Borgarstjórn - 4.5.2021

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 4. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:08. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Aron Leví Beck, Björn Gíslason, Ellen Jacqueline Calmon, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Örn Þórðarson.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram tillaga forsætisnefndar um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga með vísan til auglýsingar um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra nr. 354/2021, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sbr. 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 30. apríl. Lagt er til að til og með 22. júlí 2021 verði heimilt að nota fjarfundarbúnað á fundum borgarstjórnar, borgarráðs og fagráða samkvæmt B-lið 63. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar, og annarra nefnda samkvæmt B-lið 64. gr. samþykktarinnar, eftir því sem við á. Greinargerð fylgir tillögunni.  R18060129

Samþykkt.

2.    Lagður fram til fyrri umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 (A- og B-hluti), ódags., ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 29. apríl 2021, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 15. apríl 2021, greinargerð B-hluta fyrirtækja 29. apríl 2021, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar, ódags., minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs vegna álits reikningsskila- og upplýsinganefndar nr. 1/2020, dags. 13. apríl 2021, yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2021, ábyrgða- og skuldbindingayfirlit Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2021, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2020, dags. 29. apríl 2021, og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2020, dags. 27. apríl 2021, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. apríl 2021. R20110101

Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu sem fer fram á aukafundi borgarstjórnar 11. maí nk. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Frá upphafi kórónuveiru var ljóst að Reykjavíkurborg ætlaði ekki að sitja hjá og láta efnahagslegar byrðar faraldursins lenda á íbúum og fyrirtækjum. Þess í stað var ákveðið að fylgja leiðsögn helstu hagfræðinga og erlendra stofnana og fara ekki í mikinn niðurskurð og uppsagnir starfsmanna heldur sækja fram og vaxa út úr vandanum. Fyrir ári síðan stóðu sjálfstæðismenn með meirihlutanum í borgarráði, þar sem 13 aðgerðir voru kynntar til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum COVID. Alls voru samþykktar aðgerðir í borgarráði á árinu 2020 fyrir 2,3 milljarða sem sérstaklega voru eyrnamerktar viðbrögðum við COVID. Faraldurinn leiddi af sér hraða kólnun í hagkerfinu á fyrri hluta ársins. Því skiluðu áætlaðar tekjur sér ekki, hvort sem litið er til útsvarstekna eða annarra tekna. COVID hafði einnig veruleg áhrif á fyrirtæki Reykjavíkurborgar. Veiking krónunnar hafði umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu Reykjavíkur. Þá var mikill tekjusamdráttur hjá Faxaflóahöfnum, Strætó og SORPU bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands. Græna planið er viðspyrnuáætlun Reykjavíkur og gerir ráð fyrir umfangsmiklum grænum fjárfestingum og stafrænni umbreytingu sem hluta af leið borgarinnar út úr efnahagskreppunni. Áætlanir um bólusetningar gefa tilefni til bjartsýni á að unnt verði að ráða niðurlögum faraldursins á þessu ári.