No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2020, þriðjudaginn 2. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:08. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Dóra Magnúsdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Skúli Helgason, Ellen Jacqueline Calmon, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Björn Gíslason og Egill Þór Jónsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar minntist borgarstjórn Alfreðs Þorsteinssonar, fyrrum borgarfulltrúa sem lést 27. maí sl.
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga með vísan til auglýsingar nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Til og með 2. júlí 2020 verður heimilt að nota fjarfundarbúnað á fundum borgarstjórnar, borgarráðs, fagráða samkvæmt B-lið 63. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og annarra nefnda samkvæmt B-lið 64. gr. samþykktarinnar, eftir því sem við á. Notkun fjarfundarbúnaðar skal að jafnaði vera í samræmi við ákvæði í leiðbeiningum um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013 og verklagsreglum um fjarfundi, þó þannig að meirihluti fundarmanna þarf ekki að vera á boðuðum fundarstað eins og fram kemur í 5. gr. leiðbeininganna. Einnig verður fundargerð borgarstjórnar áfram staðfest og yfirfarin af forseta borgarstjórnar og skrifurum, í samræmi við ákvæði 8. gr. leiðbeininganna. Gert verður ráð fyrir að kjörnir fulltrúar mæti að meginstefnu til á fundi ráða og nefnda á tímabilinu en áfram verði kostur á að taka sæti í fjarfundi fyrir þá sem kjósa að halda tveggja metra fjarlægð.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18060129
Samþykkt.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að unnin verði langtímaáætlun um fjármál og fjárfestingu Reykjavíkurborgar, Græna planið, sem byggi á sjálfbærni og skýrri framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag í samræmi við loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar. Áætlunin verði unnin samhliða undirbúningi fjárhagsáætlunar vegna ársins 2021 og fimm ára áætlunar.
- Kl. 16.45 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20060016
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík er tilbúin að hafa forystu um græna endurreisn eftir COVID. Borgarstjórn hefur nú samþykkt Græna planið sem snýst um að setja loftslagsmál í forgrunn ákvarðanatöku. Græna planið er víðtæk áætlun um fjárfestingar, framkvæmdir og atvinnusköpun í Reykjavík. Það gerir ráð fyrir að Reykjavík taki forystu í aðgerðum til að bregðast við efnahagssamdrætti og vaxandi atvinnuleysi og tryggja að þær verði í samræmi við framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag og metnaðarfull loftslagsmarkmið borgarinnar. Græna planið veðjar á þróttmikið og fjölbreytt borgarhagkerfi sem hvílir á stoðum traustra grænna innviða. Á næstu vikum verða haldnir samráðsfundir með hagsmunaaðilum, aðilum vinnumarkaðarins, háskólunum, fyrirtækjunum í borginni og öðrum mikilvægum samstarfsaðilum til þess að eiga samtal um spennandi grænt efnahagsplan til næsta áratugar, um loftslag, loftgæði og lífsgæði. Næsti áratugur þarf að vera áratugur aðgerða í loftslagsmálum. Þær þarf að hefja strax og í samvinnu margra.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja græn verkefni og hafa stutt verndun grænna svæða í borginni um áratugaskeið. Má hér nefna „Grænu áætlunina“, síðar „Grænu byltinguna“. Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn hefur átt frumkvæði um upphitaða hjóla- og göngustíga, tíðari ferðir strætó, stóraukin þrif gatna svo minnka megi svifryk og bæta loftgæði í borginni. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn í borginni verið í forystu hvað varðar orkuskipti í samgöngum og lagt fram metnaðarfullar tillögur í þeim efnum. Enn fremur hefur flokkurinn barist fyrir vernd og friðun Elliðaárdalsins, strandlengjunnar og Laugardalsins. Þá má minna á að uppbygging hjólastíga í borginni hófst fyrir alvöru með verkefninu Grænu skrefin sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi árið 2006. Hér er hins vegar um nokkuð óútfærðar tillögur að ræða og því ófært að samþykkja óútfylltan tékka á hinum ýmsu verkefnum t.d. hvað varðar Gas- og jarðgerðarstöðina, GAJA, og borgarlínuna. Græn skuldabréf eru líka skuldir.