Borgarstjórn - 5.10.2021

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 5. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Alexandra Briem, Aron Leví Beck Rúnarsson, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030 sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september sl. R19110027

Samþykkt. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Lýðheilsa og lífsgæði eru lykiláherslur í framtíðarsýn og áherslum borgarinnar á öllum sviðum. Það þýðir að Reykjavík á að vera sannkölluð heilsuborg, hvort sem litið er til hins andlega, líkamlega eða félagslega. Stefna Reykjavíkurborgar á sviði lýðheilsu er að fjölga æviárum þar sem íbúar búa við góða heilsu og vellíðan. Hún hefur það markmið að skapa umhverfi og aðstæður sem auka jöfnuð, heilsu og hamingju þannig að allir borgarbúar hafi tækifæri til að njóta lífsins í borg þar sem þeim finnst gott að búa í sátt og samlyndi. Áhersla er á forvarnir gegn hættu og vá og heilsueflingu þar sem markmiðið er góð heilsa og vellíðan allra borgarbúa. Heilsuborgin Reykjavík er nú skrefi nær því að verða að veruleika með þessari samþykkt borgarstjórnar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir og miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Í stefnunni eru ávarpaðir góðir og mikilvægir hlutir. Ef þetta er það sem vilji stendur til af hverju hefur þá ekki verið tekið betur á lýðheilsumálum? Mælingar á líðan barna sýna versnandi líðan þeirra. Heilsa og hamingja byggir á svo mörgu, t.d. að hafa fæði, klæði og húsnæði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnum sínum. Nú fer fátækt vaxandi. Ekki er minnst á biðlista sem er án efa einn stærsti lýðheilsuvandi í borginni þar sem okkar minnstu og viðkvæmustu borgarbúar bíða eftir að fá nauðsynlega þjónustu til þess að geta liðið betur andlega. Biðlistar barna eru í sögulegu hámarki og hafa þrefaldast á þessu kjörtímabili. Eldri borgarar fá ekki mikið vægi í stefnunni. Eldra fólki er gert að hætta að vinna þvert ofan í það sem einhver kynni að langa. Ánægja tengd vinnuvirkni er einnig lýðheilsutengd. Það getur varla fallið undir „þátttöku allra“ að vilja ekki skoða tillögu um sveigjanleg starfslok eftirlaunafólks. Ótalin er sú vá sem fylgir mengun og svifryki. Umferðartafir valda mengun þar sem ljósastýringar eru í ólestri. Borgin á margar góðar „stefnur“ en hvar eru framkvæmdirnar?

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að Reykjavíkurborg bjóði út alla verkþætti, frá hönnun til þróunar og hugbúnaðargerðar, vegna verkefnisins stafræn umbreyting. Innkaupasviði Reykjavíkurborgar verði falið að vinna að útboðum og hafa fyrstu útboðsgögn tilbúin 1. desember 2021.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100171

-    Kl. 15:50 víkur Aron Leví Beck Rúnarsson af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur þar sæti. 

-    Kl. 16:50 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoëga tekur þar sæti. 

