Borgarstjórn - 4.4.2017

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 4. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Dóra Magnúsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Kjartan Magnússon, Börkur Gunnarsson, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2017.

- Kl. 18.45 víkur Dóra Magnúsdóttir af fundinum og Sabine Leskopf tekur sæti.

Borgarfulltrúarnir Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðisáætlun meirihlutans er því miður gamlar fréttir í nýjum umbúðum. Athyglisvert er að sjá hvernig meirihlutinn tekur vanefndir síðustu ára um uppbyggingu og rúllar þeim inn í nýjar áætlanir á meðan það er deginum ljósara að meirihlutanum hefur hingað til gengið illa að framfylgja eigin áætlunum. Einstrengisleg þéttingarstefna og lóðaskortsstefna hefur stóraukið húsnæðisvandann í borginni. Síðustu árin hefur borgarstjóri þulið upp hvað fasteignafélögin eru að byggja í borginni eða ætla að fara að byggja í borginni á lóðum sem hafa verið í höndum þessara félaga lengi. Hann hefur hins vegar ekki verið jafn duglegur við að úthluta lóðum eða framfylgja stefnum og áætlunum sem settar hafa verið. Nú eru liðin rúm 5 ár síðan húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt og ástandið hefur aldrei verið verra.

Borgarfulltrúarnir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir leggja fram svohljóðandi bókun:

Í drögunum að húsnæðisáætluninni vantar upplýsingar hvernig hefur gengið að framfylgja áætlunum og stefnum sem vísað er til frá því að þær voru samþykktar fram til dagsins í dag t.d. hvernig hefur gengið að uppfylla skilyrði húsnæðisstefnu borgarinnar frá 2011 að allir borgarbúar hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði hvort sem fólk þarfnist stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki, hvernig hefur gengið á síðustu 3 og ½ ári að uppfylla samþykki borgarráðs frá 24.10.2013 að á næstu 3-5 árum rísi 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir, hvort stefnan sé að bæta byggingarréttargjaldi á lóðir sem ekki hefur verið lagt á byggingarréttargjald áður til að það komi sem 12% stofnframlag borgarinnar, hvaða félög eru að byggja á lóðunum, hvað það líður langur tími frá því að skipulagsvinna hefst, deiliskipulag er samþykkt, byggingarleyfi er veitt og flutt er inn í íbúðir, hvort lóðirnar eru í höndum borgarinnar eða annarra, hvenær lóðum var úthlutað og hvort lóðarleigusamningar hafi verið endurnýjaðir og þá hvenær.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er í senn róttæk, félagsleg og stórhuga. Reykjavík hefur með átaki í skipulagi tryggt fjölbreytt byggingarsvæði fyrir allar gerðir íbúða með áherslu á litlar og meðalstórar íbúðir á grundvelli markmiða um húsnæði fyrir alla, félagslega blöndun og aðalskipulag Reykjavíkur. Borgin leggur samanlagt fram 59 milljarða til fjárfestinga, húsnæðisstuðnings og sérstakra búsetuúrræða næstu fimm ár. Húsnæðisáætlun veitir kærkomna yfirsýn yfir framgang þessara mála. Byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir eru komin á framkvæmdastig í borginni og fjölgar hratt, byggingarsvæði fyrir yfir 2.500 íbúðir að auki liggja fyrir í staðfestu skipulagi og um 4.000 íbúðir eru í formlegu skipulagsferli. Auk þess eru svæði fyrir rúmlega 9.000 íbúðir í þróun. Megináhersla í húsnæðisáætlun borgarinnar er á samstarf við byggingafélög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjónarmiða. Alls eru um 3.700 staðfest áform um íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur og búsetu. Á öllum nýjum þróunarsvæðum hefur verið samið um að hlutfall leigu- og búseturéttaríbúða á hverju uppbyggingarsvæði verði 20-25%. Jafnframt hefur verið samið um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að um 5% af öllum nýjum íbúðum. Hvort tveggja til að tryggja félagslega blöndun um alla borg.

2. Fram fer umræða um aðgerðaráætlun í leikskólamálum og samþykktar tillögur stýrihóps um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2017.

Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá og vísa henni til skóla- og frístundaráðs.

Lagt er til að niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum verði hækkaðar um 25%.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna, Líf Magneudóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina styðja aðgerðaáætlun í leikskólamálum en telja að varðandi fjölgun leikskólarýma þurfi að taka meira tillit til spurnar eftir leikskólaþjónustu í einstökum hverfum borgarinnar en gert er. Svo virðist sem aðeins 5% af fyrirhugaðri fjölgun leikskólarýma komi í hlut Breiðholts en í því hverfi búa hins vegar rúmlega 17% borgarbúa. Þá er lagt til að niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum verði hækkaðar um 25% í stað þeirrar 10% hækkunar sem lagt er til samkvæmt aðgerðaáætluninni.

