Borgarstjórn - 29.4.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 29. apríl, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Diljá Ámundadóttir, Páll Hjalti Hjaltason, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur a-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. apríl. Jafnframt er lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 7. apríl 2014, og skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. 29. apríl 2014.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Meirihluti Besta flokks/Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar leggur hér fram síðasta ársreikning sinn á kjörtímabilinu. Á valdatíma meirihlutans hafa álögur verið auknar á Reykvíkinga. Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélag landsins og ætti að vera betur í stakk búin en öll önnur sveitarfélög til að ná stærðarhagkvæmni í rekstri og halda álögum á almenning í lágmarki. Meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn hafa ekki metnað til þess enda eitt af fyrstu verkum þeirra að hækka útsvarið í lögbundið hámark. Eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar er að bæta rekstur Reykjavíkurborgar og nýta ávinninginn til að lækka skatta á borgarbúa. Nauðsynlegu viðhaldi ekki sinnt. Á kjörtímabilinu hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvað eftir annað bent á að viðhaldi mannvirkja þar sem grunnþjónusta borgarinnar er rekin, t.d. skóla, leikskóla og íþróttamannvirkja, er stórlega ábótavant. Í þessum ársreikningi kemur skýrt fram að mikilvægum viðhaldsverkefnum hefur verið frestað í því skyni að fegra rekstrarreikning borgarsjóðs. Samkvæmt viðmiðum um viðhald hefðu fjárveitingar til viðhalds þurft að nema um tveimur milljörðum króna á árinu 2013 en í stað þess numu þær aðeins 865 milljónum. Viðhaldi fjölmargra skólamannvirkja er ábótavant og ljóst að þar er borgin að spara sér til tjóns, eins og margir skólastjórar og leikskólastjórar hafa bent á. Slíkt viðhaldssvelti hefur verið stundað allt kjörtímabilið. Hefur gífurlegur viðhaldskostnaður safnast upp í húsnæði borgarinnar fyrir grunnþjónustu á sama tíma og borgarfulltrúar meirihlutans hafa beitt sér fyrir kaupum á húsum og skemmum miðsvæðis í borginni fyrir milljarða króna. Mikil skuldasöfnun. Á kjörtímabilinu hefur rekstur Reykjavíkurborgar einkennst af skuldasöfnun og frestun viðhalds. Á undanförnum þremur árum hafa hreinar skuldir borgarsjóðs aukist um 15 milljónir á degi hverjum. Rekstur borgarsjóðs, sem á að standa undir útgjöldum til allra málaflokka eins og rekstri leikskóla, grunnskóla, velferðarmála, menningarmála og íþróttastarfs, stendur ekki undir þeim rekstri þrátt fyrir að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar hafi hækkað útsvar í lögbundið hámark. Skuldir borgarsjóðs hafa aukist um 30% á undanförnum fimm árum þegar skuldaaukning allra sveitarfélaga á landinu er að meðaltali 3% á sama tímabili. Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum hefur ekki verið lægra í tíu ár sem ber ekki vitni um góðan rekstrarárangur. Auknar álögur Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar á íbúa borgarinnar hafa á kjörtímabilinu aukið kostnað fimm manna fjölskyldu á meðallaunum um 400 þúsund krónur án þess að þjónusta hafi aukist.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

Hugmyndafræði um aukinn jöfnuð í samfélaginu er hvorki byggð á rómantík né kreddum. Það er einfaldlega ábyrgasta leiðin til að reka samfélag og tryggja hagsæld. Aðalsjóður sem skilar jákvæðri rekstrarniðurstöðu um 3 milljarða króna er ríkur aðalsjóður. Í borg sem á slíkan sjóð er augljóst að hægt er að gera betur. Stærsta skrefið sem við gætum stigið í átt til aukins jöfnuðar, bættrar menntunar og aukinnar velsældar í Reykjavík er að afnema gjaldskrár fyrir grunnþjónustu við börn. Brýnt er að hefjast handa nú þegar við að innleiða gjaldfrelsið í áföngum og tryggja að áhrifin verði ekki til að skerða þjónustu á öðrum sviðum. Borgarfulltrúi Vinstri grænna hvetur meirihlutann, borgarstjórn og frambjóðendur til borgarstjórnar til að skoða af fullri alvöru þær leiðir sem lagðar hafa verið fram til að stuðla að jafnari tækifærum barna og bættum kjörum barnafjölskyldna. Þannig getum við stuðlað að miklu betra samfélagi fyrir okkur öll.

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er ekki alltaf sem hlutir eins og ársreikningar vekja bros eða tilfinningar eins og stolt. En þessi ársreikningur gerir það. Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar er að skila góðu búi. Uppskera erfiðis síðustu ára birtist skýrt í ársuppgjöri ársins 2013. Afgangur af rekstrinum er jákvæður um 8,7 milljarða króna. Allir hlutar rekstrarins skila jákvæðri niðurstöðu og öll helstu fyrirtækin í eigu borgarinnar. Allar áætlanir standast – og raunar vel það. Aldrei hafa skuldir verið lækkaðar jafnmikið á einu ári í sögu borgarinnar eða um 35 milljarða króna. Samanburður á gjaldskrám og sköttum sýnir að það er hagstæðast fyrir fjölskyldur að búa í Reykjavík, hér eru lægst hlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði og lægstar gjaldskrár í leik- og grunskólum. Þá er tekið meira mið af félagslegri stöðu og fjölda barna í fjölskyldum en annars staðar. Borgin hefur haldið uppi framkvæmdastigi með fjárfestingum frá 2010 og aukið atvinnu með margvíslegum leiðum. Það hefur unnið gegn hækkun útgjalda vegna fjárhagsaðstoðar, skapað vöxt í atvinnulífinu og tekjur fyrir borgarsjóð, þótt þetta stórátak hafi líka kostað. 

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar vill þakka samstarfsfólki, starfsfólki og stjórnendum alls staðar í rekstri borgarinnar fyrir þessar ánægjulegu niðurstöður.   

Fundi slitið kl. 16.02

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman 

Eva Einarsdóttir     Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 29.4.2014 - prentvæn útgáfa