Borgarstjórn - 3.5.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 3. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015, dags. 28. apríl 2015, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá  28. apríl sl. ásamt málaflokkayfirliti. Jafnframt er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. í apríl 2016, skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 25. apríl 2016 og endurskoðunarskýrsla KPMG, dags. 28. apríl 2016. 

- Kl. 14.05 tekur Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum. 

Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu borgarstjórnar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Lífeyrisskuldbindingar setja mark sitt á ársreikning Reykjavíkurborgar árið 2015. Ástæða þessarar háu gjaldfærslu eru launahækkanir á liðnu ári auk breyttra tryggingafræðilegra forsendna vegna hækkandi lífaldurs. Þetta er í fullu samræmi við útkomuspá sem var birt með fjárhagsáætlun 2016. Á sama tíma eru jákvæð teikn á lofti í rekstri borgarinnar. Rekstur málaflokka er vel innan fjárhagsáætlunar eða rétt tæplega yfir áætlun. Veltufé frá rekstri eykst hraðar en von var á og afkoma í grunnrekstri milli ára er jákvæð um 1,8 milljarða fyrir fjármagnsliði og lífeyrisskuldbindingar og tæpan milljarð þegar fjármagnsliðir eru teknir inn. Skuldir A-hluta eru litlar samanborið við önnur sveitarfélög og er fjárhagsleg staða borgarinnar sterk. Plan Orkuveitunnar gengur hraðar en upphaflega var áætlað og í fjárhagsáætlun ársins 2016 er gert ráð viðsnúningi í rekstri borgarinnar þar sem afrakstur hagræðingaraðgerða er þegar farinn að bera árangur. Ef að líkum lætur mun áframhaldandi aðhald skila sér í sjálfbærum rekstri fyrr en áætlað var.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir miklum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014. 

Á sama tíma og tap er í hæstu hæðum hjá meirihluta Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna er veruleg tekjuaukning í samfélaginu sem undirstrikar að rekstrarvandræði Reykjavíkurborgar eru útgjaldavandi en ekki tekjuvandi.

Sést þetta enn betur með því að skoða veltufé frá rekstri sem segir hversu miklu fjármagni reksturinn skilar til fjárfestinga og greiðslu skulda. Veltufé frá rekstri er 5,7% af tekjum ársins en þyrfti að vera a.m.k. 9% þannig að reksturinn er langt frá því að skila nauðsynlegu framlagi.

Niðurstaðan er enn eitt taprekstrarárið hjá núverandi meirihluta og forvera hans. Skuldaaukning A-hluta er 16,2 milljarðar kr. milli áranna 2014 og 2015.

Í skýrslu endurskoðenda borgarinnar er gert ráð fyrir að á fimm ára tímabili 2013-2017 geti orðið taprekstur á A og B hluta samtals án Orkuveitu. Skv. 64. gr. sveitarstjórnarlaga er ekki heimilt að samanlögð heildarútgjöld séu á hverju þriggja ára tímabili hærri en nemur samanlögðum tekjum.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Rekstur borgarinnar gengur illa og áætlanir ganga ekki upp. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var neikvæð um 5 milljarða króna, en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 7,4 milljarða króna sem er 12,4 milljörðum króna eða 167% undir áætlun. Afkoma samstæðunnar er 16 milljarða króna verri í ár heldur en hún var árið 2014. Ef horft er framhjá matsbreytingum fjárfestingareigna var afkoma samstæðunnar neikvæð um 9 milljarða króna. Tekjur borgarinnar duga ekki fyrir útgjöldum þó útsvar sé í hámarki og tekjur hafa aukist. Mikið tap er á aðalsjóði eða sem nemur 18,3 milljörðum króna. Tapið í aðalsjóði er bætt upp að hluta með hagnaði á eignasjóði sem nemur um 4,4 milljörðum króna sem hefur það í för með sér að viðhaldi á eignum borgarinnar er ekki sinnt sem skyldi. Það er mjög alvarleg staðreynd að aðalsjóður skuli vera rekinn með svo miklu tapi sem sýnir að meirihlutinn ræður ekki við verkefnið og bitnar það á grunnþjónustu borgarinnar. Biðlistar eru langir eftir félagslegu leiguhúsnæði, sérfræðiþjónustu skóla og stuðningsþjónustu.  

2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. apríl 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. apríl 2016 á tillögu að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. apríl 2016, ásamt fylgiskjölum sbr. 26. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. apríl sl.

- Kl. 16.37 víkur Skúli Helgason af fundi og Sabine Leskopf tekur þar sæti.

