Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2018, þriðjudaginn 27. nóvember, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 20:02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Skúli Helgason, Alexandra Briem, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Björn Gíslason, Örn Þórðarson, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að hverfa frá arðgreiðslukröfum í eigendastefnu Orkuveitunnar. Gjaldskrár Orkuveitunnar verði lækkaðar á Reykvíkinga til samræmis. Fjármálaskrifstofu og stjórn Orkuveitunnar verði falin nánari útfærsla gjaldskrárlækkana.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18110219
- Kl. 20:04 tekur Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum.
- Kl. 21:06 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur sæti.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Staða Orkuveitu Reykjavíkur er sterk enda rekin með ríflega þrettán milljarða hagnaði árið 2016. Lántaka OR eftir að aðgerðaráætluninni Planinu lauk, er hluti af eðlilegri fjárstýringu en vart þarf að taka fram að mun meira er greitt niður af lánum en hafa verið tekin eins og fram hefur komið hjá stjórnendum fyrirtækisins. Öll skilyrði fyrir útgreiðslu arðs eru því fyrir hendi samkvæmt arðgreiðsluskilyrðum sem samþykkt voru í árslok árið 2015. Allir fulltrúar í borgarstjórn samþykktu arðgreiðsluskilyrðin ásamt öllum sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga í OR þótt langstærsti eigandi Orkuveitunnar sé Reykjavíkurborg. Þær 750 milljónir sem OR greiðir nú til eigenda sinna endurspeglar því fyrst og fremst, sterka stöðu Orkuveitunnar þar sem hægt er að lækka gjaldskrár, greiða arð og lækka skuldir.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins vill bæta hag eldri borgara, öryrkja og barnafjölskyldna. Tillögum sem lúta að aukinni þjónustu við börn og aðstoð við hina verst settu kalla á aukin útgjöld úr borgarsjóði ef ekki næst hagræðing og sparnaður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið með ýmsar sparnaðartillögur, sumar sannarlega óvinsælar, til að skrapa saman fé svo hægt sé að rökstyðja tillögur sem lúta t.d. að bættum aðstæðum fátæks fólks. Þess vegna getur Flokkur fólksins ekki stutt tillögur sem minnka borgarsjóð svo sem að hverfa frá arðgreiðslum OR. Reykjavík byggði upp OR, ekki nágrannasveitarfélögin. Eðlilegt er að þeir sem byggðu fyrirtækið fái af þeim arð. Ef arðurinn er lækkaður þá er í raun verið að deila arðinum til allra jafnt, líka til þeirra sem ekkert lögðu til við uppbygginguna sem og þeirra sem eru vel settir. Ef borgin útdeilir fjármagni til verkefna í þágu þeirra sem minnst mega sín þá kemur það öllum borgarbúum til góða. Orkuveitan er sambærileg Landsvirkjun sem greiðir eigendum sínum arð sem nýtist öllum landsmönnum. Arðgreiðslur frá OR nýtast öllum Reykvíkingum. Tekjur Orkuveitunnar eru ekki einungis frá borgarbúum heldur einnig frá stórfyrirtækjum og íbúum nágrannasveitarfélaga. Að taka arðgreiðslur og deila þeim út til mikilvægra verkefna í þágu fátækra og þeirra lægst launuðu getur þannig verið kjarajöfnun.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í kjölfar hrunsins réðist Orkuveitan í aðgerðir til að rétta við reksturinn. Stærstu aðgerðirnar fólu í sér gjaldskrárhækkanir, lán frá borgarbúum og frestun nauðsynlegra innviðafjárfestinga. Ráðstafanir sem allar bitnuðu á borgarbúum. Nú þegar reksturinn hefur náð jafnvægi er rétt að lækka gjaldskrár aftur á íbúa. Í Reykjavík er upphitun húsa dýrari en á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum. Þetta vekur furðu. Kostnaður við að kynda hús í Reykjavík er 30% hærri en á Egilsstöðum. Í Reykjavík er raforkuverð einnig hærra. Einingaverð hjá Orku náttúrunnar (ON) er 6,43 kr. á kWst á meðan einingarverð hjá Orkubúi Vestfjarða (OV) er 5,9 kr. á kWst. Ef reiknuð er meðalnotkun Reykvíkinga á ári fyrir 60.000 heimili í fjölbýlum annars vegar og 25.000 heimili í sérbýlum hins vegar má sjá að með því að kaupa raforku af OV myndu heimilin greiða samtals 420 milljónum króna lægra gjald en ef keypt yrði orka af ON. Það er ólíðandi að Orkuveitan taki lán til að fjármagna arðgreiðslur til borgarinnar, samhliða því að borgin setur upp „ábyrgðarsjóð“ til að verjast áföllum dótturfyrirtækja. Að hverfa frá arðgreiðslum og lækka gjaldskrár er pólitísk ákvörðun. Hún byggir á því sanngirnissjónarmiði að skila rekstrarárangri Orkuveitunnar aftur til borgarbúa. Hún byggir á þeirri hugmyndafræði að einu eðlilegu arðgreiðslurnar af rekstri Orkuveitunnar skuli vera í formi gjaldskrárlækkana til borgarbúa.
2. Fram fer umræða um Laugaveginn og stöðu miðborgarinnar. R18110222
- Kl. 21:50 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Gunnlaugur Bragi Björnsson tekur sæti.
- Kl. 22:50 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Aron Leví Beck tekur sæti.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins mótmælir þeirri rökleysu sem kom fram um stöðu Laugavegarins og miðborgarinnar. Sú aðför sem hefur staðið látlaust síðan 2011 og ekkert hefur verið hlustað á rök og andmæli rekstraraðila á svæðinu og Reykvíkinga sem þarna búa. Vísað er fram og til baka í skoðanakannanir til rökstuðnings þessarar stefnu. Í umræðum kom fram að meirihlutinn hefur nú þegar breytt deiliskipulagi fyrir þetta svæði svo hægt verði að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd. Einnig var sagt frá því að borgarfulltrúar meirihlutans hafa þegar lagt fram tillögur að lagatexta inn í frumvarp til nýrra umferðarlaga sem eru væntanleg inn í þingið til umfjöllunar. Ljóst er að þvingunaraðgerðir eru í gangi fyrir þá sem þarna búa og stunda rekstur og það án nokkurs samráðs. Ljóst er að verslun og þjónusta er ekki velkomin á þetta svæði, þá er það vitað svo ekki verður um villst. Þessi vinnubrögð eru einkar ósvífin svo ekki verði meira sagt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Á þeim átta árum sem Laugavegi og nokkrum götum í Kvosinni hefur verið lokað fyrir bílaumferð hluta ársins hafa allar skoðanakannanir sýnt að mikill meirhluti borgarbúa hefur verið hlynntur þessum lokunum. Það sem meira er, ánægjan hefur farið vaxandi ár frá ári þrátt fyrir að göngugötutímabilin hafi stöðugt lengst. Það sýnir sig einnig að meirihluti rekstraraðila við Laugaveginn er sama sinnis. Borgarstjórn samþykkti 4. september síðastliðinn nær samhljóða að fela umhverfis- og skipulagssviði að gera tillögu að útfærslu Laugavegs og Bankastrætis að göngugötum allt árið um kring, ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur. Að því er nú unnið. Göngugötur í Reykjavík eru komnar til að vera enda sýna allar rannsóknir að það séu sameiginlegir hagsmunir rekstraraðila, kaupmanna, fasteignaeigenda, íbúa, innlendra og erlendra gesta borgarinnar að helstu verslunargötur séu fyrir gangandi vegfarendur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur stórar efasemdir um þá almennu gleði sem sögð er ríkja með lokun gatna í miðbænum og þar með Laugavegsins. Staðreyndin er sú að þeir eru margir sem finnst illa komið fyrir Laugaveginum og miðborginni almennt séð þegar kemur að aðgengi. Í þessum hópi eru verslunareigendur, leigjendur og hreyfihamlaðir. Verslun, gamalgróin eins og Brynja, getur varla þrifist lengur við þessar aðstæður. Hverjir eru svo þeir sem halda lífinu í Laugaveginum þ.e. aðrir en ferðamenn? Flokkur fólksins hefur lagt til að gerð verði könnun meðal íbúa úthverfa sem ekki starfa í miðbænum og þeir spurðir hversu oft þeir sæki miðbæinn og þá í hvaða tilgangi. Flokkur fólksins fer fram á lýðræði hér og að sérstaklega verði hugað að fólki sem ekur P merktum bílum. Tillaga var lögð fram í borgarstjórn af borgarfulltrúa Flokks fólksins um að P merktir bílar geti lagt í göngugötum og að hámarkshraði yrði 10 km/klst. Hagsmunaaðilar fatlaðra fögnuðu framlagningu þessarar tillögu. Það segir sennilega allt um hið svokallaða „samráð“ sem meirihlutinn fullyrðir að hafi verið haft við alla hagsmunaaðila við þá ákvörðun að loka Laugavegi og stórum hluta miðbæjar fyrir akandi fólki.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Borgarstjórn samþykkir að fela viðeigandi sviðum innan borgarinnar að hefja undirbúning að stofnun byggingarfélags Reykjavíkurborgar, sem hefur það að markmiði að byggja íbúðir fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem eru í mestum húsnæðisvanda. Markmið byggingarfélagsins verði að sjá um allt ferlið frá upphafi til enda og er umhverfis- og skipulagssviði ásamt skrifstofu eigna og atvinnuþróunar falið að skoða hvernig megi útfæra slíkt, í samvinnu við velferðarsvið og fjármálaskrifstofu borgarinnar. Þar þarf að skoða innflutning byggingarefnis og möguleg magninnkaup sem standa þar til boða og útfæra hugmyndir um ráðningu byggingaraðila í verkið. Hlutverk byggingarfélagsins verði að sjá um uppbyggingu íbúðanna á borgarlandi og leigja út íbúðirnar í óhagnaðardrifnum rekstri.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18110212
Tillagan er felld með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn 1 atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Húsnæðiskreppa hefur orðið í Reykjavík á vakt núverandi meirihluta. Loforð um þúsundir íbúða „fyrir venjulegt fólk“ hafa ekki verið efnd. Rétt er að rifja upp að núverandi borgarstjóri vildi láta borgina byggja leiguíbúðir fyrir allt að 22 milljarða árið 2013. Lítið varð úr því. Þá er ljóst að borginni er ekki treystandi fyrir því að fara út í stórfellda byggingu á íbúðum. Ekki síst í ljósi þess að byggingarverkefni stór og smá hafa ítrekað farið stórkostlega fram úr áætlunum. Má hér nefna viðhaldsverkefni við Gröndalshús og Mathöll á Hlemmi sem fóru 300% fram úr áætlun. Bragginn í Nauthólsvík. Höfuðstöðvar Orkuveitunnar kostuðu yfir 10 milljarða að núvirði, en eru nú taldar ónýtar. Þá ákvað borgin að láta byggja íbúðir við Grensásveg 12 en þær hafa ekki enn skilað sér þrátt fyrir mikla þrautagöngu. Þá er ljóst að byggingarverkefni Félagsbústaða hafa gengið illa eins og nýlegt viðhaldsverkefni við Írabakka sýnir en það fór 330 milljónum fram úr endurskoðaðri áætlun. Allt ber þetta að sama brunni: Borginni er ekki treystandi fyrir byggingarverkefnum eins og henni er stjórnað í dag. Af þeim sökum einum er ekki hægt að styðja tillöguna. Hér má svo lesa um fyrri áform borgarstjóra sem ekki urðu að veruleika: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1484005.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan gerir ráð fyrir að stofna nýtt byggingarfélag sem rekið verði af borginni. Borgin á þegar Félagsbústaði sem eiga rúmlega 4% allra íbúða í Reykjavík. Við það bætast þær íbúðir sem nú rísa í samstarfi við húsnæðisfélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Sú aðferð að byggja stórar blokkir þar sem allar íbúðir eru félagslegar íbúðir gengur gegn stefnu borgarinnar um félagslega blandaða byggð. Einnig væri erfitt fyrir borgina að selja hluta íbúðanna í samkeppni við aðra aðila á markaði. Erfitt er að sjá að byggingafélag á vegum borgarinnar myndi auka heildarframleiðslugetu byggingariðnaðarins á höfuðborgarsvæðinu sem takmarkast af lausafé og þeim sérfræðingum og starfsfólki sem slík félög geta ráðið. Þessir þættir breytast ekki með tilkomu nýs rekstraraðila. Veigamestu rökin gætu þó verið að ekki hefur verið sýnt fram á að byggingarfélag rekið af Reykjavíkurborg myndi leiða til lægra húsnæðisverðs eða meiri uppbyggingar en þær aðferðir sem notaðar eru nú þegar.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Í tillögunni kom hvergi fram að hún gengi út á að byggja „stórar blokkir þar sem allar íbúðir eru félagslegar íbúðir gengur gegn stefnu borgarinnar um félagslega blandaða byggð.“ líkt og fram kemur í bókun meirihlutans við tillögunni. Fulltrúi Sósíalistaflokksins styður að sjálfsögðu félagslega blöndun, líkt og fram kom í ræðu um tillöguna.