Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2013, þriðjudaginn 3. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fjárhagsáætlun 2014; síðari umræða.
Lagt fram að nýju frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 ásamt greinargerð og starfsáætlunum. Jafnframt er lagður fram 26. liður úr fundargerð borgarráðs frá 28. nóvember: Breytingatillögur Besta flokksins og Samfylkingar við frumvarp að fjárhagsáætlun merktar ÆS01-ÆS17.
- Kl. 14.13 tekur Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 16.25 víkur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.
- Kl. 20.15 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundinum og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti.
Samþykkt með 15 atkvæðum að taka eftirfarandi breytingatillögur borgarfulltrúa Vinstri grænna á dagskrá:
V1 – Mannréttindastyrkir
Lagt er til að framlag til mannréttindaskrifstofu hækki um 5 m.kr. svo hægt verði að hækka styrkjapott mannréttindaráðs úr 10 m.kr. í 15 m.kr.
Greinargerð fylgir tillögunni.
V2 – Barnavernd
Lagt er til að framlag til Barnaverndar Reykjavíkur verði aukið um 18 m.kr. og tveimur stöðugildum bætt við til að koma til móts við of mikið álag á starfsfólk.
Greinargerð fylgir tillögunni.
V3 – Félagsráðgjafar í þjónustumiðstöðvum
Lagt er til að framlag til þjónustumiðstöðva borgarinnar verði aukið um 44 m.kr. og stöðugildum félagsráðgjafa fjölgað til að koma til móts við of mikið álag.
Greinargerð fylgir tillögunni.
V4 – Frítt í sund og bókasafn
Lagt er til að þeir borgarbúar sem eru í atvinnuleit eða þiggja fjárhagsaðstoð fái frí bókasafnsskírteini og frítt á sundstaði borgarinnar út árið 2014 eins og verið hefur undanfarin ár.
Greinargerð fylgir tillögunni.
V5 – Félagsbústaðir
Lagt er til að því verði beint til Félagsbústaða að gera ráð fyrir kaupum á 50 íbúðum til viðbótar við það sem nú er á árinu 2014.
Greinargerð fylgir tillögunni.
V6 – Fjárhagsaðstoð
Lagt er til að fjárhagsaðstoð hækki um 10% í stað 4% eins og segir í frumvarpinu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
V7 – Ferlimál fatlaðra
Lagt er til að framlag til ferlimála fatlaðra verði aukið um 10 m.kr.
Greinargerð fylgir tillögunni.
V8 – Vinnuskóli fyrir 17 ára
Lagt er til að framlag til Vinnuskólans verði aukið um 90 m.kr. svo hægt verði að bjóða 17 ára ungmennum starf á hans vegum í sumar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 15 atkvæðum að taka eftirfarandi breytingatillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:
D1 – Skóla- og frístundasvið
Lagt er til að framlag til SFS verði hækkað til að fjölga yfirvinnustundum starfsmanna í Félagi leikskólakennara.
D2 – Umhverfis- og skipulagssvið
Lagt er til að kanna hagræðingu af nýju aðalskipulagi fyrir borgarkerfið og borgarbúa.
Ekki eru gerðar tillögur um aðrar breytingar á frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 en að framan greinir.
