Borgarstjórn - 4.10.2022

Borgarstjórn

Borgarstjórn

Ár 2022, þriðjudaginn 4. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um húsnæðismál í Reykjavík. MSS22100015

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Eitt mikilvægasta verkefni borgarinnar í húsnæðismálum er að tryggja að uppbygging strandi ekki á Reykjavík, hvorki í skipulagi né byggingarlandi. Á hvorugu hefur strandað á undanförnum árum. Borgin hefur lagt mikinn kraft í að deiliskipuleggja ný uppbyggingarsvæði sem hefur skilað sér í metárum í uppbyggingu íbúða ár eftir ár. Þá eru teikn á lofti um að meiri stöðugleiki á fasteignamarkaði sé framundan. Þá mun rammasamningur um húsnæðismál við sveitarfélögin vera mikilvægt verkfæri til að sjá fram í tímann hjá öllum sveitarfélögum. Samningurinn kveður á um að íbúðum fjölgi um 20.000 á næstu fimm árum en 35.000 á næstu tíu árum á landinu öllu. Reykjavík mun taka fullan þátt í því og skila sínum markmiðum til þess að skapa hér heilbrigðan húsnæðismarkað til framtíðar.

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Neyðarástand ríkir á húsnæðismarkaði í Reykjavík. Húsnæðisskortur er mikill þar sem íbúðauppbygging í Reykjavík hefur að mestu takmarkast við dýr og þröng þéttingarsvæði. Íbúðir á þéttingarsvæðum eru dýrar og varla á færi fólks með meðaltekjur, hvað þá efnalítils fólks. Húsnæðisstefna Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar hefur verið allsráðandi í Reykjavík frá því um aldamót. Á þessum tíma hafa stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði verið knúnar fram með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, auknu flækjustigi, hækkun gjalda og álagningu nýrra, t.d. hárra innviðagjalda. Auk þess að stórhækka húsnæðisverð hefur þessi stefna gefið fjársterkum aðilum kost á að sanka að sér byggingarlóðum og selja þar íbúðir til almennings á uppsprengdu verði. Þessi stefna felur því í sér þjónkun við fjársterka verktaka og stórfyrirtæki, sem hafa hagnast um tugi ef ekki hundruð milljarða króna vegna húsnæðisstefnu vinstri flokkanna. Besta leiðin til að bregðast við umræddu neyðarástandi er að leggja áherslu á úthlutun lóða víðar en á þéttingarreitum þar sem uppbygging er seinleg og kostnaðarsöm. Nefna má Úlfarsárdal, Keldnaland og Kjalarnes sem dæmi um svæði, þar sem hægt væri að úthluta þúsundum lóða í náinni framtíð. Um leið þarf að hugsa lengra fram í tímann og hefja skipulagningu íbúðarsvæðis á Geldinganesi til lengri framtíðar.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er þörf á félagslegum lausnum til að leysa húsnæðiskreppuna sem hrjáir íbúa Reykjavíkur. Vandamálið er að gróðavæddur húsnæðismarkaður mun aldrei mæta þörfum allra, og það mun ekki leysa vandann að einfaldlega byggja meira. Á þeim forsendum eru alltaf stórir hópar skildir eftir, fastir á milli lágra tekna og hás húsnæðiskostnaðar. Stjórnvöld eiga ekki að byggja til að þjóna markaðnum, heldur þörfum fólksins. Það þarf að auka stórlega hlutfall óhagnaðardrifins húsnæðis í nýbyggingu í borginni. Nýjustu tölur frá Reykjavíkurborg sýna fram á að 979 manns eru á biðlista eftir húsnæði. 660 bíða eftir almennu húsnæði og þar af eru 146 barnafjölskyldur, í borg sem segist hafa hagsmuni barna að leiðarljósi. 135 bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, 123 bíða eftir þjónustuíbúð og 61 manneskja bíður eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur uppbygging í Reykjavík í stað samkvæmt nýjustu talningu. Önnur sveitarfélög eins og Hafnarfjörður standa sig betur. Í Reykjavík hefur verið alvarlegur skortur á alls konar húsnæði mjög lengi. Meirihlutinn hefur legið á lóðum eins og ormur á gulli og er hér verið að tala um lóðir til einstaklinga og smærri hópa (fjölskyldur sem taka sig saman). Húsnæðisskorturinn í Reykjavík hefur haft sín áhrif á hækkandi verðbólgu. Kosningaloforðin eru alltaf þau sömu, endurspilun að nú skuli byggja sem aldrei fyrr. Hverjum hefði órað fyrir því þegar gengið var til kosninga 2018 að staðan væri svona núna. Mörg hundruð manns og fjölskyldur bíða eftir fjölbreyttu húsnæði, félagslegu, sértæku, námsmannaíbúðum og íbúðum fyrir öryrkja og aldraða. Tugir manna eru heimilislausir. Efnaminna og fátækt fólk er á vergangi og þarf sífellt að vera að færa sig um set. Foreldrar sem eru á leigumarkaði þvælast frá einu húsnæði í annað með börn sín. Dæmi eru um að börn frá efnaminni heimilum hafi gengið í allt að fimm grunnskóla áður en þau brautskrást. Vart þarf að fjölyrða um hin neikvæðu áhrif sem tíðir flutningar hafa á andlega og félagslega líðan barnanna sem um ræðir.

