Borgarstjórn - 4.3.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 4. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, S. Björn Blöndal, Páll Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Hjálmar Sveinsson, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn felur fjármálaskrifstofu og innkaupaskrifstofu að endurskoða fyrirkomulag hráefniskaupa mötuneyta Reykjavíkurborgar með það að markmiði að auka gæði hráefnisins, nýta betur kosti útboða og ná fram aukinni stærðarhagkvæmni í innkaupum.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. 

2. Fram fer umræða um uppbyggingu á þéttingarsvæðum og réttindi íbúa vegna tjóns og óþæginda sem kunna að hljótast af framkvæmdum. 

- Kl. 16.20 tekur Einar Örn Benediktsson sæti á fundinum og Diljá Ámundadóttir víkur sæti. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að meirihluti borgarstjórnar skuli hafa tekið vel í réttmætar ábendingar og áhyggjur þess efnis að borgin þurfi að skoða heildstætt hvernig uppbygging sem hún hefur samþykkt gangi fyrir sig. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir að taka málið fyrir á vettvangi borgarstjórnar þar sem reynslan af uppbyggingu á gamla Lýsisreitnum svokallaða sýnir fram á að íbúar í grennd við uppbygginguna að verða fyrir tjóni og óþægindum og eru óöruggir um rétt sinn. Það er gagnrýnivert að nú í meira en mánuð hefur legið fyrir sú óánægja og óöryggi íbúa án þess að borgin hafi brugðist við með afgerandi hætti en það er því fagnaðarefni að meirihlutinn ætli nú að bregðast við og setja strax á laggirnar vinnuhóp sem hefur það hlutverk að skoða heildstætt uppbyggingarmál borgarinnar. Þeim vinnuhópi bíður það verkefni að svara þeim spurningum sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu að umtalsefni sínu. Til að mynda verður í fyrsta lagi að skoða þær reglur sem unnið er eftir þar sem þær virðast ekki eiga við uppbyggingu í þéttri byggð. Í öðru lagi hver beri að svara hver beri ábyrgð á því tjóni sem íbúar virðast hafa orðið fyrir þrátt fyrir að unnið sé innan leyfilegra reglna. Í þriðja lagi að borgin beiti sér fyrir því að aðstæður hverju sinni séu skoðaðar án þess að stuðst sé við almennar reglur sem eiga oft ekki við. Í fjórða lagi hvaða tæki önnur borgin getur notað eins og til dæmis reglur heilbrigðiseftirlitsins sem hægt er að beita til að koma til móts við hagsmuni borgarbúa á meðan uppbygging stendur yfir. Það er óskandi að störf vinnuhópsins sem á að skipa muni ganga fljótt og vel því um er að ræða gríðarlega mikilvægt hagsmunamál; gagnvart þeim sem nú búa í grennd við Lýsisreitinn og þeirra sem munu búa í nágrenni við fyrirhugaða þéttingarreiti næstu ár.  

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Þétting byggðarinnar er leiðarstef í nýju aðalskipulagi. Þéttingin felur í sér mikla kosti, samfélagslega og umhverfislega, en henni fylgir líka mikil ábyrgð. Þéttingin má ekki leggja óhóflegt álag á íbúa í nágrenni. Reynslan af framkvæmdum við Lýsisreit sýnir að aðstæður geta verið mjög mismunandi á hverjum stað. Umhverfis- og skiplagsráð mun skipa starfshóp um framkvæmdir á þéttingarsvæðum til að tryggja að þéttingin verði í sátt við umhverfis og borgarbúa.

3. Fram fer umræða um ferlimál fatlaðra.

- Kl. 17.30 víkur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti. 

- Kl. 18.00 víkur Oddný Sturludóttir af fundinum og Margrét Sverrisdóttir tekur þar sæti. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mjög mikilvægt er að huga að aðstæðum allra þegar götur borgarinnar í eldri hverfum eru endurnýjaðar. Við endurgerð gatna skapast tækifæri til þess að færa ferlimál fatlaðra til nútímans. Það eru sjálfsagt og stórt mannréttindamál sem borgin á að beita sér fyrir og taka frumkvæði að. Sjálfsagt er að vinna með þeim sem eru fatlaðir, samtökum þeirra og félögum þegar leitað er leiða til að gera betur. Auk þess er nauðsynlegt að gera þeim sem vilja gera úrbætur á húsnæði sínu kleift að nýta tímann þegar framkvæmdir eiga sér stað að gera breytingar í leiðinni eða kynna fyrir aðilum hvaða leiðir eru færar. Við endurgerð Hverfisgötu virðist alveg hafa gleymst að leita eftir samráði. Fyrir nokkrum mánuðum var tillaga um sérstakan átakshóp um aðgengi samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði, að frumkvæði sjálfstæðismanna í því ráði en meirihlutinn hefur ekki séð sér fært að ákveða skipun hópsins þrátt fyrir að um það bil hálft ár sé liðið frá því tillagan var lögð fram. 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna tekur undir mikilvægi þess að verkferlar og vinnulag borgarinnar sé til fyrirmyndar, að samstarf sé haft við vegfarendur með ólíkar þarfir, þar með talið fatlað fólk, þegar unnið er að hönnun og framkvæmdir almannarýma. Að sama skapi verður að tryggja samtal við eigendur gamalla og óaðgengilegra fasteigna í tæka tíð fyrir slíkar framkvæmdir svo hægt sé að bæta aðgengi þar sem því verður við komið.

