Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2013, þriðjudaginn 3. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Áslaug Friðriksdóttir og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um dagvistun og leikskólamál.
- Kl. 14.03 tekur Margrét Kristín Blöndal sæti á fundinum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja sem fyrr áherslu á að fjölbreytilegar lausnir verði hafðar að leiðarljósi í þjónustu við yngstu Reykvíkingana. Bæta þarf starfsaðstæður borgarrekinna leikskóla, sjálfstætt rekinna leikskóla og dagforeldra. Hækka þarf niðurgreiðslur með börnum sem dvelja hjá dagforeldrum. Gera þarf átak í viðhaldi leikskólabygginga sem víða hefur verið vanrækt. Lagfæra þarf lóðir margra leikskóla, ekki síst þarf víða að mála og sinna öðrum lagfæringum á útileiktækjum en viðhald þeirra hefur verið óviðunandi árum saman.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg hefur boðið börnum upp á leikskólamenntun frá tveggja ára aldri í hartnær 20 ár. Á þeim tíma hefur fæðingarorlofið verið lengt í tvígang, úr sex mánuðum í tólf, frá og með árinu 2016 þegar bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verður komið niður í eitt ár. Ákveði borgin að taka á móti börnum árið sem þau verða eins árs mun það hafa afgerandi áhrif til hins betra á samfélagið allt, þótt vissulega komi til aukinn kostnaður. Hér er hvorki verið að tala fyrir því að dagforeldrakerfið eða einkareknir ungbarnaleikskólar leggist af, heldur eingöngu að þeir foreldrar sem kjósa að setja börnin sín fyrr á borgarrekna leikskóla eigi þess kost. Borgarfulltrúi Vinstri grænna telur brýnt að sameiginlegum fjármunum Reykvíkinga verði forgangsraðað með þeim hætti að borgarreknir leikskólar standi börnum til boða þegar fæðingarorlofi sleppir.
2. Fram fer umræða um umferðaröryggi.
- Kl. 16.00 víkur Oddný Sturludóttir af fundinum og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti.
- Kl. 17.59 víkur Margrét Kristín Blöndal af fundinum og Sigurður Björn Blöndal tekur þar sæti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú eru skólar að hefjast og gangandi börnum á leið til skóla fjölgar mjög á götum borgarinnar. Um leið og allir ökumenn eru hvattir til að keyra varlega af þessum sökum þarf borgin að gera bragarbót í merkingum og hönnun á gönguleiðum skólabarna. Gangbrautamerkingar eru víða óljósar í borginni. Sums staðar er samræmi í merkingum en annars staðar valda margvíslegar og mjög ósamstæðar gangbrautamerkingar óvissu hjá gangandi og akandi vegfarendum. Einnig er ósamræmi á milli merkinga sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Mjög mikilvægt er að umferðarmerkingar séu eins skýrar og auðskiljanlegar og kostur er. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara fram á það að nefndir og ráð borgarinnar sameinist um að koma þessum málum í gott horf þegar í stað, svo auka megi öryggi gangandi vegfarenda í borginni.
3. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu í endurskoðunarnefnd.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Inga Björg Hjaltadóttir taki sæti J. Sturlu Jónssonar og að Ólafur Sigurbergsson taki sæti Ingu sem varamaður í nefndinni.
4. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 20. júní, 27. júní, 4. júlí, 11. júlí, 25. júlí, 22. ágúst og 29. ágúst.
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn undir 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst sl.:
Á fundi borgarstjórnar 4. september 2012 lagði undirritaður fram fyrirspurn um heildarbyggingarkostnað við Hörpu þar sem óskað var eftir sundurliðuðum upplýsingum við byggingu hússins og tengd mannvirki. Hinn 15. janúar sl. lagði borgarstjóri fram svar við fyrirspurninni en í því var ekki gerð grein fyrir áðurnefndum kostnaði heldur einungis þeim sem til féll eftir yfirtöku verkefnisins árið 2009. Undirritaður lagði því fyrirspurnina fram að nýju á fundi borgarstjórnar 5. febrúar sl. Enn hafa viðhlítandi svör ekki fengist við fyrirspurninni þrátt fyrir að nú sé ár liðið síðan hún var fyrst lögð fram. Um leið og furðu er lýst yfir þessari undarlegu töf er fyrirspurnin nú lögð lögð fram í þriðja sinn og enn óskað eftir því að svar við henni verði lagt fram við fyrsta tækifæri. Hver er heildarbyggingarkostnaður við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv. Þá er óskað eftir yfirliti yfir þær framkvæmdir sem eftir eru eða standa yfir og kostnaðaráætlanir vegna þeirra.
30. liður fundargerðarinnar frá 29. ágúst, viðauki við samning við leikskólann Vinaminni, samþykktur með 14 atkvæðum gegn 1. Borgarfulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði á móti og leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg á að leggja metnað sinn í að fjölga plássum í borgarreknum leikskólum í stað þess að fjölga sífellt plássum í einkareknum leikskólum. Fjölbreytni í rekstrarformi tryggir alls ekki fjölbreytni í leikskólastarfi. Nær væri að leggja aukna alúð við borgarrekna leikskóla svo þar geti farið fram enn fjölbreyttara og faglegra starf sem enn fleiri börn fengju að njóta en nú er. Borgarfulltrúi Vinstri grænna greiðir því atkvæði gegn samningnum.
5. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. ágúst, íþrótta- og tómstundaráðs frá 16. og 23. ágúst, mannréttindaráðs frá 13. og 27. ágúst, menningar- og ferðamálaráðs frá 12. og 26. ágúst, skóla- og frístundaráðs frá 21. ágúst, umhverfis- og skipulagsráðs frá 14., 21., og 28. ágúst og velferðarráðs frá 22. ágúst.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. ágúst sl.:
Furðu sætir að meirihlutinn skuli hafna ósk Gámaþjónustunnar um að fá að safna lífrænum úrgangi við reykvísk heimili. Fjölmargar óskir hafa komið frá almenningi sem vill flokka meira en boðið er upp á í kerfi borgarinnar. Einkafyrirtæki á markaði bjóða þegar upp á fleiri flokka til endurvinnslu en Reykjavíkurborg. Það ætti því að vera fagnaðarefni að slík metnaðarfull fyrirtæki hafi hug á að fjölga flokkunum enn frekar, og stuðla með því að umhverfisvænni borg. Í staðinn birtist í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs mikil tortryggni í garð einkafyrirtækja sem þó hafa sýnt um langt árabil að er vel treystandi til þessara mikilvægu verkefna. Meirihlutinn er gjarnan með fagurgala um endurvinnslu í ræðu og riti en þegar til kastanna kemur er aukinni endurvinnslu hafnað.
Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. ágúst sl.:
Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru ánægðir með þann metnað sem einkafyrirtæki sýna í endurvinnslumálum. Einkafyrirtæki hafa hingað til haft starfsleyfi til að sækja þurr endurvinnsluefni til heimila. Fyrirkomulag varðandi lífrænan úrgang og blandaðan heimilisúrgang er annars eðlis. Þar er um grunnþjónustu að ræða. Við teljum að henni sé best fyrir komið hjá sveitarfélögunum enda hafa þau lögbundnar skyldur á þessu sviði.
Fundi slitið kl. 18.38
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Eva Einarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 03.09.2013