No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2020, þriðjudaginn 4. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Sabine Leskopf, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Aron Leví Beck, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Örn Þórðarson, Ólafur Kr. Guðmundsson, Marta Guðjónsdóttir og Jórunn Pála Jónasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar minntist forseti borgarstjórnar Karls Berndsen varaborgarfulltrúa sem lést 28. janúar sl.
1. Fram fer umræða um skýrslu innri endurskoðunar vegna framkvæmda við gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. á Álfsnesi, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020.
Forseti borgarstjórnar ákveður að umræða um tillögu um breytingar á stofnsamningi SORPU sem var númer 2 á dagskrá borgarstjórnar fari samhliða fram. R20010342
- Kl. 15.40 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Alexandra Briem tekur sæti.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Innri endurskoðun er þakkað fyrir skýrsluna um framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöð. Fulltrúar í stjórn SORPU hafa lagt fram og rætt skýrsluna í öllum bæjarráðum og borgarráði þeirra sveitarfélaga sem eiga byggðasamlagið SORPU. Mikilvægt er að næstu skref einkennist af metnaði fyrir byggðasamlagið með því að ljúka framkvæmdum og hefja rekstur gas- og jarðgerðarstöðvarinnar til þess að geta flokkað lífrænan úrgang af miklu umfangi á sem umhverfisvænastan hátt. Jafnframt þarf að taka markviss skref til að vinna til baka traust á fyrirtækinu, meðal annars með aðgerðaráætlun frá stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og hinsvegar með umbótaáætlun frá stjórn SORPU byggða á tillögum sem finna má í skýrslu innri endurskoðunar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks treysta því að aðkoma borgarinnar að stjórnum SORPU og Strætó, verði sem næst því að vera í hlutfallslegu samræmi við eignarhlut borgarinnar. Reykjavíkurborg ber höfuðábyrgð á SORPU. Aðkoma borgarinnar verður að endurspegla þá ábyrgð. Sjálfstæðismenn vilja sjá niðurstöðu í þessu máli fyrir vorið. Eigi síðar en 1. maí nk. Reykjavíkurborg hefur aðeins einn af sex fulltrúum í stjórn SORPU og Strætó, en fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa margsinnis bent á þá staðreynd að ekki sé hægt að sætta sig við það, ekki síst með hliðsjón af ábyrgðum borgarinnar gagnvart lántökum. Á borgarstjórnarfundi 17. september á síðasta ári samþykkti borgarstjórn að ábyrgjast lánveitingu til SORPU bs. upp á einn og hálfan milljarð króna pro rata. Með því að ábyrgjast lán SORPU var borgin að veðsetja framtíðar útsvarstekjur Reykjavíkurborgar vegna framúrkeyrslunnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust alfarið gegn þeirri ráðstöfun enda óskynsamlegt að veita veð í útsvarstekjum skattgreiðenda í Reykjavík vegna lausataka í rekstri byggðasamlagsins. Loks er vakin athygli á því að ábyrgð á skuldum B-hluta fyrirtækjum borgarinnar og byggðasamlögum er komin yfir eitt hundrað milljarða króna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja því ærið tilefni til að taka upp stofnsamning byggðasamlaganna.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur að byggðasamlög í þeirri mynd sem þau eru nú, ekki vera til þess fallinn að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa að félögum í eigu Reykjavíkur og það er nauðsynlegt að vinna að því að tryggja aðkomu borgarbúa. Hér leggur meirihlutinn til að því verði beint til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna Sorpu bs., Strætó bs. og Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni og aðkomu sveitarfélaganna sem eigenda þeirra og ábyrgðaraðila og að skerpa hlutverk, umboð og ábyrgð stjórna byggðasamlaganna. Þar er lagt til að horft verði til inntaks stofnsamninga og inntaks og framkvæmdar eigendastefnu byggðasamlagana og segja þau mikilvægt í því verkefni að leita sjónarmiða hjá breiðum hópi sveitarstjórnarfólks á höfuðborgarsvæðinu sem og stjórnum byggðasamlaganna. Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi þess að fara yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlagana í ljósi skýrslu Innri endurskoðanda sem hér var til umræðu en telur þar nauðsynlegt að raunverulegir eigendur fái einnig þar að koma að vinnunni; íbúar borgarinnar og starfsfólk borgarinnar sem starfar hjá umræddum byggðasamlögum sem geta komið með mikilvæg sjónarmið inn í uppbyggingu þeirra mikilvægra fyrirtækja sem hér er um að ræða.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hver hefur eftirlit með eftirlitinu? Þetta mál er algjör martröð fyrir útsvarsgreiðendur í Reykjavík. Atkvæðavægi og fjárhagsleg ábyrgð er í samræmi við íbúafjölda sveitarfélaganna. Reykjavíkurborg er meirihlutaeigandi í SORPU en hefur einungis einn stjórnarmann og situr uppi með stærsta bakreikninginn. Ekki vantaði eftirlitsaðilana í verkefninu og rekstrinum en þeir eru: Rýnihópur fjármálastjóra, Stýrihópur eiganda vegna gas- og jarðgerðarstöð (GAJA), rýnihópur SORPU, verkefnisstjóri SORPU, Mannvit, Ístak, Batterí og Verkís innri endurskoðandi SORPU og ytri endurskoðandi. SORPA er byggð þannig upp að fyrst koma sveitastjórnirnar, þá eigendavettvangur SORPU sem í sitja borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu og síðan stjórn SORPU sem í sitja einn kjörinn fulltrúi frá hverju sveitarfélaganna sem sitja í meirihluta sveitarfélagsins. Yfir þessu öllu svífa síðan Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Hér er nákvæmt dæmi um verkefni sem hefur of mörg „millistykki“ og úthýsingu valds kjörinna fulltrúa. Hvernig í ósköpunum var hægt að koma verkefninu 1,5 milljarða framúr áætlunum? Það er augljóslega eitthvað mikið að í samskiptum í þessu félagi. Innri endurskoðun Reykjavíkur er þakkað fyrir góða skýrslu og augljóst að málinu er hvergi nærri lokið.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka þá tillögu sína úr borgarráði að stjórnarmaður borgarinnar axli ábyrgð og víki og helst á öll stjórnin að gera það einnig. Niðurstöður skýrslunnar eru afgerandi, stjórnunarhættir eru ámælisverðir, segir í skýrslunni. Skuld er skellt á framkvæmdarstjórann. Hann hefur vissulega mikla ábyrgð en hún er fyrst og fremst að halda utan um daglegan rekstur og vissulega að halda stjórn upplýstri um málefni sem tengjast Sorpu. En stjórnarmenn bera stærstu ábyrgðina. Stjórnarmenn skulu, eins og segir í skýrslu innri endurskoðunar, óska eftir og kynna sér öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem stjórn telur sig þurfa til að stýra fyrirtækinu. Byggðasamlagskerfið er gallað kerfi eins og það er núna ef stjórn stendur sig ekki þá er varla von á góðu. Ekki er langt síða að á fundi borgarstjórnar var leitað samþykkis fyrir ábyrgð á láni til að mæta framúrkeyrslu Sorpu. Nú neyðist meirihlutinn til að skoða málið og treystir sér aðeins til að gera það undir verndarvæng SSH. Það hefði þurft að grípa fyrr í taumanna. Ef borgin ætlar að taka þátt í byggðasamlagi þá þarf hún sem stærsti eigandinn að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við ábyrgð og eignarhald og skipa þarf stjórn sem hefur einhverjar þekkingu á málefnum Sorpu.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beina því til eigendahóps SORPU bs. að beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á stofnsamningi byggðasamlagsins vegna samsetningu stjórnarinnar þannig að Reykjavík, langstærsti eigandinn, geti sinnt betur eftirlitshlutverki sínu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beina því til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna SORPU bs., Strætó bs. og Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni og aðkomu sveitarfélaganna sem eigenda þeirra og ábyrgðaraðila og að skerpa hlutverk, umboð og ábyrgð stjórna byggðasamlaganna. Horft verði bæði til inntaks stofnsamninga og inntaks og framkvæmdar eigendastefnu byggðasamlaganna. Mikilvægt er að í því verkefni verði leitað sjónarmiða hjá breiðum hópi sveitarstjórnarfólks á höfuðborgarsvæðinu sem og stjórnum byggðasamlaganna.
