Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2019, þriðjudaginn 30. apríl, var haldinn sameiginlegur fundur Borgarstjórnar Reykjavíkur og fjölmenningarráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Skúli Helgason, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson, Örn Þórðarson, Inga María Hlíðar Thorsteinson og Egill Þór Jónsson, ásamt fulltrúum í fjölmenningarráði: Nichole Leigh Mosty, Tui Hirv og Renata Emilsson Pesková.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Sabine Leskopf formaður fjölmenningarráðs setur fundinn og heldur ávarp. R19050087
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjölmenningarráðs Reykjavíkur:
Í því skyni að auka meðvitund meðal Reykvíkinga með annað móðurmál en íslensku um hvernig nýta megi frístundakort til að skipuleggja og fjármagna frístundastarf barna samþykkir Borgarstjórn Reykjavíkur að fara í eftirfarandi aðgerðir: Umsókn um aðild að frístundakorti verði aðgengileg bæði á íslensku og ensku. Reglur um aðild að frístundakorti verði aðgengilegar bæði á íslensku og ensku. Ráðist verði í auglýsingaherferð á fleiri tungumálum þar sem frístundakort er kynnt gagnvart mögulegum skipuleggjendum frístundastarfs.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19050087
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að bíða með allar þýðingar á frístundakortinu þar til afgreiðsla tillögu um rýmkun reglnanna liggur fyrir. Breyta þarf reglum um frístundakortið. Þær eru of strangar og því mikilvægt að rýmka þær til að fleiri börn geti nýtt sér kortið og þá ekki síst börn innflytjenda. Í sumum hverfum er nýting rétt um 64% og er langminnst í Fella- og Hólahverfi. Varla er það ásættanlegt. Það er. t.d. engin sanngirni í að binda notkun kortsins við félög og samtök sem eru einungis í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu svo fremi sem viðkomandi barn á lögheimili í Reykjavik. Það er líka óraunhæft að skilyrða kortið við 10 vikna námskeið hið minnsta. Mörg börn treysta sér ekki til að skuldbinda sig í svo langan tíma en myndu gjarnan taka þátt í styttri námskeiðum. Eins er fráleitt að setja sem kröfu að kennarinn eða leiðbeinandinn þurfi að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu svo fremi sem hann hafi alla sína pappíra í lagi og sé eldri en 18 ára. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi er að sama skapi óþarfa skilyrði.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjölmenningarráðs Reykjavíkur:
Lagt er til tilraunaverkefni sem snýr að rafrænni upplýsingagjöf fyrir innflytjendur með vefspjalli eða rafrænni gátt sem svarar fyrirspurnum á öðrum tungumálum en íslensku innan skamms tíma.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19050087
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar mannréttinda- og lýðræðisráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Rafræna þáttinn þarf að styrkja en hafa verður einnig í huga að sumir nota einfaldlega ekki netið. Rafræn áhersla er orðin svo rík í vitund margra að hætta er á að gleyma þeim sem nota sjaldan eða aldrei netið og eru jafnvel einungis með heimasíma og póstkassa. Borgarfulltrúa Flokks fólksins leikur forvitni á að vita hvort einhverjar upplýsingar eru til um algengi tölvu- og netnotkunar íbúa af erlendum uppruna. Hvernig okkur gengur að koma upplýsingum til fólks ætti að vera spurning sem við spyrjum okkur daglega. Mikilvægt er að hafa fjölbreyttar leiðir í boði til að miðla upplýsingum til allra borgarbúa og meðtaka upplýsingar eftir atvikum. Þegar Alþjóðahús var starfrækt var það einmitt eitt af hlutverkum þess að halda úti fræðslu- og upplýsingadeild og aðstoða fólk hvað varðar íslenskt samfélag. Fyrir suma er skilvirkast að geta mætt á ákveðinn stað og fá tækifæri til að ræða við starfsmann í eigin persónu eins og var hægt þegar Alþjóðhús var starfrækt. Vel kann að vera að skoða ætti að endurvekja Alþjóðahús.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjölmenningarráðs Reykjavíkur:
Lagt er til að Reykjavíkurborg fari í átak til þess að kynna og styðja starfmenn borgarinnar sem eru af erlendum uppruna í því að fá menntun sína metna og viðurkennda.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19050087
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er gagnkvæmur hagur að allt starfsfólk af erlendum uppruna njóti menntunar sinnar til að gagnkvæm aðlögun geti átt sér stað og styður því borgarfulltrúi Flokks fólksins tillöguna heilshugar. Að fá menntun sína metna og viðurkennda er réttindamál. Þessi tillaga leiðir hugann að íslenskunámi í boði í borginni. Tungumálið er oft talið vera lykillinn að fullri þátttöku í samfélaginu og til að komast dýpra inn í menningu og mannlíf. Það er á ábyrgð stjórnvalda og þar á meðal borgarinnar að sjá til þess að nægt framboð sé af íslenskunámskeiðum á öllum stigum. Það hefur ekki alltaf verið nægt framboð á námskeiðum. Um tíma komust færri að en vildu og námskeiðsframboð var einsleitt, t.d. vantaði á einum tímapunkti námskeið fyrir þá sem voru komnir lengra. Borgin gæti komið sterkar inn hvað varðar að bjóða upp á íslenskunámskeið. Störf á Íslandi gera mismikla kröfu til íslenskukunnáttu. Það eru sum störf sér í lagi þau sem snúa beint að þjónustu við fólk sem gera heilmikla kröfu til þess að starfsmaður skilji og tali íslensku. Stjórnvöld, borgin, þarf því að sjá sóma sinn í að sjá til þess að nægt framboð sé af námskeiðum í íslensku á öllum tímum.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjölmenningarráðs Reykjavíkur:
Lagt er til að efla og fjölga brúarsmiðum á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar sem sinna starfi með börnum af erlendum uppruna ásamt því að veita skólum og foreldrum ráðgjöf.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19050087
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga fjölmenningarráðs Reykjavíkur:
Lagt er til að Reykjavíkurborg fari í heildstætt átak gegn fordómum og hatursorðræðu í garð innflytjenda í þeim tilgangi að stuðla að þróun samfélags þar sem allir samfélagsþegnar fái að lifa með reisn, í sátt og samlyndi. Átakið gæti snúið fyrst að vinnustöðum Reykjavíkurborgar og svo að samfélaginu í heild sinni með það að markmiði að auka vitund um fjölbreytni samfélagsins, hvetja til jákvæðara orðfæris og raungera hin auknu gæði og tækifæri sem fjölbreytileiki felur í sér. Ekki síst er mikilvægt að efla faglega þekkingu starfsfólks Reykjavíkurborgar á menningarnæmi og -færni.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19050087
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar mannréttinda- og lýðræðisráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta er málefni sem má aldrei gleyma að tala um. Spurning er um útfærslu sem getur verið með margskonar hætti og þarf að koma inn á sem flest svið samfélagsins. Langflestir eru sammála um að vilja eyða allri hatursorðræðu og fordómum úr samfélaginu. Vissulega hefur árangur náðst en betur má ef duga skal. Hvert tilfelli er einu of mikið. Hatursorðræða og fordómar birtast nú hvað helst með rafrænum leiðum á síðum stundum undir fölskum prófílum. Einhverjir taka þátt og dreifa og þannig berst hatur og fordómar hratt út. Það sem gerir rafræna hatursorðræðu erfiðari er að ekki sé vitað hver stendur á bak við hana. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af börnunum þegar kemur að hatursorðræðu á netinu. Fullorðnir, foreldrarnir ekki síst þeirra fyrirmyndir. Orðum fylgir ábyrgð. Við þurfum öll að hjálpast að til að stuðla að jafnrétti, virðingu, mannréttindum og fjölbreytileika. Eitt af meginmarkmiðum ætti því að vera að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu með það að leiðarljósi að vernda börnin og vara þau við. Við þurfum að kenna þeim mikilvægi miðlalæsis og styðja þau í að verja mannréttindi og auka vitund gegn hatursáróðri á netinu.
7. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur til máls í lok fundarins. R19050087
Fundi slitið kl. 16:34
Forseti borgarstjórnar og formaður fjölmenningarráðs gengu frá fundargerðinni.
Dóra Björt Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn og fjölmenningarráð 30.4.2019 - Prentvæn útgáfa