóna króna styrkur borgastjórnar til Hjálparstarfs Kirkjunnar vekur furðu þegar álag á þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar fer stöðugt vaxandi og fjárþörfin mikil. Að mati borgarfulltrúa VG ættu þeir fjármunir sem ætlaðir eru til félagslegrar ráðgjafar að renna til félagsþjónustu borgarinnar en ekki til hjálparstarfs á vegum trúsafnaða.
- 24. liður fundargerðarinnar frá 31. janúar, heimild borgarstjórnar til slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til lántöku vegna byggingar á nýrri slökkvistöð við Skarhólabraut, samþykktur með 10 atkvæðum.
- 25. liður fundargerðarinnar frá 31. janúar, gjaldskrá slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins samþykktur með 9 atkvæðum.
4. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 1. febrúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. og 25. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 14. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 16., 23., og 30. janúar, skóla- og frístundaráð frá 16. janúar og velferðarráðs frá 17. janúar.
5. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarfulltrúa Kjartans Magnússonar:
Á síðasta fundi borgarstjórnar, 15. janúar, var lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn undirritaðs frá 4. september 2012. 1. liður fyrirspurnarinnar er hér lagður fram að nýju þar sem fullnægjandi svör við henni er ekki að finna í svari borgarstjóra. Í fyrirspurninni var m.a. spurt um heildarbyggingarkostnað við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi og óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv. Þrátt fyrir að spurningin sé orðuð með skýrum hætti virðist borgarstjóri einhverra hluta vegna hafa misskilið hana því í svari hans er einungis gert grein fyrir þeim byggingarkostnaði, sem til hefur fallið eftir yfirtöku verkefnisins árið 2009. Óskað er eftir að úr þessu verði bætt og skýr grein gerð fyrir öllum byggingarkostnaði við húsið frá upphafi hverju nafni sem hann nefnist. 1. Hver er heildarbyggingarkostnaður við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv. Þá er óskað eftir yfirliti yfir þær framkvæmdir, sem eftir eru eða standa yfir og kostnaðaráætlanir vegna þeirra.
Samþykkt með 9 atkvæðum að vísa fyrirspurninni til borgarráðs.
Fundi slitið kl. 18.25
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Gísli Marteinn Baldursson Karl Sigurðsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 05.02.13