Greinargerð fylgir breytingartillögunni. R20020037
Breytingartillagan er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan er samþykkt svo breytt.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Breytingartillagan gerir ráð fyrir að stjórn Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fari yfir skipulag og stjórnarhætti allra byggðasamlaganna til þess að skerpa ábyrgðarhlutverk, tryggja hagsmuni eigenda og auka skilvirkni. Í þeirri vinnu er mikilvægt að líta til þróunar góðra stjórnarhátta og rýna fengna reynslu af eigendastefnum sem settar voru 2012. Nauðsynlegt er að einfalda, aðlaga og samræma bæði stofnsamninga og eigendastefnur byggðasamlaganna að nútíma kröfum um skilvirkan rekstur og góða stjórnarhætti, þannig að pólitískt kjörnir fulltrúar geti axlað ábyrgð sem eigendur á rekstri þeirra.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja breytingartillögu þessa í því trausti að aðkoma borgarinnar að stjórnum SORPU og Strætó, verði sem næst því að vera í hlutfallslegu samræmi við eignarhlut borgarinnar. Reykjavíkurborg ber höfuð ábyrgð á SORPU. Aðkoma borgarinnar verður að endurspegla þá ábyrgð. Sjálfstæðismenn vilja sjá niðurstöðu í þessu máli fyrir vorið. Eigi síðar en 1. maí nk. Reykjavíkurborg hefur aðeins einn af sex fulltrúum í stjórn SORPU og Strætó, en fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa margsinnis bent á þá staðreynd að ekki sé hægt að sætta sig við það, ekki síst með hliðsjón af ábyrgðum borgarinnar gagnvart lántökum. Á borgarstjórnarfundi 17. september á síðasta ári samþykkti borgarstjórn að ábyrgjast lánveitingu til SORPU bs. upp á einn og hálfan milljarð króna pro rata. Með því að ábyrgjast lán SORPU var borgin að veðsetja framtíðar útsvarstekjur Reykjavíkurborgar vegna framúrkeyrslunnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust alfarið gegn þeirri ráðstöfun enda óskynsamlegt að veita veð í útsvarstekjum skattgreiðenda í Reykjavík vegna lausataka í rekstri byggðasamlagsins. Loks er vakin athygli á því að ábyrgð á skuldum B-hluta fyrirtækja borgarinnar og byggðasamlögum er komin yfir eitt hundrað milljarða króna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja því ærið tilefni til að taka upp stofnsamning byggðasamlaganna.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur að byggðasamlög í þeirri mynd sem þau eru nú, ekki vera til þess fallinn að tryggja lýðræðislega aðkomu íbúa að félögum í eigu Reykjavíkur og það er nauðsynlegt að vinna að því að tryggja aðkomu borgarbúa. Hér leggur meirihlutinn til að því verði beint til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna Sorpu bs., Strætó bs. og Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni og aðkomu sveitarfélaganna sem eigenda þeirra og ábyrgðaraðila og að skerpa hlutverk, umboð og ábyrgð stjórna byggðasamlaganna. Þar er lagt til að horft verði til inntaks stofnsamninga og inntaks og framkvæmdar eigendastefnu byggðasamlagana og segja þau mikilvægt í því verkefni að leita sjónarmiða hjá breiðum hópi sveitarstjórnarfólks á höfuðborgarsvæðinu sem og stjórnum byggðasamlaganna. Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi þess að fara yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlagana í ljósi skýrslu Innri endurskoðanda sem hér var til umræðu en telur þar nauðsynlegt að raunverulegir eigendur fái einnig þar að koma að vinnunni; íbúar borgarinnar og starfsfólk borgarinnar sem starfar hjá umræddum byggðasamlögum sem geta komið með mikilvæg sjónarmið inn í uppbyggingu þeirra mikilvægra fyrirtækja sem hér er um að ræða.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Sjálfstæðisflokksins er út af borðinu enda náði hún ekki nógu langt. Að því leyti er tillaga meirihlutans sem nú er lögð fram skárri enda meira í takt við tillögu Flokks fólksins frá í september 2019 þess efnis að „borgarstjórn samþykki að aðild borgarinnar að byggðasamlögum verði skoðað með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu borgarbúa að þeim“. Flokkur fólksins hefur ítrekað sagt allt frá upphafi kjörtímabils að byggðasamlög eins og þau starfa nú eru ólýðræðisleg og fjarlæg hinum almenna borgara. Tillaga Flokks fólksins var felld í september og Sjálfstæðisflokkur sat þá hjá. Sá hluti breytingartillögu meirihlutans sem er ásættanlegur er: „að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna til að tryggja hagsmuni eigenda þeirra“. En það sem hugnast ekki Flokki fólksins er samkrull með utanaðkomandi ráðgjöfum og Samtökum Sveitarfélaga. Flokkur fólksins getur því ekki stutt þessa tillögu meirihlutans. Flokkur fólksins telur borgarmeirihlutann of háðan Samtökum sveitarfélga á höfuðborgarsvæðinu með hin ýmsu mál. Reykjavík er sjálfstætt sveitarfélag, lang stærst og að á gæta fyrst og fremst hagsmuna borgarbúa. Ef byggðasamlag á að vera lýðræðislegt þurfa stjórnunarheimildir að vera í samræmi við ábyrgð en svo eru byggðasamlög náttúrulega ekkert lögmál.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Lagt til að fundin verði lausn á framtíðarlandsvæði fyrir Skotfélag Reykjavíkur og Skotreyn á Álfsnesi í sátt við íbúa Kjalarness og Kollafjarðar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20020038
- Kl. 17.25 tekur Katrín Atladóttir sæti á fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson víkur.
Samþykkt að vísa tillögunni frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins, Flokks fólksins og Jórunnar Pálu Jónasdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins tekur undir þær áhyggjur sem fram koma í bókun íbúaráðs Kjalarness. Mikil mengun er á þessu svæði. Í fyrsta lagi hljóðmengun sem er í og yfir heilsuspillandi mörkum þó Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mæli annað. Í annan stað öllu alvarlegri mengun sem er blýmengun við sjávarsíðuna og þá aðallega í Kollafirði. Þar er mikilvæg sjófuglabyggð og varpstöðvar fuglategunda sem eru jafnvel á válista. Það er sláandi staðreynd að Ísland er eina landið á Norðurlöndunum sem bannar ekki blý á æfingaskotvöllum. Á tyllidögum er því hampað að í Reykjavík sé öflug umhverfisstefna og sitja Vinstri grænir bæði í borgarstjórn og ríkisstjórn. Því er það kaldhæðnislegt að undir forystu þess flokks í umhverfis- og heilbrigðisráði sé verið að svæfa málið í nefndum. Því er óhjákvæmilegt annað en að æfingasvæðunum verði fundinn nýr staður þar sem sátt ríkir um þessa starfsemi. Að vísa tillögunni frá er helber aumingjaskapur og fullkominn hroki hjá meirihlutanum en lýsir viðhorfi þeirra til úthverfanna í borginni og ekki síður íbúaráðanna. Enda sagði einn borgarfulltrúi meirihlutans fyrir skömmu að það vildi enginn búa á Kjalarnesi og Geldinganesi,ekki einu sinni kindur. Frávísunartillöguna flutti fulltrúi meirihlutans í íbúaráði Kjalarness, það er athyglisvert.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sambærileg tillaga og nú er lögð fram af Miðflokknum barst frá Íbúaráði Kjalarnes 12. desember síðastliðinn og er í vinnslu hjá umhverfis- og skipulagssviði. Þar er farin af stað vinna við að rýna þær ábendingar og athugasemdir sem fram koma fram í viðkomandi skjali frá íbúum á svæðinu. Niðurstöður þeirrar vinnu og framhald málsins verða á borði umhverfis- og heilbrigðisráðs. Allar ábendingar um mengun eru teknar alvarlega og skoðaðar í kjölinn. Sambúð náttúru og íbúabyggðar við skotsvæði getur verið vandasöm og því er mikilvægt að samtal og samvinna eigi sér stað. Í ljósi þess að sambærileg tillaga er þegar í vinnslu hjá sviðinu er tillögu þessari vísað frá á vettvangi borgarstjórnar.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalistaflokksins styður efni tillögunnar. Það er jákvætt að heyra að þessi mál séu komin í farveg líkt og fram kom í umræðum frá fulltrúum meirihlutans í borgarstjórn. Í fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá því 12. desember 2019 má sjá erindi og bókun íbúaráðsins um mál tengd skotsvæði á Álfsnesi, þar sem fjallað er um að æfingasvæðunum verði fundinn nýr staður. Þar má sjá að málinu er vísað til umhverfis- og heilbrigðisráðs og skipulags- og samgönguráðs. Í fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá því 29. janúar 2020 má sjá að fjallað er um umrætt mál og því vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu skipulagsfulltrúa og fær málsnúmerið US200001. Við leit í fundargerðum Reykjavíkurborgar er ekki fjallað um málið annarsstaðar undir þessu málsnúmeri. Fulltrúi sósíalista vill vekja athygli á þessu hér af því að stundum þegar einhverju er vísað til umsagnar þýðir það ekki endilega að málefni tillögunnar sé samþykkt en slíkt á nú við samkvæmt því sem kom fram í borgarstjórn sem er jákvætt. Það væri mjög jákvætt ef það væri hægt að auka sýnileika á því hvað umsögn þýðir undir mismunandi kringumstæðum því umsögn þýðir ekki alltaf að tillaga hafi verið samþykkt.