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hafist verði handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi, með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar. Sérstök áhersla verði lögð á að fyrirhuguð Sundabraut falli vel að byggð í Geldinganesi og þjóni akandi, gangandi og hjólandi vegfarendum. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að leggja fram viðeigandi tillögur að breytingu á aðalskipulagi vegna málsins og annast aðra skipulagsvinnu eftir því sem þörf krefur.

Tillagan er felld með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22100020

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar sýnir af sér skort á fyrirhyggju og framtíðarsýn með því að fella tillögu um að hafist verði handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar. Mikilvægt er að slíkt íbúðasvæði sé skipulagt samhliða hönnun Sundabrautar, sem stendur nú yfir eftir því sem næst verður komist. Því er rétt að nýta tækifærið til að skipuleggja Geldinganes í heild, af metnaði og fyrirhyggju í senn. Ef ekki liggur fyrir skýr yfirlýsing borgarstjórnar um að ætlunin sé að taka Geldinganes til íbúabyggðar blasir við að Sundabraut verði í forgangi en framtíðarskipulag mæti afgangi. Því er nauðsynlegt að þetta stóra umferðarmannvirki verði hannað samhliða skipulagningu íbúabyggðar í Geldinganesi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki er hægt að útiloka að einn daginn rísi byggð í Geldinganesi. Það er hinsvegar ekki á langtímaáætlunum borgarinnar þar sem framkvæmdasvæði, skipulagssvæði og þróunarsvæði taka mið af þéttingu byggðar frekar en dreifingu. Þétting byggðar er ekki bara praktísk heldur afar mikilvæg í loftslagsmálum enda hefur verið sýnt fram á það að ný hverfi í jaðri byggðar auki til muna vegalengdir, fjölgi bílum og bílferðum og er því ekki í samræmi við nein markmið borgarinnar í samgöngumálum, loftslagsmálum eða skipulagsmálum og framtíðarsýn. Í samstarfssáttmála meirihlutans er í forgangi að byggja upp ný hverfi í Keldnalandi og Úlfarsárdal og það er mat meirihlutans að þeim svæðum eigi að forgangsraða framar í skipulagsferli en Geldinganes. Í því ljósi er tillagan felld.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu. Ekki er seinna vænna að hefjast handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi, með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar. Sérstaklega er mikilvægt að Sundabraut verði hluti af gatnakerfi borgarinnar og að engir vegtollar verði innan borgarinnar. Öll uppbygging hefur gengið hægt. Kerfið er svifaseint og hafa fjölmargir verktakar farið annað. Rafrænir ferlar eru ekki tiltækir þegar sótt er um byggingarleyfi þrátt fyrir að milljarðar hafi farið til stafrænna umbreytinga þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Núverandi meirihluti er pikkfastur í þéttingu byggðar. Aðrir kostir eru vart ræddir. Þrengt hefur verið svo mikið að fólki að gónt er inn í næstu íbúð. Flokkur fólksins styður þéttingu byggðar upp að skynsamlegu marki en ekki þegar hún er farin að taka á sig mynd trúarlegrar sannfæringar. Það dugar skammt að karpa um hvort byggt sé mikið eða lítið. Vandinn er að það er ekki byggt nóg. Það er skortur á hagkvæmum íbúðum fyrir fyrstu kaupendur, fyrir efnaminna fólk og fyrir venjulegt fólk. Flokkur fólksins vill þétta byggð þar sem innviðir þola þéttingu og brjóta nýtt land undir byggð fyrir hagkvæmar íbúðir t.d. í suðurhlíðum Úlfarsfells og svæðinu austur af Úlfarsárdal. Kjalarnes kemst í alfaraleið með Sundabraut sem og Geldinganes.

