Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2015, þriðjudaginn 5. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. desember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs 23. desember s.á., á því að auglýsa tillögu umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar samkvæmt uppdrætti T.ark, dags. 18. desember 2015, sbr. 4. lið fundargerðar ráðsins. Einnig er lögð fram greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs dags. 18. desember s.á.
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að tillögu um að auglýsa deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar verði vísað til borgarráðs og hún afgreidd í samræmi við 2. mgr. 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar þar sem stendur að auglýsing og afgreiðsla á deiliskipulagi sé ávallt háð samþykki borgarráðs. Hið sama gildir um auglýsingu og afgreiðslu á tillögum að breytingum á slíkum áætlunum. Ekki er sambærilegt ákvæði í öðrum samþykktum fagráða borgarinnar. Það er mat borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að samkvæmt skýru orðalagi samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs sé ekki heimilt að sleppa umfjöllun borgarráðs eins og hér er stefnt að með því að taka tillögu að auglýsingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar beint úr umhverfis- og skipulagsráði og leggja hana fram í borgarstjórn til afgreiðslu. Það dregur verulega úr líkum á því að borgarfulltrúar fái viðhlítandi kynningu og geti tekið upplýsta ákvörðun. Enginn borgarfulltrúi né varaborgarfulltrúi þeirra flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn sat í umhverfis- og skipulagsráði 23. desember sl. þegar tillagan var til afgreiðslu þar. Málsmeðferð sem þessi á sér ekki fordæmi.
Málsmeðferðartillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er með ólíkindum að nú þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar úr gildi skuli höfuðáhersla vera lögð á að ryðja málinu aftur í gegnum borgarkerfið á methraða og án nokkurrar fyrirhyggju. Viðvörunarljósin blikka en það verður ekki séð að nokkur lærdómur verði dreginn af mistökunum. Að lágmarki hefði átt að tryggja að málsmeðferðin væri ekki lakari en tíðkast almennt um feril skipulagsmála í Reykjavíkurborg. Af afgreiðslunni og umræðunni hér í borgarstjórn í dag mega borgarfulltrúar reikna með því að deiliskipulagsáætlun Reykjavíkurflugvallar komi aftur til kasta borgarstjórnar vegna mistaka, galla í málsmeðferð eða alvarlegra annmarka.
Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina að auglýsa framlagða deiliskipulagstillögu skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem gerðar voru á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var af borgarstjórn 1. apríl 2014.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Enn hefur ekki verið sýnt fram á það með fullnægjandi gögnum að hægt sé að loka flugbrautinni þannig að það komi ekki niður á flugöryggi. Það er hins vegar staðreynd að það eru ekki nema örfáir dagar síðan brautin sannaði síðast gildi sitt. Mál þetta varðar almannaheill og flugöryggi og því verða vinnubrögðin að vera faglega fullnægjandi við meðferð málsins. Vinnubrögð meirihlutans eru í hrópandi andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti og nýsamþykkta upplýsingastefnu borgarinnar en þar kemur fram að ákvarðanir þurfa að byggjast á bestu fáanlegum upplýsingum. Sýna vinnubrögð meirihlutans að það er eitt að samþykkja upplýsingastefnuna og annað að framkvæma í samræmi við hana. Nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir til að taka upplýsta ákvörðun en í niðurstöðu Samgöngustofu kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallakerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur og þurfi að gera sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbrautinni. Er því bæði órökrétt og óábyrgt að taka flugbraut út af skipulagi, gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og ætla að loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Margt hefur breyst á því ári sem liðið er frá því tillaga um að auglýsa deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði. Hópur hagsmunaaðila hefur til dæmis breyst talsvert á þessum tíma og því nauðsynlegt að kynna tillöguna á ný og leita eftir samráði. Nærliggjandi deiliskipulagsáætlunum hefur verið breytt og byggingarmagn verið aukið. Mikilvægi sjúkraflugs í Reykjavík hefur aukist á undanförnum árum meðal annars vegna þess að heilsugæsla á landsbyggðinni hefur dregist saman og ber að líta til þess. Full ástæða er því til að nýta tækifærið og endurmeta deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála hefur nú fellt úr gildi í stað þess að auglýsa það óbreytt eins og borgarfulltrúar meirihlutaflokkanna ákváðu á fundi borgarstjórnar í dag. Rétt er að taka fram að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn þeirri tillögu og greiddu atkvæði gegn deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar í umhverfis- og skipulagsráði, borgarráði og í borgarstjórn. Enn eitt stjórnsýsluklúður meirihlutans veldur réttaróöryggi og flaustursleg viðbrögð hans við því að úrskurðarnefndin felldi deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar úr gildi gefa ekki tilefni til að ætla að skilaboð úrskurðarnefndarinnar hafi verið tekin alvarlega.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Deiliskipulag sem nú er samþykkt til auglýsingar er efnislega eins og það sem áður var auglýst. Skipulagið var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna formgalla á málsmeðferð en efnisleg málsrök kærenda hlutu ekki hljómgrunn. Tillagan var unnin á grundvelli samkomulags borgarstjóra og innanríkisráðherra, dags 25.10.2013, sem staðfest var af fulltrúum allra flokka í borgarráði á sínum tíma. Skipulagið er í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag og allar meginforsendur þess. Eins og hingað til þegar deiliskipulag er fellt úr gildi vegna formgalla er það auglýst á nýjan leik að teknu tilliti til þeirra.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að hrinda af stað sérstöku átaki í atvinnumálum fatlaðs fólks. Átakið snúist um að innleiða störf á vinnustöðum borgarinnar fyrir fatlað fólk sem þarf stuðning. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að fötluðu fólki bjóðist tækifæri á vinnumarkaði en slík tækifæri eru nú mjög af skornum skammti. Mjög brýnt er einnig að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að vinna að nauðsynlegum leiðum og aðgerðum til að finna hvaða störf henta og hvernig nauðsynlegt er að útfæra stuðninginn. Efnt skal til átaksins í samvinnu við Vinnumálastofnun og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mjög mikilvægt er að Reykjavíkurborg sem einn af stærstu atvinnurekendum í Reykjavík geri sérstakt átak til að auðvelda stjórnendum á vinnustöðum borgarinnar að ráða fatlað fólk til starfa. Reykjavíkurborg þarf verulega að taka sig á hvað þetta varðar og á að sjá sóma sinn í því að ganga fram með góðu frumkvæði og framfylgja til fulls þeirri stefnumótun sem löngu hefur verið sett. Þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði er því miður allt of lítil og tækifæri af skornum skammti. Því miður sá meirihlutinn í Reykjavík sér ekki fært að samþykkja tillöguna án málalenginga.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að hæfileikar allra séu virkjaðir og réttur allra til virkrar þátttöku sé tryggður. Reykjavíkurborg á að sýna frumkvæði og ættu stjórnendur borgarinnar að vera hvattir til þess að gefa fötluðum einstaklingum tækifæri til starfa innan borgarkerfisins. Fatlaðir einstaklingar geta reynst verðmætir starfsmenn og geta búið yfir mikilli þekkingu og reynslu eins og sannaðist best á þeim starfsmönnum sem störfuðu við ferðaþjónustu fatlaðra í þjónustuveri Strætó bs., en með uppsögn þeirra glataðist mikil þekking á notendum ferðaþjónustunnar og þörfum þeirra, auk þess sem þau höfðu skilning á aðstæðum vegna þess að þau voru sjálf í svipaðri stöðu.
3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. nóvember 2015 á stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. desember.
Samþykkt.
4. Fram fer umræða um fjármál Reykjavíkurborgar.
5. Fram fer umræða um málefni Árbæjar, Seláss og Ártúnsholts.
6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 17. desember 2015.
15. liður, Varmahlíð 1, auglýsing vegna Perlunnar, samþykktur með 11 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. desember, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. desember, menningar- og ferðamálaráðs frá 14. desember, skóla- og frístundaráðs frá 16. desember, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 14. desember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. og 23. desember og velferðarráðs frá 17. desember.
Fundi slitið kl. 19.07.
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Sóley Tómasdóttir
Halldór Halldórsson Skúli Helgason
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.1.2016 - prentvæn útgáfa