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Nauðsynlegt er að ráðast í stafræna þróun á þjónustu borgarinnar við borgarbúa. Gert er ráð fyrir að verja yfir 10 milljörðum til verkefnisins á næstu árum, án þess þó að skilgreina til enda hvert þeirri fjárhæð er ráðstafað. Fjárhæðin er gríðarlega há og ljóst að með útboðum er hægt að spara fjármuni og auka skilvirkni. Grunnforsenda stafrænnar þróunar borgarinnar verður að fela í sér betri þjónustu við íbúa og aukna hagræðingu og skilvirkni innan borgarkerfisins. Nú er ljóst að verkefnið mun kalla á 60 ný stöðugildi, tækifæri til útvistunar virðast vannýtt og hagræðing hefur ekki verið skilgreind. Þetta gengur þvert gegn innkaupastefnu borgarinnar. Gæta þarf þess að stafræn umbreyting borgarinnar breytist ekki í eitthvað stefnulaust rekald. Sjálfstæðisflokkurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur leggur því til að borgin bjóði út alla verkþætti, frá hönnun til þróunar og hugbúnaðargerðar, vegna verkefnisins „stafræn umbreyting“. Bent er á að fordæmin eru til staðar: Stafrænt Ísland er stórt átaksverkefni ríkisins þar sem allir verkþættir hafa verið boðnir út og engin innvistun átt sér stað. Réttast væri að Reykjavíkurborg líti til þess verkefnis sem fyrirmyndar og fylgi aðferðafræðinni hjá Stafrænu Íslandi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Stafræn umbreyting, sem er hluti af græna planinu er gríðarlega framsækið verkefni Reykjavíkurborgar, sem mun leiða til betri og aukinnar þjónustu við borgarbúa. Framsýnin er viðurkennd víða um heim, eins og sést á alþjóðlegri viðurkenningu Bloomberg Philanthropies, sem valdi Reykjavík meðal sex borga, af stórum hópi sem sótti um þátttöku, til að styðja við og hraða stafrænni umbreytingu. Stuðst verður við útboð í miklum mæli, þar sem borgin mun nýta sér þá þekkingu á stafrænum ferlum sem þegar er til á markaði. Gert er ráð fyrir að af um 10 ma. kr. muni tæplega 80% verða varið í innkaup sem boðin verða út. Á þessu ári verða innkaup um 2,7 ma.kr. af alls 3,2 ma.kr. Umræða um að Reykjavíkurborg ætli sér einvörðungu að styðjast við innanhúslausnir byggist því á misskilningi og rangfærslum. Meirihlutinn í Reykjavík stendur með heilbrigðum markaði en það er líka á okkar ábyrgð að fara vel með skattfé almennings. Sú aðferð sem hér liggur fyrir, að innleiðing á stafrænni umbreytingu sé leidd af starfsfólki, er sama leið og leiðandi fyrirtæki á markaði, bankar og tryggingafélög, hafa kosið að fara. Farið var í umfangsmikla greiningu á kostnaði og áhættu í samráði við ráðgjafa innanlands sem utan.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista er hlynnt innvistun starfa sem felur í sér að aukin þekking kemur til borgarinnar. Þegar verkefnið stafræn umbreyting fer fram þarf að vera ljóst í hvað fjármunum verður varið og hvernig þeim verður varið. Mikilvægt er að stafræn umbreyting nái því markmiði að breyta þjónustuþáttum til að auðvelda skrefin fyrir borgarbúa og starfsfólk borgarinnar. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki. Reykjavíkurborg er sveitarfélag sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber að halda uppi lögbundinni þjónustu og grunnþjónustu. Sú þjónusta er í molum. Áætlað er að 10 milljarðar fari á næstu árum í „stafræna umbreytingu“. Þau verkefni sem til að mynda hefur verið ákveðið að fara í eru nýtt síma- og samskiptakerfi, endurnýjun á netskápum og netskiptum, allsherjar innleiðing á fjarfundarbúnaði, innleiðing Microsoft Office 365, innleiðing á kerfi til að halda utan um hugbúnaðarleyfi og búnað, hefja innleiðingu á alþjónustu á prentumhverfi, rafrænt fræðslukerfi, úthýsingu tölvuvélasala í gagnaver og öryggis- og aðgangskerfi í stjórnsýsluhús ásamt mörgu öðru. Reykjavíkurborg skuldar nú 140 milljarða og samstæðan öll skuldar hátt í 400 milljarða og allt rekið á lánum. Reykjavíkurborg er eins og áður segir EKKI hugbúnaðarfyrirtæki heldur sveitarfélag. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er sammála tillögunni að stærstum hluta því hún er ákveðið framhald af þeirri gagnrýni og umræðu sem fulltrúi Flokks fólksins hefur viðhaft frá því í janúar. Hagkvæmasta leiðin í stafrænni vegferð hlýtur að vera sambland af inn- og útvistun: innvista beina þjónustu og grunnþjónustu og útvista hugbúnaðarsmíð og innbótum sem þarf til uppfærslu á þeim vefjum/kerfum sem nú eru til staðar hjá borginni. Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi að hrúga saman í skyndi nýráðnum hópi allskyns sérfræðinga og ímynda sér að hér verði til í skyndi einhver hugbúnaður sem eigi að vera meiri og betri en hægt er að finna hér allt um kring. Offorsið sem einkennir þessa vegferð er langt umfram þörf því það ríkir ekkert neyðarástand hér varðandi aðgengi fólks að vefjum Reykjavíkurborgar. Stafræna vegferð þarf að hefja, svo mikið er víst, en það er ekki samþykkjanlegt að ausa tíu milljörðum af almannafé í allskonar lausung sem enn sér ekki fyrir endann á. Segja ætti upp öllum erlendum ráðgjafasamningum. Fara á sambærilega leið og ríkið sem komið er lengra á leið. Leita á eftir mun meiri samvinnu ríkis og sveitarfélaga með því markmiði að koma eins miklu undir island.is og hægt er.

-    Kl. 17:40 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundi og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir tekur þar sæti. 

3.    Fram fer umræða um nýtt safn Nínu Tryggvadóttur í Reykjavík. R21060076

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Nýtt safn Nínu Tryggvadóttur verður umgjörð utan um list og hugarheim eins ástsælasta listamanns þjóðarinnar. Höfðingleg gjöf Unu Dóru Copley, dóttur Nínu, verður einstakt tækifæri fyrir borgina að gera list hennar og ævistarfi góð skil í hluta Hafnarhússins sem borgin keypti á dögunum undir safnið.

-    Kl. 18:20 er gert hlé á fundi. 

-    Kl. 18:59 er fundi fram haldið.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Óskað er eftir greiningu á launagreiðslum Reykjavíkurborgar til starfsfólks og launagreiðslum borgarinnar til starfsfólks þeirra fyrirtækja sem Reykjavíkurborg er meirihlutaeigandi að. Greiningin nái yfir allt síðasta ár og greini grunnlaun, regluleg laun, heildarlaun og unnar stundir, þar sem launagreiðslur eru skiptar út frá starfsstétt, (og viðkomandi starfssviði borgarinnar eða fyrirtæki í eigu borgarinnar), kyni, aldri og uppruna ef slíkar upplýsingar liggja fyrir. Stuðst verði við eftirfarandi aldursskiptingu: Yngri en 18 ára (ef slíkt á við), 18-29 ára, 30-39 ára, 40-49 ára, 50-59 ára, 60 ára og eldri. Einnig verði kynjasamsetning starfsstétta sett fram sem og hlutfall fólks með erlendan bakgrunn í starfsstéttum ef slíkar upplýsingar liggja fyrir. Markmið með launagreiningunni er að varpa ljósi á það hvernig kjör eru mismunandi eftir starfsstéttum og félagslegum breytum. Mannauðs- og starfsumhverfissviði verði falið að útfæra tillöguna og leita til greiningaraðila ef þörf þykir á, líkt og Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands. Lagt er til að niðurstöður verði síðan kynntar í borgarráði og öllum fagráðum borgarinnar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100174

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um endurskoðun jafnlaunastefnu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Stýrihópur um endurskoðun jafnlaunastefnu Reykjavíkurborgar hóf störf í ágúst og hefur kallað til fjölda hagsmunaaðila til að dýpka umræðuna og skilninginn á fjölbreytilegri launamismunun. Stýrihópurinn horfir til margbreytileika starfsfólks og þá launajafnréttis óháð kyni, uppruna, stöðu og öðrum mögulegum breytum þó án þess að draga úr mikilvægi kynjajafnréttis og fellur þessi tillaga vel að vinnu stýrihópsins.

5.    Fram fer umræða um meirihlutasáttmála Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fyrir Borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018-2022 og vanefndir á honum. R21100175

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Íbúðaskortur og biðlistar er kjarninn í vanefndum þessa meirihluta. Þvert gegn því sem stendur í meirihlutasáttmálanum þar sem segir að byggja eigi sem aldrei fyrr. Samt hafa aldrei verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Ástæðan er skortur á lóðaframboði. Lóðaskorturinn kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu á þéttingarreitum. Langur biðlisti er eftir félagslegri leiguíbúð og sértæku húsnæði fyrir fatlaða. Fátækt er vandamál í Reykjavík. Lágtekjufólk á ekki mikið eftir þegar búið er að borga leiguna. Hópurinn sem leitar til hjálparstofnana hefur stækkað. Á þremur árum hefur biðlisti eftir fagfólki í skólaþjónustu þrefaldast og nú bíða 1448 börn á listanum. Ekki voru efnd loforð um sveigjanleg starfslok eldra fólks. Atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu eru sárafá. Grænum áherslum hefur verið hampað á meðan metan er brennt á báli í stórum stíl. Ævintýralegar upphæðir hafa streymt í stafræn tilraunaverkefni til að borgin geti verið stærst og mest á heimsmælikvarða. Fátt er um afurðir, hvar er t.d. „Hlaðan“ og Gagnsjáin, nýtt skjala- og upplýsingakerfi sem átti að koma í notkun fyrir 2 árum? Ekki skal undra ef einhverjir eru farnir að telja niður þetta kjörtímabil í þeirri von að nýr meirihluti breyti forgangsröðun verkefna í þágu þjónustu við fólk, börn, öryrkja og eldri borgara.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Samstarf meirihlutaflokkanna hefur gengið afar vel á þessu kjörtímabili. Stóra verkefnið á kjörtímabilinu hefur verið að uppfylla fyrirheit meirihlutasáttmálans sem gerður var við myndun þessa meirihluta. Undanfarin ár hafa verið metár í uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík, einkum á þéttingarreitum skv. aðalskipulagi. Þá hefur metfjölda félagslegra íbúða verið úthlutað. Samgöngusáttmáli var undirritaður og borgarlína og stokkalausnir undirbúnar. Á undanförnum fjórum árum hafa um 10.000 manns ákveðið að setjast að í Reykjavík sem er langt umfram mannfjöldaspár. Útblástur gróðurhúsalofttegunda hefur dregist saman, menntastefna Reykjavíkur hefur verið samþykkt og innleidd, fjölgun leikskólaplássa er á fullri ferð með uppbyggingu leikskóla víðsvegar um borgina, atvinnulífið blómstrar hvort sem litið er til hafnarinnar, Vatnsmýrar, Gufuness eða miðborgar. Hverfiskjarnar ganga í endurnýjun lífdaga, aðstaða fyrir börnin í borginni til tómstunda hefur aldrei verið betri og er uppbygging íþróttaaðstöðu á heimsmælikvarða í Breiðholti og Úlfarsárdal til marks um það. Reykjavík er því vaxa á öllum sviðum, hún er skemmtileg, fjölbreytt og lifandi borg þar sem flest fólk kýs að búa ár eftir ár.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hafna styrk frá Bloomberg Philanthropies, í eigu Michael R. Bloomberg, upp á tæplega 2,2 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 300 milljónum íslenskra króna.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21100177

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

„Heiður og æra“ er orsök þess að Reykjavíkurborg er að taka við 300 milljóna styrk að sögn borgarstjóra og formanns mannréttinda- og lýðræðisráðs. Lög skipta ekki máli hjá borgarstjóra og hann getur ekki svarað fyrirspurn frá 12. ágúst sl. á hvaða lögum þessi gjafagjörningur byggir. Hér er verið að snúa sönnunarbyrði við að krefja mig um svör á hvaða lögum málið er byggt en ekki öfugt. Tekjustofnar sveitarfélaga á Íslandi eru skýrt afmarkaðir í sveitarstjórnarlögum. Þeir eru skattar á íbúa og fyrirtækja, greiðslur úr jöfnunarsjóði og þjónustutekjur. Ekki er um aðra tekjustofna að ræða nema ef um arð dótturfélaga er að ræða. Jafnræði og gegnsæi er lykilatriði í allri stjórnsýslu og rekstri sveitarfélaga. Íslensk sveitarstjórnarlög eru í fullu samræmi að þessu leyti við sveitarstjórnarlög í öðrum norrænum ríkjum. Nú þegar hef ég sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu erindi til að skorið verði úr um hvort það samræmist stjórnarskrá Íslands, sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að höfuðborg Íslands taki á móti gjafafé frá erlendum einkaaðila sem hefur heimilisfesti í Bandaríkjunum af fyrrgreindri stærðargráðu sem skal renna beint inn í rekstur borgarinnar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavík hefur náð þeim merkilega árangri að vera valin úr hópi 600 borga sem ein af tveimur þátttökuborgum Evrópu í samstarfsverkefni sex borga víðsvegar um heiminn við Bloomberg Philantrophies, sem er góðgerðarstofnun rekin án hagnaðarsjónarmiða, og Harvard háskóla til þriggja ára. Samstarfið snýst um að hraða stafrænnar umbreytingar og þjónustumiðaðrar nýsköpunar til að skapa aukin lífsgæði fyrir íbúana í kjölfar heimsfaraldursins. Með þessu fær Reykjavík aðgang að helstu sérfræðingum í heimi á sviði stafrænnar umbreytingar auk tæplega 300 milljón króna styrks til að setja á fót nýsköpunarteymi sem mun styðja við metnaðarfulla stafræna vegferð borgarinnar. Engin rök liggja fyrir sem styðja þá fullyrðingu að móttaka styrksins standist ekki lög. Borgarlögmaður fór yfir samninginn, sá ekkert athugavert og gerði engar athugasemdir. Fyrir liggja mörg fordæmi fyrir því hvernig fyrirtæki styrkja verkefni hins opinbera.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur það enga sérstaka upphefð fyrir Reykjavíkurborg að vera komin í þetta samflot. Reykjavík er lítið sveitarfélag samanborið við stórborgir sem hér eru nefndar og getur varla sinnt sínum viðkvæmustu borgarbúum með fæði, klæði og húsnæði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að það síðasta sem Reykjavíkurborg þurfi á að halda núna, sé enn meiri erlend ráðgjöf ofan á alla aðra sem búið er að fjárfesta í en sem sést hvergi hvar er að gagnast stafrænni umbreytingu. Eina sem sést er flæði fjármagns úr borgarsjóði í hin og þessi verkefni sem fæst sýnast ætla að sjá dagsins ljós á þessu kjörtímabili. Það liggur fyrir að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur lagt dag við nótt við umsóknargerð og önnur lofbréf um „sjálft“ sig til að fá tilboð um þátttöku Bloomberg samnings. Samningurinn kallar á að ráða þarf í 5 ný stöðugildi. Hvernig stendur á því að Reykjavík sé ekki bara í samfloti með Kaupmannahöfn, Stokkhólmi eða Osló sem Reykjavík öllu jafna ber sig saman við? Eru þær borgir kannski svona aftarlega á merinni í stafrænni umbreytingu að þær eru ekki nógu góðar fyrir Reykjavík, hvað þá Bloomberg? Reykjavík er hér að leita langt yfir skammt.

7.    Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í íbúaráðs Grafarvogs.

Lagt er til að Hákon Óli Guðmundsson taki sæti í íbúaráði Grafarvogs í stað Ásmundar Jóhannssonar. Jafnframt er lagt til að Hákon Óli verði formaður ráðsins. R19090036

Samþykkt.

8.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 24., 25. og 30. september R21010001. 

