Borgarstjórn - 3. maí 2005

Borgarstjórn

BORGARSTJÓRN

Ár 2005, þriðjudaginn 3. maí, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Stefán Jón Hafstein, Björk Vilhelmsdóttir, Þorlákur Björnsson, Katrín Jakobsdóttir, Anna Kristinsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Björn Bjarnason, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson.
Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar tilkynnti forseti að fram færi að beiðni Ólafs F. Magnússonar umræða utan dagskrár um staðsetningu bensínstöðvar á Umferðarmiðstöðvarreitinn áður en tekinn yrði fyrir 4. liður á útsendri dagskrá.

1. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2004; fyrri umræða. Jafnframt lögð fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton endurskoðunar ehf., dags. 30. apríl 2005.
Samþykkt með samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar ásamt endurskoðunarskýrslu til síðari umræðu.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar vegna ársins 2004 ber traustum fjárhag borgarsjóðs og fyrirtækja Reykjavíkurborgar gott vitni. Áætlanagerð var vönduð og var frávik í rekstri málaflokka og áætluðum skattekjum ekkert, núll prósent. Þá var áætlanagerð og stjórnun háttað með þeim ábyrga hætti á árinu 2004 að engar aukafjárveitingar þurfti á árinu öllu.
Borgarfulltrúar Reykjavíkulistans þakka starfsfólki og stjórnendum Reykjavíkurborgar, undir forystu Þórólfs Árnasonar fyrrverandi borgarstjóra, fyrir festu í framkvæmd fjárhagsáætlunar ársins 2004.
Reykjavíkurlistinn lítur á það sem mikla ábyrgð að fara með skattfé Reykvíkinga og þá ekki síður að tryggja gagnsæi í fjármálum Reykjavíkurborgar svo íbúar hafi yfirsýn yfir ráðstöfun sameiginlegra sjóða borgarbúa. Óháðir endurskoðendur Reykjavíkurborgar benda á í skýrslu sinni að miðað við að veltufé frá rekstri verði svipað á næstu árum og það varð samkvæmt ársreikningi 2004 og það yrði einungis nýtt til að greiða niður skuldir taki það borgarsjóð tæplega tvö ár að greiða upp hreinar skuldir sínar aðrar en lífeyrisskuldbindingar og að með sömu nálgun tæki það Reykjavíkurborg og fyrirtæki hennar tæp sjö ár að greiða upp samsvarandi skuldir sínar.
Reykjavíkurlistinn mun hér eftir sem hingað til beita fjárhagslegu afli Reykjavíkurborgar til uppbyggingar traustra innviða þróttmikils mannlífs í höfuðborg Íslands.

2. Rætt um skipulag og nýtingu Vatnsmýrarinnar.

- Kl. 15.20 vék Þorlákur Björnsson af fundi og Jóhannes Bárðarson tók þar sæti.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá skoðun sína að nauðsynlegt sé að heildstæð skipulagsvinna eigi sér stað fyrir Vatnsmýrina. Sú stefnumótun á að fara fram um leið og fyrir liggur niðurstaða þeirra viðræðna sem nú eru í gangi milli borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda, sem efnt var til í framhaldi af samkomulagi borgarstjóra og samgönguráðherra. Heildstæð skipulagsvinna getur hins vegar illa farið fram fyrr, enda óljóst á þessu stigi hvort eða með hvaða hætti flugstarfsemi verður á svæðinu eftir árið 2024.
Um leið og borgarfulltrúar Sjáfstæðisflokksins ítreka þá skoðun sína að það sé fagnaðarefni að Háskólinn í Reykjavík skyldi velja sér framtíðarsvæði í höfuðborginni, átelja þeir harðlega vinnubrögð meirihlutans í Reykjavík vegna málsins. Enn liggur ekkert fyrir um skipulag svæðisins eða hvað borgin nákvæmlega hyggst bjóða skólanum. Þrátt fyrir óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndum og ráðum borgarinnar, hefur enn ekki farið fram nein heildstæð kynning á því með hvaða hætti á að vinna þetta stóra mál. Tillaga að breytingu á svæðisskipulagi, aðalskipulagi eða deiliskipulagi liggur ekki fyrir og enn hafa íbúar Reykjavíkur ekki með nokkrum hætti fengið að tjá sig um þetta stóra mál. Á meðan svo er, hlýtur málið að vera á algjörum byrjunarreit.
Á síðasta fundi borgarstjórnar bókuðu fulltrúar Frjálslyndra og Sjálfstæðisflokks um mikilvægi þess að hugað yrði að sérstöðu svæðisins og náttúru þess. Í framhaldi af því gera borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins það að tillögu að fyrirhuguð uppbygging á þessu svæði verði sent í umhverfismat.

- Kl. 16.00 vék Ingibjörg Sólrún Gísladóttir af fundi og Helgi Hjörvar tók þar sæti.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að fyrirhuguð uppbygging í Vatnsmýrinni, á svæði milli Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur, verði send í umhverfismat.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á dagskrá.

- Kl. 16.35 vék Gísli Marteinn Baldursson af fundi og Benedikt Geirsson tók þar sæti.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Mat á umhverfisþáttum er eðlilegur þáttur við gerð skipulags og verður sannarlega viðhaft við skipulagsvinnu í Vatnsmýri. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks er því óþörf og er því lagt til að henni verði vísað frá.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fela borgarstjóra að undirbúa hugmyndasamkeppni meðal barna og ungmenna um uppbyggingu útivistar- og afþreyingarsvæðis á stækkuðu athafnasvæði Nauthólsvíkur í samræmi við hugmyndir sem kynntar hafa verið um framtíðarsvæði Háskólans í Reykjavík.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka tillögu borgarfulltrúa Reykjavíkurlista á dagskrá.

- Kl. 18.10 var gert hlé á fundi.
- Kl. 18.40 var fundi fram haldið og vék þá Björn Bjarnason af fundi og Marta Guðjónsdóttir tók þar sæti.
- Kl. 18.50 var gert hlé á fundi.
- Kl. 18.54 var fundi fram haldið.

Forseti tilkynnti að atkvæðagreiðslu um tillögur undir þessum lið væri frestað þar til síðar á fundinum. 

3. Rætt um málefni sjálfstæðra grunnskóla og tónlistarskóla í borginni.

- Kl. 19.35 vék Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Guðný Hildur Magnúsdóttir tók þar sæti.
- Kl. 20.00 vék Dagur B. Eggertsson af fundi og Stefán Jóhann Stefánsson tók þar sæti.

4. Áður en tekinn var fyrir 4. liður útsendrar dagskrár fór fram umræða utan dagskrár um staðsetningu bensínsstöðvar á Umferðarmiðstöðvarreit.

Borgarfulltrúar Frjálslyndra og óháðra og Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Með samkomulagi ríkis og borgar frá 27. apríl 2004 er heitið samstarfi við yfirvöld LSH um skipulag Landspítalalóðarinnar og næsta nágrennis. Forráðamenn LSH fullyrða að með fyrirhugaðri uppsetningu bensínstöðvar á núverandi lóð Umferðarmiðstöðvarinnar sé ekki staðið við þetta samkomulag. Hvatt er til þess að borgaryfirvöld fylgi í hvívetna ákvæði samkomulagsins um samráð við LSH um notkun og uppbyggingu á svæðinu.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka tillöguna á dagskrá.

Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi breytingartillögu við tillögu borgarfulltrúa Frjálslyndra og óháðra og Sjálfstæðisflokks:

Í lokamálslið komi “heilbrigðisyfirvöld” í stað “LSH”.

Breytingatillagan samþykkt með samhljóða atkvæðum.
Samþykkt að vísa tillögunni svo breyttri til borgarstjóra.

Var þá gengið til atkvæða um tillögur sem lagðar voru fram undir 2. lið fundargerðarinnar.
Tillaga borgarfulltrúa Reykjavíkurlista um frávísun tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um umhverfismat uppbyggingar í Vatnsmýri samþykkt með 8 atkvæðum gegn 6.
Tillaga borgarfulltrúa Reykjavíkurlista um hugmyndasamkeppni samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 28. apríl.
20. liður fundargerðarinnar, breytingar á rekstrarfyrirkomulagi gæsluvalla, samþykktur með 8 atkvæðum gegn 7.

6. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. apríl, menntaráðs frá 20. og 25. apríl, skipulagsráðs frá 20. apríl, umhverfisráðs frá 18. apríl og velferðarráðs frá 27. apríl.
B-hluti fundargerðar skipulagsráðs frá 20. apríl samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað vegna 1. liðar fundargerðarinnar:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2004 endurspeglar þá staðreynd að áfram er haldið á braut skuldasöfnunar og á það jafnt við borgarsjóð og samstæðureikning borgarinnar. Stöðug skuldasöfnun á sér stað þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi nú í fyrsta sinn nýtt sér hámarksútsvar, innheimt verulega hærri fasteignagjöld en nokkru sinni áður og hagnast um mörg hundruð milljónir króna á lóðasölu. Þessi þróun á sér stað á sama tíma og mikill hagvöxtur er í þjóðfélaginu, vextir lágir og gengisþróunin afar hagstæð. Sama dag og þessi hækkun á skuldum Reykjavíkurborgar er kynnt er sagt frá því í fjölmiðlum að fjármálaráðherra hafi enn á ný ákveðið að greiða niður skuldir ríkisins og lækka þannig enn frekar skattbyrði kynslóða framtíðarinnar.
Frá því R-listinn tók við völdum í Reykjavík hafa skuldir aukist að raungildi um rúmlega 13 milljónir króna hvern einasta dag að meðaltali. Hreinar skuldir borgarinnar hafa 14 faldast að raungildi á þeim 11 árum, sem R-listinn hefur stjórnað fjármálum borgarinnar eða úr 4 milljörðum króna í árslok 1993 í 56 milljarða króna í árslok 2004. Hreinar skuldir á íbúa voru 495 þús. krónur í árslok 2004 en gert er ráð fyrir að þær verði komnar í um 650 þús. krónur á hvern íbúa í árslok 2008. Með skuldastefnu meirihlutans er verið að vísa þungum álögum yfir á komandi kynslóðir.
Afkoma borgarsjóðs var neikvæð um 74 m.kr. á árinu 2004 þrátt fyrir gengishagnað upp á 1,1 milljarð króna og arð frá Orkuveitunni upp á 1,4 milljarð króna. Ef ekki hefði komið til arðgreiðsla frá OR og gengistap hefði orðið samsvarandi og gengishagnaðurinn, þá hefði rekstrarhallinn orðið um 3,6 milljarðar króna.
Á sama tíma og skuldir hækka leitar meirihlutinn í Reykjavík dýpra ofan í vasa skattgreiðenda. Á 11 ára valdaferli R-listans í borginni hefur blaðinu verið snúið við í skattamálum en lágir skattar voru áður einkenni Reykjavíkurborgar. Árið 1997 voru skatttekjur á hvern íbúa 173 þúsund krónur en í lok ársins 2004 voru þær um 271 þúsund krónur. Á þessu ári munu skatttekjur hækka verulega vegna hækkunar á útsvari í hámark en sú ákvörðun eykur skattaálögur á Reykvíkinga um 800-900 milljónir króna. Lágmarksálögur á íbúa skapa Reykjavík því ekki sérstöðu eins og áður. Nú felst sérstaðan í skuldasöfnun, skattahækkunum og þeirri meðvituðu stefnu R-listans að takmarka svo lóðaframboð að nágrannasveitarfélögin byggjast upp hraðar en höfuðborgin Reykjavík.

Fundi slitið kl. 20.34

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Stefán Jón Hafstein

Anna Kristinsdóttir Kjartan Magnússon