  1. Fram fer umræða um stöðu skóla- og íþróttamála í Vesturbæ. MSS22100016
  • Kl. 17:10 víkur Andrea Jóhanna Helgadóttir af fundinum og Ásta Þórdís Skjalddal tekur sæti.
  • Kl. 18:15 er hlé gert á fundinum.
  • Kl. 18:40 er fundi fram haldið, þá hefur Skúli Helgason vikið af fundinum og Ellen Jacqueline Calmon tekur sæti.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Skólahúsnæði í borginni er víða komið að þolmörkum vegna vanrækslu á viðhaldi. Loka hefur þurft leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum þar sem upp hafa komið rakaskemmdir vegna langvarandi viðhaldsleysis. Staðan í Vesturbænum er sérstaklega slæm en loka hefur þurft Hagaskóla vegna myglu og kennslan verið færð á fjóra staði. Í haust hófst kennsla skólans í bráðabirgðahúsnæði við Ármúla og ekki liðu margar vikur uns í ljós kom að húsnæðið stóðst ekki brunavarnakröfur og gleymst hafði að leggja breytingar fyrir byggingarfulltrúa til að tryggja þær. Enn og aftur raskaðist skólastarf Hagaskóla og kennslan fer nú fram á þremur stöðum, allt frá Vesturbæ að Grafarvogi. Hagaskóli er ekki einangrað tilfelli þegar kemur að viðhaldsleysi skólahúsnæðis. Til margra ára hefur ítrekað verið bent á að bregðast þurfi við langvarandi viðhaldsleysi Melaskóla. Skólinn er löngu sprunginn enda mikil nemendafjölgun í hverfinu og hefur verið bent á að byggja þurfi við skólann til að mæta henni. Leikskólar hverfisins fara heldur ekki varhluta af vanrækslu og viðhaldsleysi. Nú síðast þurfti að loka Grandaborg þegar mygla kom upp í nýuppgerðum leikskólanum. Það er tímabært að borgaryfirvöld geri sér grein fyrir að ábyrgðin liggur hjá þeim, rask á skólastarfi bitnar á nemendum og starfsfólki og kostnaðurinn lendir á borgarbúum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Skóla og íþróttastarf er almennt faglegt og gott í Vesturbænum. Unnið er eftir metnaðarfullri menntastefnu og frístundastefnu. Öll frístundaheimili og félagsmiðstöðvar í Vesturbæ eru réttindavottuð af UNICEF eins og skólarnir. KR er með fjölbreytt starf fyrir börn og unglinga. Samkomulag er um byggingu nýs fjölnota knatthúss á svæði KR sem mun stórbæta íþróttaaðstöðu í hverfinu. Í Hagaskóla er unnið að framkvæmdum sem munu bæta húsnæðisaðstæður til muna og stækka skólann um tæplega helming. Melaskóli er sömuleiðis ofarlega í forgangi um viðbyggingar við skóla. Það er alveg rétt að fjármagni í viðhald var of naumt skammtað eftir hrun og fram til síðustu ára en síðan hefur það aukist til muna sérstaklega sl. haust eftir allsherjar úttekt á öllu skólahúsnæði borgarinnar. Þá var samþykkt að setja 25-30 milljarða í viðhald skólahúsnæðis næstu 5-7 árin. Starfsfólk okkar í Hagaskóla og Grandaborg tekst nú á við mikið rask vegna húsnæðismála eins og víðar í borginni. Þau hafa sýnt mikinn styrk og aðlögunarhæfni og rétt eins og bæði börn og foreldrar þeirra aðdáunarverða þolinmæði við krefjandi aðstæður. Fyrir það ber að þakka um leið og borgaryfirvöld einsetja sér að leysa hratt og vel úr þeim málum sem upp koma í samræmi við samþykkta ferla borgarinnar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Mygla hefur greinst í á öðrum tug leik- og grunnskóla í Reykjavík. Hagaskóli og Grandaborg í Vesturbæ hafa verið í umræðunni. Það líður varla sú vika að fréttir berist ekki af því að fella þurfi niður kennslu vegna vandamála ýmist með húsnæði, myglu, raka, ófullnægjandi brunavarnir nú eða vegna manneklu. Rekja má þessi ósköp til áralangrar vanrækslu á viðhaldi að mati Flokks fólksins. Í grunninn lúta áhyggjur foreldra að röskun á skólastarfi. Foreldrar hafa reynt að ná eyrum borgaryfirvalda í nokkurn tíma. Þeir hafa sýnt mikla þolinmæði en það er komið að þolmörkum. Skólayfirvöld og starfsfólk í öllum þessum skólum sem vandi hefur komið upp hefur staðið sig frábærlega í ólíðandi aðstæðum. Fréttir hafa borist um að þriðjungur starfsfólks á leikskólanum Grandaborg finni fyrir einkennum myglu og sex eru frá vinnu vegna veikinda. Staðan er þessi þrátt fyrir að húsnæðið hafi verið tekið í gegn og mygluhreinsað í sumar. Skerða hefur þurft starfsemi verulega og hafa foreldrar þurft að vera heima með börn sín einn dag í viku. Þrátt fyrir framkvæmdir og hreinsun fannst mygla í vor og fólk veiktist. Flokkur fólksins spyr af hverju ná aðgerðir ekki utan um þennan vanda.

