Borgarstjórn - 3.2.2015

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2015, þriðjudaginn 3. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Greta Björg Egilsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Hildur Sverrisdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. janúar sl., um stefnu í málefnum ungs fólks, 16 ára og eldri ásamt drögum að stefnunni og umsögnum um hana, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. janúar sl. 

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fagna þeirri stefnumörkun sem nú liggur fyrir – og verður grundvöllur fyrir frekari aðgerðum í þágu ungs fólks í Reykjavík. Þau markmið sem sett eru fram í þessari stefnumótun eiga að ýta undir aukna virkni og velferð ungs fólks sem er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fyrirliggjandi stefnumótun í málefnum ungs fólks, 16 ára og eldri, er almennt orðuð og þar er mörg góð markmið að finna. Á stefnumótuninni eru líka stórir ágallar og skulu nokkur atriði nefnd: Í stefnunni er afar lítið fjallað um frjáls félög og samtök í borginni, t.d. íþróttafélögin, skátahreyfinguna og KFUM & K, og ekkert fjallað um hvort og þá hvaða tækifæri séu á vettvangi þeirra til að efla virkni ungs fólks, 16 ára og eldri, í hverfum borgarinnar. Umrædd félög og samtök inna af hendi ómetanlegt starf í þágu ungs fólks en gætu gert enn betur með nánara samstarfi við Reykjavíkurborg, t.d. á vettvangi heilsueflingar, fjölmenningar, forvarna, félagslífs, sjálfboðaliðastarfs, starfsþjálfunar, atvinnuþátttöku og baráttu gegn fíkniefnavanda. Ekkert er fjallað um ungmennahús í stefnunni. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til að stofnað verði sérstakt ungmennahús í borginni sem yrði undir beinni stjórn Reykjavíkurráðs ungmenna. Á vettvangi Reykjavíkurráðs ungmenna hafa slíkar tillögur einnig komið fram. Húsnæðiskafli stefnunnar einkennist af fagurgala og þar eru ekki settar fram raunhæfar lausnir um hvernig eigi að leysa húsnæðisvanda ungs fólks í Reykjavík, t.d. með lækkun lóðaverðs. Áherslur Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum einkennast af trú á uppbyggingu opinbers húsnæðis í stórum stíl og þess að gera sem flest ungt fólk að leiguliðum. Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar gera sem flestu ungu fólki kleift að eignast eigið húsnæði en vill jafnframt að í borginni þrífist öflugur og notendavænn leigumarkaður. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja stefnumótun í málefnum ungs fólks, 16 ára og eldri, en minna á að hlutverk starfshóps um innleiðingu stefnunnar er að vinna kostnaðargreinda aðgerðar- og innleiðingaráætlun byggða á henni. Þar þurfa að koma fram markmið og tímasettar lausnir. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áskilja sér rétt til að taka endanlega afstöðu til einstakra aðgerða í stefnunni þegar vinna starfshópsins liggur fyrir.

- Kl. 15.15 tekur Elsa Hrafnhildur Yeoman sæti á fundinum og Eva Einarsdóttir víkur af fundi. 

2. Lögð fram tillaga að fjárstýringarstefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. janúar sl. 

Samþykkt.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að eftirfarandi komi í stað liðar nr. 4 í núgildandi reglum um auglýsingar í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar frá 10. september 2013: Gjafir frá fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum til skólabarna má þiggja ef gjöfin hefur fræðslu-, forvarnar- eða öryggisgildi. Skólastjórn hvers skóla skal skera úr í málum þar sem vafi leikur á um tilgang gjafarinnar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja til að borgarstjórn samþykki að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins um breytingar á reglum um auglýsingar í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar til skóla- og frístundaráðs sem leggi mat á reynsluna af framkvæmdinni og taki afstöðu til þess hvort tilefni er til endurskoðunar á reglunum.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Teljum farsælt að endurskoða grein nr. 4 í reglum um auglýsingar í skóla- og frístundastarfi til þess að leyfa gjafir er hafa fræðslu-, forvarnar- eða öryggisgildi og ljóst er að gefnar séu vegna hugsjónar en ekki í arðsemistilgangi.

4. Fram fer umræða um kynbundið ofbeldi í Reykjavík. 

5. Fram fer umræða um könnun Capacent á ánægju íbúa með þjónustu Reykjavíkurborgar. 

Fellt með 9 atkvæðum gegn 6 að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að haldnir verði opnir fundir í hverfum borgarinnar þar sem farið verði yfir þjónustukönnun Capacent. Hverfisráð borgarinnar skipuleggi og standi fyrir fundunum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Til að tryggja að kjörnir fulltrúar taki upplýstar ákvarðanir sem byggja á bestu upplýsingum gera samþykktir borgarinnar ráð fyrir að fundarboð ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum verði send út tveimur virkum dögum fyrir borgarstjórnarfundi. Á síðasta fundi forsætisnefndar var áréttað mikilvægi þessa og hvatti nefndin borgarfulltrúa til að undirbúa borgarstjórnarfundi vel. Alltaf geta komið upp aðstæður sem borgarstjórn þarf að bregðast við með afbrigðum, en óskir um slíkt þarf að rökstyðja vel. Ekkert bendir til þess að tillaga Sjálfstæðisflokksins þarfnist slíkrar afgreiðslu. Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins er að sjálfsögðu í lófa lagið að leggja tillöguna fram á næsta fundi borgarráðs eða borgarstjórnar. Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafna því afbrigðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg fær hraklega útreið í þjónustukönnun Capacent. Þegar spurt er um þjónustu við barnafjölskyldur, eldri borgara og fatlað fólk lendir Reykjavíkurborg í neðsta sæti í samanburði við 19 stærstu sveitarfélög landsins. Sömuleiðis lendir höfuðborgin í neðsta sæti þegar spurt er um þjónustu grunnskóla, leikskóla, sorphirðu og aðstöðu til íþróttaiðkunar. Þetta er niðurstaða þjónustukönnunar sem byggir á spurningum sem lagðar voru fyrir borgarbúa og íbúa annarra sveitarfélaga. Reykjavíkurborg lendir einnig í neðsta sæti þegar spurt er um þjónustu sveitarfélagsins í heild sinni. Að mati borgarbúa er sú þjónusta sem veitt er í borginni óviðunandi og alls ekki sambærileg við þá þjónustu sem veitt er í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina lýsa yfir miklum áhyggjum að Reykjavíkurborg kemur verst út í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins. Þá er athyglisvert að í þjónustukönnun eftir hverfum borgarinnar eru íbúar miðborgarinnar mest óánægðir með skipulagsmálin af íbúum borgarinnar. Þá kemur skýrt fram í könnuninni að þátttakendur telja að brýnast sé að bæta samgöngumálin í borginni.