4. liður fundargerðarinnar frá 30. september, Frakkastígur 1 – sala byggingarréttar, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. R21030072

14. liður fundargerðarinnar frá 30. september, viðaukar við fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar 2021, er borinn upp í þrennu lagi R21030150:

 

1. liður, stofnkostnaður gatna vegna tilfærslna á milli kostnaðarstaða er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

2. liður, fjárfestingarheimild, áhöld og tæki bílastæðasjóðs vegna tilfærslu milli kostnaðarstaða, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

3. liður, fjárfestingarheimild vegna lóða, landa og skipulagseigna vegna tilfærslu milli kostnaðarstaða, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. og 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september:

Liður 4: Sjö hæða turn mun loka á útsýni í báðar áttir. Reiturinn tengir Sæbraut og miðborgina með sjónrænum hætti. Áður var þessi reitur til skoðunar sem leikskólalóð. Þessa lóð hefði þurft að nota fyrir innviði. Þessi ákvörðun er auk þess ekki í sátt við íbúa á svæðinu. Liður 14, viðaukar við fjárfestingar: Stafræn umbreyting og rafvæðing ferla, 525.000 m.kr. til að hraða stafrænni umbreytingu og nota á milljónirnar til að ráða inn marga svokallaða stafræna leiðtoga. Hér er farið fram af offorsi. Þótt stafræn mál séu í ólestri er ekki hér um neyðarástand að ræða. Farin er vitlaus leið og hafa m.a. Samtök iðnaðarins bent á það. Útvista ætti hugbúnaðarþróun og halda inni tölvuþjónustu við notendur sem og annarri grunnþjónustu. Búið er að eyða hundruðum milljóna í erlenda og innlenda ráðgjöf og ráðnir hafa verið tugir sérfræðinga á ýmsum sviðum, stærra húsnæði tekið á leigu og stórum upphæðum eytt í uppfærslur á bæði búnaði og aðstöðu eins sviðs umfram önnur á Höfðatorgi. Sjálfsagt er að gera það sem mest er brýnt og þess vegna að ganga til liðs við Stafrænt Ísland sem hefur þessar lausnir, a.m.k. grunninn, sem Reykjavíkurborg getur ýmist byggt á eða nýtt að fullu.

9.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 1. október, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 23. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. september, skipulags- og samgönguráðs frá 29. september, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 22. september og velferðarráðs frá 24. september. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill þakka dr. Vilborgu Auði Ísleifsdóttur fyrir að vekja aftur athygli á slæmri staðsetningu nýs kvennaklefa í Sundhöll Reykjavíkur. Af hverju geta konur ekki fengið aftur gamla búningsklefann óski þær þess nú þegar endurgerð hans er að fullu lokið? Það nær ansi skammt að leyfa konum og stúlkum aðeins að ganga innandyra úr klefa í innilaug í vondum veðrum. Segir að nota eigi gamla búningsklefa kvenna í einhverri mynd. Hvers lags vanvirðing er þetta gagnvart konum sem sækja sund í Sundhöllina? Borgin státar sig af jafnréttisstefnu en fer síðan ekki eftir henni, alla vega ekki í þessu máli. Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurnir um málið í byrjun árs 2020 til skipulags- og samgönguráðs og mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs borgarinnar. Þá var óskað eftir skýringum á því hvers vegna konur hafi ekki fengið aðgang að eldri búningsklefum sínum þegar endurbótum var lokið eins og karlar. Hér eru jafnréttissjónarmið fótum troðin. Endurgerð Sundhallarinnar hvað þennan þátt varðar samræmist ekki stefnu borgarinnar í jafnréttis- og aðgengismálum. Það liggja engar haldbærar skýringar fyrir á því hvað hindrar það að konur fái aftur gamla búningsklefann sinn og hlífa þeim við að ganga langar leiðir á blautum sundfötum frá klefa að laug.

Fundi slitið kl. 22:45

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Alexandra Briem

Ellen Jacqueline Calmon    Kolbrún Baldursdóttir

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.10.2021 - Prentvæn útgáfa