  1. Fram fer umræða um Strætó bs. og almenningssamgöngur sem lögbundna grunnþjónustu. MSS22100017

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er mikilvægt að skilgreina strætó sem grunnþjónustu. Borgarstjórn á að taka skýra afstöðu með því og biðla til Alþingis að festa strætó í lög, skilgreina þjónustustig og lykilleiðir um land allt og tíðni ferða. Almenningssamgöngur eru grundvöllur þess að nútímasamfélag gangi liðlega. Þær minnka álag á umferðarkerfið, draga úr útblæstri, styðja ferðafrelsi fólks og tengja íbúa við störf, þjónustu og afþreyingu. Það er kominn tími til að festa rekstur og þjónustu strætó í lög.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er aðkallandi verkefni til næstu ára að lenda því hvernig staðið verður að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Í því samhengi þarf að skoða alla möguleika og tryggja að þetta mikilvæga verkefni sé nægilega vel fjármagnað.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

Sósíalistar telja nauðsynlegt að skilgreina strætó sem lögbundna grunnþjónustu, hér er um mikilvæga almannaþjónustu að ræða.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Strætó er á barmi gjaldþrots. Hvernig á fólk að komast leiðar sinnar? Þetta eru einu almennings samgöngurnar. Er ekki bara best að fá sér bíl kunna margir að segja sem treystu á strætó. Þetta er hvatning til þess því það er skárra að finna sér ódýran bíl en að treysta á strætó, sem er bæði óhagkvæmur og dýr. Á síðasta kjörtímabili lagði meirihlutinn í borgarstjórn allt kapp á að hindra bílaumferð inn á ákveðin svæði í borginni. Fólk var hvatt til að hjóla eða taka Strætó. En Strætó þarf þá að virka og fólk að hafa ráð á að taka sér far. Tíðni strætóferða skiptir miklu máli en ekki síður kostnaður hvers fargjalds. Árskort hafa hækkað svo um munar. Í raun er engin leið að ferðast hagkvæmt með strætó. Hvað varð um loforð Framsóknar um frítt í strætó? Almenningssamgöngur eru í lamasessi og talar meirihlutinn um borgarlínu sem allir vita að mun seinka. Flokkur fólksins telur að finna þurfi annað kerfi fyrir Strætó en byggðasamlag. Við rekstur almenningssamgangna á þetta kerfi illa við. Stjórn Strætó situr í lokuðu herbergi og tekur ákvörðun ýmist um að draga úr þjónustu eða hækka fargjöld. Engin stefna, lítil aðkoma eigenda og engin aðkoma minnihlutafulltrúa.

  1. Fram fer umræða um hækkun fargjalda Strætó bs. MSS22100022