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjóri heldur því fram að hröð kólnun í hagkerfinu hafi leitt til tekjufalls. Vakin er athygli á því að Reykjavíkurborg er með skatta í botni og glímir því ekki við tekjuvanda, enda hækkuðu tekjur um 6 milljarða á síðasta ári þrátt fyrir dýpstu kreppu lýðveldissögunnar. Vandi borgarinnar er fyrst og fremst útgjaldavandi sem ekki sér fyrir endann á. Af fjórum stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er aðeins eitt þeirra rekið með tapi; Reykjavík. Heildarskuldir Reykjavíkurborgar hafa aldrei verið hærri en nú eru þær komnar í 386 milljarða króna. Skuldir samstæðu borgarinnar jukust þannig um 41 milljarð króna á síðasta ári, eða sem nemur 3.400 milljónum í hverjum einasta mánuði. Þetta samsvarar 112 milljónum á degi hverjum. Í upphafi kjörtímabilsins var uppgreiðslutími skulda 6 ár og hefur hann nú nær tvöfaldast á tveimur árum þrátt fyrir stórauknar tekjur. Þetta er bara eitt dæmi um það hversu slæm og alvarleg staðan er hjá Reykjavíkurborg en ársreikningurinn sýnir glöggt að núverandi meirihlutasamstarf fjögurra flokka kostar sitt. Enn er bætt í skuldsetninguna og engin tilraun gerð til að ná jafnvægi í rekstri.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Skatttekjur eru helstu tekjur borgarsjóðs en fjármagnseigendur eru undanþegnir greiðslu útsvars og greiða því ekki í sameiginlega sjóði borgarinnar. Ríkt fólk á ekki að komast upp með að greiða ekki fyrir uppbyggingu í borginni og þá þjónustu sem það nýtir. Sveitarfélög geta ekki lagt á skatta án laga frá Alþingi en tillaga sósíalista um að skoða þetta var samþykkt á fundi borgarstjórnar í september 2019. Henni var síðar vísað til Sambands íslenskra sveitarfélaga en ekkert hefur enn komið úr þeirri vinnu. Þegar við lítum yfir árið og fram á veginn verðum við að skipta tekjunum með réttlætum hætti. Í því samhengi þarf að tryggja að tekjur fólks dugi til að mæta því sem telst eðlilegt til að lifa mannsæmandi lífi. Sá mikli ójöfnuður sem ríkir í samfélaginu er ekki fólkinu sjálfu að kenna sem býr við slíkt. Ársreikningurinn sýnir fram á að Reykjavíkurborg hefur getu til að taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar til að mæta áföllum. Alveg eins og enginn kýs að búa við kórónufaraldurinn, þá eru efnahagslegar þrengingar, fátækt og húsnæðisskortur ekki val fólks. Reykjavíkurborg þarf að taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar til að mæta einnig þeim áföllum sem ganga nú yfir líf margra borgarbúa í kjölfar langvarandi skorts.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar jukust um 41 milljarð milli áranna 2019 og 2020 eða úr 345 milljörðum í 386 milljarða – eða um 800 milljónir á viku að meðtöldum rauðum dögum – eða um 3,5 milljarð á mánuði! Samkvæmt lántökuáætlun fyrir árið 2021 er áætlað að samstæðan auki skuldir sínar um 52 milljarða og á borgarsjóður 34 milljarða af þeirri lántökuupphæð – eða 1 milljarð á viku að meðtöldum rauðum dögum – eða um 4,4 milljarða á mánuði! Í árslok 2021 er áætlað að samstæðan skuldi 438 milljarða. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2020 hækkuðu allir tekjupóstar á milli ára og því hefði verið vandræðalaust að reka borgina réttu megin við núllið. Það var hins vegar ekki raunin því eyðslan var botnlaus á árinu og sem dæmi þá hækkuðu laun og launatengd gjöld um 12% og stöðugildum fjölgaði um 5% á milli ára. Fjölgun starfsmanna Reykjavíkur á þessu kjörtímabili fer langt yfir 1.000 manns þegar stytting vinnuvikunnar kemur til framkvæmda. Það er staðreynd. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Árið í fyrra var erfitt ár m.a. vegna COVID. Fjárhagsstaða borgarinnar hefur versnað til muna. Sjá má að veltufé frá rekstri er of lítið. Veltufé frá rekstri er nú 5 ma.kr. en var 12,4 á árinu 2019, og hefur þannig lækkað um meira en helming. Afborganir langtíma skulda og afborganir leiguskulda eru samtals 2,8 ma.kr. Það er s.s. búið að ráðstafa tæpum 3 ma.kr. af veltufé af rekstri og eru þá aðeins eftir 2 ma.kr til að standa undir framkvæmdum, sem þýðir að ef halda á áfram á þessari braut þarf að taka ný lán. Í stað þess að draga seglin saman þegar vind lægir og endurskoða forgangsröðun er haldið áfram að taka lán. Biðlistar eru í sögulegu hámarki og mikið fjármagn sett í annars konar verkefni sem mættu bíða eða hætta við. Tekjustofninn er nú þegar fullnýttur. Langtímaskuldir A-hluta borgarsjóðs eru 64 ma.kr. og hafa hækkað á einu ári um 15%. Verðbólgan er komin í 4,6%. Það var einmitt við svona aðstæður sem margir fóru illa út úr hruninu, þá helst þeir sem voru búnir að þenja lánabogann í botn. 

SORPA, Strætó og Félagsbústaðir hafa verið að taka lán með ábyrgð borgarráðs sem þýðir að lendi þau í vandræðum þá verður sótt í A-hluta borgarinnar.

-    Kl. 17:40 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og tengist honum með fjarfundarbúnaði.

-    Kl. 17:45 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

-    Kl. 18:45 víkja Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir af fundinum og tengjast með fjarfundarbúnaði. 

-    Kl. 18:45 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur sæti með fjarfundarbúnaði. 

-    Kl. 18:45 tekur Pawel Bartoszek sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

3.    Lögð fram tillaga að hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. apríl 2021. R21040243

Tillagan er samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 7 atkvæðum Björns Gíslasonar, Eyþórs Laxdal Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins.

Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Í tillögunni er lagt til að 30 km hverfin verði stækkuð og hámarkshraði á mörgum borgargötum sem liggja við og í gegnum íbúðarhverfi lækkaður í 40 km/klst. Áréttað er að fyrirhuguð lækkun á umferðarhraða á Suðurlandsbraut í 40 km/klst. tengist fyrsta áfanga borgarlínu og kemur fyrst til framkvæmda eftir fyrirhugaða umbreytingu götunnar í borgarlínugötu. Markmið hámarkshraðaáætlunarinnar eru að stuðla að bættu umferðaröryggi, minni hávaðamengun, bættum loftgæðum og mannvænna borgarumhverfi. Lægri umferðarhraði skilar sér þannig í bættum lífsgæðum fyrir borgarbúa og við fögnum þessum tillögum.

Björn Gíslason, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Örn Þórðarson borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að sú miðstýrða aðferðafræði sem liggur að baki framkvæmd þessarar tillögu muni ekki tryggja bætt umferðaröryggi, þá sérstaklega vegna skorts á heildrænni nálgun og getu til eftirfylgni með ökuhraða en einnig vegna neikvæðra áhrifa á umferðarflæði og umferðarþunga. Ekkert hefur gefið tilefni til að ætla að öryggi gangandi vegfarenda hafi aukist á þeim götum þar sem samskonar breytingar á hámarkshraða hafa átt sér stað sl. ár miðað við slysatölur. Mögulega vegna skorts á aðgerðum sem bæði vinna á meðalhraða ökumanna og bæta aðstæður fyrir gangandi á vegum. Því er ljóst að tillagan er heldur takmörkuð þar sem hún tekur bara á einum mögulegum áhrifaþætti umferðaröryggis en lítur fram hjá samspili þessa þáttar við aðra þekkta áhrifaþætti í umferðaröryggi. Líkt og þegar farsæl hraðabreyting Sjálfstæðisflokksins í 30 km var fyrst gerð í íbúagötum Reykjavíkur telur Sjálfstæðisflokkurinn að það sé nauðsynlegt að heildræn nálgun liggi að baki í framkvæmd sem þessari. Svo hægt sé að tryggja að loforð og markmið séu efnd. Ellegar er hætta á að íbúar upplifi falskt öryggi og leggi niður varnir gagnvart umferð.

Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar felur í sér margvíslegar jákvæðar breytingar sem stuðla munu að auknu öryggi innan hverfa borgarinnar. Róleg umferð innan borgarhverfa stuðlar ekki síst að auknu öryggi barna sem ferðast daglega um hverfin til að sækja skóla, íþróttir og aðrar tómstundir. Það vakti athygli hve mörg íbúaráð greindu frá skýrum vilja í umsögnum sínum til enn frekari hraðalækkana og hraðaeftirlits innan hverfa. Hraðalækkanir á stofngötum og borgargötum voru hins vegar umdeildari. Þeim hefðu mátt fylgja betri gögn um þjóðhagslega hagkvæmni, áhrif á umferð í nærliggjandi íbúðagötum og ítarlegar tímaáætlanir. Á þessu stigi er því erfitt að taka afstöðu til áætlunarinnar í heild. Þá má gagnrýna hvernig staðið hefur verið að kynningu á áætluninni en illa hefur tekist að upplýsa borgarbúa um að hraðalækkanir eigi ekki að taka til stofnbrauta í borginni.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Aðgerðir vegna lækkunar hámarkshraða í 30 km á borgargötum eru áætlaðar 1,5 milljarður. Finnst fólki í lagi að þessir aðilar sem stjórna Reykjavíkurborg á minnihluta atkvæða geti tekið svona einhliða ákvörðun að lækka umferðarhraða í 30 km sisvona? Umferðaröryggi allra samgöngumáta má aldrei fórna á altari einstrengingsháttar nokkurra. Efasemdarmenn um þessa tillögu hafa verið sakaðir um að vilja ekki gæta að öryggismálum gangandi og hjólandi. Það er hrein firra og algjörar dylgjur og málstaðnum ekki til framdráttar. Borgarstjóri og meirihlutinn hafa ekki sinnt því ákalli að fara í lagfæringar á slysamestu gatnamótum Reykjavíkur. Það er mikið tómlæti og firring á staðreyndum. Engar tilraunir eru gerðar til að varpa ljósi á tafakostnað fjölskyldna, fyrirtækja og Strætó sem af tillögunni hlýst. Ekki er búið að keyra þessa breytingu í gegnum nýtt umferðarmódel og er það skýrt brot á samgöngusáttmálanum. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Mikilvægt er að hafa 30 km/klst. hámarkshraða á svæðum þar sem börn fara um, s.s. í nágrenni við skóla. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða. Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og svifryksmyndun. Umferðartafir og teppur í borginni er stórt vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir margar nothæfar tillögur. Það dugar því skammt að segja að þeir sem benda á að lækkun hraða þýði verra umferðarflæði og skapi tafir sé byggt á einhverjum misskilningi. Enginn er að halda því fram að hærri hraði leiði alltaf til meiri afkastagetu götu. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina. Hér þarf því að finna einhvern milliveg og reyna að mæta þörfum sem flestra til að komast sem öruggast og best á milli staða í borginni. Þetta þarf að rýna betur en nú hefur verið gert. Öfgar, í hvora áttina sem er, eru sjaldan af hinu góða.

-    Kl. 20:00 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti með fjarfundarbúnaði.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að Malbikunarstöðin Höfði, sem er að fullu í eigu Reykjavíkurborgar, verði sett í söluferli. Eignarhald borgarinnar á Malbikunarstöðinni skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja á sama markaði og samræmist ekki sjónarmiðum um heilbrigða samkeppni.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Lögð fram svohljóðandi frávísunartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Lagt er til að tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að Malbikunarstöðin Höfði verði seld verði vísað frá. R21050075