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings. Notendasamráð er skilgreint sem aðferð þar sem notandi kemur að mótun sinnar eigin þjónustu í samráði við þjónustuaðila og byggir á valdeflingu og þátttöku notenda. Nú þegar er þetta í starfsáætlunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og er mjög mikilvægt að haldið verði áfram að auka vægi hlutdeildar notenda á öllum sviðum borgarinnar. Notendasamráð á rætur sínar að rekja til aukinnar áherslu á félagslegt réttlæti og mannréttindi. Notendasamráð styrkir vald og þátttöku notenda. „Notendasamráð“ hefur vakið áhuga háskólanema sem hafa rannsakað það m.a. í lokaverkefnum og haldnir hafa verið opnir fundir um notendasamráð. Breytingar hafa verið gerðar á lögum um félagsþjónustu sem fela í sér auknar skyldur fyrir Reykjavíkurborg um samráð við notendur um framkvæmd þjónustu fyrir fatlað fólk.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18110217
Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú þegar stendur Reykjavíkurborg fyrir víðtæku samráði við íbúa og notendur þjónustu hennar. Þar má nefna nýlega Menntastefnu sem skrifuð var í miklu samráði, bæði við íbúa, kennara og annað fagfólk, og á netinu í gegnum Betri Reykjavík og nýlegan samráðsfund um breytingar á samráðsvettvangi fyrir fólk með fötlun sem var mjög vel sóttur og árangursríkur. Þar að auki eru í undirbúningi metnaðarfullar áætlanir um enn frekara og djúpstæðara samráð á fjölmörgum sviðum. Ber þar helst að nefna stýrihóp á vegum mannréttinda- og lýðræðisráðs um innleiðingu samráðsferla í borgarkerfinu og eflingu hverfisráðanna sem er í vinnslu stýrihóps á vegum sama ráðs, nýlega samþykkt borgarstjórnar um aukna áherslu á innleiðingu þjónustustefnu Reykjavíkur og vinnu sem stendur yfir við að klára lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar, en í meirihlutasáttmálanum sem kynntur var í vor kemur skýrt fram að til standi að klára vinnu við hana og koma henni í innleiðingu. Eitt af meginmarkmiðum hennar er einmitt að valdefla borgarbúa með því að veita þeim aukna og beina hlutdeild í stjórn Reykjavíkurborgar samkvæmt formlegum og skýrum ferlum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru dapurleg vinnubrögð að „meirihlutinn“ skuli ekki hafa kjark til að greiða atkvæði um þessa ágætu tillögu. Það er skrítin pólítík að tala um samráð og setja orð um það í „meirihlutasáttmála“ en hafa svo ekki kjark til að samþykkja í borgarstjórn að samráð verði viðhaft eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er nú fokið í flest skjól þegar meirihlutinn getur ekki samþykkt tillögu Flokks fólksins að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa. Látið er að því liggja að notendasamráð sé í fullri virkni enda nefnt 9 sinnum í sáttmála meirihlutans. Meirihlutinn getur ekki samþykkt sína eigin stefnu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hélt í barnaskap sínum að þessari tillögu, ef einhverri, myndi vera fagnað af meirihlutanum enda mikilvægt að skerpa á svo mikilvægum hlut sem notendasamráð er. Notendasamráð er sannarlega í orði en staðreyndin er að það er enn sem komið er, ekki nema að hluta til á borði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna nýlegar upplýsingar frá notendum þjónustu sem segja að áherslur notenda nái oft illa fram að ganga og að enn skorti á raunverulegt samráð þótt vissulega sé það stundum viðhaft á einhverju stigi máls. Hér hefði verið kjörið tækifæri fyrir meiri- og minnihlutann að sameinast um enn frekari skuldbindingu þess efnis að Reykjavíkurborg hefði notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hagsmuni og hag hópa og almennings.
