Borgarstjórn - 3.3.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 3. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Magnúsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Kjartan Magnússon, Áslaug María Friðriksdóttir, Hildur Sverrisdóttir og Marta Guðjónsdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að fyrsti dagskrárliður hvers borgarstjórnarfundar verði óundirbúnar fyrirspurnir borgarstjóra. Forsætisnefnd verði falið að móta tilhögun með hliðsjón af þingskaparlögum um óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi, að breyttu breytanda. R15030023

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar forsætisnefndar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að samþykkt hafi verið að vísa tillögunni til forsætisnefndar til nánari úrvinnslu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma þó að meirihlutinn hafi ekki treyst sér til að samþykkja tillöguna eins og hún lá skýr fyrir um mikilvægi þess að dagskrárliður um óundirbúnar fyrirspurnir borgarstjóra verði á hverjum einasta borgarstjórnarfundi, í byrjun dagskrár og ekki til einhverrar reynslu til skamms tíma eins og var ýjað að í umræðunni. Allir slíkir fyrirvarar gera lítið úr þeim ramma sem minnihlutinn er hér að biðja um til að geta treyst á að geta gætt að eftirlitshlutverki sínu, án þess að það sé á nokkurn hátt á forræði meirihlutans eins og nú er. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska þess að í vinnu forsætisnefndar við útfærslu tillögunnar verði sá mikilvægi þáttur tillögunnar hafður að leiðarljósi.

2. Fram fer umræða um tillögur fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings. R15030024

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fagna tillögum fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings. Þær leggja grunn að metnaðarfullri stefnu borgarinnar í læsismálum og miða að því að bæta málþroska og læsi allra leik- og grunnskólabarna. Tillögurnar byggjast á niðurstöðum fræðilegra rannsókna, víðtæku samráði við fagfólk starfsstöðva og reynslu af því sem vel hefur verið gert í leik- og grunnskólum Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga. Meirihluti borgarstjórnar lítur á það sem forgangsmál að efla læsi barna í borginni og auka stuðning við börn í lestrarvanda. Tillögur fagráðsins verða nú kynntar ítarlega fyrir kennurum og öðru fagfólki skólaþjónustunnar með það fyrir augum að kalla eftir sjónarmiðum og ábendingum þess um markvissa innleiðingu tillagnanna.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir fagna áfangaskýrslu fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings meðal barna og ungmenna í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar ásamt frístund. Snemmtækum skimunum þurfa að fylgja fagleg úrræði til að tryggja farsæla uppbyggingu lestrarfærni og málþroska barna og unglinga. Símenntun, miðlæg fræðsla og sértæk þjónusta ásamt auðveldu aðgengi að greiningu og margbreytilegri þjálfun og öflugum stuðningi við nemendur eru nauðsynlegir þættir til að hægt verði að koma tillögum fagráðsins í framkvæmd. Eftirfylgnin skiptir öllu máli. Sérfræðiþjónustu kennsluráðgjafa þarf að nýta betur sameiginlega innan skólahverfa en nú er.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fela óháðum aðila að vinna úttekt um sameiningarferli leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila með tilliti til samþykkta Reykjavíkurborgar, stjórnsýslulaga og góðra stjórnarhátta. Áhersla verði lögð á að skoða hvernig staðið var að samskiptum og samráði við foreldra þeirra nemenda, sem umrætt sameiningarferli náði til og gerð viðhorfskönnun meðal þeirra. Í úttektinni verði settar fram tillögur að úrbótum ef þörf krefur. R15010091

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

- Kl. 16.10 tekur Halldór Halldórsson sæti á fundinum og Marta Guðjóndóttir víkur af fundi.

4. Fram fer umræða um skýrslu starfshóps um aðgerðir gegn heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki. R14100262

5. Fram fer umræða um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnudags án launaskerðingar. R14050127

6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. febrúar 2015. R15010001

- 23. liður fundargerðarinnar frá 19. febrúar, viðauki við fjárhagsáætlun vegna reksturs gistiskýlis fyrir heimilislausa karla, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. R15020141

- 29. liður fundargerðarinnar frá 26. febrúar, útboð á 1. áfanga gatnagerðar við Hlíðarenda, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. R14010193

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu á að bréf lögmanns húsfélagsins Þorragötu 5-9 og eigenda íbúa við sama heimilisfang sem ritað var til borgarráðs 15. janúar sl. skuli ekki hafa verið lagt fram í borgarráði sem sérstakur liður. Bréfið kemur einungis undir embættisafgreiðslum skrifstofu borgarstjórnar. Bréfið er kvörtun vegna afgreiðslu velferðarráðs 16. október 2014 um breytingu á starfseminni í Þorraseli og krafa um endurskoðun þeirrar ákvörðunar. Af efni bréfsins má ráða að fulltrúar velferðarráðs hafa ekki verið upplýstir um upphaflegar forsendur fyrir úthlutun lóðar undir þjónustukjarnann Þorrasel. Hér er um óvönduð vinnubrögð að ræða af hálfu borgarinnar.

7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 27. febrúar, mannréttindaráðs frá 24. febrúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 25. febrúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 16. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 25. febrúar og velferðarráðs frá 12. og 26. febrúar. R15010242

Fundi slitið kl. 18.28

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Áslaug María Friðriksdóttir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 3.3.2015 - prentvæn útgáfa