Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2013, þriðjudaginn 5. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, S. Björn Blöndal, Margrét Kristín Blöndal, Oddný Sturludóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 30. ágúst 2013, þar sem óskað er eftir staðfestingu eigenda á samþykkt stjórnar vegna fyrirhugaðrar tengingar Hellisheiðarvirkjunar við borholur í Hverahlíð, ásamt umsögn fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 15. október 2013 sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. október 2013.
- Kl. 14.55 tekur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur sæti.
Samþykkt með 15 atkvæðum að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins um eitt ár og nýta tímann til að kanna allar hliðar þess og aðra möguleika í þaula. Í millitíðinni verði leitað álits sérfróðra utan borgarkerfisins og Orkuveitunnar um þau atriði sem enn orka tvímælis, en fjölda spurninga sem lúta að lögfræði, jarðfræði, forðafræði, hagfræði og ekki síst siðfræði er enn ósvarað.
Tillagan er felld með nafnakalli samkvæmt meðfylgjandi nafnaskrá með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins gegn 1 atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna.
Samþykkt með nafnakalli samkvæmt meðfylgjandi nafnaskrá með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins gegn 1 atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á asanum sem virðist vera á meirihluta borgarstjórnar þegar kemur að áframhaldandi ágengri nýtingu á auðlindum landsins og að borgarstjórn sé ekki reiðubúin til að afla allra nauðsynlegra upplýsinga áður en haldið er af stað. Tenging borholanna í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun er skammtímalausn á einkenni sem tekur ekki á hinum raunverulega vanda sem felst í allt of miklum væntingum til afkastagetu á svæðinu. Tengingin hljómar vissulega vel miðað við gefnar forsendur til skamms tíma. Hún er þó alls ekki áhættulaus og miklar líkur á að hún fresti aðeins vandanum sem mun halda áfram að vaxa. Lausnin er auk þess sett fram án þess að kannaðir hafi verið kostir þess að endursemja um verð eða gera tilraunir til að fá önnur orkufyrirtæki til að yfirtaka einhvern hluta samninganna. Alls er óvíst um að Hverahlíðarsvæðið gefi af sér þá orku sem áætlunin gerir ráð fyrir inn í framtíðina og allt eins líklegt að fara þurfi í frekari tilraunir, boranir og tengingar til að halda afkastagetunni uppi. Lausnin felur sumsé í sér áframhaldandi áhættusækni í anda úr sér genginnar stóriðjustefnu og frekari tilraunir á kostnað umhverfis og almennings og komandi kynslóða án þess að árangur verði almennilega tryggður. Raunafkastageta Hellisheiðarvirkjunar er ekki og verður aldrei 303 MW til lengri tíma. Neiti Orkuveita Reykjavíkur að horfast í augu við það mun svæðið verða þurrausið innan örfárra áratuga. Þá fyrst verða góð ráð dýr og ósanngjarnt með öllu að sá kostnaður falli á afkomendur okkar.Það er löngu tímabært að snúa af braut stóriðjustefnunnar og fara að nýta orkuna skynsamlega í þágu almennings og það veldur vonbrigðum að meirihlutinn skuli ekki vera reiðubúinn. Það lofar ekki góðu að borgarfulltrúar sem gengið hafa til liðs við umhverfisverndarflokkinn Bjarta framtíð skuli ekki vera reiðubúnir í þá vegferð, ekki frekar en borgarfulltrúar Samfylkingarinnar með sitt Fagra Ísland í farteskinu.
Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins samþykkja að fallast á erindi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um tengingu borholna í Hverahlíð við Hellisheiðavirkjun. Þessi kostur er farsælastur af þeim sem standa til boða. Þar með er verið að nýta gufu úr holum sem þegar hafa verið boraðar, framleiðslugetu Hellisheiðarvirkjunar er haldið við, ekki þarf að kaupa viðbótarorku frá Landsvirkjun fyrir hundruð milljóna á ári og betri upplýsingar fást um afköst Hverahlíðar og hegðun jarðhitasvæðisins í heild. Þetta er því skynsamleg og ábyrg leið til að leysa vanda sem upp er kominn.