6. Fram fer umræða um deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka NA-SV flugbrautina af skipulagi var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 á grundvelli umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014. Tæpum tveimur mánuðum síðar breytti umhverfis- og skipulagssvið umsögninni og sendi hana breytta til Skipulagsstofnunar. Af fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar verður hvorki ráðið að þau gögn sem fylgdu bréfi umhverfis- og skipulagssviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 26. maí 2014, þ.e. minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, hafi verið lögð fram né þær breytingar sem gerðar voru á umsögninni frá 10. mars 2014 hafi verið samþykktar vegna breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Hins vegar var bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, og bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, lögð fram á fundi borgarráðs 5. júní 2014 vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda sem er annað mál. Hafði Skipulagsstofnun engar forsendur til að ætla að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið gætt við afgreiðslu málsins enda má stofnunin gera ráð fyrir því að upplýsingar frá borginni og breytingar hafi verið afgreiddar á lögmætan hátt.

7. Fram fer umræða um úttekt Intellecta á aðdraganda stofnunar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og sameiningarferli skóla. 

Lögð fram svohljóðandi bókun borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata: 

Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þakkar fyrir úttekt á skólasameiningum og stofnun skóla- og frístundasviðs. Eins og kunnugt er voru þeir flokkar sem standa að nýjum meirihluta sem þá áttu sæti í borgarstjórn ekki samstíga í afstöðunni til skólasameininga á síðasta kjörtímabili. Við í núverandi meirihluta erum hins vegar sammála um það mat að skýrslan beri með sér að í verkefninu var margt vel gert og fær góða einkunn en gerðar eru alvarlegar athugasemdir við mikilvæga þætti, ekki síst þá sem lúta að samráði við hagsmunaaðila og skorti á pólitískri samstöðu. Draga þarf lærdóma af bæði því sem miður fór og vel var gert í þessu umfangsmikla og viðkvæma verkefni.

Lögð fram svohljóðandi bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Úttekt Intellecta staðfestir að illa var staðið að sameiningarferli skóla og öðrum kerfisbreytingum í skólamálum hjá Reykjavíkurborg á síðasta kjörtímabili. Fram kemur í úttektinni að samráðið hafi verið algerlega ófullnægjandi auk þess sem skorti framtíðarsýn og faglegar og fjárhagslegar forsendur. Engum dylst að úttektin er áfellisdómur yfir vinnubrögðum meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili, sem ýmsir nefna ,,týnda kjörtímabilið“ í skólamálum hjá Reykjavíkurborg. 

8. Lagt er til að Greta Björg Egilsdóttir taki sæti Gústafs Níelssonar sem varamaður í mannréttindaráði. 

Samþykkt með 12 atkvæðum.

Eftirtaldir borgarfulltrúar sitja hjá við afgreiðslu málsins: S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir og Halldór Auðar Svansson. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við skipun varamanns Framsóknar og flugvallarvina á síðasta borgarstjórnarfundi stuðlaði meirihlutinn að hættulegu fordæmi með því að sitja hjá við þá kosningu, sem þeir festu í sessi með hjásetu sinni við kjör varamanns í ráðið nú. Með því er höfð að engu hefð borgarstjórnar fyrir því að skipun fulltrúa í nefndir og ráð sé mál viðkomandi flokka og ekki annarra að skipta sér af henni á einn hátt eða annan. Hefðin er ekki heilög að öðru leyti en því að með að virða hana er borin virðingu fyrir lýðræðislegu umboði og pólitískri ábyrgð viðkomandi flokka, sama hversu ógeðfelld ákvörðunin er í augum annarra pólitískra andstæðinga. Það er óskandi að borgarstjórn vilji stuðla að því að finna aðra leið þar sem ekki er hætta á að kjörnir fulltrúar verði í sífelldu huglægu mati um hæfi annarra fulltrúa út frá skoðunum sínum sem veldur því að hætta er á að pólitískri ábyrgð og lýðræðislegum réttindum flokka sé ógnað við kjör í ráð og nefndir borgarinnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins boða því tillögu á næsta borgarstjórnarfundi um að forsætisnefnd skoði hvaða leiðir eru tækar við skipun fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar aðrar en huglæg kosning borgarfulltrúa á fundi borgarstjórnar.

9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 22. og 29. janúar. 

- 32. liður fundargerðarinnar frá 22. janúar, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkur vegna handritasýningar samþykktur með 9 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. janúar, mannréttindaráðs frá 13. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 12. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 21. janúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 19. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. og 28. janúar og velferðarráðs frá 22. janúar.

Fundi slitið kl. 00.32

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Sóley Tómasdóttir

Skúli Helgason Halldór Halldórsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 3.2.2015 - prentvæn útgáfa