Frávísunartillagan er samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Malbikunarstöðin Höfði hf. starfar á frjálsum samkeppnismarkaði en er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar. Ekkert réttlætir slíka sérstöðu einnar malbikunarstöðvar sem er í samkeppni við önnur fyrirtæki í sömu grein. Það er augljóst hagsmunamál íbúa á höfuðborgarsvæðinu að á þessu sviði ríki frjáls samkeppni. Nú er komið að þeim tímamótum að flytja þarf Malbikunarstöðina með tilheyrandi kostnaði og því rétt að huga að sölu fyrirtækisins. Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands skoruðu á Reykjavíkurborg í síðustu viku að nýta tækifærið og losa sig út úr rekstri Malbikunarstöðvarinnar, enda skekkir rekstur þessi samkeppnisstöðu fyrirtækja á sama markaði sem samræmist ekki sjónarmiðum um heilbrigða samkeppni. Fjárfesting í malbikunarstöð er tímaskekkja árið 2021. Ákvörðun um fjárfestingu í malbikunarstöð fyrir meira en þúsund milljónir er ákvörðun um að fjárfesta ekki í öðrum verkefnum. Þetta lýsir kolrangri forgangsröðun meirihlutans í borgarstjórn.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Malbikunarstöðin Höfði er verðmætt fyrirtæki og það verður það ekki selt á brunaútsölu. Meirihlutinn mun standa við það sem stendur í meirihlutasáttmálanum: „Við ætlum að leggja malbikunarstöðinni Höfða til nýja lóð og kanna í kjölfarið kosti og galla þess að selja fyrirtækið“.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillögu um að selja Malbikunarstöðina Höfða var vísað frá. Það er óásættanlegt að Reykjavíkurborg skuli á árinu 2021 reka malbikunarstöð í samkeppni við einkaaðila. Ekki einasta er malbikunarstöðin Höfði að framleiða mjög gallaða vöru heldur er stöðin líka á samkeppnismarkaði með vetrarþjónustu ýmiskonar. Það er nú ekki það eina heldur er malbikunarstöðin sem er B-hluta félag Reykjavíkur að taka þátt í undirboðum í verkum sem eigandinn auglýsir í útboðum. Þetta eru skrítnir viðskiptahættir svo ekki sé meira sagt. Því er tekið undir með Samtökum iðnaðarins þegar spurt er: Hvar er Samkeppniseftirlitið eiginlega?

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það eru þrjár aðrar malbikunarstöðvar virkar og með því að selja Malbikunarstöðina Höfða þarf að tryggja að þær sem fyrir eru kaupi ekki Höfða og komist þannig í einokunarstöðu. Þetta þarf að tryggja til að ekki verði fákeppni á markaði. Að öðru leyti er bæði skynsamlegt og rökrétt að borgin selji malbikunarstöðina. Reykjavíkurborg ætti ekkert frekar að eiga malbikunarstöð en trésmíðaverkstæði.

5.    Fram fer umræða um byggingarstefnu Reykjavíkurborgar. R21050077

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Í stað þess að vera með byggingarstefnu hefur borgin húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Þar er sett fram á einum stað greining á stöðu húsnæðismála og veitt yfirlit yfir aðgerðir borgarinnar í húsnæðismálum. Þær eiga það sammerkt að ná markmiðum Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum. Markmið húsnæðisáætlunar eru í stuttu máli að í Reykjavík verði reistar minnst 1.000 nýjar íbúðir á ári að meðaltali. Þar af er gert ráð fyrir að byggja um 250 íbúðir á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Allar forsendur eru fyrir hendi til að það takist. Undanfarin ár hafa verið metár í uppbyggingu í Reykjavík og útlit fyrir að næstu ár verði það sömuleiðis.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Engar lóðir eru til úthlutunar hjá Reykjavíkurborg um þessar mundir. Húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega undir stjórn þessa borgarstjórnarmeirihluta og leiguverð jafnframt vegna skorts á úthlutun lóða. Auka þarf framboð á hagstæðum byggingarlóðum sem borgin hefur alla burði til að bæta úr. Skorturinn er heimagerður og afleiðingarnar eru öllum ljósar. Erfiðara er fyrir marga að eignast þak yfir höfuð sér. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Miðbærinn stefnir hratt í að verða aðeins ríkra manna hverfi. Staðan er í dag sú að það skortir mjög íbúðir á hagkvæmu verði. Um 30% fasteignakaupenda eru fyrstu kaupendur en barist er um hverja eign. Í sölu eru nú um 200 íbúðir en þyrftu að vera 900 til að tryggja eðlilegt flæði. Þetta stendur til bóta en það er inni í framtíðinni. Það sem gerist í framtíðinni er ekki að hjálpa þeim sem vantar húsnæði í dag og langar að kaupa íbúð á hagkvæmu verði. Sagt er að húsnæðisstefna snúist um að tryggja öllum húsnæði en það er bara ekki raunin, ekki alla vega í dag.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg bjóði foreldrum barna sem hafa greinst með COVID-19, og starfsmönnum leik- og grunnskóla þar sem upp hefur komið COVID-19 hópsýking, sálfræðihjálp þeim að kostnaðarlausu. Einnig er lagt til að hugað verði sérstaklega að þeim börnum sem hafa smitast af COVID-19 og þeim veitt sálfræðiaðstoð telji foreldrar þörf á.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21050078