2. Fram fer umræða um tillögur að eflingu leigumarkaðar í Reykjavík.
- Kl. 16.40 víkur Oddný Sturludóttir af fundinum og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Pólitísk sátt er um að stuðla að uppbyggingu leiguíbúða og fjölbreyttari húsnæðismarkaði í Reykjavík. Sjálfstæðismenn sakna þess að ekki séu svör við grundvallaratriðum í þeim tillögum sem fyrir liggja. Þau atriði lúta að því á hvaða forsendum á að semja við leigufélög og með hvaða aðferðum og eða fjármunum á að halda leiguverði niðri sem er forsenda þess að ráðist sé í sértækar aðgerðir. Ljóst er að mikil vinna er framundan við útfærsluna og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka að hún hefjist sem fyrst.
3. Fram fer umræða um málefni heilsugæslunnar í Reykjavík.
Samþykkt með 15 atkvæðum að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að óska eftir formlegum viðræðum við ríkisvaldið um framtíðarfyrirkomulag heilsugæslunnar í Reykjavík með það að markmiði að þjónustan verði endurskipulögð í þágu notenda. Lögð verði áhersla á fjölbreytni í rekstrarformum og að tryggja greiðan aðgang almennings að heimilislækningum.
Samþykkt með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórn samþykkti haustið 2010 að fara í viðræður við ríkisvaldið um yfirtöku á heilsugæslunni. Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lýsa yfir vilja sínum til að vera áfram í viðræðum við ríkisvaldið um yfirtökuna, þó ekki fyrr en niðurstöður liggja fyrir í mati á því hvernig til hefur tekist við yfirtöku á þjónustu við fatlaða íbúa bæði hvað varðar þjónustu og fjármögnun. Niðurstöður eiga að liggja fyrir á vormánuðum 2014.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við hörmum að borgarfulltrúar Samfylkingar, Besta flokksins og Vinstri grænna skuli vísa frá tillögu um að óskað verði eftir formlegum viðræðum við ríkisvaldið um framtíðarfyrirkomulag heilsugæslunnar í Reykjavík með það að markmiði að þjónustan verði endurskipulögð í þágu notenda og að aðgangur að heimilislækningum sé tryggður. Þær viðræður við ríkisvaldið, sem fóru fram í framhaldi af samþykkt borgarstjórnar 21. september 2010, fóru út um þúfur og því er eðlilegt að borgarstjórn óski að nýju eftir viðræðum nú þegar ný ríkisstjórn er komin til valda. Það lýsir miklu metnaðarleysi að borgarstjórnarmeirihlutinn kjósi að fresta slíkum viðræðum þar til ljóst verður hvernig yfirstandandi mati lyktar vegna annars máls, þ.e. yfirfærslu málefna fatlaðra. En miðað við núverandi stöðu liggur niðurstaða þess mats í fyrsta lagi fyrir vorið 2014. Slík frestun er ekki í neinu samræmi við þann vanda sem við er að etja í málefnum heilsugæslunnar.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að vinna að eflingu íþróttastarfs og hreyfingar í þágu eldri borgara í Reykjavík. Leitað verði eftir samstarfi við íþróttafélög í borginni og hagsmunasamtök aldraðra um leiðir til að nýta betur íþróttamannvirki í borginni í þessu skyni. Þá verði unnið að því að kynna betur þá kosti sem eldri borgurum standa til boða í íþróttastarfi, hreyfingu og líkamsrækt.
- Kl. 17.45 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundinum og Eva Baldursdóttir tekur þar sæti.
Samþykkt með 15 atkvæðum að vísa tillögunni til velferðarsviðs og íþrótta- og tómstundasviðs, til innleiðingar á aldursvænni Reykjavík, þar sem unnið er að aðgerðaáætlun til að uppfylla nýsamþykkta stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara.
5. Samþykkt með 15 atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í mannréttindaráð. Lagt er til að Magnús Sigurbjörnsson taki sæti í mannréttindaráði í stað Magnúsar Þórs Gylfasonar.
Samþykkt.
6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 17. og 31. október.
- 15. liður fundargerðarinnar frá 31. október, breyting á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, samþykktur með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna.
7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 18. október og 1. nóvember, íþrótta- og tómstundaráðs frá 25. október, mannréttindaráðs frá 21. október, menningar- og ferðamálaráðs frá 28. október, umhverfis- og skipulagsráðs frá 30. október og velferðarráðs frá 24. október.
Fundi slitið kl. 18.15
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Karl Sigurðsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.11.2013 - prentvæn útgáfa