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að velferðarsviði verði falið að framkvæma úttekt á upplifun leigjenda hjá Félagsbústöðum gagnvart því hversu vel viðhalds- og viðgerðarbeiðnum hefur verið sinnt. Í samtölum við leigjendur Félagsbústaða hefur komið fram að það geti verið erfitt að fá þær beiðnir framkvæmdar, þar sem það þurfi oft að hafa mikið fyrir því að koma beiðnum í gegn. Þar dugi oft ekki að hringja og koma skilaboðum áleiðis og þar að auki er viðgerðarsíminn einungis opinn á virkum dögum á milli 13:00-15:00. Þá er einnig hægt að senda tölvupóst og hafa samband við Félagsbústaði vegna viðgerða í gegnum vefsíðu þeirra. Hér er rétt að taka fram að slík samskiptaform henta ekki öllum. Þá hafa leigjendur einnig greint frá því að samþykktar viðhalds- og viðgerðarbeiðnir hafi dragist á langinn og að þeir hafi þurft að ýta á eftir málunum. Það er því nauðsynlegt að ræða við sem flesta leigjendur Félagsbústaða sem hafa áhuga á því, til þess að kortleggja sýn þeirra á þjónustuveitingunni og hvernig megi bæta hana svo að leggja megi fram tillögur til úrbóta. Lagt er til að verkefnið verið fjármagnað af liðnum ófyrirséð og að velferðarsvið haldi utan um vinnuna og leggi síðan fram samansafn tillagna til úrbóta.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20020039
Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér lá fyrir tillaga um að bæta viðhaldsþjónustu í samvinnu við leigjendur Félagsbústaða en leigjendur hafa greint frá því að það sé erfitt að fá viðhalds- og viðgerðarbeiðnum sinnt. Þó að viðhorfskönnun hafi verið gerð í upphafi síðasta árs og stefnt sé að því að gera aðra slíka könnun, á meðal leigjenda á þessu ári, þá nær slíkt ekki til margra þátta sem þarf að vinna að. Hér er tillaga sem snýr að afmörkuðum þætti og ljóst er að þörf sé á úrbótum. Í ljósi þess er því óskiljanlegt að þessi tillaga sem fól í sér að leita eftir því að heyra meira í borgarbúum um hvernig megi bæta hlutina, sé vísað frá. Þessi tillaga var tvíþætt og fól í sér að óska eftir samtali við borgarbúa og nýta það sem kæmi þar fram til að bæta þjónustuna, með áherslu á viðhald og viðgerðarþjónustuna.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Félagsbústaðir fengu MMR til þess að framkvæma könnun meðal leigjenda fyrir rúmu ári síðan og stjórn hefur þegar ákveðið að gerð verði ný þjónustukönnun meðal leigjenda á þessu ári. Spurt er um viðhorf til símaþjónustu, viðhaldsþjónustu, staðsetningu skrifstofu, opnunartíma, heimasíðu, samráð við leigjendur og fl. Flestir voru ánægðastir með símsvörun eða tæp 60%, næst kom viðhaldsþjónusta þar sem 56% voru ánægðir eða mjög ánægðir, 13% hvorki né, og 30% óánægðir eða mjög óánægðir. Horft hefur verið til niðurstaðna og leitast við að bæta þjónustuna með skipulags- og verkferlabreytingum með það fyrir augum að mæta betur þörfum leigjenda og auka ánægju þeirra með þjónustuna og húsnæði sitt.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins hefur margítrekað að Félagsbústaðir haldi betur utan um leigjendahópinn. Það er áríðandi að reyna að ná til leigjenda, þeir hafa reynt að ná eyrum yfirstjórnar en ekki gengið nógu vel. Leigjendur hafa leitað m.a. til Flokks fólksins og beðið um aðstoð að ná til yfirstjórnar Félagsbústaða. Það segir sig sjálft þegar svo er komið þá er eitthvað ekki að virka. Ákall um hlustun er vegna ólíkra þátta, verið er að láta vita af vandamáli með húsnæði eins og myglu og leka. Dæmi eru um að fólk sé orðið fársjúkt og jafnvel enn ekki búið að leysa málið. Dæmi er líka um að ýmis erfið tilvik komi upp t.d. í stigagöngum sem leigjendur sjálfir geta ekki leyst utan opnunartíma skrifstofu. Flokkur fólksins hefur verið með ýmsar tillögur til að vekja stjórn Félagsbústaða til vitundar um þessi mál. Lagt hefur t.d. verið til að símatímum verði fjölgað í tvisvar á dag, milli kl. 11 og 12 og 15 til 16. Einnig að neyðarnúmer sé fyrir viðhaldsþjónustu utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu. Flokkur fólksins hefur lagt til að sett verði á laggirnar teymi til að taka á óvæntum tilvikum/tilfellum sem upp koma utan opnunartíma, eitthvað sem ekki getur beðið. Margt hefur sem sagt verið reynt.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Tillaga Flokks fólksins um að fjölga stöðugildum jafningjafræðara um tvö stöðugildi, að fræðslan nái til fleiri sviða og skoðað verði hvort betur henti að ráða yngri þjálfara sem hefðu það hlutverk að miðla/þjálfa tómstundum/leikjum og list. Fræðarar eru nú 11 og fræða ungmenni um það sem endurspeglar unglinga- og ungmennamenningu hvers tíma. Nú anna fræðarar ekki eftirspurn og skortur er á fræðurum yfir vetrartímann. Markmiðið með fjölgun er að Jafningjafræðslan geti unnið meira í samræmi við reglur um Jafningjafræðslu sem er „að starfa allt árið um kring og heimsækja félagsmiðstöðvar, grunn-, framhalds- og vinnuskóla og fræðslan snúi að margvíslegum málefnum og hópeflisleikjum“ Flokkur fólksins leggur jafnframt til að aldursbil „fræðara“ færist neðar og kallist þeir þá jafningjaþjálfarar. Þjálfun yngri jafningjaþjálfara er annars eðlis en fræðara Jafningjafræðslunnar enda um að ræða önnur svið. Þeirra hlutverk væri aðeins að þjálfa/miðla svo sem í tómstundum, leikjum, (spila á spil, hljóðfæri, syngja), leiklist, hönnun, saumi, teiknun, málun, leirun, dansi (Street-dans, Fortnite, Zumba, Hiphop), jóga, skapandi hreyfingu eða annað sem barn telur sig hafa færni í og langar til að miðla. Þjálfun gæti t.d. átt heima í félagsmiðstöðvum og skóla- of frísundastarfi/tómstundastarfi grunnskólanna. Ávallt skal þess þó gætt að því að ungmenni verði aldrei sett í aðstæður sem þau ráða ekki við.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20020040
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er vissulega alltaf tregafullt þegar góðri tillögu sem hefur verið vandleg undirbúin er kastað á glæ. Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst þessi afgreiðsla meirihlutans bera vott um þröngsýni og ótta að færa út kvíar í þessum málaflokki. Ein ástæðan fyrir tillögunni er að Jafningjafræðslan getur ekki sinnt sínu hlutverki samkvæmt reglum um Jafningjafræðslu. Fræðarar eru nú 11 og fræða ungmenni um það sem endurspeglar unglinga- og ungmennamenningu hvers tíma. Nú anna fræðarar ekki eftirspurn og skortur er á fræðurum yfir vetrartímann. Markmiðið með fjölgun er að Jafningjafræðslan geti unnið meira í samræmi við reglur um Jafningjafræðslu sem er „að starfa allt árið um kring og heimsækja félagsmiðstöðvar, grunn-, framhalds- og vinnuskóla og fræðslan snúi að margvíslegum málefnum og hópeflisleikjum“ Samkvæmt upplýsingum frá fjármálastjóra eru laun og launakostnaður vegna 1 stöðugildis 375 þúsund krónur á mánuði. Þennan kostnað mætti taka af liðnum ófyrirséðu. Hér væri hægt um vik, alla vega hefði verið alveg óhætt að vísa tillögunni til íþrótta- og tómstundasviðs til að moða úr. Tillagan gekk einnig út á að skoða hvort hægt er að virkja eldri grunnskólanema til að miðla tómstundum/leikjum, listum og verklegum greinum. Það er ekkert nýtt að ungt fólk er móttækilegt fyrir boðskap frá þeim sem eru á svipuðu aldursbili og það sjálft.
6. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti sem varamaður í fjölmenningarráði í stað Alexander Witold Bogdanski. R18060104
Samþykkt.
7. Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í íbúaráði Breiðholts í stað Egils Þórs Jónssonar
Samþykkt. R19090034
8. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 23. og 30. janúar. R20010001
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðarinnar frá 30. janúar:
Staða kjaraviðræðna Eflingar og borgarinnar er viðkvæm en mikilvægt er að sú samstaða haldi sem Lífskjarasamningarnir staðfestu síðasta vor. Samningarnir voru undirritaðir af allri verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnulífsins. Auk þess var í Lífskjarasamningnum sérstök yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um tekjuskatt, fæðingarorlof, barnabætur, húsnæðismál, lífeyrismál, félagsleg undirboð, hagstjórn, verðlag og verðtryggingu ásamt einföldun regluverks og eftirlits. Þá hefur Lífskjarasamningurinn þau skýru ákvæði að lægstu laun hækki umfram önnur laun. Tilboð borgarinnar í öllum viðræðum hafa endurspeglað áherslur Lífskjarasamningana enda hafa öll verkalýðsfélög landsins sem lokið hafa samningum, samið á grunni þeirra, bæði við undirritun og í þeirri samningalotu sem nú stendur yfir.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar frá 23. janúar og 28. lið fundargerðar frá 30. janúar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks benda á að ekki hefur verið staðið við ákvörðun borgarstjórnar um aukna tíðni strætó á helstu leiðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa því lagt fram tillögu þess efnis að staðið verði við þá ákvörðun að auka tíðnina þannig að strætó gangi á 7,5 mínútna fresti. Þessi tillaga okkar hefur nú verið send til umsagnar Strætó eins og embættisafgreiðslur í borgarráði bera með sér. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á mörgum sviðum í þessu máli enda er Strætó í meirihlutaeigu borgarinnar.
Í stjórnsýsluúttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar segir að eigendahópur hafi reynst lítt virkur en þar er jafnframt bent á að „handahafar eigendavalds hafa ítarlegra hlutverki að gegna en í almennu hlutfélagaformi,“ eins og segir á bls. 5 í úttektinni. Þá segir á bls. 6 að „stýrihópur eigenda var með skilgreint hlutverk samkvæmt eigendasamkomulagi um að hafa umsjón með framkvæmd og framvindu þeirra ákvæða 1. greinar og skyldi vinna náið með SORPU ásamt hönnuðum og ráðgjöfum sem koma skyldu að framkvæmd verkefnanna. Aðeins voru haldnir þrír fundir þrátt fyrir fyrirætlanir um annað. Ekki verður séð að stýrihópur eigenda hafi rækt það hlutverk sitt að hafa umsjón með framkvæmd og framvindu ákvæða í eigendasamkomulagi er varða meðhöndlun úrgangs í Álfsnesi og gas- og jarðgerðarstöðvar.“ Það er því ljóst að margt hefur brugðist í þessu máli.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Innri endurskoðun er þakkað fyrir skýrsluna um framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöð. Fulltrúar í stjórn SORPU hafa lagt fram og rætt skýrsluna í nær öllum bæjarráðum og borgarráði þeirra sveitarfélaga sem eiga byggðasamlagið SORPU. Mikilvægt er að næstu skref einkennist af metnaði fyrir byggðasamlagið með því að ljúka framkvæmdum og hefja rekstur gas- og jarðgerðarstöðvarinnar til þess að geta flokkað lífrænan úrgang af miklu umfangi á sem umhverfisvænastan hátt. Jafnframt þarf að taka markviss skref til að vinna til baka traust á fyrirtækinu, meðal annars með aðgerðaráætlun frá stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hinsvegar með umbótaáætlun frá stjórn SORPU byggða á tillögum sem finna má í skýrslu innri endurskoðunar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar koma fram margvíslegir misbrestir á eftirliti og upplýsingagjöf. Ljóst er að núverandi stjórnsýsla brást og er mikilvægt að gerðar verði breytingar á núverandi fyrirkomulagi eins og samþykkt hefur verið af borgarstjórn í dag. Sú viðleitni aðila máls að benda hver á annan eykur ekki traust á stjórnarháttum, en ljóst er af skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar að fjölmargir aðilar brugðust.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 23. janúar:
Enn vindur rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa upp á sig á neikvæðan hátt og ljóst að því máli er hvergi nærri lokið. Borgarstjóri sagði á borgarstjórnarfundi fyrir nokkrum misserum að útboðið snérist um „nokkra ljósahausa“ sem þyrfti að endurnýja en síðar kom í ljós að útboðið var rúmar 500 milljónir. Í kjölfar kæru sem barst úrskurðarnefnd útboðsmála vegna útboðsins dró Reykjavíkurborg útboðið til baka. Í fundargerð innkauparáðs er lagt fram bréf lögmanns þar sem þess er krafist að innkauparáð endurskoði þá afstöðu sína. Þeirri kröfu var hafnað. Forvitnilegt er að vita hvort Reykjavíkurborg sé búin að svara kærunni. Óskað er eftir að borgarráð fái öll gögn sem Reykjavíkurborg hefur látið kærunefnd útboðsmála í té vegna kæru um stýribúnað umferðarljósa og skal ekkert undanskilið. Eftirfarandi spurningar bíða svara: 1. Er Reykjavíkurborg búin að svara kæru sem er til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála um rammasamning um stýribúnað umferðarljósa? 2. Er það virkilega svo að sama fyrirtæki hafi verið í viðskiptum við Reykjavíkurborg á þessu tiltekna sviði allt frá árinu 1979 eins og fram kemur í fundargögnum innkauparáðs? 3. Hvaða fyrirtæki hafa þjónustað Reykjavíkurborg í ljósastýringum frá árinu 1979? 4. Hvað hefur Reykjavík farið í mörg útboð á ljósastýringarbúnaði frá árinu 2000?
