Borgarstjórn - 4.9.2018

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 4. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dagur B. Eggertsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Magnús Már Guðmundsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Björn Gíslason, Örn Þórðarson, Kolbrún Baldursdóttir, Vigdís Hauksdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagður fram meirihlutasáttmáli borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. júní. R18060127

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Óbreytt ástand einkennir „meirihlutasáttmála“ í skólamálum, samgöngumálum og húsnæðismálum. Sjálfstæði skóla og sveigjanleiki í námi er ekki forgangsmál. Litlar breytingar eru boðaðar í samgöngumálum sem hafa versnað mikið á síðustu átta árum. Húsnæðisstefnan er óbreytt. Skýr markmið í umhverfismálum er ekki að finna. Þetta er þess vegna samkomulag um óbreytt ástand. Á forsíðu sáttmálans segir: „Við eigum öll að geta fundið okkar stað í tilverunni í Reykjavík.“ Óhætt er að taka undir þessi orð og þær væntingar sem þar birtast. Fátt bendir til þess að þetta plagg tryggi slíkt. Núverandi stefna hefur minnkað möguleika margra á að finna sinn stað í borginni. Sjaldan hafa eins margir flutt burt og síðustu ár og erfitt er fyrir ungt fólk að komast úr foreldrahúsum. Í sumar opnuðum við á umræðu um stöðu húsnæðislauss fólks í Reykjavík. Þar vantar marga „sinn stað“. Nemendur eru ólíkir og þeir fá ekki nám við hæfi nema með sveigjanlegu skólakerfi með valkostum og skýrum markmiðum. Þannig geta þeir best fundið „sinn stað“. Sjálfstæðisflokkurinn mun veita meirihlutanum málefnalegt aðhald og koma með tillögur til úrbóta á öllum sviðum borgarmála. Það er okkar von að þeir flokkar sem standa að “meirihlutasáttmálanum” taki vel í uppbyggilegar tillögur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Sáttmálinn er falleg orð á blaði, birtir fallegar myndir sem vissulega væri hægt að kvitta undir ef í höfði borgarfulltrúa Flokks fólksins væru ekki aðrar myndir, myndir af örvæntingarfullum andlitum fólks þar með barna sem ýmist búa við húsnæðislegt óöryggi eða líður illa í aðstæðum sínum, sem dæmi skólaaðstæðum. Í sáttmálanum er hinn raunverulegi vandi borgarinnar ekki ávarpaður nema lauslega. Nefna má einnig biðlistavandann og mannekluvandann. Á biðlista í leikskóla eru 128 börn og enn á eftir að ráða í 60 stöðugildi leikskóla og 22 afleysingarstörf. Börn bíða einnig eftir sálfræðiþjónustu. Á biðlista eftir félagslegu húsnæði eru um 1000 manns og börnin eru rúmlega 400. Enn eru eldri borgarar vistaðir á LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum og/eða manneklu í heimaþjónustu. Í sáttmálanum hefði meirihlutinn átt að viðurkenna að ekki hefur verið tekið á þessum þáttum með skeleggum hætti og lofa að forgangsraða í þágu fólksins og barnanna. Það er sárt að sjá sem dæmi að borgin ákvað að endurnýja bragga fyrir 415 milljónir í stað þess að fjármagna í þágu þeirra sem minna mega sín og barnanna í borginni. Nýlega hefur borgin fellt tillögu Flokks fólksins um að hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Fyrir 400 milljónir hefði mátt metta marga munna. Nú er sagt að taka eigi til hendinni í húsnæðismálum en engu að síður er ekki fyrirsjáanlegt að takist að koma heimilislausum í öruggt skjól fyrir veturinn. Staðan í þessum málum er ekki góð.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Afar fá mælanleg markmið er að finna í hinum svokallaða meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata. Níu sinnum er vísað á ríkið að koma að málum og þá aðallega með fjármagn inn í rekstur borgarinnar. Slíkt er algjörlega óásættanlegt í rekstri sveitarfélags sem á að vera fjárhagslega sjálfstætt. Reykjavík er höfuðborg Íslands og ber lögbundnar skyldur og nýtur ýmissa fríðinda af þeim sökum. Nánast öll stjórnsýsla ríkisins er í Reykjavík og því ber borginni að tryggja samgöngur í lofti og láði til og frá borginni. Það er óskiljanlegt að framtíð Reykjavíkurflugvallar eigi einungis að vera tryggð ef samningar hafi náðst við ríkið um borgarlínu. Í þessu felst hótun. Ekkert er minnst á Sundabraut/Sundagöng þó svo að Vegagerðin hafi óskað nokkrum sinnum vegna öryggissjónarmiða eftir slíku skipulagi fyrir tómum eyrum þeirra sem hafa stjórnað borginni frá 2010. Það eru mikil vonbrigði að sjá metnaðarlausar tillögur þeirra sem stjórna borginni um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis innan borgarmarkanna, sérstaklega fyrir ungt fólk.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna er tónninn sleginn fyrir kjörtímabilið 2018-2022, að hverju verði stefnt, hver rammi samstarfsins er og við hverju borgarbúar geta búist næstu fjögur árin. Hafa flokkarnir sammælst um að gera góða borg betri og að leggja alúð við verkefnin framundan enda snerta þau fólk og umhverfi beint með einum eða öðrum hætti, og hafa áhrif á líf okkar, heilsu og vellíðan. Stefnt verði að öflugu og þéttu borgarlífi fyrir okkur öll með nægu framboði af húsnæði, sjálfbærum hverfum, metnaðarfullu skóla- og frístundastarfi, markvissri leikskólauppbyggingu til að brúa bilið fyrir foreldra frá fæðingarorlofi, heilnæmu umhverfi, skilvirkum samgöngum, fjölbreyttu atvinnulífi og einfaldri, aðgengilegri og lýðræðislegri umsýslu. Meirihlutinn hefur einsett sér þegar í stað að formgera markmið meirihlutasáttmálans og eru tillögur þar að lútandi strax farnar að sjá dagsins ljós í nefndum og ráðum borgarinnar.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna: 

Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra Laugaveg og Bankastræti sem göngugötur allt árið, ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur. Jafnframt verði sviðinu falið að útfæra endurhönnun umræddra göngusvæða með tilliti til öryggis og vellíðunar gangandi vegfarenda og vandaðrar borgarhönnunar. Algild hönnun með aðgengi fyrir alla verði höfð að leiðarljósi við útfærsluna í samráði við notendur og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Enn fremur verði sviðinu falið að útfæra skilvirka og örugga vörulosun á göngugötum í samráði við verkefnastjóra miðborgar og hagsmunaaðila. Sviðið skili tillögum um göngugötur allt árið til borgarstjóra þegar útfærsla liggur fyrir.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- skipulagssviði að gera tillögu að útfærslu Laugavegs og Bankastrætis sem göngugötur allt árið ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur. Jafnframt verði sviðinu falið að útfæra endurhönnun umræddra göngusvæða með tilliti til öryggis og vellíðunar gangandi vegfarenda og vandaðrar borgarhönnunar. Algild hönnun með aðgengi fyrir alla verði höfð að leiðarljósi við útfærslu í góðu samráði við notendur og viðeigandi hagsmunasamtök. Ennfremur verði sviðinu falið að útfæra skilvirka og örugga vörulosun á göngugötum í samráði við verkefnastjórn miðborgar og hagsmunaaðila. Sviðið skili tillögum um göngugötur allt árið til skipulags- og samgönguráðs þegar útfærsla liggur fyrir. R18090036

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðsluna.

Tillagan er samþykkt svo breytt.

Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðsluna. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Göngugötur eru vissulega skemmtilegar og lífga upp á mannlífið en að gera allan Laugaveg að göngugötu eins og komið hefur fram hjá borgarfulltrúa meirihlutans að gæti staðið til er kannski fullbratt að mati Flokks fólksins þar sem ekki liggur fyrir skýr afstaða borgarbúa hvað þá hugmynd varðar. Borgarfulltrúi vill vera alveg viss um að það að gera allan Laugaveginn að göngugötu, samræmist óskum, vilja og væntingum borgarbúa, kaupmanna við Laugaveg og annarra hagsmunaðila áður en slík aðgerð kemur til greina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að tillögur að útfærslu göngugatna verði unnin í góðu samráði við notendur og hagsmunasamtök. Enn fremur ber að gæta að sveigjanleika í útfærslunni sem síðan fær meðferð skipulags- og samgönguráðs. 

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að gæta þess að magn svifryks fari ekki yfir heilsufarsmörk. Reykjavíkurborg nýti skynsamleg úrræði til að bæta loftgæði í borginni og halda borginni hreinni. 

Einnig er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna undir sama lið: 

Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, að endurskoða viðbragðsáætlun um loftgæði. Sérstök áhersla verði lögð á að leita nýrra leiða til að draga úr uppsprettu svifryks, í hvaða tilvikum skortir lagastoð til að sporna við þeim, rýna hvaða heimildir sveitarfélög hafa til þess að vernda íbúa fyrir margs konar loftmengun og hvaða færu leiðir eru áhrifaríkastar til þess. Þá verði sérstakt mat lagt á hvað þurfi til að ná því markmiði loftgæðaáætlunar ríkisins að fækka ótímabærum dauðsföllum úr 80 í 5 á ári.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna samþykkja að sameina framangreindar tillögur og leggja fram svohljóðandi sameinaða breytingartillögu:

Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, að endurskoða viðbragðsáætlun um loftgæði. Sérstök áhersla verði lögð á að leita nýrra leiða til að draga úr uppsprettu svifryks, í hvaða tilvikum skortir lagastoð til að sporna við þeim, rýna hvaða heimildir sveitarfélög hafa til þess að vernda íbúa fyrir margs konar loftmengun og hvaða færu leiðir eru áhrifaríkastar til þess. Þá verði sérstakt mat lagt á hvað þurfi til að ná því markmiði loftgæðaáætlunar ríkisins að fækka ótímabærum dauðsföllum úr 80 í færri en 5 á ári. Borgarstjórn samþykkir það markmið að magn svifryks fari ekki yfir heilsuverndarmörk og að nýta tiltæk úrræði sem bæta loftgæði í borginni.

Samþykkt. 

Tillagan er samþykkt svo breytt. R18090037 R18090038

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Sósíalistar fagna því að unnið verið eftir sérfræðiáliti loftgæðaáætlunar ríkisins um að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum svifryks úr 80 í færri en 5 á ári, á sama tíma viljum við að sjálfsögðu að markmið ótímabærra dauðsfalla af völdum svifryks sé sett við 0 á ári.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúarnir taka undir bókun borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samkvæmt árlegri loftgæðaskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) má rekja allt að 80 ótímabær dauðsföll til svifryksmengunar á Íslandi á hverju ári en hlutverk EEA, sem er stofnun Evrópusambandsins, skv. skilgreiningu er „að veita staðgóðar, óháðar upplýsingar um umhverfismál.“ Skv. skýrslunni er samband á milli notkunar hjarta- og astmalyfja og loftmengunar í Reykjavík. Sú staðreynd kallar á aðgerðir og markmiðasetningu af hálfu borgarinnar í tengslum við svifryk og fagna fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerð viðbragðsáætlunarinnar um loftgæði og samþykkja hana, enda var þetta eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins: 

Fenginn verður óháður/utanaðkomandi aðili til að gera úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur. Farið verður yfir allan kostnað, verkaskiptingu og skilvirkni í ört vaxandi kostnaði, tíðra mistaka, dóma, kvartana og annarra athugasemda sem komið hafa upp undanfarna mánuði gegn borginni.

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. R18090039

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Miðflokksins átelur andvara- og áhugaleysi meirihlutans í þeim áfellisdómum sem dunið hafa á borginni undanfarin misseri. Ég fullyrði að hafi slík útreið gengið yfir stjórnsýslu ríkissins þ.e.a.s. ráðuneyti hefði verið hrópað eftir afsögn. Úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur var hafnað á þeim grunni að slík úttekt hafi verið gerð 2013. Þessi mál sem upp hafa komið undanfarin misseri hófust s.l. 2-3 ár og falla því ekki undir þá 5 ára gömlu skýrslu sem vísað er til. Ljóst er að lítill lærdómur hefur verið dreginn af þeim athugasemdum sem þar koma fram. Algjört getuleysi blasir við og áhugaleysi á að taka á þeim vandamálum sem við blasa og afneitun á þeirri staðreynd að gera þarf  óháða úttekt á stjórnsýslunni sem augljóslega er í molum. Að bera fyrir sig kostnaði vegna úttektarinnar eru ekki haldbær rök í ljósi þess kostnaðar sem fallið hefur á borgina vegna dómsmála og skaðabótagreiðslna að undanförnu. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Umræða undir þessum lið, tillögu Miðflokksins um óháða úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur hefur farið vítt og breitt. Innlegg borgarfulltrúa Flokks fólksins varðar afmarkaðan þátt umræðunnar og er eftirfarandi: Borgarfulltrúinn biður borgarstjóra að setja endapunkt á þetta mál sem hér hefur verið reifað í þremur skeytum frá framkvæmdastjóra KVH til oddvita minnihlutans, hafi sá endurpunktur ekki þá þegar verið settur. Með þessari beiðni vonar borgarfulltrúi Flokks fólksins að ekki muni berast fleiri skeyti frá kjarafélaginu til oddvita minnihlutans um að meint eineltisrannsókn sé mögulega enn í gangi eða talin vera enn í gangi. Á þetta mál þarf að binda endahnút og vill borgarfulltrúinn treysta borgarstjóra til að binda þann hnút. Til að skýra nánar ofangreint er vísað í bréf framkvæmdarstjóra KVH en þar kemur fram að „enn sé verið að reyna að knýja fjármálastjórann til þátttöku í svonefndri eineltisrannsókn, þrátt fyrir ótvíræða niðurstöðu dómsmálsins, sem Reykjavíkurborg tapaði og ákvað að áfrýja ekki.“ Lögmaður fjármálastjóra hefur sett fram andmæli gegn þessari „áframhaldandi aðför og skorað á Reykjavíkurborg að fella stjórnsýslumál þetta niður eins og fram kemur í bréfi lögmannsins sem einnig var sent oddvitum minnihlutans.“ Þessu máli þarf að ljúka og biður borgarfulltrúi Flokks fólksins borgarstjóra að ganga í það verk svo yfir allan vafa sé hafið.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Engin ástæða er til að fara í óháða úttekt á æðstu stjórn Reykjavíkurborgar. Árið 2013 var gefin út skýrsla úttektarnefndar borgarstjórnar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þar var meðal annars fjallað um hlutverk kjörinna fulltrúa, um miðlæga stjórnsýslu og eftirlit með henni, vöru,- þjónustu- og verkkaup borgarinnar auk fjölda annarra þátta. Skýrslan var afar umfangsmikil og vönduð sem stjórnsýslan og kjörnir fulltrúar drógu lærdóm af. Vönduð stjórnsýsla hefur á undanförnum árum verið eitt af aðalsmerkjum Reykjavíkurborgar, þangað sem önnur sveitarfélög á landinu sækja þekkingu sína í auknum mæli. Að ofansögðu fæst ekki séð hvað myndi nást fram með annarri slíkri úttekt.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins: 

Farið verði tafarlaust í að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur og fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu. Farið verði tafarlaust í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar. Tekið verði tafarlaust upp ráðningarstopp í stjórnsýslu Reykjavíkur en lögbundinni þjónustu og grunnstoðum verði hlíft. Dregið verði úr utanferðum kjörinna fulltrúa og embættismanna borgarinnar og skilagreingerð fyrir hvers vegna ferð var farin. Farið verði í bestun í öllum innkaupum borgarinnar og að a.m.k. 10% hagræðingu verði náð. Allar þessar aðgerðir komi til með að liggja til grundvallar fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2019. R18070175

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að tillögunni verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

Málsmeðferðartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Enginn vilji er til þess að draga saman í rekstri borgarinnar eða sýna ráðdeild. Meirihlutinn hafnaði því að vísa þessum tillögum inn í vinnu er nú stendur yfir vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkur. Annað hvort er meirihluti borgarstjórnar alveg sofandi á verðinum hvað varðar fjárhagsstöðu borgarinnar eða hitt að enginn vilji er til þess að hagræða í rekstri. Það er mikið áhyggjuefni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn er treyst til að sýsla með útsvar borgarbúa og dreifa þeim til samfélagsins með sanngjörnum hætti. Það á að vera siðferðisleg skylda okkar að fara vel með fjármuni borgarbúa og gæta þess í hvívetna að hverri krónu sé ráðstafað fyrst og fremst í beina þágu borgarbúa t.d. með því að auka og betrumbæta þjónustu við borgarbúa. Áleitnar spurningar hafa leitað á borgarfulltrúa Flokks fólksins er varðar hvort nægjanlega sé gætt að sparnaði í borginni. Fyrst má nefna aðkeypta þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga sem borgarfulltrúi telur að fagfólk borgarinnar eigi að geta sinnt öllu jöfnu með einfaldara og skilvirkara skipulagi. Borgarfulltrúi vill  spyrja um kostnað við ferðir erlendis og er hér ekki verið að tala um hótel- og flugkostnað heldur dagpeningakostnað sem oft er umfram það sem þörf reynist. Mörg fyrirtæki eru komin með svokölluð viðskiptakort sem á eru ákveðið eðlilegt hámark. Annar kostnaður sem kanna þarf er árlegur kostnaður borgarinnar af hinum ýmsu móttökum og öðrum viðburðum tengdum borginni. Stærsti liðurinn sem vekur þó athygli er hár rekstrarkostnaður skrifstofu borgarstjóra. Velta þarf við hverjum steini með það að markmiði að nýta peninga borgarbúa sem allra best í þeirra þágu. Þjónustu á aldrei að skerða, þjónusta á heldur ekki að vera viðunandi heldur fullnægjandi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við vinnslu fjárhagsáætlunar hverju sinni fer fram greining á því hvar megi veita betri þjónustu, hvar megi nýta fjármagn betur og hvaða verkefnum borgin sinnir. Því skal þó haldið til haga að hver sveitarstjórn getur mótað sér stefnu um það hvaða ólögbundnu þjónustu hún veitir og byggir það á stjórnarskrárbundnum rétti sveitarfélagsins til sjálfstjórnar eins og um getur í 78. gr. stjórnarskrárinnar.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fá óháðan aðila til að meta eignir Félagsbústaða þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18060131

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar hjá stjórn Félagsbústaða.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Eignasafn Félagsbústaða telur um 5% allra íbúða í Reykjavík. Það gengur vel að kaupa og reka íbúðir félagsins sem eru í öllum stærðum og gerðum um alla borg. Athugasemdir viðskiptavina Félagsbústaða koma upp og við þeim er brugðist eins og kostur er. Tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins er vísað til Félagsbústaða þar sem óskað er eftir minnisblaði um verklag við viðhald á eignum félagsins.

Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins og borgarfulltrúi Miðflokksins hafna því alfarið að vísa tillögum um mat á viðhaldsþörf Félagsbústaða og könnun á þjónustu Félagsbústaða til stjórnar Félagsbústaða. Hér er um að ræða ótrúlega ákvörðun borgarmeirihlutans, það er að setja það í hendur fyrirtækisins sjálfs að rannsaka fjölmargar alvarlegar ávirðingar og kvartanir sem borist hafa á hendur þess. Það ætti að vera flestum ljóst að ekki gengur að ætla fyrirtæki að rannsaka sjálft sig, rannasaka hvort alvarlegar ávirðingar á hendur þess eigi við rök að styðjast. Verið er að leggja til að fá óháðan aðila til að meta viðhaldsþörf í kvörtunarmálum og gera könnun á viðmóti meðal annars vegna kvartana um dónaskap, fordóma, hunsunar svo fátt eitt sé nefnt. Að ætla fyrirtækinu að rannsaka þetta sjálft er fordæmalaust. Er reiknað með að niðurstöður slíkrar rannsóknar verði trúverðugar? Þessi ákvörðun meirihlutans er vond ákvörðun og mun gera fátt annað en valda áframhaldandi vonbrigðum og reiði þeirra sem telja sig þolendur í þessum málum.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fá óháðan aðila til að gera könnun á þjónustumenningu Félagsbústaða í tengslum við samskipti starfsmanna fyrirtækisins við leigjendur. Við framkvæmd könnunarinnar skal leita til núverandi og fyrrverandi leigjenda og þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í dag og óska eftir að þeir taki þátt í könnuninni og veiti upplýsingar um álit sitt á viðmóti, viðhorfi og framkomu starfsmanna Félagsbústaða í þeirra garð.

Greinargerð fylgir tillögunni.  R18060131

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar hjá stjórn Félagsbústaða.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan gerir ráð fyrir afar umfangsmikilli könnun meðal viðskiptavina Félagsbústaða, núverandi og fyrrverandi, auk þeirra sem á biðlista eru um þjónustu félagsins. Slíkar kannanir geta þó reynst stjórnendum Félagsbústaða vel í því skyni að bæta þjónustu sína enn frekar. Þess vegna er fallist á að vísa tillögunni til Félagsbústaða.

Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins og borgarfulltrúi Miðflokksins hafna því alfarið að vísa tillögum um mat á viðhaldsþörf Félagsbústaða og könnun á þjónustu Félagsbústaða til stjórnar Félagsbústaða. Hér er um að ræða ótrúlega ákvörðun borgarmeirihlutans, það er að setja það í hendur fyrirtækisins sjálfs að rannsaka fjölmargar alvarlegar ávirðingar og kvartanir sem borist hafa á hendur þess. Það ætti að vera flestum ljóst að ekki gengur að ætla fyrirtæki að rannsaka sjálft sig, rannsaka hvort alvarlegar ávirðingar á hendur þess eigi við rök að styðjast. Verið er að leggja til að fá óháðan aðila til að meta viðhaldsþörf í kvörtunarmálum og gera könnun á viðmóti meðal annars vegna kvartana um dónaskap, fordóma, hunsun svo fátt eitt sé nefnt. Að ætla fyrirtækinu að rannsaka þetta sjálft er fordæmalaust. Er reiknað með að niðurstöður slíkrar rannsóknar verði trúverðugar? Þessi ákvörðun meirihlutans er vond ákvörðun og mun gera fátt annað en valda áframhaldandi vonbrigðum og reiði þeirra sem telja sig þolendur í þessum málum.

8.    Fram fer umræða um stöðu innflytjenda, hælisleitenda og flóttafólks í Reykjavík.  R18090040

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Meirihlutinn vinnur nú að innleiðingu metnaðarfullrar mannréttindastefnu sem og heildstæðrar stefnu ásamt aðgerðaáætlun í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þessi stefnumótun byggir alfarið á jafnrétti allra borgarbúa gagnvart Reykjavíkurborg sem stjórnvaldi, atvinnurekanda og miðstöð þjónustu og einnig sem samstarfsaðila og verkkaupa. Reykvíkingar af erlendum uppruna eru mjög fjölbreyttur hópur og verða raddir þeirra verulega efldar í þessu ferli. Einnig er skorað á ríkisstjórn og Samband íslenskra sveitarfélaga að opna upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu.

9.    Fram fer umræða um stöðu mönnunar á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst sl. R17090049

Frestað.

10.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að leikskólar Reykjavíkurborgar nýti heimild í lögum um leikskóla nr. 90/2008 til að gera almennar bólusetningar að skilyrði við innritun barna. Við innritun skal foreldri eða forráðamaður barns veita samþykki fyrir nauðsynlegri öflun upplýsinga um bólusetningar barns. Skal barn eingöngu hljóta innritun á leikskóla hafi það hlotið, og muni það áfram hljóta, allar þær bólusetningar sem sóttvarnarlæknir mælir með frá þriggja mánaða aldri til fjögurra ára aldurs. Undantekningar frá skilyrðinu má veita ef læknisfræðilegar ástæður eða erfiðar félagslegar aðstæður hamla bólusetningu. Tryggt verður að með upplýsingar um bólusetningar barna verði farið eftir ákvæðum persónuverndarlaga nr. 90/2018. Fela skal skóla- og frístundasviði nánari útfærslu tillögunnar, sérstaklega hvað varðar utanumhald með bólusetningum og sérstakar undanþágur frá skilyrðinu. R18090041

Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samkvæmt lögum er heilsugæslustöðvum og sóttvarnarlækni falið að skrá upplýsingar um bólusetningar eða ástæður þess að börn hafi ekki verið bólusett. Að mati sóttvarnarlæknis þá er fjöldi tilfella og dreifing þeirra ekki með þeim hætti að það kalli á hertari aðgerðir. Þá er það mat lögfræðinga að persónuverndarsjónarmiðin í málinu séu það rík að sveitarfélagi sé einfaldlega ekki heimilt að krefjast heilsufarsupplýsinga barna og gera þær að kröfu fyrir inntöku í leikskóla. Það er mikilvægt að öll börn fari í bólusetningu en borgin verður að treysta þeim aðilum sem samkvæmt lögum er falið að hafa eftirlit með framkvæmd og eftirfylgni með bólusetningum barna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins harma þá ákvörðun meirihluta borgarstjórnar að hafna þeirri tillögu að gera almennar bólusetningar að inntökuskilyrði á leikskóla borgarinnar. Þá lýsum við sérstökum vonbrigðum með að tillagan hafi ekki fengið þá umræðu sem tillagan átti skilið. Þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi er óviðunandi að mati sóttvarnarlæknis. Minnki þátttaka frekar má búast við dreifingu sjúkdóma sem ekki hafa sést hérlendis um árabil. Samkvæmt alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hafa mislingar náð gífurlegri útbreiðslu í Evrópu síðustu tvö ár, raunar hafa mislingatilfelli sextánfaldast á tímabilinu. Það er pólitísk ákvörðun hvort sveitarfélög vilji ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir enda stundum hlutverk stjórnmálamanna að taka djarfar ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar í huga. Sumir vilja ekkert aðhafast fyrr en alvarleg tilfelli smitsjúkdóma greinast hérlendis. Við viljum bregðast við strax.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Talið er að einungis 2% foreldra kjósi að bólusetja ekki börnin sín. Það er langt innan þeirra marka sem þolanlegt er. Það er ljóst að vandinn vegna minni bólusetningar liggur ekki í andstöðu foreldra heldur í því að þær stofnanir sem halda utan um bólusetningar ná ekki til þeirra foreldra sem vilja bólusetja börnin sín en gera það ekki af einhverjum ástæðum. Það er því engin ástæða til að grípa til þvingunaraðgerða þar sem foreldrar yrðu neyddir til að bólusetja börn sín. Nær væri að styðja heilbrigðisyfirvöld í að efla eftirlit og eftirfylgni með bólusetningum í samvinnu við þá foreldra sem vilja bólusetja börnin.