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á sama tíma og borgaryfirvöld hvetja til meiri notkunar almenningssamgangna hækka þau fargjöld Strætó gífurlega. Gjaldskrá á árskortum ungmenna hefur hækkað um 60% án þess að sú hækkun hafi verið rökstudd. Það skýtur óneitanlega skökku við að þegar börn undir 12 ára aldri fá frítt í strætó þá mæta unglingarnir umtalsverðri hækkun. Ljóst er að þær hækkanir sem hafa orðið á fargjöldum eru ekki fallnar til þess að fjölga notendum strætó.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Rekstur Strætó hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum síðustu ár, sérstaklega var tapið mikið vegna heimsfaraldurs og reyndist nauðsynlegt að nota sjóði sem áttu að fara í að endurnýja vagnakost og fara í orkuskipti til þess að halda sjó í faraldrinum og því hefur mikil hækkun olíuverðs vegna stríðsátaka mikil áhrif á reksturinn. Ríkið ætlar ekki að bæta Strætó það tap sem varð nema að mjög litlu leyti og því fellur það í hlut sveitarfélaga að gera það sem þau geta, en ljóst var að þau gætu ekki brúað bilið einhliða, því þurfti Strætó að velja milli þess að hækka gjaldskrá eða skerða þjónustu verulega, og varð það úr að hækka gjaldskrá. Til framtíðar er mikilvægt að ljúka umræðum um rekstur Strætó og borgarlínu og lenda þeim þannig að tryggt sé að vel sé að því verkefni staðið, enda eru öflugar almenningssamgöngur gífurlega mikilvægt verkefni til að draga úr umferð, kolefnislosun og svifryki.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Rekstur Strætó hefur verið í járnum að undanförnu. Félagið tapaði 600 milljónum fyrstu sex mánuði ársins og áætlanir gera ráð fyrir að tapið geti numið einum milljarði á þessu ári. Stakt fargjald hækkaði 1. október. Árskort fyrir ungmenni í strætó hækka verulega eða úr 25.000 kr. í 40.000 kr. og nemur hækkunin um 60%. Með þessari hækkun er verið að fara þvert gegn loforði meirihlutans um ókeypis fyrir grunnskólabörn í strætó? Þessi gjaldskrárhækkun mun hafa mest áhrif á börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður. Þetta samræmist ekki hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu og er í hróplegri andstöðu við betri borg fyrir börn. Strætó bs. er á barmi gjaldþrots. Strætó er byggðasamlag sex sveitarfélaga. Þess er beðið að sveitarfélögin sem standa að baki nái samstöðu um hvernig staðið skuli að málum. Þau þurfa að veita meira fjármagni í Strætó til að hægt sé að halda úti viðunandi almenningssamgöngum. Óvissan er alger. Flokkur fólksins hefur efasemdir um að byggðasamlags kerfið sé hentugt kerfi fyrir rekstur eins og Strætó. Reykjavik er stærsti eigandinn en ákvarðanavaldið er ekki samkvæmt því. Ennþá er engin stefna til fyrir byggðasamlag Strætó.