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við tökum undir það mikilvæga sjónarmið að við endurhönnun gatna ber að taka tillit til allra borgarbúa, fatlaðra og ófatlaðra. Við endurhönnun Hverfisgötu var einmitt sá háttur hafður á og haft samráð við fulltrúa hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. Áhersla var lögð á algilda hönnun, þar sem tillit er tekið til allra samgöngumáta. Mikilvægt er að halda því til haga að eitt malbikslag, um 5 cm vantar í götuna og verður það lagt í vor. Hár kantur við biðstöðvar er til að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að Strætó. Í hönnuninni var meðal annars miðað að hæðir við hús yrði eins og þær voru fyrir framkvæmdir en frágangi uppvið hús er allvíða ólokið. Aðgengi að sjálfum húsunum og inni í þeim er alltaf á ábyrgð húseiganda. En borgaryfirvöld eru ávallt reiðbúin að vinna með húseigendum að bættu aðgengi frá götu. Umhverfis- og skipulagsráð mun skipa átakshóp um bætt aðgengi fyrir alla.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að nemendum 8. bekkjar grunnskóla Reykjavíkur gefist á ný kostur á að fá sumarstörf hjá Vinnuskóla Reykjavíkur frá og með júnímánuði 2014. Auk þess er lagt til að leitað verði leiða til að bjóða upp á fjölbreyttari störf en þau sem hafa verið í boði hingað til fyrir nemendur Vinnuskólans.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðsluna. 

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 var samþykkt í desember árið 2013. í henni var ekki gert ráð fyrir útgjaldaauka vegna sumarstarfs fyrir 8. bekk í Vinnuskólanum. Áherslur borgarinnar hafa í auknum mæli verið á atvinnusköpun fyrir 17 ára ungmenni sem falla gjarnan milli skips og bryggju og ástæða til að hafa af því áhyggjur. Það yrði því forgangsmál að koma betur til móts við þann aldurshóp áður en aukið fé verður til sett í Vinnuskólann. 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna ítrekar mikilvægi þess að borgin axli ábyrgð, bæði sem atvinnurekandi og stjórnvald þegar kemur að sumarstörfum ungs fólks í Reykjavík. Það skiptir gríðarlegu máli að börn fái að vera börn og njóti menntunar í fjölbreyttum og skapandi Vinnuskóla yfir sumartímann, eða hafi viðfangsefni við hæfi allt frá upphafi unglingastigs þar til sjálfræði er náð við 18 ára aldur. Þannig geti þau aflað tekna, öðlast reynslu og gert gagn í samræmi við aldur og þroska. Vinstri græn hafa ítrekað lagt fram tillögur um þessi mál, náð nokkrum árangri en enn meira þarf til að vel verði staðið af sumarstarfi fyrir unglinga í borginni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins ákváðu í nafni hagræðingar árið 2011 að nemendur í 8. bekk fengju ekki vinnu hjá Vinnuskólanum og skertu jafnframt vinnutíma 9. og 10. bekkinga. Nær hefði verið að forgangsraða í þágu skólabarna og umhverfismála í stað þess að ráðast í kostnaðarsöm gæluverkefni sem hafa lítinn tilgang. Ljóst er að Vinnuskólanum veitir ekki af liðsauka enda er víða verk að vinna við þrif og umhirðu í borginni.

5. Samþykkt að Líf Magneudóttir taki sæti Þorleifs Gunnlaugssonar sem varamaður í borgarráði. 

6. Samþykkt að Líf Magneudóttir taki sæti Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur í mannréttindaráði.

7. Samþykkt að Elín Oddný Sigurðardóttir taki sæti Þorleifs Gunnlaugssonar í velferðarráði og að Gísli Garðarson taki sæti Elínar sem varamaður í ráðinu.

8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 20. febrúar 2014.

- 21. liður fundargerðarinnar, ályktun um Landhelgisgæsluna og björgunarstarf samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði á móti og leggur fram svohljóðandi bókun: 

Íslendingar njóta ríkrar sérstöðu sem herlaus þjóð með öflugt sjálfboðaliðanet í forvarnar- og björgunarstörfum, auk þess sem hið opinbera sinnir málum á forsendum friðar. Borgarfulltrúi Vinstri grænna hefur að sjálfsögðu ekkert á móti samstarfi við erlendar þjóðir en sér enga ástæðu til að álykta sérstaklega um það. Ályktunin mun varla breyta miklu um erlent samstarf, heldur vakna spurningar um hvort persónulegur og flokkspólitískur ávinningur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks búi ekki heldur að baki henni.

9. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 27. febrúar.

10. Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. febrúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 17. og 24. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 19. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. febrúar og velferðarráðs frá 27. febrúar. 

Fundi slitið kl. 19.54

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Eva Einarsdóttir Áslaug Friðriksdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 4.3.2014 - prentvæn útgáfa