11.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna: 

Borgarstjórn samþykkir að fela skóla- og frístundasviði að hefja undirbúning að tilraunaverkefni um að jafnaði einn leikskóli í hverju hverfi skuli vera opinn allt sumarið 2019.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18090042

Frestað.

12.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að við 18 mánaða aldur hækki niðurgreiðslur til dagforeldra svo kostnaður foreldra verði til samræmis við þau gjöld sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar. Þetta á við um þau börn sem dvelja hjá dagforeldrum og eru orðin 18 mánaða gömul hið minnsta. R18090043

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Hér er um að ræða tillögur sem starfshópur um eflingu dagforeldaþjónustu lagði fram í skýrslu sinni í maí síðastliðnum. Skóla- og frístundaráð fól þá sviðsstjóra að vinna innleiðingaráætlun með forgangsröðun og kostnaðarmati og er vinna við hana á lokastigi. Hún verður lögð fyrir ráðið síðar í september.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt í þeirri viðleitni að gæta jafnræðis milli barna sem eru í leikskólum annars vegar og hjá dagforeldrum hins vegar að hækka niðurgreiðslur til dagforeldra svo kostnaður foreldra verði til samræmis við þau gjöld sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar. Jafnframt felur tillagan í sér raunverulegt val fyrir foreldra um daggæslukosti. Þetta á við um þau börn sem dvelja hjá dagforeldrum og eru orðin 18 mánaða gömul hið minnsta. Í skýrslu starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu Reykjavíkurborgar segir eftirfarandi: „Foreldrar hafa ítrekað gert athugasemdir við að þeir sitji ekki við sama borð þegar kemur að niðurgreiðslum, þar sem foreldrar barna sem fá inni á ungbarnaleikskóla greiða lægsta gjaldið, foreldrar með börn hjá dagforeldrum greiða um tvöfalt það gjald á meðan enn aðrir fá ekki gæslu og verða jafnvel af vinnu og framfærslu vegna þess.“ Borgarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til skóla- og frístundaráðs til meðferðar.

13.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að niðurgreiðslur til dagforeldra hækki í áföngum þannig að kostnaður foreldra sem vista börn sín hjá dagforeldrum færist nær þeim kostnaði sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar. Í fyrsta áfanga hækki niðurgreiðslurnar um 25% eða um 13.768 kr. á mánuði. Næsti áfangi verði til skoðunar eigi síðar en í ágúst 2019. Samhliða verði skoðaður möguleiki á þjónustusamningi milli dagforeldra og Reykjavíkurborgar, í samráði við félög dagforeldra.  R18090044

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Hér er um að ræða tillögu sem starfshópur um eflingu dagforeldaþjónustu lagði fram í skýrslu sinni í maí síðastliðnum. Skóla- og frístundaráð fól þá sviðsstjóra að vinna innleiðingaráætlun með forgangsröðun og kostnaðarmati og er vinna við hana á lokastigi. Hún verður lögð fyrir ráðið síðar í september.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja rétt að gætt sé jafnræðis milli barna sem eru í leikskólum annars vegar og hjá dagforeldrum hins vegar. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn því það að langtímamarkmið að niðurgreiðslur til dagforeldra verði hækkaðar í áföngum svo kostnaður foreldra barna hjá dagforeldrum verði til samræmis við þau gjöld sem foreldrar greiða í leikskólum borgarinnar. Pláss á ungbarnaleikskólum eru takmörkuð gæði í Reykjavík og eiga foreldrar ungbarna því almennt erfitt með að fá pláss á leikskólum borgarinnar eftir að fæðingarorlofi sleppir. Eins hefur dagforeldrum fækkað um 30% í borginni á síðustu árum. Telur Sjálfstæðisflokkur því rétt að styðja betur við dagforeldrastéttina svo unnt verði að leiðrétta þennan halla. Við teljum mikilvægt að foreldrum sé boðið frelsi og val um daggæslukosti svo mæta megi ólíkum þörfum. Borgarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til skóla- og frístundaráðs til meðferðar.

14.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Það er mikilvægt að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Sumir foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að stuðla að því með öllum ráðum að foreldrar þeirra hafi ráð á að kaupa handa þeim skólamáltíðir. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja. Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir en sú tillaga var felld á fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að aðgerð af þessu tagi mun lækka tekjur skóla- og frístundasviðs um meira en 1 milljarð kr. á ári sem er vissulega stór biti af öllum tekjum sviðsins. Í stað þess að fara í sparnaðaraðgerðir innan sviðsins er það ábyrgð borgarinnar að forgangsraða í fjárreiðum borgarinnar og í þessari tillögu er Flokkur fólksins að legga til að borgin forgangsraði fjármunum í þágu barnanna. R18090045

Frestað.

15.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Lagt er til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn. Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja. R18080049

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Umrædd tillaga er þegar til meðferðar hjá skóla- og frístundaráði skv. ákvörðun borgarráðs frá því í ágúst. Tillagan verður tekin þar til afgreiðslu í þessum mánuði og er því þegar komin í réttan farveg.