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Borgarstjórn samþykkir að skora á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að tekið verði upp þak á húsaleiguverð og einnig að leigubremsa verði tekin upp hér á landi. Leigjendur eru oft fastir á milli lágra tekna og okurleigu og því er lagt til að Borgarstjórn Reykjavíkur skori á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillögunni er vísað frá með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22100018

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga sósíalista snýst um að skora á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu. Nýleg könnun sýnir að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að tekið verði upp þak á húsaleiguverð og einnig að leigubremsa verði tekin upp. Leigjendur eru oft fastir á millilágra tekna og okurleigu og því var lagt til að borgarstjórn skori á ríkið aðkoma á leiguþaki og leigubremsu. Nauðsynlegt er að standa vörð um réttleigjenda og setja hömlur á það hversu mikið megi hagnast á leigjendum. Á sama tíma þarf að berjast fyrir félagslegri húsnæðisuppbyggingu, þar sem hagnaðarsjónarmið eru fjarlægð úr jöfnunni. Minnt er á að í kjölfarlífskjarasamninga voru kynntar aðgerðir sem ekki hefur verið staðið við og snúa að því að ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðuleigjenda, m.a. hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og bættri réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings. Tillagan snýr að því að staðið verði við gefin loforð. Það er miður að borgarstjórn sjái sér ekki fært að senda frá sér áskorun um að þörf sé að setja hömlur á það hversu mikið leigan má hækka. Vitað er að staða leigjenda er oft mjög erfið og mikið óöryggi fylgir því að vera á leigumarkaði.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins styður þessa tillögu, finnst sjálfsagt að hún komi til álita og fái skoðun með opnum hug. Flokkur fólksins hefur talað fyrir sambærilegum hlutum bæði í ræðu og riti. Þetta yrði að hugsa sem tímabundið inngrip, neyðaraðgerð. Vísað er í grein oddvita Flokks fólksins um þessi mál, „Hvernig er hægt að tryggja sanngjarnan leigumarkað?“ sem birtist í Fréttablaðinu 3. ágúst 2022. Ef stjórnvöld ætla að stuðla að hagkvæmu húsnæði verður að setja einhverjar kvaðir á leiguverð íbúða. Markaðslögmálin ráða ferðinni og allur húsnæðisskortur veldur því að leigusalar geta leigt húsnæði á okurleigu. Hægt er að tryggja sanngjarna leigu með ýmsum hætti. Ein leið er með óhagnaðardrifnum rekstri húsfélaga sem standa utan við markaðinn. þá er átt við að verði afgangur af rekstrinum renni hann til neytendanna en ekki til fjárfesta eða eigenda. Þannig myndi hagnaður í óhagnaðardrifnu leigufélagi nýtast til lækkunar húsaleigu. Ójöfnuður í samfélaginu hefur aukist síðustu ár. Lágtekjufólk greiðir allt að 70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Það verður að auka enn frekar beinan stuðning við leigjendur í formi húsnæðisbóta. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja sanngirni og tryggja sanngjarnt leiguverð í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Staða leigjenda á íslenskum markaði er afar viðkvæm og í mörgum tilvikum afleit. Hugmyndir um leiguþök og leigubremsur hafa víða í nágrannalöndunum verið ræddar eða samþykktar í því skyni að rétta hlut fólks á leigumarkaði. Hafa ber þó í huga að í flestum þeirra landa eru hagnaðarrekin leigufélög fyrirferðarmest á leigumarkaði. Staðan hér á landi er nokkuð önnur og því hætt við að slíkar reglur muni ekki bíta af sama krafti hér og víða annars staðar. Vinstri græn eru sammála grunnhugmyndinni sem liggur tillögunni að baki en árétta þó að mikilvægasta aðgerðin til þess að styrkja stöðu leigjenda felist í því að stækka hlut óhagnaðardrifinna leigufélaga og stuðla þannig að heilbrigðum leigumarkaði.

