No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 3. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að ráðist verði í nauðsynlegan undirbúning svo setja megi upp veggmyndir eftir Erró í efra Breiðholti. Listamaðurinn hefur boðist til að gefa Reykjavíkurborg höfundarverk sitt fyrir tvo veggi í þessu skyni og yrði þetta til þess að breiða út list í opinberu rými utan miðborgarinnar, fegra efra Breiðholt og auka stolt íbúa af nærumhverfi sínu. Listasafni Reykjavíkur er falin umsjón með undirbúningi, s.s. gerð kostnaðaráætlunar, öflun nauðsynlegra leyfa fyrir umrædda veggi og áætlun um framkvæmd verkefnisins. Nánari útfærsla og kostnaðaráætlun verður lögð fyrir borgarráð.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að leggja til 4 m.kr. skólaárin 2014-2015 og 2015-2016 (2 m.kr. hvorn vetur) til að styðja við innleiðingu á jafnréttisstarfi í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum, byggt á Út fyrir boxið, skýrslu starfshóps um hamlandi staðalmyndir í lífi barna og unglinga. Hugmyndir og námsefni á íslensku sem styður við umfjöllun um skaðleg áhrif staðalmynda er af skornum skammti. Fjármagnið yrði einkum nýtt með þrenns konar hætti: 1. Vegleg heimasíða með hugmyndabanka þar sem efni sem kennarar og starfsfólk frístundamiðstöðva getur nýtt í sinni vinnu yrði aðgengilegt. Einnig yrðu með reglulegum hætti birtir pistlar sérfræðinga um málefnið en slíkt efni er af afar skornum skammti á íslensku. 2. Þýðing á námsefni sem dr. Dana Edell hefur þróað á íslensku en hún mun nú í byrjun júní halda vinnustofur hérlendis fyrir kennara og starfsfólk frístundamiðstöðva. Námsefnið er sérstaklega hannað til að efla jákvæða kynímynd unglinga og vinna gegn skaðlegum áhrifum klámvæðingar og staðalmynda. 3. Þróunarverkefni í samstarfi við frístundamiðstöðvar um að ná til unglingsstúlkna sem eru í áhættu fyrir kvíða og vanlíðan. Unnið yrði með klúbba fyrir stelpur sem eru kvíðnar og líður illa þar sem sjálfsmynd þeirra og félagsfærni yrði efld. Fé yrði meðal annars nýtt til að fá sérfræðiráðgjöf hjá sálfræðingi eða öðrum sérfræðingi á sviði kvíða og félagsfælni til að búa til forskrift og efni sem nýtast myndi öðrum frístundamiðstöðvum sem vilja vinna með þennan þátt. Í ljósi þess að rannsóknir sýna að hinsegin stúlkur eru í sérstökum áhættuhóp hvað varðar sjálfsvígstilraunir og vanlíðan yrði sérstaklega hugað að þessum hópi.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 14.45 tekur Áslaug Friðriksdóttir sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur af fundi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að að tillögunni verði vísað til skóla- og frístundaráðs.
Málsmeðferðartillagan er felld með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 5 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Tillaga Besta flokksins og Samfylkingarinnar er samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.
3. Fram fer umræða um „Út fyrir boxið“ stefnumarkandi skýrslu starfshóps á vegum skóla- og frístundasviðs um stelpur og staðalmyndir.
4. Fram fer umræða um skjólborgarverkefni Reykjavíkurborgar, ICORN.
5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 22. maí.
15. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun vegna nýgerðra kjarasamninga, samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.
6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. maí
7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. maí, skóla- og frístundaráðs frá 21. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. maí.
Í lok fundar tóku til máls borgarstjóri og forseti borgarstjórnar og þökkuðu borgarfulltrúum samstarfið á kjörtímabilinu.
Fundi slitið kl. 15.59
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Eva Einarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 3.6.2014 - prentvæn útgáfa