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er lagt til að langtímaáætlun um fjármál og fjárfestingar Reykjavíkurborgar, Græna planið, byggi á sjálfbærni og skýrri framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag í samræmi við loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar. Áætlunin verði unnin samhliða undirbúningi fjárhagsáætlunar vegna ársins 2021 og fimm ára áætlunar. Fulltrúi sósíalista undirstrikar mikilvægi þess að slík áætlun taki mið af stétt og efnahagslegum veruleika þeirra sem búa og starfa hér og vinni út frá markmiðum um að útrýma félagslegu óréttlæti. Við verðum að bregðast við loftslagsvánni og taka stór skref sem að ráðast á rót vandans. Sáttmáli um grænt og gott samfélag verður einnig að taka á þeim margþættu vandamálum sem bitna á mörgum í formi misskiptingar og því að aðgengi fólks að gæðum og þjónustu samfélagsins er misjafnt. Þegar unnið er að innleiðingu grænna markmiða þurfa áætlanir einnig alltaf að tryggja að grunnþörfum allra sé mætt t.d. varðandi aðgengi að öruggu húsnæði, heilsusamlegum mat, heilbrigðisþjónustu og áreiðanlegum almenningssamgöngum. Þá er einnig nauðsynlegt að tryggja aðgengi að menntun og tekjuöryggi allra. Félagslegar áherslur eru nauðsynlegur þáttur í innleiðingu græna plansins og mikilvægt er að við innleiðingu aðgerða komi þeir sem eiga hlut að máli að útfærslu tillagna og breytinga til að tryggja sem bestu útfærsluna.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Græna planið, eða neyðarplanið eða hallærisplanið. Vá þvílík froða og samansafn af orðskrúði pakkað inn í grænar umbúðir með umhverfisvænni slaufu. Greinilegt er að meirihlutinn er kominn í mikil vandræði á öllum sviðum borgarinnar. Þá er gripið í svona hókus pókus trix og boðað til blaðamannafundar. Svo mikið lá á að hann var haldinn fyrir borgarstjórnarfund þar sem samþykkja á tillöguna. Ekki verður betur séð en að „Græna planið“ sé brot á samgöngusáttmálanum því í greinargerð með planinu segir að borgarlínan, hjólandi og gangandi eru sett í algjöran forgang í samgöngumálum. Enn á ný sannar borgarstjóri að undirskrift hans í samningum við ríkið er ekki pappírsins virði. Talið er upp í áherslupunktum: borgarlína, hjólreiðanet höfuðborgarsvæðisins, stokkar, gönguborgin Reykjavík, hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar, rafvæðing hafna, rafvæðing almenningssamgangna, samgöngumiðstöð Reykjavíkur og tilraunaverkefni með bátastrætó. Ekki er eitt orð um Sundabraut eða fjármögnun. Það er ekki hægt að skálda þetta upp. Á meðan er í fyrsta forgang í samgöngusáttmálanum umferðarstýring og segir þar að ráðist verði strax í markvissar aðgerðir til að nýta nýjar tæknilausnir og bæta umferðarljósakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Í dag var kynnt og samþykkt neyðarplan Reykjavíkur, til stendur að búa til skuldavafninga til enn frekari skuldsetningar borgarinnar í gegnum græn skuldabréf.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Græna plan meirihlutans er gott eins langt og það nær en í það vantar stóran þátt og þess vegna verður fulltrúi Flokks fólksins að sitja hjá. Það er nefnilega tvískinnungsháttur að tala um græna borg á meðan kosið er að brenna metani, grænni, innlendri afurð, frekar en að reyna að nýta það. Metan sem ekki er nýtt verður að brenna því það er vond gróðurhúsalofttegund. En það er hrein og klár heimska að verða að sóa því þar sem það er ekki nýtt sem yrði öllum til góðs. Það væri sem dæmi hægt að nota metanið á alla bíla á vegum borgarinnar. Það er óskiljanlegt að sveitarfélögin sem eiga SORPU og sem reka alls konar bíla þ.m.t. strætó reki ekki fleiri metanbíla. Af hverju er ekki settur kraftur í að koma metani á strætisvagna, stóra og smærri flutningsbíla, vinnubíla, pallbíla og greiðabíla á vegum borgarinnar? Fólksbílar sem aka á metani myndu koma inn samhliða ef fólk fengi metanið á kostnaðarverði og gæti treyst því að verðið yrði stöðugt sem nemur líftíma metanbíls. Því meira sem metanið er nýtt því minna þarf að sóa því. Nóg framboð er og verður meira með gas- og jarðgerðarstöðinni, GAJU. Hættum að brenna metani út í loftið og brennum því frekar á bílum.
