No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2017, þriðjudaginn 3. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eva Einarsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. september 2017:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu að málstefnu og að skipuð verði málnefnd Reykjavíkurborgar, sbr. hjálögð drög að erindisbréfi. Tillaga starfshóps um málstefnu að innleiðingaráætlun verði samþykkt og málnefnd falin nánari útfærsla hennar og framkvæmd í samstarfi við skilgreinda ábyrgðaraðila. Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara ráði starfsmann í 30% starfshlutfall til að sinna formennsku málnefndar, tímabundið í eitt ár. Viðbótar rekstrarkostnaður er áætlaður 1,7 m.kr. sem bætist við fjárhagsramma skrifstofunnar og útfært verður í viðauka um rekstur, fjármagnað af liðunum 09205, ófyrirséð og vísað til fjárhagsáætlunargerðar vegna ársins 2018.
Greinargerð fylgir tillögunni. R16120051
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikilvægt að stjórnvöld setji sér heildstæða stefnu um vandað, skýrt og auðskilið íslenskt mál, hvort heldur ritað eða talað, táknmál eða punktaletur. Það er því ánægjulegt að borgarstjórn samþykkir samhljóða málstefnu fyrir Reykjavíkurborg, ásamt áætlun um innleiðingu hennar. Nokkur nýmæli eru í stefnunni sem snúa að táknmáli og punktaletri, auðlesnu efni fyrir fatlað fólk, sem og stafrænni íslensku og þýðingum. Eins er lögð áhersla á að styrkja starfsfólk borgarinnar í að bæta íslenskukunnáttu sína í ræðu og riti og að uppflettirit og annað sem styður góða málnotkun og málrækt sé aðgengilegt á hverjum stað. Gagnkvæmur skilningur er undirstaða allra mannlegra samskipta og tungumálið í öllum þessum myndum er tækið sem við beitum til að öðlast þann skilning og skiptast á skoðunum. Íslenska er okkar mál og borgarstjórn hefur nú stigið mikilvægt skref til að festa hana í sessi í allri starfsemi Reykjavíkurborgar.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, styður málstefnu Reykjavíkurborgar og tekur sérstaklega undir þá áherslu í upphafsorðum hennar um að vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur er ritað eða talað, sé lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og að þar skuli íslensk tunga vera í öndvegi í samræmi við lög og þingsályktanir um efnið.
2. Lögð fram tillaga að stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025, dags. 28. júní 2017, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. september, ásamt umsögn skóla- og frístundaráðs, dags. 15. september sl. R14120116
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikið fagnaðarefni að fyrsta heildstæða frístundastefna Reykjavíkurborgar hafi nú verið samþykkt einróma í borgarstjórn. Frístundastefnan leggur áherslu á fjölbreytni, jafnt aðgengi, virka þátttöku, forvarnir og heilsueflingu auk þess sem mikil áhersla er lögð á fagmennsku í frístundastarfinu. Næstu skref eru að forgangsraða þeim tillögum um aðgerðir sem fylgja stefnunni og leggja fram áætlun um innleiðingu þeirra. Ánægja foreldra og barna með fjölbreytt frístundastarf borgarinnar er mikil og eftirspurn borgarbúa fer hratt vaxandi. Framtíðin er björt á vettvangi frístundarinnar.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, styður stefnu í frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025 í þeirri von og trú að með henni verði gæði frístundaþjónustu fyrir alla aldurshópa í borginni meiri. Ég tel þó að rétt hefði verið að bíða með samþykkt hennar þar til vinnu um endurskoðun menntastefnu Reykjavíkurborgar lyki, svo að skils- og stigsmunur og samvinna frístundar og grunnskóla sé fastsettur. Eftir sem áður er það ömurlegt að vera að samþykkja fagurlega orðaða stefnu um frístund í Reykjavíkurborg, þegar að nú í lok september 2017 eru 442 börn í borginni á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðum og að á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðum vantar 111 starfsmenn eða í 55,5 stöðugildi og aðeins 7 frístundaheimili af 38 eru fullmönnuð. Illskiljanlegt er hvernig á að fara eftir stefnu ef ekkert fólk fæst til að manna þær stöður sem þarf til að hægt sé að framfylgja stefnunni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að mótuð hafi verið stefna í frístundaþjónustu í Reykjavík. Ýmis nýmæli eru í stefnunni sem til þess eru fallin að efla frístundastarfið enn frekar ef vel tekst til við framkvæmd hennar. Hins vegar eru það vonbrigði að stefnan opnar ekki á þann möguleika að íþróttafélög og æskulýðsfélög sem sinna tómstundastarfi barna og ungmenna fái á nýjan leik að kynna starfsemi sína í skólunum á skólatíma. Þá hefði mátt vera í stefnunni meiri áhersla á frístundastarf eldri borgara en breytingar síðustu ára á því hafa haft neikvæð áhrif á starfið. Full þörf hefði verið á því að koma með metnaðarfullar tillögur til að efla félagsstarf eldri borgara á nýjan leik.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Í upphafi kjörtímabils kom í ljós að ekki hafði verið áætlað fyrir miklum veikindakostnaði hjá Reykjavíkurborg og samþykkt var að fara í aðgerðir til að bregðast við. Borgarstjórn samþykkir að teknar verði saman upplýsingar um hvernig brugðist hefur verið við veikindum starfsmanna hjá Reykjavíkurborg. Einnig verði tekinn saman kostnaður vegna þeirra.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. R17100070
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að ekki verði hægt að vísa fötluðu fólki sem þarf aðstoð við athafnir daglegs lífs á biðlista eftir stuðningsþjónustu frá og með árinu 2018. Samþykkt verði að þjónustan verði í forgangi og fjármögnuð skilyrðislaust eins og gildir með marga aðra þjónustu borgarinnar svo sem fjárhagsaðstoð.
Samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.
Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17100071
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan endurspeglar góðan vilja en er ekki tæk til samþykktar í borgarstjórn. Því er rétt að senda hana til velferðarráðs inn í þá vinnu sem þar fer fram varðandi þróun í þjónustu við fatlað fólk. Reykjavíkurborg hefur markað sér stefnu og vinnur samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru um að fatlað fólk eigi rétt á sjálfstæðu lífi á forsendum hvers og eins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata hefur ekki pólitískt hugrekki til að forgangsraða fjármunum í þágu fatlaðra sem bíða á biðlistum eftir stuðningsþjónustu. Í tvö og hálft ár hefur verkefnið verið í vinnslu hjá velferðarráði sem hefur ekki fjármuni í ramma sínum til að standa straum af breyttu fyrirkomulagi. Engin ástæða er til að vísa tillögunni til velferðarráðs en því meiri að samþykkja hana og tryggja fjármagn til verkefnisins.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hefja endurskoðun á innkaupareglum Reykjavíkurborgar í því skyni að sporna gegn hugsanlegu kennitöluflakki.
Greinargerð fylgir tillögunni. R17100072
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að beita sér fyrir endurskoðun á sveitarstjórnarlögum og lögum um kosningar til sveitarstjórna í því skyni að tryggja áhrif fulltrúa ólíkra hverfa Reykjavíkur í borgarstjórn. Skoðað verði með hvaða hætti verði unnt að binda kjör borgarfulltrúa, að hluta eða í heild, við ákveðin hverfi eins og mörg dæmi eru um erlendis. Markmiðið er að stytta boðleiðir milli kjörinna fulltrúa og kjósenda og auka áhrif íbúa borgarinnar á ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi borgarstjórnar. Borgarráði er falið að skipa starfshóp sem fjalli um málið og skili tillögum um breytt fyrirkomulag með það að markmiði að þær verði ræddar í borgarstjórn og síðan beint til Alþingis enda verða allar slíkar breytingar að hljóta samþykki þess.