  1. Fram fer umræða um biðlista eftir sálfræði- og talmeinaþjónustu í Reykjavík. MSS22100019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Samtals eru 2017 börn á biðlista. Biðlistavandi Reykjavíkurborgar er rótgróið mein sem aldrei hefur verið ráðist gegn með markvissum hætti. Biðlistinn er stjórnlaus. Framsókn lofaði að bæta stöðu barna en ekki er að sjá nein teikn á lofti um að alvöru úrræði séu í farvatninu. Málefni barna í vanda eru einfaldlega ekki í forgangi. Engu að síður segja ráðamenn að stefnt sé að því að Reykjavíkurborg verði fyrsta barnvæna höfuðborgin á heimsvísu. Hvernig má þetta verða þegar staðan er svona? Barnasáttmálinn er ekki í innleiðingarferli í Reykjavík. Flokkur fólksins lagði fram í borgarstjórn 18. jan. sl. tillögu þess efnis að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Tillögunni var vísað til borgarráðs þar sem hún situr enn. Gera þarf tvennt. Fjölga stöðugildum nr. 1 og til þess að það gangi þarf að hækka laun sálfræðinga. Nr. 2 er að sálfræðingar hafi aðsetur í skólum sem þeir starfa í hverju sinni. Börn og aðrir viðkvæmir hópar eiga ekki að þurfa að bíða eftir aðstoð. Of mikið er í húfi. Hér eiga valdhafar að sjá sóma sinn og forgangsraða fjármunum í þágu þjónustu við fólkið.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Unnið er að því að færa þjónustu við börn nær þeim og veita hana í meira samráði við þau, veita hana fljótt og vel bæði með verklaginu „betri borg fyrir börn„ og innan skólaþjónustu. COVID hefur sett strik í reikninginn og fjölgaði mjög á biðlista í fyrra. Við því var brugðist með 140 m.kr fjárveitingu. Nú hefur 66 m.kr af því fjármagni verið ráðstafað og nærri 500 börn fengið þá þjónustu sem þau þurfa á grundvelli þess en ennþá bíða of mörg börn. Það sem hamlar árangri í að vinna niður biðlistann er skortur á sálfræðingum og talmeinafræðingum en það er samfélagslegt vandamál sem mikilvægt er að bregðast við.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

Nauðsynlegt er að tryggja börnum þann stuðning sem þau þurfa og vinna að því að sú þjónusta fari fram í nærumhverfi þeirra. Mikill hluti barna sem fá stuðning hjá talmeinafræðingi og sem sýna góðar framfarir þar, eru tví- eða fjöltyngd. Við getum stutt þau enn betur með því að sinna betur þjónustu við börn sem hafa annað móðurmál en íslensku. Borgin á að gera allt sem mögulegt er til að styrkja og styðja við móðurmálskennslu þeirra barna, því að það er vel rannsakað að góður grunnur í móðurmáli er skilyrði fyrir því að ganga vel að byggja nýja tungumálaþekkingu. Einnig er mikilvægt að tryggja að í þeim tilfellum sem stuðningur fagaðila hefur verið samþykktur, að börn fái allan þann stuðning sem á þarf að halda, ekkert þak verði sett á það og að gjaldtaka verði ekki hamlandi þáttur.

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að farið verði í átak við að setja upp snjallgangbrautir við alla grunnskóla í borginni til að auka umferðaröryggi skólabarna. Um er að ræða nýjar tæknilausnir sem skynja þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikja þá LED-götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Þá kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Umræddar gangbrautir yrðu þáttur í snjallvæðingu Reykjavíkurborgar með umferðaröryggi gangandi vegfarenda og þá sérstaklega skólabarna að leiðarljósi.

