Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 4. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar sem beint var til borgarstjórnar á fundi nefndarinnar 31. janúar 2014:
Í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er ákvæði í 11. gr. um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þar kemur m.a. fram að í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri skal fjöldi fulltrúa vera 23-31. Samkvæmt samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar nr. 715/2013 er borgarstjórn Reykjavíkur skipuð 15 borgarfulltrúum. Í fyrsta ákvæði til bráðabirgða í sveitarstjórnarlögunum kemur fram að ekki er skylt að breyta fulltrúafjölda í sveitarstjórn fyrr en við aðrar almennar kosningar til sveitarstjórna frá gildistöku laganna.
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fjöldi borgarfulltrúa haldist óbreyttur, verði 15 borgarfulltrúar á næsta kjörtímabili í samræmi við áðurgreint ákvæði til bráðabirgða, við sveitarstjórnarkosningar sem fram fara þann 31. maí nk.
Samþykkt samhljóða með 15 atkvæðum.
2. Fram fer umræða um framtíðarsýn og samþætta hverfaþjónustu og hlutverk hverfisráða í Reykjavík.
3. Fram fer umræða um aukið gagnsæi í fjármálum Reykjavíkurborgar í þágu borgarbúa.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins átelja það sleifarlag sem meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur ástundað í því skyni að tefja eða koma í veg fyrir að tillögur Sjálfstæðisflokksins um aukið gagnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar komist til framkvæmdar. Nefna má tillögu sjálfstæðismanna sem borgarstjórn samþykkti einróma 2. október 2012 um að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi tiltækar með rafrænum hætti á netinu. Borgarstjórn fól borgarráði að skipa starfshóp til að vinna að málinu og skila tillögum um hvernig staðið yrði að verkefninu fyrir 15. mars 2013. Borgarráð hefur ekki enn skipað slíkan hóp þrátt fyrir að ítrekað hafi verið minnt á umrædda samþykkt. Er hér með skorað á borgarstjóra og formann borgarráðs að bæta vinnubrögðin í þessu máli og sjá til þess að umræddur hópur verði skipaður á næsta fundi ráðsins. Þá er einnig gerð alvarleg athugasemd við það að tillaga sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu 6. nóvember 2011 og var vísað til borgarráðs hefur ekki heldur komist til framkvæmdar. Í tillögunni var kveðið á um að gagnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar yrði aukið með því að birta gögn sem formlega eru lögð fram á fundum nefnda og ráða borgarinnar á netinu ásamt fundargerðum og gera þau þannig aðgengileg almenningi. Samkvæmt tillögunni var skrifstofu borgarstjórnar falið að semja tillögu að reglum, sem tryggi að slík birting gagna byggist á málefnalegum forsendum í samræmi við stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um persónuvernd.
4. Fram fer umræða um lóðamál.
- Kl. 16.50 víkur Oddný Sturludóttir af fundi og Stefán Benediktsson tekur þar sæti.
5. Fram fer umræða um hlutverk Reykjavíkur í björgunarstarfi.
- Kl. 16.56 víkur Sóley Tómasdóttir af fundi og Þorleifur Gunnlaugsson tekur þar sæti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi ályktunartillögu:
Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar þeim árangri sem Landhelgisgæslan hefur náð á undanförnum árum við að efla samstarf sitt við björgunaraðila erlendra vinaþjóða. Dönsk varðskip sem hafa margoft tekið þátt í björgunaraðgerðum hér við land hafa t.d. reglulega viðkomu í Reykjavík og taka þá þátt í björgunaræfingum með Landhelgisgæslunni. Einn afrakstur umrædds samstarfs var Reykvíkingum vel sýnilegur um liðna helgi þegar finnskar björgunarþyrlur tóku þátt í umfangsmikilli aðgerð á Faxaflóa þar sem leitað var að íslenskum sjómönnum er taldir voru í sjávarháska. Borgarstjórn býður slíka aðila velkomna til Reykjavíkur og fagnar áformum um aukið björgunarsamstarf vinaþjóða við norðanvert Atlantshaf.
Samþykkt með 15 atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá.
Samþykkt með 10 atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.
6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 23. janúar 2014.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. janúar 2014.
- 24. liður fundargerðarinnar; Orkuveita Reykjavíkur, endurfjármögnun á skuldabréfaflokki, samþykktur með 14 atkvæðum.
- 22. liður fundargerðarinnar; Sorpa bs., samningur við Endurvinnsluna, samþykktur með 9 atkvæðum.
8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 31. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. og 24. janúar, mannréttindaráðs frá 14. og 28. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 27. janúar og umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. og 29. janúar.
Fundi slitið kl. 18.39
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Eva Einarsdóttir Áslaug Friðriksdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 4.2.2014 - prentvæn útgáfa