- Kl. 16.40 tekur Kristbjörg Stephensen við ritun fundarins.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Niðurstaða héraðsdóms byggir á því að samningar skuli halda en ekki á flugöryggissjónarmiðum. Fullnægjandi gögn liggja enn ekki fyrir til að taka upplýsta ákvörðun í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar. Í niðurstöðu Samgöngustofu (SGS) 1. júní 2015 um áhættumatið kemur m.a. fram að það nái hvorki til neyðarskipulags almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og gera þurfi sérstakt áhættumat ef ákveðið verði að loka flugbrautinni. SGS rýndi hvorki né tók afstöðu til skýrslu Eflu um nothæfistíma en taldi að skýrsla Eflu um nothæfisstuðul sýndi að hann færi ekki undir 95%. Þremur mánuðum eftir niðurstöðu SGS gerði Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) athugasemdir um að í skýrslunni um nothæfisstuðul sé hvergi vitnað í leiðbeiningarreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en þar séu skýringar á þýðingarmiklum öryggisatriðum sem Efla taki ekki til greina sem leiðir til þess að skýrslan inniheldur alvarlegar villur. ÖFÍA telur skýrsluna ónothæfa og óásættanlegt sé að áhættumatsskýrslan byggi á henni. Hafi borið að taka mið af hemlunarástandi flugbrautar, skyggni, skýjahæð, vindhviðum, brautarbreidd og stærðum flugvéla sem flugvellinum sé ætlað að þjóna. Þar sem þessara atriða hafi ekki verið gætt sé útreikningur nothæfisstuðuls rangur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Málaferli Reykjavíkurborgar og ríkisins vegna NA/SV-flugbrautar standa yfir því ákveðið hefur verið að vísa niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar. Þar til að niðurstaða fæst úr þeim málaferlum telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki rétt að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll.  

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Staðfesting borgarstjórnar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar er í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 sem samþykkt var af öllum flokkum í borgarstjórn. Til hefur staðið að leggja niður NA/SV-flugbrautina í vel á þriðja áratug. Borgarstjórnir í Reykjavík og ríkisstjórnir hafa tekið fjölda skrefa sem miðar að því að umrædd flugbraut hverfi, að fluggarðar séu víkjandi og að kennslu- og æfingaflugi verði fundinn annar staður. Nú síðast gerðu ríki og borg með sér samning í október 2013 og féll nýlega í héraði dómur á þá leið að ríkinu bæri að loka flugbrautinni innan 16 vikna. Sjúkraflugi er ekki stefnt í hættu við gildistöku skipulagsins nú frekar en áður þegar staðið hefur til að leggja NA/SV flugbrautina niður. Nauðsynlegt er að samþykkt verði deiliskipulag svo unnt sé að bjóða upp á nauðsynlegt viðhald og þróun flugstöðvarinnar uns miðstöð innanlandsflugs verður fundinn staður til frambúðar.

3. Fram fer umræða um málefni Langholts-, Laugarnes- og Vogahverfis.

4. Lagt er til að Rakel Dögg Óskarsdóttir taki sæti í velferðarráði í stað Ingvars Jónssonar. Jafnframt er lagt til að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir taki sæti sem varamaður í stað Kjartans Þórs Ingasonar. 

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins. 

5. Lagt er til að Sigurður Þórðarson taki sæti sem varamaður í íþrótta- og tómstundaráði í stað Aðalsteins Hauks Sverrissonar. 

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins. 

6. Lagt er til að Sveinn Hjörtur Guðfinnsson taki sæti í mannréttindaráði í stað Stefáns Þórs Björnssonar. 

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins. 

7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 28. apríl. 

Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á dagskrá vegna 50. liðar fundargerðarinnar:

Borgarstjórn felur borgarstjóra að tryggja íbúum í Seljahverfi verði gefinn kostur á því að sækja kjörstað í hverfinu eins og hefð er fyrir. Sé ekki unnt að starfrækja kjördeildir í Ölduselsskóla að þessu sinni verði kjördeildum komið á laggirnar í Seljaskóla í þessu skyni.

Samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs.

18. liður fundargerðarinnar, gjaldskrá og reglur um bílastæði samþykktur.

44. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun vegna kjarasamninga samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

45. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun vegna flutnings stöðugilda frá skóla- og frístundasviði til velferðarsviðs samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

48. liður fundargerðarinnar, sumarstörf hjá Reykjavíkurborg samþykktur.

8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 29. apríl, mannréttindaráðs frá 12. og 26. apríl, menningar- og ferðamálaráðs frá 25. apríl, íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 27. apríl, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 4. og 25. apríl og umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. og 27. apríl.

4. liður fundargerðar forsætisnefndar; endurskoðuð samþykkt um meðhöndlun úrgangs, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fundi slitið kl. 19.34

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Halldór Halldórsson Heiða Björg Hilmisdóttir

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 3.5.2016 - prentvæn útgáfa