16.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúar Flokks fólksins: 

Lagt er til að foreldrar/aðstandendur grunnskólabarna verði spurðir hvort þeir telji þörf á fleiri sérskólaúrræðum, frekari úrræðum innan núverandi skóla eða blöndu af hvoru tveggja. Spurningin gæti verið með fimm svarmöguleikum með miðju og jafnmörgum neikvæðum og jákvæðum svörum: 1. Átt þú barn sem þarf á sérstökum stuðningi að halda í skóla (vegna vísbendinga/greiningar um lesblindu, sértæka námserfiðleika eða frávika í vitsmunaþroska; raskana t.d. ADHD, asperger eða einhverfuróf og/eða annarra tilfinninga-, hegðunar og félagslegra vandamála) 2. Ég tel að fjölga þurfi sérskólaúrræðum (t.a.m. fyrir börn með þroskahamlanir, sbr. úrræði eins og Klettaskóla og sérdeildir með sérhæft hlutverk vegna barna með miklar sérþarfir í námi, meðal annars vegna geðraskana og annarra alvarlegra hegðunarvandamála) mjög ósammála; frekar ósammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. 3. Ég tel að fjölga þurfi úrræðum innan núverandi skóla til að styrkja stefnuna um skóla án aðgreiningar. Mjög ósammála; frekar ósammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. Mikilvægt er að skoðanir barnanna sjálfra nái fram í umræðuna. Þar væru viðtöl og vettvangsheimsóknir gagnleg leið til að safna upplýsingum. R18080050

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Umrædd tillaga er þegar til meðferðar hjá skóla- og frístundaráði skv. ákvörðun borgarráðs frá í ágúst. Tillagan verður tekin þar til afgreiðslu í þessum mánuði og er því þegar komin í réttan farveg.

17.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúar Flokks fólksins:

Lagt er til að inntökuskilyrði í Klettaskóla verði endurskoðuð og í stað greina 1 og 2 þar sem segir: „Innritun í Klettaskóla. 1. Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með: miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir s.s. einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun“ skal koma einungis: „Klettaskóli er sérskóli sem ætlaður er börnum með sérþarfir vegna þroskahömlunar. Umsóknir eru metnar í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann.“ R18080048

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Klettaskóli rúmar í dag 130 börn og er það talsvert umfram þann fjölda sem stjórnendur skólans telja að skólinn rúmi með góðu móti. Hingað til hafa öll börn fengið skólavist í Klettaskóla sem fallið hafa undir inntökuviðmið skólans. Ljóst er að Klettaskóli getur ekki tekið við fleiri börnum í núverandi húsnæði og breytt inntökuskilyrði myndu engu breyta um þá staðreynd. Þá er þess að geta að umrædd tillaga er þegar til meðferðar hjá skóla- og frístundaráði og verður tekin til afgreiðslu síðar í þessum mánuði.

18.    Fram fer umræða um stöðu hverfisráða borgarinnar. R18030194

Frestað.

19.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 28. júní, 5. júlí, 19. júlí, 31. júlí, 16. ágúst, 23. ágúst, og 30. ágúst. R18010002

-    11. liður fundargerðarinnar frá 23. ágúst; tillaga að samgönguáætlun, umsögn um umhverfismat, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R16040160

-    15. liður fundargerðarinnar frá 23. ágúst; kosning í innkauparáð er samþykktur. R18060105

-    9. liður fundargerðarinnar frá 30. ágúst; synjun á breytingu deiliskipulags vegna Ármúla 7, er staðfest með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins sat hjá við afgreiðslu málsins. R18080161 

-    14. liður fundargerðarinnar frá 23. ágúst og 36. liður frá 30. ágúst; kosning í endurskoðunarnefnd eru samþykktir. R18060102

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí vegna 7. liðar fundargerðar innkauparáðs frá 27. júní 2018:

Borgarfulltrúarnir gera alvarlegar athugasemdir við tveggja ára samstarfs- og styrktarsamning Reykjavíkurborgar við UngRÚV, sem hljóðar upp á rúmar 14 m.kr. og er þannig ekki í samræmi við innkaupareglur borgarinnar að mati þeirra. Skv. 11. gr.  innkaupareglna Reykjavíkurborgar er skylt að viðhafa innkaupaferli, annað en verðfyrirspurn, þegar áætluð samningsfjárhæð að meðtöldum virðisaukaskatti nær 14. m.kr. vegna kaupa á þjónustu. Verkefnið, sem hér um ræðir, er jákvætt og ekkert út á það að setja enda markmiðið að styðja við unglingalýðræði og skapa vettvang fyrir raddir unglinga í íslensku samfélagi. Engu að síður er hér um ræða rúmlega 14 m.kr. og því eðlilegt að auglýsa eftir samstarfsaðilum þannig að fleiri ljósvakamiðlar hefðu átt þess kost að sækjast eftir samningnum. Enda, sem betur fer, er samkeppni á ljósvaka- og fjölmiðlamarkaði hérlendis. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að Reykjavíkurborg hefði átt að gefa öllum ljósvakamiðlum tækifæri á að bjóða í verkefnið. R18010016

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. júlí vegna 7. liðar fundargerðar innkauparáðs frá 27. júní:

