Borgarstjórn - 3.10.2002

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2002, fimmtudaginn 3. október, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Árni Þór Sigurðsson, Anna Kristinsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 24. september.

- Kl. 14.48 vék Steinunn Valdís Óskarsdóttir af fundi og Kolbeinn Óttarsson Proppé tók þar sæti. - Kl. 15.23 tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir sæti á fundinum og Anna Kristinsdóttir vék af fundi.

17. liður fundargerðarinnar, markaðsmál miðborgar, samþykktur með 8 atkv. gegn 6.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 1. október.

- Kl. 15.32 vék Alfreð Þorsteinsson af fundi og Anna Kristinsdóttir tók þar sæti.

7. liður fundargerðarinnar, kosning varamanns í stjórn Höfuðborgarstofu, samþykktur með samhljóða atkvæðum. 8. liður fundargerðarinnar, kosning eins fulltrúa í umhverfis- og heilbrigðisnefnd samþykktur með samhljóða atkvæðum. 9. liður fundargerðarinnar, kosning eins fulltrúa í framtalsnefnd og varamanns í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar samþykktur með samhljóða atkvæðum.

3. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 18. september.

- Kl. 15.51 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Gísli Marteinn Baldursson tók þar sæti.

4. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 16. september.

5. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 30. september.

6. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 23. september. Samþykkt með samhljóða atkvæðum.

7. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 20. september.

8. Lögð fram fundargerð leikskólaráðs frá 13. september.

9. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 24. september.

10. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 16. september.

11. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 18. september.

- Kl. 16.18 vék Kjartan Magnússon af fundi og Kristján Guðmundsson tók þar sæti.

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.

12. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 12. september.

13. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 26. september.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga Ólafs F. Magnússonar varðandi hækkun skattleysismarka:

Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á ríkisstjórn og Alþingi að hækka skattleysismörk til samræmis við þróun verðlags og kaupgjalds frá árinu 1988. Þetta verði gert í þremur jöfnum áföngum, fyrst nú í haust og síðan árlega, þannig að í lok ársins 2004 verði skattleysismörk sambærileg því sem þau voru þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp hér á landi.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Hinn 5. september sat borgarfulltrúi F-listans hjá, þegar R-listinn felldi tillögu Sjálfstæðisflokksins um stórlækkun fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja. Innan Borgarstjórnar Reykjavíkur hafa þessir listar ekki sýnt áhuga á því að taka skipulega á málefnum þeirra, sem standa illa að vígi fjárhagslega, með skattabreytingum. Í því felst tvískinnungur að Borgarstjórn Reykjavíkur geri kröfu á hendur ríkisstjórn og Alþingi um skattalækkun í þágu eldri borgara og öryrkja. Eðlilegt er að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem hér sitja komi að þessu málefni á Alþingi þegar fjallað verður um niðurstöðu nefndar ríkisstjórnar og eldri borgara sem skila á áliti fyrir 15. nóvember.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Málflutningur Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni einkenndist af miklum yfirboðum og ótrúverðugum málflutningi, sem var í fullkominni mótsögn við stefnu og störf ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum. Sá borgarfulltrúi F-listans sem sat fund borgarstjórnar 5. september s.l. sat hjá til að lýsa vanþóknun sinni á þeim tvískinnungi sem fólst í tillöguflutningi Sjálfstæðisflokksins á þeim fundi sem og í kosningabaráttunni. Sem baráttumaður fyrir réttindum og kjörum öryrkja um árabil þekkir hann betur en flestir aðrir verk ríkisstjórnarinnar á síðustu misserum, sem birtust með skýrum hætti þegar ríkisstjórnin hnekkti öryrkjadómnum svonefnda um áramótin 2000/2001.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Ótrúlegt er að sjá af bókun F-listans að fulltrúi hans á fundi borgarstjórnar 5. september hafi ekki greitt atkvæði með tillögu Sjálfstæðisflokksins af því að honum hafi brugðið svo við tillöguna. Sjálfstæðisflokkurinn er sjálfum sér samkvæmur í afstöðu sinni til að bæta hag eldri borgara og öryrkja og mun vinna að því bæði í borgarstjórn og á Alþingi.

Samþykkt með 9 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.

Fundi slitið kl. 17.25.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Árni Þór Sigurðsson

Anna Kristinsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson