Borgarstjórn
BORGARSTJÓRN
Ár 2015, þriðjudaginn 28. apríl, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Stefán Benediktsson, Dóra Magnúsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Hildur Sverrisdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur a-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. apríl. Jafnframt er lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 7. apríl 2014, skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. í apríl 2015, skýrsla endurskoðunarnefndar dags. 27. apríl 2015 og endurskoðunarskýrsla KPMG dags. 28. apríl 2015.
- Kl. 14.05 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar var jákvæð um 11.106 milljónir króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 8.120 milljónir. Rekstrarniðurstaðan er því 2.986 milljónum króna betri en gert var ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða a-hluta var þó neikvæð um 2,8 milljarða og er mikilvægt að bregðast við þeirri niðurstöðu. Helstu ástæður hallans eru að finna í ytra umhverfi. Launakostnaður jókst um tæpan milljarð á árinu, gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga fór rúmlega milljarð fram úr áætlun og tekjur af sölu á byggingarétti voru rúmum milljarði lægri en áætlað var. Niðurgreiðsla skulda samstæðunnar gengur samkvæmt áætlun. Skuldir Orkuveitunnar eru miklar en niðurgreiðsla gengur hratt. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar styrkist á milli ára. Ársreikningur endurspeglar sterkan rekstur borgarinnar, skuldir lækka, tekjur aukast og þjónustustig er hátt. Þó verður ávallt að gæta aðhalds í rekstri.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir lýsa áhyggjum sínum af því að rekstarniðurstaða aðalsjóðs sé neikvæð um 7.123 milljónir skv. rekstrarreikningi 2014.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ársreikningur ársins 2014 sýnir mikið tap á a-hluta Reykjavíkurborgar eða sem nemur 2,8 milljörðum króna þrátt fyrir að rekstrartekjur a-hluta vaxi um 2,3 milljarða króna milli 2013 og 2014. Tap aðalsjóðs er 7,1 milljarðar króna og er bætt upp með jákvæðri afkomu Eignasjóðs og Bílastæðasjóðs þannig að niðurstaðan verður 2,8 milljarðar króna í tap. Í skýrslu fjármálaskrifstofu borgarinnar segir um þennan taprekstur að mikilvægt sé að bregðast við þessum aðstæðum. Þar segir einnig um veltufé frá rekstri sem er einungis 5% að lágmarkið vegna skuldastöðu a-hluta borgarinnar sé 9%. Í ljósi þess hversu mikils hlutleysis er almennt gætt í orðavali fjármálaskrifstofu verður að líta svo á að þarna sé um þung viðvörunarorð til meirihlutans að ræða. Þegar rekstur a-hluta er skoðaður frá árinu 2002 má sjá að í tíð vinstri meirihluta 2002-2006 er taprekstur öll árin. Árin 2007-2010 er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta og þá er jákvæð afkoma öll árin. Vinstri meirihluti tekur svo við vorið 2010 og eftir það er aftur taprekstur á a-hluta að frátöldu árinu 2013 sem verður að segjast að sé undantekningin sem sannar þá reglu að í tíð vinstri meirihluta við stjórn Reykjavíkurborgar er taprekstur á a-hluta. Þannig er það þrátt fyrir að útsvari sé haldið í hæstu löglegu hæðum.
Fundi slitið kl. 15.48
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Sóley Tómasdóttir
Skúli Helgason Kjartan Magnússon
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 28.4.2015 - prentvæn útgáfa