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7., 9. og 14. lið fundargerð borgarráðs frá 30. janúar:
Flokkur fólksins óskaði eftir að umræða um áhrif og afleiðingar verkfalls ef úr verður yrði tekin á dagskrá borgarstjórnar en því var synjað. Samninganefnd starfar í umboði borgarstjóra. Sem fulltrúi í velferðarráði vill borgarfulltrúi bóka um hvernig landslagið verður hjá þeim sem þiggja þjónustu velferðarsviðs komi til verkfalls. Um 700 starfsmenn í 450 stöðugildum leggja niður störf á velferðarsviði í næstu viku komi til verkfalls. Annars vegar hálfan dag og hins vegar í sólarhring. Í vikunni þar á eftir eru það annars vegar tveir sólarhringar og hins vegar hálfur dagur. Um 2000 notendur munu fá skerta þjónustu. Verkfallið nær til félagslegrar heimaþjónustu og öryggis innlits, gistiskýla, heimili fyrir tvígreinda einstaklinga, hjúkrunarheimilin, búsetu fyrir geðfatlaða og félagsmiðstöðvar. Tillögu Flokks fólksins um að borgin komi upp aðstöðu þar sem húsgögn og húsbúnaður fæst gefins hefur verið felld með þeim rökum að ekki sé þörf á slíkri aðstöðu og sé hætta á að ef ný verði sett á laggirnar þá ógni það þeim sem fyrir eru. Flokkur fólksins undrast úrtölur skrifstofu umhverfisgæða Þessu er auk þess mótmælt enda talið að nákvæmlega svona aðstaða sé einmitt ekki til. Sú aðstaða sem er til selur húsgögn og húsbúnað gegn vægu gjaldi. Þessi gengur hins vegar út á að fá húsgögn gefins.
9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 31. janúar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 23. janúar , menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. og 27. janúar, skipulags- og samgönguráðs frá 29. janúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 22. janúar. R20010285
2. liður fundargerðar forsætisnefndar, lausnarbeiðni Alexanders Witold Bogdanski er samþykktur. R20010362
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:
Flokkur fólksins hefur lagt fram eftirfarandi tillögur er varða dýrahald í borginni og þar með hunda. Tillögurnar eru að: aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda verði endurskoðað, vísað frá; rýmri reglur fyrir gæludýr verði í strætisvögnum, vísað frá; heimilt verði að halda hunda- og kattasýningar í íþróttamannvirkjum, vísað frá; hundagjald öryrkja og eldri borgarara verði fellt niður, vísað frá; innheimta hundagjald fari í uppbyggingu á hundasvæðinu á Geirsnefi, vísað frá; innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirliti hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, felld. Fram hefur komið að þeim hefur verið vísað til stýrihóps um málaflokksins utan einnar þótt það komi ekki fram í fundargerð. Þess er vænst að þær fái faglega meðhöndun stýrihópsins og haft verði þétt samráð við hagsmunaaðila. Best hefði verð ef aðili frá hagsmunasamtökum hefði átt sæti í hópnum. Meðal hundaeigenda í borginni er gríðarlega óánægja og vantraust til hundaeftirlits. Verkefnum þeirra hefur snarfækkað vegna samfélagsmiðla og er hvorki fugl né fiskur frá því áður var. Engu að síður er þessi hópur krafinn um gjald sem síðan er sagt að skuli þjónusta alla. Þessu þarf m.a. að breyta.
Fundi slitið kl. 20:37
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Pawel Bartoszek
Hjálmar Sveinsson Sanna Magdalena Mörtudóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 4.2.2020 - Prentvæn útgáfa