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22100021

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.

  1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 22. september. MSS22010003

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðarinnar:

7. liður fundargerðar heilbrigðisnefndar frá 8. september: Sótt er um undanþágu fyrir heimsóknir hunda í skólastofu í Fossvogsskóla. Fulltrúi Flokks fólksins telur orðið brýnt að breyta reglugerð um hollustuhætti. Flækjustig og skriffinnska sem fylgir umsókn af þessu tagi er út í hött. Hér er um að ræða heimsókn hundar tvisvar í viku í fáeinar klukkustundir í senn og skilyrðin sem sett eru eru með ólíkindum. Meðal skilyrða er t.d. sérstök leið fyrir hundinn út og inn, stofan þrifin hátt og lágt eftir heimsóknina og sérstakar ráðstafanir vegna öryggismála. Reglugerð sem þessi er aftan úr fornöld og ekki borginni til sóma. Kominn er tími á að nútímavæðast þegar kemur að samskiptum við gæludýr í opinberum byggingum. Í Reykjavík er menningin enn þannig að hundar mega varla sjást eða heyrast. Þessi reglugerð sendir neikvæð skilaboð til hundeigenda, kaldar kveðjur frá borginni. Þessi reglugerð er of ströng og fólk mun ekki vilja fara eftir henni. Hún á ekki heima í nútímasamfélagi. Öll vitum við hvað hundar gera mikið fyrir okkur mannfólkið og við eigum að koma fram af virðingu við þá og öll dýr. Hér er heldur ekki mikið verið að hugsa um börnin. Hvað grunnskólanemendur hafa gaman af því að fá hunda í heimsókn. Verum góð við dýrin.

  1. Lagðar fram fundargerðir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 22. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. og 26. september, skóla- og frístundaráðs frá 19. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. september og velferðarráðs frá 21. september. MSS22010217

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. september:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að staðið verði að fyrirhuguðum breytingum á sorphirðu um áramótin með þeim hætti að það hafi sem minnstan viðbótarkostnað og viðbótarfyrirhöfn í för með sér fyrir heimilin í borginni. Óskað er eftir greinargerð með sundurliðuðum upplýsingum um allan kostnað, sem umræddar breytingar munu hafa í för með sér og með hvaða hætti hann verður greiddur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. og 10. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 19. september:

9. liður: Flokkur fólksins spurði um úrræði vegna leikskólavanda. Í svarinu segir ekki mikið nema að verið sé að skoða ýmsar tillögur. Fleiri vandamál bætast ofan á þau fyrri t.d. málefni Brákaborgar og Grandaborgar. Það er ekkert lát á vandræðagangi í þessum málaflokki sem má rekja til alvarlegrar vanrækslu. Ýmist er um að ræða ofmat eða vanmat á stöðu mála hjá meirihlutanum. Ofmat á gangi framkvæmda og vanmat á barnafjölda. Hvoru tveggja mætti fyrirbyggja. Allt eru þetta mannanna verk. Tillaga Flokks fólksins er „til skoðunar“ eins og fleiri tillögur. Að skoða hlutina er ekki sama og framkvæma. Hlutir þurfa að ganga hraðar og með markvissari hætti. Liður 10: Flokkur fólksins spurði um hversu margir foreldrar hafa nú þegar fengið pláss fyrir börn sín á leikskóla og hversu margir hafa ekki fengið upplýsingar um hvaða dag barn þeirra getur hafið aðlögun. Samkvæmt reglum eiga foreldrar að fá upplýsingar eigi síðar en fjórum vikum áður en leikskóladvöl hefst. Í svari kemur fram að af 326 börnum hafa 205 foreldrar sem búnir eru að fá pláss ekki fengið dagsetningu um hvenær barnið geti byrjað. Er það vegna þess að leikskólinn sem börnin eiga að mæta í hefur ekki enn verið byggður, eða er ekki tilbúinn?

Fundi slitið kl. 21:38

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudóttir                                              Þorvaldur Daníelsson