3. Fram fer umræða um samgöngusamninga við starfsmenn Reykjavíkurborgar, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2017

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina:

Í ljósi þess að borgarstjórn hefur samþykkt að hefja viðræður við ríkið um Sundabraut og að neyðarástand ríkir í húsnæðismálum, samþykkir borgarstjórn Reykjavíkur að hafist verði handa við að skipuleggja byggð í Geldinganesi. Við skipulagsvinnu verði tekið mið af þeim skipulagshugmyndum sem áður hafa komið fram í hugmyndasamkeppni um svæðið. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að undirbúa og gera breytingar á aðalskipulagi og hefja aðra þá vinnu sem nauðsynleg er til að gera það mögulegt að hægt verði að úthluta lóðum í Geldinganesi á viðráðanlegu verði.

Tillagan er felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjórnarmeirihlutinn er öðrum fremur ábyrgur fyrir því neyðarástandi sem ríkir í húsnæðismálum með langvarandi lóðaskortsstefnu sinni.  Einblínt er á að nær öll uppbygging fari fram á dýrum þéttingarreitum sem eru að mestu í eigu fjársterkra aðila, sjóða og banka en ekki í eigu borgarinnar. Mikilvæg forsenda þess að lækka húsnæðiskostnað er að auka framboð á lóðum í eigu borgarinnar á viðráðanlegu verði. Úthlutun lóða í Geldinganesi myndi stórauka framboð á byggingarlóðum í Reykjavík á viðráðanlegu verði  og þannig hafa afgerandi, jákvæð áhrif á íbúðar- og leigumarkaðinn.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Íbúabyggð í Geldinganesi var til ítarlegrar skoðunar við gerð síðasta aðalskipulags Reykjavíkur. Horfið var frá því að gera ráð fyrir íbúabyggð á gildistíma skipulagsins (fram til 2030), vegna áhrifa slíkrar byggðar á umhverfi og umferð, samgöngukostnað og fleira. Húsnæðismálin, svæði og reitir sem geta samkvæmt gildandi skipulagi komið til uppbyggingar á næstu árum hafa verið og eiga að vera í algjörum forgangi umhverfis- og skipulagssviðs. Skoðun og skipulag á Geldinganesi er ekki þar á meðal og er engin lausn á núverandi ástandi á húsnæðismarkaði.

5. Fram fer umræða um málefni Seljahlíðar.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Seljahlíð var ein af þeim eignum sem færðar voru úr eignasjóði borgarinnar yfir til Félagsbústaða í lok síðasta árs og áttu engar breytingar að verða því samhliða fyrir íbúa eins og staðfest var í svari til borgarráðs 2. mars 2016. Reyndin hefur verið önnur. Borgarfulltrúar hafa ítrekað heyrt um vandmeðfarna stöðu í fjölmiðlunum bæði um leiguhækkanir, íbúðaúrræði sem ekki eru fullnægjandi til að fá húsnæðisstyrk, skort á upplýsingum til íbúa, skort á samráði og nú síðast um að virkir fíklar hafi búsetu þar. Meirihluti sem kennir sig við samráð og gagnsæi fær falleinkunn þegar kemur að málefnum Seljahlíðar, enda flaustursleg vinnubrögð sem einkenna ákvarðanatökur í hvívetna þega kemur að íbúum Seljahlíðar.

6. Fram fer umræða um sölu Reykjavíkurborgar á lóð í Vogabyggð til Festi ehf.

7. Lagt er til að Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir taki sæti í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og að Auður Hermannsdóttir, Margrét Björnsdóttir, Páll Gestsson, Marta Guðjónsdóttir og Halldór Halldórsson taki sæti sem varamenn í stjórninni. Einnig er lagt til að Brynhildur Davíðsdóttir verði formaður stjórnarinnar og Gylfi Magnússon verði varaformaður.

Samþykkt.

8. Lagt er til með vísan til 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 að reglulegur fundur borgarstjórnar 18. apríl nk. falli niður.

Samþykkt.

9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 23. og 30. mars.

34. liður fundargerðarinnar frá 30. mars, umsögn um frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga, er samþykktur með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

35. liður fundargerðarinnar frá 30. mars, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2017, er samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 21. og 31. mars, íþrótta og tómstundaráðs frá 3. og 17. mars, mannréttindaráðs frá 28. mars, menningar- og ferðamálaráðs frá 27. mars, skóla- og frístundaráðs frá 22. mars, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 20. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. og 29. mars.

1. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 21. mars, tillaga forsætisnefndar um breytingar á samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg vegna launa kjörinna fulltrúa, samþykktur með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn atkvæði Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 31. mars, breytingar á samþykkt fyrir fjölmenningarráð, samþykktur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fundi slitið kl. 00.05

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

Elsa H. Yeoman

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 4.4.2017 - prentvæn útgáfa