3. Fram fer umræða um erfiða stöðu SORPU bs. vegna gas- og jarðgerðarstöðvarinnar, GAJA. R20010342
- Kl. 17.15 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur sæti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikill styr hefur staðið um gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. sem nú er í byggingu en kostnaður við stöðina fer líklega yfir 6 milljarða króna. Eins og alkunna er hefur verkefnið farið fram úr áætlun um vel á annan milljarð króna. Vegna framúrkeyrslunnar þurfti SORPA bs. á neyðarláni að halda frá eigendum með veði í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar, enda fyrirtækið að öðrum kosti ekki rekstrarlega sjálfbært. Sjálfstæðisflokkurinn lagði til 4. febrúar sl. að beina því til eigendahóps SORPU bs. að beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á stofnsamningi byggðasamlagsins vegna samsetningu stjórnarinnar. Það var gert í þeim tilgang að samsetning stjórnarinnar yrði sem næst því að vera í hlutfallslegu samræmi við eignarhlut borgarinnar. Tillagan var samþykkt en ekkert hefur heyrst eða spurst af málinu síðan. Rekstraráætlun GAJA finnst hvergi, aðgerðaráætlun hefur ekki litið dagsins ljós, hvað þá staðfesting á sölu á afurðum - metangasi og moltu og tæknilegri útfærslu sem nauðsynlegt er að fá svör við. Líta verður málið alvarlegum augum með þessar staðreyndir í huga enda er það beinlínis hlutverk og ábyrgð borgarstjórnar að hafa eftirlit með framkvæmdum af þessu tagi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar er nú lokið og verður hún tekin í notkun innan skamms. Það er fagnaðarefni. Er hún eitt stærsta umhverfisverkefni sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um í því skyni að draga stórlega úr urðun og hætta alfarið urðun á lífrænum úrgangi. Samkvæmt minnisblaði framkvæmdastjóra SORPU var áfallinn kostnaður við byggingu hennar í mars tæplega 5,1 milljarður króna. Nú er verið að leggja lokahönd á fjárhagslega endurskipulagning félagsins og endurreisn SORPU sem það umhverfis- og þekkingarfyrirtæki sem henni ber að vera. Verkefnastjóri hefur verið ráðinn í markaðsþróun fyrir metan og moltu og nýtt skipurit hefur litið dagsins ljós. Til stendur að skipuleggja stóran fund með bæjar- og borgarfulltrúum til að ræða málefni félagsins og fá viðbrögð og ábendingar er varða þá heildarendurskoðun sem er á lokametrunum. Gaman væri ef unnt verður að halda hann í GAJU og fá um leið fræðslu og innsýn inn í þessa mikilvægu stöð enda gegnir hún veigamiklu hlutverki í því að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum enda kemur hún til með að koma í veg fyrir útblástur sem nemur um 90.000 tonnum af CO2 á ári. Það jafngildir því að taka úr umferð yfir 40.000 bensín- og díselknúna bíla árlega.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hver hefur eftirlit með eftirlitinu? Hver er er umboðsmaður Aikan á Íslandi? Af hverju getur Líf Magneudóttir, varaformaður stjórnar SORPU bs., formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs og borgarfulltrúi Vinstri grænna ekki svarað því? Hvað er verið að fela? Starfsreglur stjórnar SORPU bs. voru lagðar fram þegar SORPU-hneykslið var að byrja. Í þeim kemur fram að á verksviði stjórnar sé m.a. að samþykkja fjárhagsáætlun og starfáætlun þar sem markmiðum í rekstri er lýst. Einnig skal stjórnin hafa eftirlit með rekstri fyrirtækisins og gæta þess að nægjanlegt eftirlit sé með bókhaldi og fjármunameðferð. Þá skulu stjórnarmenn kynna sér öll þau gögn og upplýsingar sem þurfa til að hafa fullan skilning á rekstrinum. Stjórnarmenn skulu tryggja að til staðar sé innra eftirlit og að ákvörðun stjórnar sé framfylgt. Varðandi árlegt árangursmat stjórnar kemur fram að stjórnin skuli árlega meta störf sín, verklag og starfshætti og einnig skal stjórnin meta hvort mikilvæg málefni samlagsins séu nægilega vel undirbúin og rædd í stjórninni. Þessar starfsreglur SORPU voru samþykktar á fundi stjórnar þann 14. október 2016 og skrifar þáverandi stjórnarformaður Halldór Auðar Svansson undir fyrstur. Það er alveg ljóst að samkvæmt þessum starfsreglum hefur stjórn SORPU bs. ekki sinnt skyldum sínum í mörg ár.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Stjórnarmaður borgarinnar í SORPU segir metan aukaafurð. Afurðir GAJA eru um 12.000 tonn af moltu og 3 milljónir rúmmetra af metani árlega, metani sem stjórnarmaðurinn segir vera aukaafurð dugar til að knýja um 4.000-6.000 fólksbíla eða 100 strætisvagna. Úrtölur stjórnarmannsins eru daprar. Borgin verður að fara að leggja áherslu á að taka nýtingu metans föstum tökum. Aðgerðarleysi stjórnar SORPU er ekki líðandi. Söfnun metans og brennsla á báli hjá fyrirtæki sem er að stórum hluta í eigu borgarbúa er heimska sem hefur viðgengist árum saman. Þetta er eins og að finna olíulind og kveikja í olíunni. Á sama tíma og borgarstjóri kynnir grænt plan, er verið að sóa vistvænni orku. Að nýta metan í stað jarðefnaeldsneytis á að bæta við þetta græna plan. Fyrir liggur að kaupa stærri eldbrennara í SORPU til að auka brennslu metans. Í fréttaviðtali fer stjórnandi GAJA með rangt mál þegar hann fullyrðir að mest allt metan hafi verið selt og að Strætó kaupi megnið af aukinni metansöfnun og að reikna megi með að verulegar tekjur verði af metansölu á næstunni. Margt bendir einnig til þess að að væntanleg molta verði ekki söluvara þar sem verkun verður ekki nógu góð. SORPA leggur ekki áherslu á flokkun við heimili heldur treystir á jarðgerðarstöðina.
- Kl. 20.40 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir tekur sæti.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Verðmætamat ýmissa starfa hefur mikið verið í samfélagsumræðunni upp á síðkastið og í því samhengi er mikilvægt að draga fram raddir starfsfólks úr ólíkum greinum. Því er lagt til að Reykjavíkurborg í samvinnu við háskólasamfélagið, kanni hvernig launafólk, lausráðið fólk (e. freelancers), einyrkjar og aðrir meta starfsaðstæður sínar með tilliti til aðbúnaðar, ánægju og tekjuöryggis. Þá er einnig lagt til að í könnuninni verði skoðað hvernig fólk meti starfsframlag sitt til samfélagsins, hvernig aðrir meta það og hvernig það telur starfsöryggi sitt vera. Þegar verkefni eru af skornum skammti, sökum efnahagsþrenginga, geta margir sem eru hluti af harkhagkerfinu (e. gig economy) oft ekki sótt í úrræði stjórnvalda til að mæta tekjutapi. Könnunin leitist því einnig við að draga upp mynd af fjölda starfandi innan harkhagkerfisins í Reykjavík. Þá verði fyrirtækjasamsetning borgarinnar einnig könnuð út frá því hversu margir starfa hjá örfyrirtækjum, smáfyrirtækjum, meðalstórum fyrirtækjum og stórfyrirtækjum í borginni. Lagt er til að spurningar um starfsaðstæður og starfsöryggi verði skoðaðar út frá stærð fyrirtækja en slíkt getur haft mótandi áhrif á starfsupplifun. Borgarstjórn samþykkir að könnunin byggi á úrtaki fjölda starfandi í borginni. Fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar verði falin nánari framkvæmd tillögunnar. Markmiðið er að fá innsýn inn í fyrirtækjasamsetningu borgarinnar, starfsupplifun þeirra sem starfa innan ólíkra geira og fyrirtækja í Reykjavíkurborg og raddir þeirra sem falla á milli kerfa.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20060017
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér var lögð fram tillaga um að Reykjavíkurborg í samvinnu við háskólasamfélagið myndi kanna hvernig launafólk, lausráðið fólk, einyrkjar og aðrir meta starfsaðstæður með tilliti til aðbúnaðar, ánægju og tekjuöryggis. Þá var einnig lagt til að könnunin myndi skoða hvernig fólk telur starfsöryggi sitt vera og fleiri þætti varðandi starfsframlag og að leitast yrði við að greina fjölda þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins í borginni. Þá var einnig lagt til að ofangreindar spurningar yrðu skoðaðar í samhengi við stærð fyrirtækja, út frá örfyrirtækjum, smáfyrirtækjum, meðalstórum- og stórum fyrirtækjum. Við erum nú að upplifa miklar samfélagslegar breytingar í kjölfar kórónufaraldursins og áhrifa sem slíkt hefur í för með sér. Það er alltaf mikilvægt að heyra raddir þeirra sem starfa hér í borginni og hvernig stuðla megi að því að skapa betra umhverfi ef kallað er eftir því. Fulltrúi sósíalista telur að það yrði góð skilaboð ef Reykjavíkurborg myndi kalla eftir þeim röddum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hugmyndin að sérstakri könnun á atvinnumenningu í Reykjavík, þ.m.t. svokölluðu harkhagkerfi, er athyglisverð. Verkefnið er hins vegar frekar víðtækt, fellur ekki endilega að kjarnastarfsemi Reykjavíkurborgar og líklegast eðlilegra að slík könnun eða rannsókn, ef hana ætti að framkvæma, væri á forræði háskóla eða Hagstofunnar. Því er lagt til að tillögunni verði vísað frá.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður tillögu Sósíalistaflokks Íslands um könnun á stöðu einyrkja, smáfyrirtækja og lausráðinna í atvinnuflóru Reykjavíkur. Ljóst er að stór hópur fólks vinnur við ýmis störf í lausamennsku eða er með viðkvæman rekstur, eins og listamenn, hönnuðir, fólk í nýsköpun, iðnaði, garðyrkju og vísinda- og fræðimenn svo fátt eitt sé upptalið. Allir þessi hópar eru nauðsynlegir samfélaginu og gefa lífinu lit og tilgang. Það sannaðist svo ekki verður um villst í COVID-19 aðstæðunum. Hér eru einstaklingar sem hafa margir hverjir lifað í töluverðri óvissu, taka áhættu um afkomu sína, en gera það vegna menntunar sinnar, löngunar að gefa af sér og ástríðu við þau viðfangsefni sem þau taka sér fyrir hendur eða eru ráðin í. Þessu fólki má ekki gleyma þegar illa árar, að því þarf að hlúa. Fyrsta skrefið er sannarlega að gera könnun á hvernig launafólk, lausráðið fólk (e. freelancers), einyrkjar og aðrir meta starfsaðstæður sínar með tilliti til aðbúnaðar, ánægju og tekjuöryggis og kortleggja hvernig fólk meti starfsframlag sitt til samfélagsins, hvernig aðrir meta það og hvernig það telur starfsöryggi sitt vera.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að verklagi í nefndum og ráðum um meðferð og afgreiðslu tillagna frá minnihluta verði breytt með það að markmiði að koma í veg fyrir höfnun tillagna minnihlutans til málamynda svo að meirihlutinn geti lagt sambærilegar tillögur fram í eigin nafni. Þessi tillaga er lögð fram í kjölfar reynslu borgarfulltrúa Flokks fólksins í skóla- og frístundaráði og velferðarráði, að hafa lagt fram tillögu sem ákveðið er að framfylgja en sem er engu að síður ýmist vísað frá, hún felld eða að meirihlutinn komi með sams konar breytingatillögu og geri þar með tillögu Flokks fólksins að sinni tillögu. Að horfa á vinnubrögð sem þessi hefur vakið upp spurningu um hvort það sé þessum meirihluta kappsmál að gæta þess að fulltrúi minnihlutans fái sem minnstu athygli að njóta sín í borgarstjórn og koma í veg fyrir að aðrir en meirihlutinn geti sagt að þeir hafi náð nokkru í gegn? Borgarfulltrúi kom í borgarstjórn til að láta gott af sér leiða og finna leiðir og lausnir til að bæta þjónustu við borgarbúa. Það eru því vonbrigði að horfa á fjölda mála, hugmynda í formi tillagna, ýmist vísað frá eða felldar án þess að fá efnislega skoðun.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20060018