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu um sálfræðiaðstoð til starfsfólks og foreldra barna sem smitast hafa af  COVID-19 sem eru á 5. hundrað barna í Reykjavík. Einnig var lagt til að hugað verði sérstaklega að þeim börnum sem hafa smitast af COVID-19 og þeim veitt sálfræðiaðstoð telji foreldrar þörf á. Tillagan er felld af meirihlutanum með þeim rökum að tillagan bæti engu við þá aðstoð sem nú stendur foreldrum þessara barna og starfsmönnum til boða. Sagt er að hringt hafi verið í þessa foreldra en það er ekki rétt. En hvað með starfsfólkið? Sagt er að samhæfingarteymi hafi verið kallað saman. Hér er farið með rangt mál. Þessu máli er ekki sýnt lágmarksvirðing heldur er notað tækifæri til að hnýta í flutningsmann tillögunnar fyrir að hafa gagnrýnt stjórnun og fjármálasýslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs, mál sem tengist þessari tillögu akkúrat ekki neitt. Þessi tillaga varðar foreldra barna sem hafa smitast af COVID-19 og starfsfólk á leik- og grunnskólum þar sem smit hafa komist upp en ekki stjórnunarhætti og fjármálasýslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem hefur til umráða 10 milljarða í stafræna umbreytingu. Gott væri að fá ca. einn milljarð þar af til að ráða sálfræðinga fyrir foreldra barna sem fengið hafa COVID-19.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hefja nú þegar deiliskipulagsvinnu fyrir blandaða byggð í Úlfarsárdal. Áhersla verði lögð á blandaða byggð – sérbýli og fjölbýli. Sérbýlin verði allt frá 120 m2 par- og raðhúsum í stærri einbýlishús með góðum görðum og nýtingarhlutfall einbýlishúsalóðanna verði ekki meira en 0,25. Fjölbýlishúsin verði lyftulaus og íbúðir á jarðhæð hafi sérgarð. R21050079

Frestað.

8.    Lagt er til að Pawel Bartoszek taki sæti í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur. R18060117

Samþykkt.

9.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 29. apríl. R21010001

- 19. liður fundargerðarinnar; framlenging á tímabundnum göngugötum, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 8 atkvæðum Björns Gíslasonar, Eyþórs Laxdal Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur og Arnar Þórðarsonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ásamt borgarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins. R21040317

Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðarinnar:

Hér er verið að framlengja göngugötur fram að því að nýtt deiliskipulag sem gerir þennan kafla Laugavegar að varanlegri göngugötu tekur gildi. Við styðjum og fögnum Laugavegi sem göngugötu, nú sem áður.

Björn Gíslason, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Örn Þórðarson borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðarinnar:

Á fundi, samgöngu- og skipulagsráðs í síðustu viku var lögð fram tillaga um „tímabundna“ lokun Laugavegar sem var ótímabundin í reynd. Tillagan sem lögð var fram var því ekki tæk. Nú er tillagan lögð fram breytt þannig að hún eigi að gilda út þetta ár án þess að samráð hafi verið haft við rekstraraðila um slíka ákvörðun. Rétt er að benda á að varanleg lokun Laugavegar hefur ekki verið samþykkt með staðfestu deiliskipulagi, en mikil andstaða er við þá breytingu. 

Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðarinnar:

Hringlandaháttur varðandi göngugötur í miðborginni er skaðlegur fyrir hvoru tveggja atvinnurekendur og borgarbúa. Vinna við breytingar á Laugavegi sem göngugötu hefur staðið yfir í meira en áratug. Samt sem áður tókst meirihluta borgarstjórnar að klúðra einfaldri stjórnsýsluframkvæmd með þeim afleiðingum að bifreiðar hafa síðustu daga haft tímabundna lagaheimild til að aka um göngugötusvæðið. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika mikilvægi stöðugleika og vandaðra vinnubragða við breytingar á miðborgargötum í göngugötur.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðarinnar:

Enn eitt klúðrið í stjórnsýslu Reykjavíkur. Lokun Laugavegarins er mjög ljótur blettur á störfum meirihlutans. Lokunina skortir lagaheimildir, þessi tillaga staðfestir það. Enn er verið að leggja til að framlengja lokun á undanþáguákvæði sem er framlenging á tímabundinni ákvörðun „þar til deiliskipulag taki gildi“ og varanleg lokun Laugavegarins verði að veruleika. Tillagan sem lá fyrir fundinum var svo illa unnin að skrifa þurfti nýja tillögu og leggja fyrir fundinn. Enn einu sinni er verið að ögra rekstraraðilum á svæðinu en þeim, Reykvíkingum og landsmönnum öllum má vera ljóst að lokunin er eitt stórt fíaskó sem byggir á veikum lagagrunni. Laugavegurinn er rústir einar og líkist yfirgefnum draugabæ í eyði svo ekki sé talað um þær hörmungar sem rekstraraðilar hafa mátt þola frá borgarstjóra og meirihlutnum. Skömmin og ábyrgðin er þeirra. Munið það Reykvíkingar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðarinnar:

Hér er verið að framlengja göngugötur fram að því að nýtt deiliskipulag sem gerir þennan kafla Laugavegar að varanlegri göngugötu tekur gildi. Þessu fagna ekki allir. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá meirihlutann í skipulagsmálum bera gæfu til að breyta um taktík í ljósi óánægju með þessar ákvarðanir, ekki síst aðferðafræðina sem beitt hefur verið á fólkið. Samráðsleysið í þessu máli er frægt orðið. Að afgreiða þetta nú með þessum hætti er olía á stórt bál. Það hefði verið bráðupplagt að opna fyrir umferð nú þótt ekki væri nema til að sjá hvort það myndi hjálpa til með mannlífið á Laugavegi og þá ekki síst viðskipti við fleiri hagaðila. Nú er tillagan lögð fram breytt þannig að hún eigi að gilda út þetta ár án þess að samráð hafi verið haft við rekstraraðila um slíka ákvörðun.

10.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. apríl, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 26. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 27. apríl, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 21. apríl og velferðarráðs frá 21. apríl. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. og 6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs: 

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tvær tillögur sem nú hafa báðar verið felldar í skóla- og frístundaráði. Sú fyrri, „að unnið verði markvisst að fækkun nemenda í bekkjum þar sem þess er þörf vegna þess að það hefur sýnt sig í rannsóknum að bekkjarstærð skiptir miklu máli fyrir flesta nemendur.“ Síðari tillagan var „að í stærri bekkjum séu ávallt tveir, kennari og aðstoðarmaður.“ Öll vitum við að nemendur í of stórum bekkjum ná ekki sama námsárangri og aðrir nemendur. Þá hefur bekkjarstærð einnig mikil áhrif á kennara og einnig á börnin. Mikið álag er á mörgum kennurum sem kenna stórum bekkjum þar sem margir nemendur þurfa e.t.v. sértæka aðstoð. Í slíkum bekk er auðvelt fyrir barn sem hefur sig ekki í frammi að „týnast“. Í tilfellum þar sem ekki er ráðið við að fækka nemendum í bekk þar sem þess er þörf skiptir sköpum að kennari hafi aðstoðarmann. Staðan er án efa misjöfn eftir skólum og væri vert að skóla- og frístundasvið myndi kanna með markvissum hætti hvar hún er verst. Það kallar á að rætt verði við skólastjórnendur hvers skóla og kennara og þreifað á því hvort þörf er að grípa til aðgerða s.s. að fækka í ákveðnum bekk/bekkjum eða bæta við aðstoð inn í bekk.

Fundi slitið kl. 23:06

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Pawel Bartoszek

Sabine Leskopf    Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 4.5.2021 - prentvæn útgáfa