Samningur skóla- og frístundasviðs við RÚV um UngRÚV er gott mál sem hefur það að markmiði að styðja við ungmennalýðræði og skapa vettvang fyrir raddir unglinga í íslensku samfélagi í samræmi við nýja menntastefnu, m.a. með námskeiðum í tækni- og dagskrárgerð fyrir nemendur á unglingastigi grunnskóla.  Skóla- og frístundasvið hefur óskað eftir áliti borgarlögmanns á því hvort samningurinn samræmist innkaupareglum Reykjavíkurborgar og var það niðurstaða borgarlögmanns að svo væri, samningurinn falli undir þá starfsemi sem tilgreind er í 13. gr. innkaupareglna borgarinnar og fjárhæð samningsins sé undir viðmiðunarfjárhæðum VIII. kafla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 11. lið í fundargerð borgarráðs frá 23. ágúst 2018:

Á síðustu átta árum hefur umferð í borginni þyngst til mikilla muna og hefur ferðatími lengst verulega. Meira er um lausagang bifreiða vegna tafa í umferð, en bifreiðar geta mengað mun meira við þær aðstæður. Þá hefur hlutfall almenningssamgangna haldist óbreytt þrátt fyrir skýr markmið um að hún tvöfaldist a.m.k. á tíu árum. Milljörðum hefur verið varið af vegafé til að tryggja að svo verði, en þrátt fyrir þessar árangurstengdu greiðslur hefur hlutfallið ekkert aukist. Það er því morgunljóst af framansögðu að framkvæmd stefnu Reykjavíkurborgar hefur ekki gengið upp. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og skýr mælanleg markmið hefur umferð versnað með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum að ótöldum vandamálum vegna tafatíma í umferð. Svifryksmengun er enn ítrekað yfir heilsufarsmörkum og dagsgildi NO2 geta verið mjög há.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram bókun undir 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018:

Lagt er til að gerðar verði nauðsynlegar mælingar á rafsegulsviði við spenni- og dælustöð í Dalskóla á álagstímum. Komi í ljós í mælingum að rafsegulsvið sé yfir 200 nanótesla þar sem snertiflötur er við börn verður að gera viðeigandi ráðstafanir líkt og að flytja umrædda spenni- og dælustöð í örugga fjarlægð frá skólabyggingunni. Þar sem rannsóknir hafa sýnt að rafsegulmengun yfir 200 nanótesla eykur líkur á alvarlegum sjúkdómum. R18050147

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst 2018:

Á liðnum árum hafa Geislavarnir ríkisins gert margar mælingar á segulsviði spennustöðva m.a. í Reykjavík. Kannaðar voru um 140 íbúðir aðallega í Reykjavík til að kortleggja styrk segulsviðs. Engin dæmi fundust um aukið segulsvið í íbúðarhúsnæði vegna nálægra háspennulína eða spennustöðva. Eru alþjóðleg viðmiðunarmörk fyrir almenning um 100 µT sem er margfalt hærra en hæsta gildi sem Geislavarnir ríkisins hafa mælt. Sem dæmi má nefna að þétt upp við spennustöð mælist segulsvið vel innan við 10 µT og í 4-6 metra fjarlægð frá henni mælist ekki aukið segulsvið.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks  fólksins leggja fram bókun undir 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum leikskólans Drafnarborgar líkt og bent hefur verið á þegar mál um asbest voru rædd árið 2016 í skóla- og frístundaráði. Skv. starfsfólki leikur grunur á að á leikskólanum Drafnarborg sé asbest í klæðningu innveggja og starfsfólki uppálagt að ekki megi negla í veggi vegna þessa. Þannig er nauðsynlegt að farið verði í fyrirbyggjandi aðgerðir á leikskólanum og gengið sé þar úr skugga um að ekki leynist efni sem geta valdið starfsfólki og nemendum skaða. Mikilvægt er að tryggt sé að skaðleg efni líkt og asbest séu ekki að finna í húsnæði sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ef svo er þá þarf að meta hættuna á mögulegri mengun og grípa til viðeigandi úrræða í samráði við sérfræðinga til að tryggja að hvorki börn né starfsmenn verði fyrir mengun. R18070075

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018:

Hættan við asbest er mest þegar hróflað er við því og þegar það er rifið niður. Ef asbest er látið vera og það er óskemmt og óraskað þá hefur það ekki heilsuspillandi áhrif. Ef það á að kortleggja asbest í húsnæði í eigu borgarinnar þyrfti að ráða til þess sérfræðinga og rýma húsnæðið á meðan á leit stæði yfir. Myndi það valda verulegu raski á starfsemi borgarinnar, miklum útgjöldum og skapa áhyggjur og ótta meðal fólks og jafnvel meiri hættu en áður.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. ágúst: 

Múlarnir eru spennandi svæði og göturnar þar búa yfir mörgum kostum góðra borgargatna. Mikilvægt er að vel takist til í endurskipulagningu svæðisins svo kostir þess nýtist sem best, horft verði til svæðisins alls með tilliti til uppbyggingarmöguleika og umhverfisáhrifa. Stefnt er að því að vinna við rammaskipulag svæðisins hefjist í haust. 

20.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 25. júní, 17. ágúst og 31. ágúst, mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 23. ágúst, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 20. ágúst, skóla- og frístundaráðs frá 21. ágúst, skipulags- og samgönguráðs frá 22. ágúst og 29. ágúst, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 22. ágúst og velferðarráðs frá 17. ágúst. R18010074

Fundi slitið kl. 23:54

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Björn Gíslason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 4.9.2018 - Prentvæn útgáfa