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um breytt verklag til að stuðla að samvinnu í borgarstjórn frekar en sundrung hefur verið vísað frá af meirihlutanum. Ekki tjóir að deila við dómarann. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vildi reyna. Það sakar aldrei að reyna. En sennilega er fullreynt að ná til þessa meirihluta með vinnulag sem skapa myndi heilbrigðara andrúmsloft og jákvæðan vinnubrag. Vel kann að vera að það sé einfaldlega ekki vilji þessa meirihluta að vinna með minnihlutanum. Meirihlutinn gerir athugasemd við orðalag eins og segir í bókun þeirra „að settar séu fram fullyrðingar sem ekki er hægt að taka undir ásamt eins konar fyrirmælum til kjörinna fulltrúa í fagráðum“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það hefði engu skipt hvernig tillagan var orðuð, eitthvað hefði verið fundið að henni engu að síður, því ekki stóð til að samþykkja hana. Frávísun eða að fella tillögur minnihlutans eru e.t.v. fastgróin vinnubrögð meirihlutans og verður þessu líklega ekki breytt fyrr en kannski nýir aðilar koma í brúnna. Fulltrúi Flokks fólksins hafði mátulega væntingar enda orðin vel brynjuð af tveggja ára reynslu í borgarstjórn.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihluta eru ávallt reiðubúnir til samtals um leiðir til að bæta samstarf innan borgarstjórnar. Í tillögutextanum eru hins vegar settar fram fullyrðingar sem ekki er hægt að taka undir ásamt eins konar fyrirmælum til kjörinna fulltrúa í fagráðum. Kjörnir fulltrúar eru bundnir af eigin sannfæringu og fyrirmæli af hálfu borgarstjórnar um hvaða tillögur þeir mega og mega ekki flytja ganga ekki upp. Því er lagt til að tillögunni verði vísað frá.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að fallið verið frá ákvörðunum um götulokanir: Sumargötur 2020 í miðbænum, sem samþykktar voru á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 26. maí sl. Einnig er lagt til að fá álit/umsögn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, almannavörnum höfuðborgarsvæðisins og Neyðarlínunni um götulokanirnar og aðgengi neyðarbíla að svæðinu hvað varðar þá ákvörðun að loka Laugaveginum frá Frakkastíg að Lækjargötu.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20050036
Tillagan er felld með 13 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Arnar Þórðarsonar, Björns Gíslasonar, Ólafs Kr. Guðmundssonar, Egils Þórs Jónssonar og Jórunnar Pálu Jónasdóttur; borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins auk borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga mín um að fallið yrði frá ákvörðunum um götulokanir: Sumargötur 2020 var felld á borgarstjórnarfundi með 13 atkvæðum gegn 9 og einn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við afgreiðsluna. Enginn áhugi var hjá meirihlutanum að fá álit/umsagnir frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, almannavörnum höfuðborgarsvæðissins og Neyðarlínunni, um götulokanir og aðgengi neyðarbíla að svæðinu. Lokunin nær yfir 100% stærra svæði en árið 2019 og ná núna allt frá Frakkastíg að Lækjargötu, auk Skólavörðustígs og nokkurra minni þvergatna. Þessi ákvörðun er mjög íþyngjandi fyrir rekstraraðila og íbúa. Ljóst er að aðgengi sjúkrabíla, slökkviliðsbíla og lögreglu skerðist gríðarlega mikið vegna vanhugsaðra tillagna meirihlutans með „götuskraut“. Þessi tillaga snýst um að hægt verði að bjarga mannslífum þegar vá ber að, hvaða nöfnum þau kunna að nefnast.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það stefnir í bjart sumar á Laugaveginum fyrir gesti og gangandi. Nú í ár mun göngusvæðið ná alla leið upp að Frakkastíg. Við lestur umsagna hagaðila kemur fram að á hinum nýja kafla milli Klapparstígs og Frakkastíg eru rekstraraðilar sem telja göngugötur ekki nýtast sér en jafn margir aðilar telja að göngugötur styrki sinn rekstur og eru með hugmyndir um hvernig þeir munu nýta sér þær. Við sendum öllum þeim frábæru aðilum sem reka verslanir, veitingastaði og aðra þjónustu við Laugaveg hlýjar kveðjur og vonumst jafnframt til að sjá troðfullan miðbæ í sumar, með tilheyrandi mannlífi og viðskiptum.
Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson, Björn Gíslason, Ólafur Kr. Guðmundsson, Egill Þór Jónsson og Jórunn Pála Jónasdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við leggjum áherslu á að götulokanir í miðbænum verði teknar til endurskoðunar og alvöru samráðsferli verði komið á við rekstraraðila og íbúa svæðisins. Mikilvægt er að gerður sé sáttmáli um tilhögun á svæðinu, enda milvægt að ná ríkri sátt á milli aðila. Þannig tryggjum við blómlegan rekstur og mannlíf til framtíðar. Það er ekki síst mikilvægt á þessum erfiðu og óvissutímum í efnahagsmálum að stutt sé við bakið á fyrirtækjum í miðbænum. Ljóst er að að kaupmenn verða fyrir tekjufalli þegar aðgengi að verslunum er þrengt. Það er einmitt þess vegna sem borginni ber að endurskoða umræddar götulokanir til að koma í veg fyrir að verslanir loki og starfsfólk þeirra bætist á atvinnuleysiskrá Vinnumálastofnunar.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista undirstrikar mikilvægi þess að aðgengi fyrir öll verði haft að leiðarljósi við útfærslu göngugatna og að skilaboðum um hvernig slíkt verði útfært verði vel komið til skila.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Loksins viðurkennir formaður skipulags- og samgönguráðs í grein sinni sem birtist um helgina sl. að tölurnar hafa breyst í könnunum og að þeir sem eru andvígir göngugötum hafa farið fjölgandi úr 32,7% árið 2019 í 44,2% núna í ár en þeir sem voru hlynntir 2019 var 49,1% og 18,2% svöruðu hvorki né (nánar í grein formannsins)Óánægjuraddir í garð meirihlutans og stefnu hans aukast í sífellu, ekki síður hjá íbúum í úthverfum Reykjavíkur samkvæmt könnunum. Það eru fleiri sem eru ósáttir, má til dæmis nefna eldri borgara sem eiga erfitt með að nálgast miðbæinn vegna slæms aðgengis þar og fólk á landsbyggðinni. Flokkur fólksins hefur lagt fram nokkrar tillögur í þessu máli til að milda aðstæður, ná millilendingu. Tillögur um að staldrað verði við; að „alvöru“ samráð verði haft við aðila þannig að þeim væri gefinn kostur á að hafa áhrif á ákvarðanir og nú síðast að gerð væri tilraun með að rekstraraðilar sjálfir við umræddar götur stýrðu því hvort væri opið eða lokað allt eftir veðri og vindum. Ekkert hefur náð eyrum meirihlutans, enginn vilji er til að gera þetta í meiri sátt og samlyndi við sem flesta.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að borgarlínuverkefninu verði frestað um óákveðinn tíma. Þess í stað verði lögð áhersla á að fjármagni, sem annars yrði varið í það verkefni verið ráðstafað í lagningu Sundabrautar með nýju samkomulagi á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkissins.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20060019
Frestað.
8. Lagt til að Ellen Jacqueline Calmon taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í stað Dóru Magnúsdóttur. R18060083
Samþykkt.
9. Lagt til að Ellen Jacqueline Calmon taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Dóru Magnúsdóttur. R18060085
Samþykkt.
10. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 28. maí. R20010001
2. liður fundargerðarinnar; endurskoðun lántökuáætlunar Reykjavíkurborgar er samþykktur. R20010079
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
4. liður; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 vegna lífeyris- og rekstrarskuldbindinga er samþykktur. R20010161
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
5. liður; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 vegna kjarasamninga er samþykktur. R20010161
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
6. liður; sex liðir í viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 vegna COVID-19 eru bornir upp til samþykktar hver fyrir sig R20010161:
- liður 1: borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum er samþykktur.
- liður 2: markaðsaðgerðir vegna ferðaþjónustu og ferðaþjónustugreina er samþykktur.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
- liður 3: aðgerðir og viðspyrna vegna menningar- og listalífs vegna COVID-19 er samþykktur.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
- liður 4: íbúaráð vegna verkefna sem efla hverfisanda, mannlíf og menningu sumarið 2020 er samþykktur.
- liður 5: efling miðborgar sem áfangastaðar í sumar er samþykktur.
Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
- liður 6: vinnumarkaðsaðgerðir vegna COVID-19 er samþykktur.
