Borgarstjórn - 5.10.2004

Borgarstjórn

BORGARSTJÓRN

Ár 2004, þriðjudaginn 5. október, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Anna Kristinsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Margrét Sverrisdóttir, Kjartan Magnússon, Gísli Marteinn Baldursson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Fundarritun önnuðust Ólafur Kr. Hjörleifsson og Sigurbjörg Sigurjónsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Rætt um skipulag Úlfarsfells og Hallsvegar.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að beina því til skipulags- og byggingarnefndar að hafin verði breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur í þá átt að eingöngu verði gert ráð fyrir tveggja akreina Hallsvegi.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá.

- Kl. 15:50 vék Jórunn Frímannsdóttir af fundi og Björn Bjarnason tók þar sæti.

Tillaga borgarfulltrúa Reykjavíkurlista samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því, að R-listinn hefur snúið við blaðinu og tekur nú undir það sjónarmið sjálfstæðismanna, að Hallsvegur verði ekki með fjórar akreinar.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Fagnað er þverpólitískri samstöðu um málið en á það bent að það var fyrst í tíð Sjálfstæðisflokksins í meirihluta í Reykjavík sem Hallsvegur var settur á skipulag með fjórar akreinar.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Frjálslyndra og óháðra:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fela Reykjavíkurborg að beita sér fyrir því innan stjórnar Strætó bs. að eftirfarandi fargjaldalækkanir taki gildi þegar nýtt leiðakerfi verður tekið í notkun:
1. Fargjöld barna og unglinga að 18 ára aldri verði felld niður í 6 mánuði.
2. Fargjöld aldraðra, þ.e. 67 ára og eldri, verði felld niður í 6 mánuði.
3. Fargjöld öryrkja verði felld niður í 6 mánuði.
Kostnaði vegna þessara fargjaldalækkana verði mætt með auknu framlagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til fyrirtækisins. Samhliða fargjaldalækkunum / niðurfellingu fargjalda verði lögð mikil áhersla á að sem flestir íbúar borgarinnar nýti sér þjónustu almenningssamgangna með því að gera sérstakt átak í þeim efnum.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.

3. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 23. september og 30. september.
19. liður fundargerðar borgarráðs frá 30. september samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

4. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 14. september, skipulags og byggingarnefndar frá 22. september og skipulags- og byggingarnefndar frá 29. september.
Afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa og b-hlutar fundargerða skipulags- og byggingarnefndar samþykktir með 15 samhljóða atkvæðum.

5. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. september, félagsmálaráðs frá 22. september, leikskólaráðs frá 24. september, menningarmálanefndar frá 22. september og umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 23. september.


Fundi slitið kl. 16:37.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Björk Vilhelmsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson