No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 2. september var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um samstarfssáttmála Samfylkingar, Bjartrar framtíðar,Vinstri grænna og Pírata við myndun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur 2014-2018.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar eru fastanefndir í borgarkerfinu 14 talsins og þær skiptast í 4 flokka. Í fyrsta flokki eru umfangsmestu nefndirnar en þær eru borgarráð, skipulags- og umhverfisráð, skóla- og frístundaráð, stjórnkerfis- og lýðræðisráð og velferðarráð. Þetta eru gríðarlega mikilvægir málaflokkar sem taka til sín stærstan hluta af tekjum borgarinnar. Eiginlega má líkja starfsemi þessara nefnda og viðkomandi sviða við ráðuneyti að umfangi. Hæstu nefndarlaun eru greidd fyrir setu í þessum nefndum enda fundir gjarnan langir og undirbúningur talsverður. Formennska í nefnd í fyrsta flokki er talin mikil ábyrgðar- og valdastaða í borgarkerfinu og formenn fá tvöfalda þóknun eins og kveðið er á um í samþykktunum. Athygli vekur að af fimm fastanefndum í fyrsta flokki hefur einungis ein kona valist til forystu en það er formennska í velferðarráði. Í formannstólum allra hinna ráðanna sitja karlmenn. Ýmsir borgarfulltrúar meirihlutans hafa hrópað hátt þegar kemur að jafnrétti kynja og þátttöku kvenna í stjórnmálum en þegar kemur að því að láta verkin tala er rödd hrópandans þögnuð. Skilaboðin til kvenna í borgarstjórn eru óskemmtileg. Þær fá minni verkefni á lægri launum. Ef það er raunverulegur áhugi á að útrýma kynbundnum launamun hjá núverandi meirihluta þá er hann alla vega ekki að ganga á undan með góðu fordæmi.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar,Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Áhyggjur borgarfulltrúa sjálfstæðismanna af kynbundnum launamun innan meirihluta borgarstjórnar eru ástæðulausar. Borgarfulltrúar á föstum launum fara með formennsku í ráðum í flokki 1 sem þýðir að þeir fá 25% álag á grunnlaun sín. Sömu sögu er að segja um formennsku í flokki 2. Formenn fagráða í þessum tveimur flokkum eru 5 konur og 5 karlar. Sá áhugi og metnaður sem kemur fram í bókun Sjálfstæðismanna á sviði jafnréttismála er engu að síður fagnaðarefni og gefur fyrirheit um gott samstarf í þeim verkefnum sem framundan eru á því sviði.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að aðalskipulag Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið 2010-2030 verði tekið til endurskoðunar eins og kveðið er á um í 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Samþykkt með 8 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar,Vinstri grænna og Pírata að vísa tillögunni frá gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Aðalskipulagið er grunnur að borgarþróun næstu áratuga og því í anda lýðræðis og góðrar samvinnu við borgarbúa að fara í sjálfsagða skoðun á þeim atriðum sem hafa sætt hvað mestri gagnrýni. Ákvæði skipulagslaga byggja ekki síst á því að nýtt fólk sem kosið hefur verið til setu í sveitarstjórnum fái tækifæri til þess að koma að sínum hugmyndum í skipulagsmálum en einnig að tryggja að aðalskipulag sé lifandi plagg
.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Nýsamþykkt aðalskipulag Reykjavíkur endurspeglar áherslur meirihlutans um þétta blandaða byggð í mannlegum mælikvarða og vistvæna samgönguhætti. Í aðalskipulaginu má m.a. einnig finna húsnæðisstefnu, stefnu um gæði, stefnu um borgarvernd auk umhverfis- og auðlindastefnu. Nú tekur við tími innleiðingar sem endurspegla á stefnumótunina sem birtist í aðalskipulaginu í hvívetna.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir telja ástæðu til að endurskoða aðalskipulagið þar sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni, gengið verði á græn svæði svo sem í Laugardalnum, þétting byggðar sé of mikil á ákveðnum svæðum svo sem í Miðbænum, Gömlu höfninni og í Vesturbænum og mun útsýni verða verulega skert meðfram hafnarbakkanum. Engin greining hafi verið gerð á aukinni þörf fyrir grunnþjónustu á þéttingarsvæðum og tryggt að innviðir beri fjölgun íbúa.
3. Fram fer umræða um velviljaðar lóðaúthlutanir Reykjavíkurborgar og framsal á þeim.
4. Fram fer umræða um stöðu dagforeldra í Reykjavík.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að núverandi gjaldskrárstefna vegna þjónustu dagforeldra komi ekki nægilega til móts við barnafjölskyldur og dagforeldra. Sterkir fjárhagslegir hvatar gera það að verkum að barnafjölskyldur leita í mjög ríkum mæli eftir þjónustu leikskóla þar sem greiðslur með hverju barni eru mun hærri en með börnum sem njóta þjónustu dagforeldra. Miklir hagsmunir eru í því fólgnir að borgarstjórn takist að innleiða dagvistunarkerfi fyrir yngstu börnin þar sem fjölbreytileg úrræði og hagkvæmni ná að njóta sín betur en raunin er með núverandi stefnu. Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi, jafnt fyrir barnafjölskyldur sem og skattborgara.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar,Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í samstarfssáttmála meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata kemur fram að á kjörtímabilinu verði unnin áætlun um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og að viðræður verði teknar upp við ríkisstjórn og Alþingi um að ná því markmiði. Þessi áhersla meirihlutans er ekki aðeins til komin vegna fjárhagslegra hagsmuna, þó vissulega séu þeir ríkir, heldur ekki síður samfélagslegra hagsmuna. Góð dagvistun og menntun fyrir yngstu börnin er forsenda velferðarsamfélags þar sem öll börn hafa jöfn tækifæri til menntunar og allir foreldrar til atvinnuþátttöku. Meirihlutinn mun leggja sig fram um að bjóða upp á fjölbreytta valkosti fyrir foreldra samhliða uppbyggingu borgarrekinna leikskóla strax og fæðingarorlofi sleppir. Þjónusta dagforeldra mun að sjálfsögðu koma til skoðunar í þeirri vinnu sem framundan er við að bæta þjónustu við ungbarnafjölskyldur í borginni.
5. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 21. júlí 2014, þar sem lagt er til að kauptilboði BAB Capital ehf. í fasteignir Reykjavíkurborgar að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1a, verði tekið sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst 2014.
Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar,Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn sölu á Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1a á þeim forsendum að þeir telja söluverð of lágt. Sú niðurstaða er studd áliti fagfólks í fasteignasölu sem leitað hefur verið til. Rétt er að bíða með sölu eignanna þar sem allt bendir til þess að söluverð eigna í hjarta borgarinnar muni hækka.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir greiða atkvæði gegn sölu á fasteignunum Laugavegi 4-6 og Skólavörðustíg 1a með vísan til þegar gerðra bókana á fundum borgarráðs þann 28. ágúst 2014 og 26. júní 2014, á þeim forsendum að við teljum söluverð of lágt og er það byggt á upplýsingum frá sérfræðingum á markaðanum. Þá teljum við óeðlilegt að ein af forsendum meirihlutans til að taka ákvörðun um söluna m.t.t. fjárhæðar sé miðað við 15 mánaða gömul verðmöt þegar ljóst er að fasteignaverð hefur hækkað mikið í Miðborginni og allar vísbendingar um að þær hækkanir haldi áfram. Tímasetningin er því afleit og verðið of lágt.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar,Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Sala húsanna við Laugaveg 4 og 6 byggir á vönduðu ferli. Til grundvallar í upphafi lá mat reyndra fasteignasala, fyrstu tilboðum var hafnað þar sem þau þóttu of lág en í síðari umferð kom fram tilboð sem talið var ásættanlegt. Hins vegar er ljóst að Reykjavíkurborg þarf að afskrifa fjármuni vegna sölunnar. Það hefur legið fyrir lengi og á rætur í mjög háu kaupverði, 580 milljónum, sem greitt var fyrir húsin við myndun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar í upphafi árs 2008. Í kjölfar sölunnar nú má vænta jákvæðrar uppbyggingar á reitnum og er kominn tími til. Þá er rétt að hafa í huga að með sölu eignanna mun borgin geta innheimt fasteignagjöld af þeim, sem ekki fást á meðan þessar eignir eru í eignasafni borgarinnar.
6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. ágúst 2014, um nýja samþykkt um ferlinefnd fatlaðs fólks, ásamt fylgigögnum, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst 2014.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka svohljóðandi breytingatillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá: Borgarstjórn samþykkir að í stað 6 fulltrúa í ferlinefnd fatlaðs fólks skv. 5. gr. í drögum að samþykkt verði fulltrúarnir 7. Viðbótarfulltrúi verði skipaður af hálfu minnihluta í borgarstjórn.
Samþykkt.
Þá er gengið til atkvæðagreiðslu um samþykkt um ferlinefnd fatlaðs fólks, svo breytta.
Samþykkt.
7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. ágúst 2014, um nýja samþykkt fyrir stjórnkerfis- og lýðræðisráð ásamt fylgigögnum, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst.
Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og flugvallavina mótmæla því að stjórnkerfi borgarinnar sé blásið út í þeim tilgangi að skapa nýjar stöður fyrir stjórnmálamenn. Nýr meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lítur á það sem forgangsverkefni í upphafi kjörtímabils að búa til nýja valdastóla fyrir sitt fólk. Tilgangur hins nýja ráðs sem ber heitið Stjórnkerfis- og lýðræðisráð er vægast sagt óljós. Enginn undirbúningur býr að baki nýju ráði. stjórnkerfisnefnd borgarinnar hefur t.d. engu áliti skilað og enginn innan eða utan borgarkerfisins hefur verið spurður álits. Engir ráðgjafar og stjórnsýslufræðingar hafa verið fengnir til að skoða þetta mál og leggja mat á þessar breytingar. Engar kostnaðaráætlanir liggja fyrir. Þegar borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram fyrirspurn í borgarráði um þann kostnað sem fylgir því að stofna þetta nýja ráð innan borgarkerfisins var óskað eftir fresti til að svara því vegna þess að þær tölur liggja einfaldlega ekki fyrir og virðast ekki skipta neinu máli. Stofnun hins nýja ráðs er að öllu leyti ófagleg og óþörf. Hún lýsir viðhorfum stjórnmálamanna sem telja að kerfið sé fyrir sig til að skipta og versla með sín á milli.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafna fullyrðingum þess efnis að tilgangur stjórnkerfis- og lýðræðisráðs sé óljós. Tilgangurinn kemur meðal annars fram í samstarfssáttmála meirihlutans í borgarstjórn undir fyrsta kafla hans, sem nefnist Stjórnkerfi og lýðræði. Lítil efnisleg gagnrýni hefur borist frá borgarfulltrúum minnihlutans á þessi markmið heldur verður þvert á móti ekki annað séð en að einhugur ríki meðal borgarfulltrúa um að það sé jákvætt skref fyrir borgina að setja þennan málaflokk í forgang. Fáar hugmyndir hafa borist frá minnihlutanum um hvaða stjórnsýsluleiðir myndu henta betur til að vinna honum brautargengi heldur snýst gagnrýnin nánast einungis um að andmæla þeirri leið sem meirihlutinn leggur upp með. Með þeirri leið er nefnd sem fyrir er í stjórnkerfinu gert hærra undir höfði en verið hefur og þannig myndaður skýr vettvangur þar sem stefna í málaflokknum er mótuð og henni fylgt eftir. Breytingin er því ekki stórvægileg þó vissulega sé um ákveðinn útgjaldaauka að ræða. Hér verður að spyrja að leikslokum og borgarfulltrúar meirihlutans hafa enga ástæðu til að ætla annað en að það fé sem lagt verður í ráðið og sú vinna sem þar verður unnin í samvinnu við alla sem áhuga hafa á aðkomu að verkefnum þess muni skila sér í áþreifanlegum og nauðsynlegum breytingum á stjórnsýslunni á kjörtímabilinu í átt til aukins gagnsæis og lýðræðis sem leiða til skilvirkni og sparnaðar til lengri tíma.
8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. ágúst 2014, um breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst 2014.
Málinu er vísað til fullnaðarafgreiðslu á næsta reglulega fundi borgarstjórnar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 14. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar.
9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. júní, 26. júní, 3. júlí, 10. júlí, 24. júlí, 14. ágúst, 21. ágúst og 28. ágúst 2014.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst sl.:
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar–júní 2014 ber með sér að rekstur borgarsjóðs hefur versnað milli ára og er 600 milljónum kr. lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tap á borgarsjóði er rúmir 2,3 milljarðar kr. en var 1,9 milljarðar kr. árið á undan. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er einnig verri en á sama tímabili árið á undan þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar á eignum Félagsbústaða sem er reiknuð tala upp á 2,4 milljarða kr. Rekstrarniðurstaðan er óviðunandi, ekki síst þegar litið er til þess að útsvarstekjur hafa hækkað um tæpan 1 milljarð kr. Þessi niðurstaða á rekstri borgarsjóðs kallar á uppstokkun og nýja hugsun í rekstri borgarinnar. Þar gildir að festast ekki í þeim hugsunarhætti að borgin eigi að sjá um allan rekstur sjálf eins og skal vera meginregla skv. samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna fjögurra.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst sl.:
Framsókn og flugvallarvinir skora á borgarstjórn að endurskoða stefnu sína varðandi nýtingu á forkaupsrétti þegar um augljósa húsnæðiseklu er að ræða í höfuðborginni, eins og nú er.
10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 22. og 28. ágúst 2014, mannréttindaráðs frá 26. ágúst 2014, menningar- og ferðamálaráðs frá 25. ágúst 2014, velferðarráðs frá 21. ágúst 2014, umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. og 27. ágúst 2014 og skóla- og frístundaráðs frá 20. ágúst 2014.
Fundi slitið kl. 22.35
Sóley Tómasdóttir
Áslaug María Friðriksdóttir Skúli Helgason
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 2.9.2014 - prentvæn útgáfa