7. liður; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020, breytingar á fjárfestingaáætlun vegna COVID-19 er samþykktur. R20010161
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar:
Þetta heitir að kunna ekki að lesa í aðstæður. Fjármálaráðuneytið áætlar að halli á ríkissjóði verði tæplega 500 milljarðar í ár og á næsta ári. Þessi uppsafnaði halli samsvarar 5,35 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. A-hluti Reykjavíkur ber rúmlega 100 milljarða skuldir og samstæðan öll ber rúmlega 300 milljarða skuldir. Samgöngusáttmáli ríkissins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var undirritaður fyrir nokkrum misserum. Fjármálaráðherra var skýr í svörum sínum í fyrirspurnartíma á Alþingi – að framtíð sáttmálans er ákvörðuð á Alþingi. Það ber merki um dómgreindarbrest hjá borgarstjóra að ætla sér að keyra borgarlínuverkefnið áfram þegar ekki er búið að samþykkja frumvarp til laga um að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru tillögur um að Reykjavíkurborg auki framlög sín úr 430 milljónum í 995 milljónir inn í sáttmálann. Öll áhersla er lögð á borgarlínu og búið er að fjölga í „stýrihópi um borgarlínu.“ Það er mjög óábyrgt miðað við ástandið. Það sem segir í erindi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu er: „undirbúningur“ 600 milljónir og „áframhaldandi undirbúningur“ 180 milljónir eða samtals 780 milljónir í borgarlínu – þetta er galið. Á meðan mesta samgöngubótin sem er stýring umferðar með umferðarstýringu fær einungis 68 milljónir og er forgangsmál samkvæmt samgöngusamningnum við ríkið.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2.-7. lið fundargerðarinnar:
Borið er upp til atkvæða skuldabréfaútboð, lántökuáætlun, stofnframlag vegna almennra íbúða, lífeyris, rekstrarskuldbindinga, kjarasamninga, COVID og fjárfestingaráætlun A-hluta. Viðaukar eru fjórir og eru verkefni þar öll í flókinni blöndu. Flokkur fólksins styður verkefni sem lúta að grunnþjónustu við borgarbúa, bættri þjónustu og verkefni sem eru tilkomin vegna COVID-19 um auknar fjárfestingar, sem hjálpa fólki sem beðið hefur lengi eftir húsnæði, aldraðir, fatlaðir og fátækt fólk. Flokkur fólksins styður einnig viðauka vegna kjarasamninga. Auka á fjárfestingar og gerð hefur verið áætlun um lántöku upp á 4 milljarða til að bregðast við efnahagslegum áhrifum. Bæta á við heimild upp á um 1.500 milljónum. Fjárfestingaáætlun stóðst ekki árið 2019 sem var ár án óvæntra atburða. Það ár voru tekjur mun minni en áætlað var. Hefur borgarmeirihlutinn lært eitthvað af síðasta ári? Vanáætlun og ofáætlun er hvorutveggja slæmt, hver króna í láni kostar. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá borgina rekna af skynsemi og hagkvæmni. Ekki er áberandi að verið sé nokkuð að hagræða í rekstri til að halda lántökum í lágmarki. Ef fjölga á fjárfestingum verður að byrja á að fjárfesta þar sem skortur er og hefur verið árum saman. Á ýmsum biðlistum eftir húsnæði eru tæp 1200 manns.
11. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 29. maí, skipulags- og samgönguráðs frá 20. og 27. maí, skóla- og frístundaráðs frá 26. maí, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 27. maí og velferðarráðs frá 20. maí. R20010285
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:
Á fundi skóla- og frístundaráðs þann 26. maí sl. var tekin fyrir tillaga Flokks fólksins um að allir verðandi starfsmenn leikskóla sem ekki tala íslensku sæki eitt íslenskunámskeið áður eða um það leyti sem þeir hefja störf þar sem það er mjög erfitt að byrja á vinnustað ef erfiðleikar eru með að skilja það sem sagt er eða tjá sig. Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa minnihlutans. Í svari kemur fram „að í dag standi öllum erlendum starfsmönnum í leikskólum til boða íslenskukennsla og að það sé einstaklingsbundið hvenær hentar bæði fyrir starfsmanninn og vinnustaðinn“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér eigi ekki að vera um val að ræða enda vilja flestir erlendir starfsmenn læra málið sem fyrst til að geta tekið strax fullan þátt og liðið vel í vinnunni. Á leikskólum eru börn auk þess sjálf að læra sitt eigið tungumál svo hér er um allra hag að ræða. Eðlilegt væri að íslenskunámskeið væri hluti af ráðningarferli í þeim tilvikum sem það á við. Það er ábyrgðarleysi hjá meirihlutanum að vísa þessari tillögu frá í stað þess að taka hana alvarlega enda mikið í húfi fyrir bæði börnin og starfsmennina.
Fundi slitið kl. 22:48
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Pawel Bartoszek
Hjálmar Sveinsson Sanna Magdalena Mörtudóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 2.6.2020 - Prentvæn útgáfa