Tillagan er felld með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur. Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins. R17100073
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Yfirlýst markmið tillögunar er að „stytta boðleiðir milli kjörinna fulltrúa og kjósenda og auka áhrif íbúa borgarinnar á ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi borgarstjórnar.“ Borgarfulltrúar meirihlutans telja þetta góð markmið en efast mjög um aðferðina sem stungið er upp á, sem felst í því að binda kjör borgarfulltrúa við búsetu í ákveðnum hverfum með tilheyrandi breytingu á sveitarstjórnarlögum. Nærtækara er að horfa til þess að með auknum fjölda borgarfulltrúa felast mikil tækifæri í því að tengja borgarfulltrúa beint inn í hverfisráð, eins og verið hefur til skoðunar í stjórnkerfis- og lýðræðisráði. Þannig myndu borgarfulltrúar eignast beina hlutdeild í málefnum einstakra hverfa. Jafnvel mætti hugsa sér að skrifstofur borgarfulltrúa yrðu dreifðar um hverfi borgarinnar til að tryggja tengingu þeirra við hverfin enn frekar. Einnig hefur verið til skoðunar að hluti fulltrúa í hverfisráðum yrði kjörinn meðal íbúa í hverfinu, til að tryggja beina tengingu fulltrúa hverfisins inn í stjórnsýslu borgarinnar óháð flokkapólitík. Mikilvægt er að klára vinnu við endurskoðun á hlutverki hverfisráða fyrir lok kjörtímabils. Með þeim hætti er betur hægt að ná fram þeim markmiðum sem fyrirliggjandi tillaga snýst um.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Athyglisvert er að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli fella tillögu um að endurskoða fyrirkomulag borgarstjórnarkosninga í því skyni að auka áhrif íbúa á stjórn borgarinnar með því að stytta boðleiðir milli þeirra og kjörinna fulltrúa. Í orði kveðnu segjast fulltrúar þessara flokka fagna öllum hugmyndum og umræðum um þróun lýðræðislegra stjórnarhátta í borginni. Þegar til kastanna kemur fella þeir hins vegar tillögu sem felur einungis í sér skoðun á gildandi fyrirkomulagi og hvort ákveðnar breytingar séu ákjósanlegar í því skyni að bæta vinnubrögð borgarstjórnar. Kemur fyrir ekki þótt þær hugmyndir, sem hér er lagt til að verði skoðaðar, hafi verið reyndar með góðum árangri víða erlendis. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur beitt sér fyrir því að borgarfulltrúum í Reykjavík verði fjölgað úr 15 í 23 eða um 53%. Ekki hefur verið sýnt fram á það með nokkrum hætti að meðferð borgarmála batni við þessa fjölgun en hins vegar er ljóst að kostnaður mun aukast.
- Kl. 18.20 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Sabine Leskopf tekur þar sæti.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að bætt verði úr þeim misbresti að gangbrautir í Reykjavík séu merktar eins og lög og reglugerðir kveða á um. Gangbrautir verði merktar með sebrabrautum og skiltum til að auka umferðaröryggi. Í reglugerð 289/1995 er kveðið á um að gangbraut skuli merkt með umferðarmerki báðum megin akbrautar sem og á miðeyju þar sem hún er. Þá skal merkja gangbraut með yfirborðsmerkingum, hvítum línum þversum yfir akbraut. (Sebrabrautir). R17100074
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg vinnur eftir samræmdum reglum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar við ákvarðanir um hvar og hvernig merkja á gangbrautir. Þær leiðbeiningar og reglur byggja á erlendum rannsóknum og eru í samræmi við það sem tíðkast hjá þeim þjóðum sem best standa í umferðaröryggismálum. Gönguleiðir skólabarna, frá heimili í skóla, í flestum skólum borgarinnar voru kortlagðar með ítarlegum hætti fyrir nokkrum árum. Þar teiknuðu börnin gönguleiðir sínar inn á kort og hvar þau þvera götur og voru niðurstöðurnar settar inn í gagnagrunn og settar niður þveranir í kjölfarið. Fullyrðingar um að börn séu ekki örugg á leið í skólann eru afar óábyrgar og eingöngu til þess fallnar að gera foreldra óttaslegna um öryggi barna sinna að ástæðulausu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í nýlegum úttektum sem gerðar hafa verið á umferðaröryggi kemur fram að víða sé pottur brotinn í merkingum gangbrauta og þær séu ekki í samræmi við lög og reglugerðir. Sebragangbrautir finnast vart í hverfum og misvísandi merkingar notaðar og sums staðar eru gönguþveranir alveg ómerktar. Þetta misræmi í merkingum dregur verulega úr umferðaröryggi vegfarenda og getur auðveldlega ruglað þá í ríminu hvort ökumenn eða gangandi vegfarendur hafi forgang. Í umferðarlögum er fjallað skýrt um gangbrautir, umferðarrétt og hvernig þær skuli úr garði gerðar. Það er ljóst að umferðarlögum og reglugerðum hefur ekki verið fylgt eftir í Reykjavík og þær víða þverbrotnar.