Er þá gengið til atkvæða um þær breytingatillögur við frumvarp að fjárhagsáætlun ársins 2014 sem fyrir liggja:
Breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, merkt V-1, varðandi mannréttindastyrki, samþykkt með þeirri breytingu borgarfulltrúa Vinstri grænna að styrkjapottur mannréttindaráðs fari úr 10 m.kr. í 12 m.kr., samþykkt með 10 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, merkt V-2, varðandi barnavernd, felld með 9 atkvæðum gegn 1.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Í fjárhagsáætlun 2014 er gert ráð fyrir tveimur stöðugildum til þess að mæta viðmiðum Barnaverndarstofu um álag á hvern starfsmann.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, merkt V-3, varðandi félagsráðgjafa í þjónustumiðstöðvum, felld með 9 atkvæðum gegn 1.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Í fjárhagsáætlun 2014 er gert ráð fyrir 8 stöðugildum ráðgjafa á þjónustumiðstöðvum til að mæta auknu álagi. Í samræmi við aðgerðaáætlun um aðgerðir til að þjónusta betur þann hóp sem þiggur fjárhagsaðstoð er gert ráð fyrir auknu samstarfi við VIRK og Vinnumálastofnun sem einnig mun létta á starfsfólki þjónustumiðstöðva.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, merkt V-4, frítt í sund og bókasöfn samþykkt með 10 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, merkt V-5, varðandi Félagsbústaði, felld með 9 atkvæðum gegn 1.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Félagsbústaðir munu á næstu árum bæta við sig 30 íbúðum á ári auk allra þeirra íbúða sem innleiðing húsnæðisstefnu gerir ráð fyrir. Áfram verður Reykjavík með umtalsvert fleiri félagslegar íbúðir á hverja 1000 íbúa en önnur sveitarfélög.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, merkt V-5b, varðandi fjárhagsaðstoð, felld með 14 atkvæðum gegn 1.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjárhagsaðstoð hækkar um 3,4% á árinu til að mæta kostnaðarhækkunum. Reykjavíkurborg verður áfram með umtalsvert hærri fjárhagsaðstoð en önnur sveitarfélög.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, merkt V-6, varðandi ferlimál fatlaðra, felld með 9 atkvæðum gegn 1.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjármagn til ferlimála fatlaðra hefur dugað til framkvæmda á þessu ári og það er ekki fyrirséð að fjárskortur muni hamla verkefnum á næsta ári.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, merkt V-7, varðandi vinnuskóla fyrir 17 ára, felld með 9 atkvæðum gegn 1.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Á atvinnumálalið eru 320 m.kr. og er gert ráð fyrir að hluta þeirrar upphæðar verði varið til að sinna þessum hópi.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-1 varðandi skóla- og frístundasvið, felld með 9 atkvæðum gegn 5
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík hóf að greiða leikskólastarfsfólki umfram kjarasamning árið 2007, svokallað neysluhlé. Neysluhléð eru yfirvinnutímar upp á 10 klukkustundir á mánuði. Til stóð að greiðslurnar myndu falla út í áföngum eftir því sem hækkanir á launum leikskólakennara skv. síðustu kjarasamningum kæmu inn. Fjórðungur greiðslnanna, eða 2,5 klst. á mánuði féllu inn í launatöflur FL en ekki voru fleiri skref stigin. Eftir stendur að leikskólakennarar fá 7,5 klst. á mánuði í yfirvinnustundum umfram kjarasamning og telur heildarfjárhæð vegna neysluhlés leikskólastarfsfólks alls rúmlega 400 milljónir króna á ársgrunni. Þetta hefur haft mikið að segja í mönnun leikskóla enda getur munað verulega á kjörum leikskólastarfsfólks eftir sveitarfélögum, Reykjavík í hag.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-2 varðandi umhverfis- og skipulagssvið, könnun á hagræðingu af nýju aðalskipulagi, samþykkt með 15 atkvæðum.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-01, varðandi skóla- og frístundasvið vegna fjölda barna í borgarreknum grunnskólum, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-02, varðandi skóla- og frístundasvið vegna fjölda barna í sjálfstætt starfandi grunnskólum, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-03, varðandi skóla- og frístundasvið vegna starfsmats verkefnastjóra frístundaheimila, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-04, varðandi skóla- og frístundasvið vegna gæða matar í skólum borgarinnar, samþykkt með 14 atkvæðum.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-05, varðandi íþrótta- og tómstundasvið vegna samstarfsverkefna ungmenna, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-06, varðandi íþrótta- og tómstundasvið vegna viðhalds íþróttamannvirkja, samþykkt með 14 atkvæðum.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-07, varðandi íþrótta- og tómstundasvið vegna frístundastyrks, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-08, varðandi menningar- og ferðamálasvið vegna borgarhátíða, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-09, varðandi menningar- og ferðamálasvið vegna borgarhátíðarsjóðs, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-10, varðandi menningar- og ferðamálasvið vegna grunnsýningar Árbæjarsafns, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-11, varðandi menningar- og ferðamálasvið vegna menningarstefnu borgarinnar, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-12, varðandi menningar- og ferðamálasvið vegna sameiningar Minjasafns, Viðeyjar, Ljósmyndasafns og Sjóminjasafns, samþykkt með 14 atkvæðum.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-13, varðandi tilfærslu innan fjárfestingaáætlunar eignasjóðs vegna stofnframkvæmda í tengslum við yfirtöku á Sjóminjasafni, samþykkt með 14 atkvæðum.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-14, varðandi umhverfis- og skipulagssvið vegna hreinsunar borgarlands, samþykkt með 14 atkvæðum.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-15, varðandi umhverfis- og skipulagssvið vegna gjaldskráa, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-16, varðandi tilfærslu innan fjárfestingaáætlunar eignasjóðs vegna Austurbæjarskóla, samþykkt með 14 atkvæðum.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.
Breytingatillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, merkt ÆS-17, varðandi ófyrirséð, samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Þá er gengið til atkvæða um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 með áorðnum breytingum.
[Hér á að vera mynd sem birtist bara í pdf-skjalinu sem hægt er að opna hér til hægri]
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Of mikil skattheimta, skuldasöfnun og útþensla kerfisins á kostnað almennings er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokks og Samfylkingar á kjörtímabilinu. Enda þótt meirihlutinn hafi ekki talið sig eiga annarra kosta völ en að draga gjaldskrárhækkanir til baka er fjárhagsáætlun 2014 engin undantekning. Eitt fyrsta verk vinstri meirihlutans var að leggja hámarksútsvar á Reykvíkinga og hækka ýmsar aðrar álögur. Sú skattahækkun er nú fest enn frekar í sessi. Sífellt vaxandi kostnaður sýnir að aðhald og ráðdeild skortir í rekstri Reykjavíkurborgar. Fjórar viðamiklar breytingar hafa verið gerðar á stjórnskipulagi borgarinnar frá árinu 2010, sem hafa leitt til flóknara og dýrara kerfis. Á síðasta kjörtímabili var borgarsjóður rekinn með rekstrarafgangi þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi þjóðarinnar á síðari helmingi þess. Frá því núverandi meirihluti tók við völdum í borgarstjórn, hefur borgarsjóður hins vegar verið rekinn með halla. Það er áhyggjuefni fyrir alla borgarbúa að frá árinu 2010 hafa hreinar skuldir borgarsjóðs tvöfaldast. Að meðaltali er skuldaaukning hreinna skulda 6,5 milljarðar á ári, eða 750 þúsund krónur á hverja klukkustund frá því að Samfylking og Besti flokkur mynduðu meirihluta í borgarstjórn. Skuldir hafa aukist um meira en 26 milljarða eða 115% og enn hyggst meirihlutinn halda áfram á braut skuldasöfnunar. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2014 mun borgin auka enn frekar skuldir sínar og skuldbindingar á næsta ári. Núverandi meirihluti hefur lagt mikla áherslu á að sækja stöðugt meira fé til borgarbúa og ganga á ráðstöfunartekjur þeirra, fremur en að líta sér nær og hagræða í kerfinu. Þessar miklu hækkanir á kjörtímabilinu hafa kostað meðalfjölskyldu í Reykjavík 403 þúsund krónur á ári. Það frumvarp að fjárhagsáætlun, sem meirihlutinn lagði fram í lok október, byggðist á gjaldskrárhækkunum er áttu sér ekki hliðstæðu meðal annarra sveitarfélaga. Talsmenn launafólks bentu á að gjaldskrárhækkanirnar hefðu bitnað harðast á barnafjölskyldum, öryrkjum og einstæðum foreldrum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu gjaldskrárhækkanirnar og viðbrögð í samfélaginu við málflutningi þeirra voru mjög sterk. Í framhaldi af þessu hefur meirihluti borgarstjórnar dregið gjaldskrárhækkanir til baka. Í stað þess að bregðast við með því að hagræða í kerfinu vegna minni tekna, eru framlög til málaflokka aukin og afleiðingunum fleytt inn í framtíðina.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi síðasta fjárhagsáætlun Besta flokks og Samfylkingar er merkilega lítið frábrugðin fjárhagsáætlunum meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á síðasta kjörtímabili. Þótt einhverjar breytingar hafi verið gerðar á verkefnum og forgangsröðun innan sviða er forgangsröðun milli málaflokka mjög hefðbundin og flöt. Borgarfulltrúi Vinstri grænna flutti 8 breytingatillögur við áætlunina, sem allar lutu að velferð og auknu félagslegu réttlæti. Lagt var til að félagsráðgjöfum yrði fjölgað á þjónustumiðstöðvum og í barnavernd, að 17 ára ungmenni hefðu aðgang að Vinnuskóla Reykjavíkur, að íbúðum Félagsbústaða yrði fjölgað um 80 en ekki 30, að fjárhagsaðstoð yrði hækkuð um 10% en ekki 4%, að fjármagn til aðgengismála yrði hækkað, að styrkir til mannrétindamála yrðu hækkaðir og að fólk í atvinnuleit og á fjárhagsaðstoð fengi gjaldfrjáls bókasafnskort og aðgang að sundi. Síðustu tvær tillögurnar voru samþykktar. Nauðsynlegt er að forgangsraða fjármunum borgarinnar með skýrari hætti. Það þarf að standa styrkari vörð um grunnþjónustu og velferð, um börnin, um menntun þeirra, mannréttindi og lífsgæði – jafnvel þótt það kunni að kosta okkur eitthvað á öðrum sviðum.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 hefur nú verið samþykkt. Allar áætlanir meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar hafa verið unnar með trausta og ábyrga fjármálstjórn að leiðarljósi. Allar aðgerðir hafa miðast við að treysta fjárhag borgarinnar og ber þar hæst aðgerðir til að mæta vanda Orkuveitu Reykjavíkur. Þar hefur öllum markmiðum verið náð. Um borgarsjóð hefur verið farið traustum og öruggum höndum. Borgarsjóður hefur ekki farið varhluta af kreppunni í samfélaginu, bæði á tekjuhlið og í mörgum kostnaðarliðum. Þannig hafa útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar ferfaldast á árunum 2008 til ársins 2013. Mestar viðbætur í þessari fjárhagsáætlun fara til skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs sem eru stærstu fagsvið borgarinnar. Framkvæmt hefur verið af myndugleik í borginni. Borgin hefur því tekið frumkvæði í að skapa atvinnu fyrir þann hóp sem verst fór út úr efnahagshruninu. Lögð hefur verið áhersla á framkvæmdir sem ekki auka rekstrarkostnað borgarinnar. Þessar framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar af lánsfé, en þó hefur lántaka snarminnkað og á næstu misserum mun vera svo komið að einungis 30% af framkvæmdafé verður fengið að láni en mestmegnis framkvæmt af handbæru fé. Gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir skóla- og frístundamál, t.a.m. leikskólagjöld, frístundagjöld og mataráskrift í skólum, munu ekki hækka né gjaldskrár fyrir velferðarþjónustu. Þessar gjaldskrár verða því áfram með þeim allra lægstu á landinu auk þess sem barnmargar fjölskyldur njóta ríkulegra afslátta. Þar að auki hyggst borgin auka gæði skólamáltíða. Þá munu framlög til frístundakortsins hækka um 5000 kr. á hvert barn sem er mikilvægt til að öll born hafi tækifæri til að njóta þess frístundastarfs sem boðið er uppá í borginni. Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir samstæðuna gerir ráð fyrir mikilli niðurgreiðslu skulda. Haldið verður áfram að greiða niður langtímaskuldir Orkuveitunnar í samræmi við planið. Gert er ráð fyrir að afborganir langtímalána nemi um 108 milljörðum á tímabilinu. Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar vilja þakka starfsfólki Reykjavíkurborgar kærlega fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í fjármálastjórn borgarinnar. Allir hafa lagst á eitt, almennir starfsmenn og stjórnendur, til að koma Reykjavíkurborg í gegnum líklega erfiðasta tímabil í sögu borgarinnar. Það er frábær árangur.
2. Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2014-2018; síðari umræða.
Lagt fram að nýju frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2014-2018.
Frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2014-2018 samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
3. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 19 nóvember 2013, um breytingar á áður framlögðum tillögum um gjaldskrárhækkanir og afleiddar breytingar á frumvarpi að fjárhagsáætlun 2014, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. nóvember sl. og 13. liður fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember um gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík, ásamt tillögu að gjaldskrám 2014, dags. 27. nóvember 2013.
Atkvæðagreiðsla undir þessum lið fór fram á undan atkvæðagreiðslu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 og fimm ára áætlun 2014-2018.
Samþykkt með 9 atkvæðum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
4. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 21. og 28. nóvember.
23. liður fundargerðarinnar frá 28. nóvember, nýtt skipurit fyrir velferðarsvið, samþykktur með 9 atkvæðum gegn 1 atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
5. Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 22. nóvember og menningar- og ferðamálaráðs frá 25. nóvember.
Fundi slitið kl. 22.30
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
PDF útgáfa fundargerðar
borgarstjorn_0312.pdf