5. Fram fer umræða um málefni Félagsbústaða. R18110220
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn telja nauðsynlegt að Reykjavíkurborg móti sér stefnu hvað félagslega húsnæðismarkaðinn varðar. Skoða þarf möguleikann á gefa íbúum í félagslegu húsnæði færi á að eignast húsnæðið sem íbúar Félagsbústaða leigja. Þannig yrði hægt að útfæra nokkurs konar kaupleigt húsnæði fyrir þá sem vilja. Þá er enn fremur hægt að skoða þann möguleika að Reykjavíkurborg láni ákveðna prósentu kaupverðs án vaxta í ákveðið mörg ár. Þetta gefur íbúum Félagsbústaða tækifæri á að losna úr fátæktargildru kerfisins. Á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík eru 886 einstaklingar eða 7,03 á hverja 1.000 íbúa á meðan biðlisti í Kópavogi er 117 eða 3,23 á hverja 1.000 íbúa. Meðal biðtími í Reykjavík eftir félagslegu húsnæði er 38 mánuðir sem miklu lengri biðtími en í öðrum sveitarfélögum. Sem dæmi má nefna er meðal biðtími í Kópavogi 29 mánuðir eða 9 mánuðum styttri en Reykjavík og meðal biðtími á landinu öllu 17,9 mánuðir. Ef litið er til skilyrðanna til úthlutunar er þriggja ára búseta skilyrði í Reykjavík en sex mánuðir í Kópavogi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Félagsbústaðir eru félag í eigu borgarinnar sem á og rekur rúmlega 4% allra íbúða í Reykjavík. Þá er verið að fjölga íbúðum félagsbústaða um 700 á næstu fimm árum eins og húsnæðisáætlun Reykjavíkur gerir ráð fyrir. Þá á sér stað umfangsmikil uppbygging íbúða í samstarfi við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög til þess að tryggja örugga og hagstæða langtímaleigu. Óskandi væri ef nágrannasveitarfélög Reykjavíkur myndu eiga sambærilegt hlutfall íbúða og Félagsbústaðir. Ef svo væri, þá væru engir biðlistar.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að Reykjavíkurborg hverfi frá áformum sínum um samstarf við Heimavelli vegna íbúðauppbyggingar á Veðurstofureitnum. Í krafti stærðar sinnar hefur hagnaðardrifna leigufélagið Heimavellir haft mikil neikvæð áhrif á leigumarkaðinn, sem er leigjendum ekki til bóta. Þess má geta að frá því að Heimavellir tóku til starfa í febrúar 2015 hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 40 prósent. Þó að skilyrði séu sett um að leigufélagið megi ekki hækka leigugjald íbúða á Veðurstofureitnum nema með leyfi borgarinnar, þá er mikilvægt að Reykjavíkurborg styðji ekki enn frekar við hagnaðardrifin leigufélög í þeirri gríðarlegri húsnæðiskreppu sem við búum nú við. R18110213
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Leiguverð í Reykjavík hefur hækkað mikið og er orðið ansi hátt. Þessu til stuðnings má nefna að 12% dýrara er að leigja eins herbergis íbúð í Reykjavík heldur en Osló. Borgaryfirvöld fara nú af stað með verkefni á borð við hagkvæmt leiguhúsnæði í samtarfi við Heimavelli. Ljóst er að ekki er mjög hagkvæmt að leigja 35 fm stúdíóíbúð á 130.000 kr. en engu að síður er verkefnið kynnt sem hagkvæmt leiguhúsnæði. Þetta myndi þýða að fyrir 100 fm greiddi leigutaki Heimavöllum í verkefninu hagkvæmt leiguhúsnæði 370.000 kr. á mánði. Yfirheiti þessa þáttar verkefnisins verður því að teljast ansi villandi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Verkefnið „Hagkvæmt húsnæði – ungt fólk og fyrstu kaupendur“ kemur með mikilvægar nýjar lausnir og hugmyndir í húsnæðismálum á markað. Þar tókst með frumkvæði borgarinnar að hvetja til nýsköpunar og framþróunar í uppbyggingu íbúða á Íslandi. Verkefnið var sett upp með skýrum hætti, með fyrirfram ákveðnum leikreglum þar sem allir aðilar sátu við sama borð. Tæplega 70 hugmyndir bárust og var utanaðkomandi aðili fengin til þess að rýna tillögurnar í samráði við borgina þar sem allar forsendur voru gefnar upp fyrirfram sem og stigagjöfin. Ferillinn var því allan tímann skýr og gagnsær og Reykjavíkurborg getur ekki sem opinbert stjórnvald breytt reglunum eftir á. Við búum í réttarríki og þurfum að gæta jafnræðis.
7. Lagt er til að Sigríður A. Jóhannsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson og Alexandra Briem taki sæti sem varamenn í öldungaráði Reykjavíkur. R18060107
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 02:10
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Pawel Bartoszek
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir Björn Gíslason
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 27.11.2018 - prentvæn útgáfa