8. Fram fer umræða um umferðaröryggi. R17100075
9. Lagt er til að Margrét Sverrisdóttir taki sæti í hverfisráði Grafarholts og Úlfarsárdals í stað Berghildar Erlu Bernharðsdóttur. R14060117
Samþykkt.
Áslaug María Friðriksdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Jóna Björg Sætran sitja hjá við afgreiðslu málsins.
10. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í stjórn Faxaflóahafna.
Lagt er til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti í stjórn Faxaflóahafna í stað Dags B. Eggertssonar og verði jafnframt formaður stjórnarinnar. R14060128
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.
11. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 21. og 28. september. R17010001
24. liður fundargerðarinnar frá 21. september, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2017, samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17020176
9. liður fundargerðarinnar frá 28. september, kjörstaðir vegna kosninga til alþingis 28. október 2017, þóknun til kjörstjórna, samþykki yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæma á að þær fari með verkefni yfirkjörstjórnar í hvoru kjördæmi í Reykjavíkurborg, umboð til borgarráðs og fleira er samþykktur. R17090159
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:
Ég tel óforsvaranlegt að stofna hverfissjóð, þar sem ekki liggur fyrir hversu miklum fjármunum verður varið í hann af skattfé okkar Reykvíkinga og þegar fyrirrennari hans var ekki rekinn af skattpeningum borgarbúa. Nú þegar hafa verið samþykktar úthlutanir úr Miðborgarsjóði upp á 30 milljónir á þessu ári. Ef gæta á jafnræðis þá má ætla að hvert og eitt hverfi borgarinnar fái sambærilega fjárhæð til ráðstöfunar (9 auk Miðborgarinnar), þannig að 270 milljónir. fari í þetta. Á milli áranna 2015-2016 var hækkun úr 300 milljónum í 450 milljónir í verkefni Betri Reykjavík. Ekki liggur fyrir hver er skilsmunur verkefna þessa sjóðs og úthlutana úr verkefninu Betri hverfi. Ljóst er að meirihlutinn er að setja upp einhvers konar skúffufé ráðherra dæmi hér, enda á fyrsta úthlutun að eiga sér stað í apríl 2018, rétt fyrir kosningar.
12. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 29. september.
2. liður fundargerðarinnar; breyting á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar er samþykktur. R16090191
3. liður fundargerðarinnar; breyting á samþykkt fyrir stjórnkerfis- og lýðræðisráð samþykktur með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn einu atkvæði Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17020227
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir óháður borgarfulltrúi leggur fram svohljóðandi bókun:
Ég samþykki ekki breytingar á samþykkt nýrra samþykkta fyrir stjórnkerfis- og lýðræðisráð, þar sem ekki liggur fyrir skilgreining á þjónustu skv. 3. gr. C.-3. lið , þar sem augljós skörun kann að eiga sér stað á milli fagsviða sem öll hafa með hendi þjónustuveitingu. Þá tel ég að gera þurfi samhliða breytingar á samþykktum forsætisnefndar, þar sem verið er að fela stjórnkerfis- og lýðræðisráði hlutverki hennar að því sem snýr að umsjón með skipulagi stjórnkerfis Reykjavíkurborgar, sbr. 3. gr. og í síðasta lagi þá fær ráðið stjórnsýslueftirlit, en það skarast við verkefni Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Taka þarf á þessum þremur þáttum til að hljóta samþykki mitt.
4. liður fundargerðarinnar; breyting á samþykkt fyrir umboðsmann borgarbúa, samþykkt með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17020227
Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. og 22. september, mannréttindaráðs frá 26. september, menningar- og ferðamálaráðs frá 25. september, skóla- og frístundaráðs frá 27. september, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 18. september, velferðarráðs frá 7., 14. og 21. september og umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. og 27. september. R17010084
Fundi slitið kl. 20.39
Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 3.10.2017 - Prentvæn útgáfa